Gæðamat á frístundastarfi

sigrun_sveinbjornsdottirGæði frístundastarfs hefur í gegnum tíðina verið umræðuefni þeirra sem að því standa og sitt sýnist hverjum um hvað sé gott frístundastarf og hvernig ná skuli fram því besta hjá þeim sem þar eru þátttakendur. Sigrún Sveinbjörnsdóttir er uppeldis- og menntunarfræðingur og hefur starfað að frístundamálum hjá Reykjavíkurborg hátt á annan áratug. Hún hefur ásamt Björk Ólafsdóttur, matsfræðingi, leitt þar vinnu við gerð gæðaviðmiða fyrir frístundastarf og Frítíminn forvitnaðist um þetta verkefni hjá Sigrúnu.

Hvers vegna var lagt af stað með þetta verkefni og af hverju á þessum tímapunkti?

Það hefur lengi verið í umræðunni hjá okkur sem störfum við frístundamiðstöðvarnar í Reykjavík að það vantaði einhvers konar mat á gæðum starfsins. Þegar skóla- og frístundasvið (SFS) var stofnað árið 2011 og frístundamiðstöðvarnar settar þar undir förum við að fá nasaþefinn af því hvernig gæði eru metin í leik- og grunnskólastarfi. Á sviðinu er starfandi tölfræði- og rannsóknarþjónusta þar sem mikil reynsla á mati hefur byggst upp. Það var svo samþykkt 18. janúar 2012 í skóla- og frístundaráði að tilstuðlan Oddnýjar Sturludóttur, þáverandi formanns ráðsins, að fela sviðsstjóra að setja af stað starfshóp sem vinnur að þróun og innleiðingu innra mats á frístundastarfi frístundamiðstöðva sviðsins. Innra matið skyldi ná til starfsemi frístundaheimila, félagsmiðstöðva og til annars starfs með börnum og ungmennum. Matið átti að byggja á þeirri þekkingu sem er til staðar á sviðinu er kemur að innra og ytra mati og stefnt að því að nýta þau tæki og tól sem eru til staðar. Starfshópnum var upp á lagt að leita álits hjá fagfólki í frítímaþjónustu og hjá fræðimönnum á Menntavísindasviði Háskóla Íslands.

Sviðsstjóri setti þennan hóp af stað sem í eru þrír starfsmenn af frístundahluta fagskrifstofu, einn framkvæmdastjóri frístundamiðstöðvar, deildarstjórar barnastarfs og unglingastarfs af sitthvorri frístundamiðstöðinni, forstöðumenn frístundaheimilis og félagsmiðstöðvar, tveir fulltrúar tölfræði- og rannsóknarþjónustu SFS, einn fulltrúi mannauðsþjónustu sviðsins og einn fulltrúi frá Menntavísindasviði HÍ (tómstunda- og félagsmálafræði). Ég og Björk erum verkefnisstjórar hópsins. Í erindisbréfi sviðsstjóra segir að hópurinn eigi að móta tillögur um framtíðarfyrirkomulag og áhersluþætti í innra mati frístundaheimila og félagsmiðstöðva. Jafnframt eigi hópurinn að skilgreina markmið með frístundastarfi borgarinnar og áhersluþætti í ytra mati, setja fram tillögur að matsramma og matsferli ytra mats og skilgreina þau viðmið sem matið mun styðjast við. Hópnum var jafnframt gert að prófa tillögur hópsins með þátttöku tveggja starfsstöðva.

Hvernig hefur vinnan farið fram og hver er staða hennar núna?

Starfshópurinn hefur hist annan hvern föstudag alveg frá því að hann var settur á laggirnar. Fyrstu fundirnir fóru í það að fá inn kynningar á innra og ytra mati og fræðast um matsaðferðir. Síðan fórum við að tína til gögn sem gætu nýst okkur við mat á frístundastarfi. Ýmislegt gagnlegt kom upp úr krafsinu þó svo að það sé ekki mikið um frístundastarf í lögum og reglugerðum. Við höfum hins vegar heilmikið af almennum lögum til að styðjast við, auk þess sem stefnumótun, starfsskrá, siðareglur, verkferlar, starfsmannahandbækur og annað efni sem unnið hefur verið í gegnum tíðina kom að góðum notum. Það kom sér vel að gerð viðmiða um gæði leikskólastarfs var skrefi á undan okkur, auk þeirra gagna og þeirrar miklu reynslu sem til var á sviðinu af mati á grunnskólum. Allir grunnskólar Reykjavíkurborgar hafa nú fengið ytra mat og sumir skólar hafa verið metnir tvisