Gæði frístundastarfs hefur í gegnum tíðina verið umræðuefni þeirra sem að því standa og sitt sýnist hverjum um hvað sé gott frístundastarf og hvernig ná skuli fram því besta hjá þeim sem þar eru þátttakendur. Sigrún Sveinbjörnsdóttir er uppeldis- og menntunarfræðingur og hefur starfað að frístundamálum hjá Reykjavíkurborg hátt á annan áratug. Hún hefur ásamt Björk Ólafsdóttur, matsfræðingi, leitt þar vinnu við gerð gæðaviðmiða fyrir frístundastarf og Frítíminn forvitnaðist um þetta verkefni hjá Sigrúnu.
Tag: Félagsmiðstöð
Skilgreining á hugtökum á vettvangi frítímans
Þegar sessunautur minn á ráðstefnunni Íslenskar æskulýðsrannsóknir rakst á setningu sem stuðaði hann úr nýsamþykktri stefnu í æskulýðsmálum fyrir árin 2014-2018 spruttu fram líflegar umræður um hugtök og hugtakarugling á vettvangi frítímans. Setningin er svohljóðandi:
„Stuðla að jafnvægi milli þátttöku í æskulýðsstarfi, öðru frístundastarfi, fjölskyldulífi og námi.”
(Menntamálaráðuneytið, 2014)
Umræðan sem fór af stað snéri s.s. að því hver væri munurinn á æskulýðsstarfi og öðru frístundastarfi. Allir sem tóku þátt í umræðunni voru sammála um að frístundastarf og tómstundastarf væri sama hugtakið og að æskulýðsstarf myndi svo flokkast þar undir. Ég viðurkenni að ég var sjálfur ansi hvumpinn yfir þessum hugtakaruglingi en þegar ég les þetta nú aftur er ég hjartanlega sammála þessari setningu.
Ungmenni getur tekið þátt í æskulýðsstarfi, námi, fjölskyldulífi og öðru frístundastarfi sem gæti t.d. verið málfundarfélag með fullorðnum einstaklingum. Það myndi flokkast undir frístundastarf en ekki æskulýðsstarf. En þessar endalausu umræður kalla alltaf eftir því að tekið verði á skarið og hugtök skilgreind.
Nú stendur yfir mikil vinna og er það gott og vel en ég vil leggja mitt á vogaskálarnar og koma með skilgreiningar á þessum helstu hugtökum. Ég vona að sem flestir verði ósammála mér og blandi sér í umræðuna með sínar uppástungur. Svona stilli ég upp hugtökum og uppröðun á þeim. Ég leitast svo við að skilgreina hugtökin fyrir neðan myndina.
Skilgreiningar á helstu hugtökum
Frítími (e. free time)
Frítími er allur sá tími sem við höfum til aflögu og ráðum hvernig við ráðstöfum. Með öðrum orðum tími sem við erum ekki bundin verkefnum, starfi, skyldum eða þörfum. Við getum bæði nýtt þennan tíma til góðra hluta og slæmra.
Tómstundir / frístundir (e. leisure)
Engin eðlismunur er á hugtakinu tómstundir og frístundir. Það er hægt að rökræða þetta lengi en þetta er svipað og fólk sem eyðir tíma sínum í að rökræða hvort maður segir „gat” eða „eyða” þegar frí er milli kennslustunda í stundatöflu. Tóm stund eða frí stund er sami hluturinn og smekksatriði hvað fólki finnst fallegra. Það er bara gott og blessað.
„Í grundvallaratriðum má segja að tómstundir eigi sér stað í frítíma. Tómstundir eru því athöfn, hegðun eða starfsemi sem á sér stað í frítímanum og flokkast sem tómstundir að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Þau skilyrði eru að einstaklingurinn líti sjálfur á að um tómstundir sé að ræða. Að athöfnin, hegðunin eða starfsemin sé frjálst val og hafi í för með sér ánægju og jákvæð áhrif. Kjarni tómstunda má segja að felist í vellíðan og aukningu á lífsgæðum.
Í þessari skilgreiningu er gerður skýr greinarmunur á frítíma og tómstundum. Tómstundir eiga sér yfirleitt stað í frítíma en ekki allur frítími er tómstundir. Afstaða er því tekin gegn þeim sem líta á glæpi og ýmsa niðurbrjótandi hegðun sem tómstundir en með þeim sem líta svo á að tómstundir séu jákvæðar og uppbyggjandi. “
(Vanda Sigurgeirsdóttir, 2010)
Undir tómstundastarf koma svo ýmsir undirflokkar sem skilgreinast einna helst af markhópnum sem starfið snýr að. Dæmi um tómstundastarf er því félög og klúbbar fyrir fullorðna eða blandaða aldurshópa og félagsstarf aldraðra. Æskulýðsstarf flokkast einnig undir tómstundastarf.
Æskulýðsstarf (e. youth work)
Í æskulýðslögum nr. 70/2007 er æskulýðsstarf skilgreint sem:
„Með æskulýðsstarfi er átt við skipulagða félags- og tómstundastarfsemi þar sem börn og ungmenni starfa saman í frístundum sínum að hugsjónum, markmiðum og áhugamálum sem þau sjálf meta að verðleikum. Í skipulögðu æskulýðsstarfi skal hafa í huga félags-, forvarna-, uppeldis- og menntunarlegt gildi þess sem miðar að því að auka mannkosti og lýðræðisvitund þátttakenda. Í öllu starfi með börnum og ungmennum skal velferð þeirra höfð að leiðarljósi og þau hvött til frumkvæðis og virkrar þátttöku. Lögin miðast við æskulýðsstarf fyrir börn og ungmenni, einkum á aldrinum 6–25 ára.”
Undir æskulýðsstarf flokkast þá:
- Frístundaheimili
- Félagsmiðstöðvar
- Ungmennahús
- Starf frjálsra félagasamtaka sem snýr að ungu fólki og uppfyllir skilgreininguna hér að ofan
- Sjálfstætt starf og félög ungs fólks sem uppfylla skilgreininguna hér að ofan
Allir sem starfa sem sjálfboðaliðar eða launaðir starfsmenn við æskulýðsstarf eru kallaðir æskulýðsstarfsmenn (e. Youth worker). Þetta á jafnt við um sjálfboðaliða og starfsmenn sem frá greitt fyrir vinnu sína enda eru hlutverk og markmið þau sömu. Stundum hef ég heyrt að það vefjist fyrir fólki þetta orð „starfsmaður” ef ekki eru greidd laun fyrir. Fyrir þá sem hugsa svoleiðis vil ég vekja athygli á yfirheitinu „æskulýðsstarf” sem gefur til kynna að visst starf sé unnið burt séð frá því hvort greitt sé fyrir vinnuna eða ekki. Einnig er gott að skoða orðræðuna okkar um „að starfa”, t.d. Sigurður hefur gengt ýmsum störfum fyrir samtökin, Sigurður hefur verið virkur í starfinu í mörg ár, Sigurður hefur unnið gott starf fyrir félagið. Við hikum ekki við að tala um störf og starf sem einstaklingar vinna í sjálfboðavinnu og því ekkert að því að kalla þá starfsmenn.
Lokaorð
Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að þetta er ekki sú hugtakanotkun sem allir hafa notað alltaf. EN ég tel að þetta séu skýr hugtök og að ef við sem þjóð, starfsvettvangur eða hvað það er sem sameinar okkur, ákveðum að notast við skýr hugtök næstu árin munu allir geta sammælst um merkingu þeirra.
Ég meina gaffall heitir ekki gaffall nema út af því að við ákváðum að kalla hann gaffal!
Heimildir
Menntamálaráðuneytið. (2014). Stefnumótun í æskulýðsmálum 2014-2018. Reykjavík: Menntamálaráðuneytið.
Vanda Sigurgeirsdóttir. (2010, 31. desember). Skilgreining á hugtakinu tómstundir. Ráðstefnurit Netlu – Menntakvika 2010. Sótt 16. janúar 2013 af http://netla.khi.is/menntakvika2010/025.pdf.
Æskulýðslög nr. 70/2007.
Jákvæð sálfræði og frístundastarf
Ég átti einu sinni spjall við kennara á grunnskólastigi. Hann barmaði sér yfir því að fyrsta spurning foreldra í foreldraviðtölum væri hvort barn þess ætti vin í bekknum eða ekki. Kennarinn hafði væntingar um að foreldrar hefðu frekar áhuga á hvernig gengi hjá barninu að læra að lesa. Við sem þekkjum frístundastarf skiljum að það eru samskipti sem skipta mestu máli. Að fá að njóta sín, kynnast jafnöldrum, eignast vini og kunningja, að fá að reyna á hæfileika sína og hafa gaman. Lesa meira “Jákvæð sálfræði og frístundastarf”
„Maður lærir líka að vera góður“
Þrátt fyrir áratugasögu hefur félagsmiðstöðvastarf á Íslandi lítið verið rannsakað en þó er nokkuð stór hópur unglinga virkir þátttakendur í starfi félagsmiðstöðva einhvern tíma á unglingsárum. Í rannsókn sem var grunnur að meistaraverkefni í uppeldis- og menntunarfræðum við Háskóla Íslands beindi Eygló Rúnarsdóttir sjónum að félagsmiðstöðvastarfinu.
Um rannsóknina
Í rannsókninni, sem ber yfirskriftina „Maður lærir líka að vera góður“ kallaði hún eftir sýn unglinga á starf félagsmiðstöðva í Reykjavík og sýn þeirra á eigin þátttöku í starfseminni. Viðtöl við átta unglinga sem tóku þátt í starfi tveggja ólíkra félagsmiðstöðva í Reykjavík veturinn 2008–2009 lágu til grundvallar en áður hafði hún til undirbúnings tekið viðtöl við þrjá unglinga í þremur ólíkum félgsmiðstöðvum, gert vettvangsathuganir og tekið viðtöl við frístundaráðgjafa. Með rannsókninni var leitast við að svara því hvaða merkingu félagsmiðstöðin hefur í hugum þessara unglinga, hvaða ástæður þeir telja vera fyrir því að þeir hófu þátttöku í starfi félagsmiðstöðva og héldu þátttöku sinni áfram, hvaða reynslu eða lærdóm, ef einhvern, unglingarnir telja sig draga af þátttöku sinni í félagsmiðstöðvastarfi og upplifun unglinganna af starfsfólki félagsmiðstöðva.
Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru þær að unglingarnir sjá félagsmiðstöðina sem öruggan samastað í hverfinu þar sem aðgengi er að jafningjum, skemmtun og afþreyingu. Þessir þættir eru jafnframt hvatar
að fyrstu kynnum þeirra af félagsmiðstöðvastarfinu. Áframhaldandi þátttaka þeirra mótast af tvennu. Annars vegar mótast hún af ytri þáttum, öðrum viðfangsefnum þeirra í frítímanum, tímaskorti, opnunartíma félagsmiðstöðvarinnar, aldri unglinganna og viðfangsefnum í starfi félagsmiðstöðvanna. Hins vegar mótast áframhaldandi þátttaka af því hvort unglingarnir mynda öflug tengsl við starfið, einhvers konar skuldbindingu. Unglingarnir telja sig flestir læra, þó í mismiklum mæli, af þátttöku í starfinu. Þau þemu sem þar koma fram eru þekking, verkleg færni, félagsleg færni, persónuleg færni eða eiginleikar og lífsgildi. Starfsfólk félagsmiðstöðva virðist jafnframt skipta unglingana miklu máli. Þeir eru sammála um að þar starfi gott fólk með viðmót sem einkennist af jafningjanálgun, stuðningi og hvatningu.
Niðurstöðurnar gefa þeim sem fyrir félagsmiðstöðvastarfinu standa og starfsfólki á vettvangi innsýn í hugmyndir unglinga um starfsemi sem þeim er ætluð og eru vonandi lóð á vogarskálarnar við áframhaldandi þróun starfsins.
Hér má nálgast verkefnið í heild sinni.
Um höfundinn
Eygló Rúnarsdóttir er grunnskólakennari og uppeldis- og menntunarfræðingur en hefur hátt á annan áratug starfað á vettvangi frístundarstarfs. Hún starfaði um árabil í Breiðholtinu í Reykjavík, fyrst um nokkurra ára skeið í félagsmiðstöðinni Fellahelli en síðar í Frístundamiðstöðinni Miðbergi sem deildastjóri unglingastarfs. Síðast liðin 12 ár hefur hún starfað á skrifstofu tómstundamála hjá íþrótta- og tómstundasviði Reykjavíkur (ÍTR), og nú skóla- og frístundasviði Reykjavíkur (SFS) auk þess að starfa sem sérfræðingur hjá námsbraut í tómstunda- og félagsmálafræðum við Háskóla Íslands. Í starfi sínu hjá Reykjavíkurborg hefur hún auk verkefna sem snúa að málefnum unglinga og félagsmiðstöðva unnið með Reykjavíkurráði ungmenna og leitt þróun starfsemi ungmennaráða í hverfum borgarinnar frá 2001 eða frá upphafi verkefnisins.
Auk verkefna sinna hjá Reykjavíkurborg og Háskóla Íslands hefur Eygló sinnt fjölmörgum verkefnum á sviðið æskulýðs,- forvarnar- og félagsmála. Eygló var verkefnastjóri ráðstefnunnar Ungdom, demokrati og deltagelse undir merkjum Norrænu ráðherranefndarinnar þegar Ísland fór með formennsku í nefndinni 2004. Hún kom jafnframt að stofnun Félags fagfólks í frítímaþjónustu árið 2005 og sat í stjórn félagsins í nokkur ár, hefur tekið virkan þátt í starfi SAMFÉS, samtökum félagsmiðstöðva, og sinnt fræðslu og námskeiðshaldi um félagsmiðstöðvastarf og starfsemi ungmennaráða víða um land. Eygló kom að stofnun veftímaritsins Frítímans og situr jafnframt í ritstjórn hans.
Naglalakkaðir unglingsdrengir í Dregyn
Eitt föstudagskvöld í febrúar skipulagði nemendaráð félags-miðstöðvarinnar Dregyn dragkeppni. Dragkeppnin varð frekar misheppnuð þar sem aðeins einn hugrakkur drengur mætti í dragi. Létt stemning var þó í félagsmiðstöðinni þetta kvöld og var skorað á karlkyns starfsmennina að láta mála sig. Slíkt var samþykkt, með trega. Málunin var svo kórónuð með naglalakki á fingrum. Það þótti ákaflega fyndið að sjá karlkyns starfsmennina með meik, maskara, varalit og svona verulega huggulega.
Þegar þrífa átti „kvenleikann“ af máluðu drengjunum fékk verkefnisstjórinn þá hugmynd að hrista aðeins upp í „norminu“ og halda naglalakkinu, andlitið mátti þó þrífa. Héldu karlkynsstarfsmennirnir því naglalakkinu og fóru út í samfélagið. Annar þeirra „þurfti“ að þrífa naglalakkið af sér daginn eftir en verkefnisstjórinn hélt út helgina, sem var ekki auðvelt. Aragrúi athugasemda, augngota, hláturs, aðfinnsla og fordóma gerðu vart við sig. Reyndar í bland við orð á borð við: „En skemmtilegt“ og „Fallegt naglalakk“ og „Af hverju ertu með naglalakk?“. Einmitt; af hverju er ég með naglalakk?
Ég vissi það ekki þá, en uppgötvaði það á þessum tveimur dögum að samfélagið mitt passar virkilega vel upp á að ég fylgi hefðbundinni tísku í fatavali, klippi hár mitt samkvæmt því sem telst inn og haga mér samkvæmt því sem karlmanni er ætlast. Með öðrum orðum; að ég fylgi norminu. Við það að stíga, óvart meðvitað, út fyrir normið með því að vera með naglalakk fer allt í baklás. Aðgerðaráætlun samfélagsins um að koma mér aftur í normið hefst. Þessar litlu augngotur, viðhorfshlöðnu athugasemdirnar og skýru skilaboðin um að ég væri öðruvísi létu mér líða þannig að mig langaði til að flýja. Inn í normið. Þangað sem mér ber að vera sem karlmaður.
Ég velti því fyrir mér hvort að svona líði þeim sem hafa ekki kost á að „fitta“ inn í normið. Eru of strákalegar stelpur, stelpulegir strákar, of feitir, of mjóir, of eða van eitthvað að mati fjöldans – samfélagsins. Ég rifjaði upp ráðstefnu um einelti sem ég fór á fyrir nokkru síðan þar sem talað var um að rannsóknir bendi til þess að þeir sem verða fyrir einelti eru einmitt þeir sem ekki passa inn í fjöldann. Reynsla mín af naglalakkinu þessa helgi gaf mér hugmynd um hvernig það er að vera ekki inn í norminu. Hún sýndi mér hvernig samfélagið sameinast um að troða mér í normið, hversu ríkar staðalmyndir fólks eru um hvernig strákar eigi að vera og hvernig strákar eiga ekki að vera. Hversu fúst fólk er til að aðstoða mig við að vera „eðlilegur“.
Ég hugsaði að ef unglingarnir í félagsmiðstöðinni fengju nasaþef af því sem ég gekk í gegnum gætu þeir jafnvel skilið betur hvernig er að vera utan við normið. Þeir gætu jafnvel þróað með sér aukið umburðarlyndi og víðsýni fyrir lífinu, samfélaginu. Hlutir og fólk þarf ekki að fylgja óskrifuðu reglum samfélagsins um klæðaburð eða útlit. Það er hvergi ritað í lög að strákar eigi ekki að bera naglalakk. Hvergi segir að strákur með naglalakk sé samkynhneigður. En hvernig ætti ég að fá unglingsdrengi til að bera naglalakk, af fúsum og frjálsum vilja?
Félagsmiðstöðvastarfsmenn eru fyrirmyndir. Það sem þeir segja og gera verður oft það sem unglingarnir vilja segja og gera. Þannig varð þetta með naglalakkið í félagsmiðstöðinni Dregyn. Karlkynsstarfsmennirnir tóku fram naglalakkskrukkurnar á einu opnu húsi og samstundis komu nokkrir sem vildu fá naglalakk. Af hverju? Bara af því að við starfsmennirnir vorum að því.
Núna eru um 40 unglingsdrengir með naglalakk. Og bera það af fúsum og frjálsum vilja af því að þeir eru að mótmæla þessum rótgrónu hugmyndum sem fólk hefur um hvernig þú eigir að vera. Drengirnir voru ekki manaðir, þvingaðir eða sannfærðir. Þeir voru til í að kanna á eigin skinni hvernig er að „fitta“ ekki í normið, ögra sjálfum sér, samfélaginu, fordómunum, staðalmyndunum og taka eftir hvað gerist.
Tilraunin stendur enn yfir og eru strákarnir að safna í reynslubankann upplýsingum um dóma samfélagsins. Hvað er erfitt við það að vera með naglalakk, af hverju og hvenær? Ég meina, af hverju mega strákar ekki vera með naglalakk?
Þorsteinn V. Einarsson
Verkefnisstjóri félagsmiðstöðvarinnar Dregyn
Frístundamiðstöðin Gufunesbær
Pókermót í félagsmiðstöð – Hvað gerir þú?
Við höfum ákveðið að setja inn nýtt siðferðislegt álitamál. Það barst okkur fyrirspurn um „no stakes“ pokermót í tómstundastarfi. Við hvetjum alla til að blanda sér í umræðuna og beita rökum með og á móti. Mikilvægt er að fólk sé opið og virði skoðanir annarra. Ef þið hafið siðferðislegt vandamál sem ykkur langar að ræða sendið það endilega á [email protected]. Það má vera raunverulegt úr starfinu ykkar eða aðstæður sem gætu hugsanlega komið upp.
Vandamál:
Unglingaráðið þitt óskar eftir að halda “no-stakes” poker mót. (En fyrir þá sem ekki vita þá er ekki spilað upp á peninga í „no stakes“ pokermóti). Oftast er spilað uppá peninga þegar spilað er póker og margir hafa farið illa út úr því og jafnvel tapað öllu sínu. Póker er ein mest spilaða íþrótt á netinu skv. Wikipedia.
Hvað finnst þér um þér um að hafa “no-stakes” pokermót í Félagsmiðstöðvum?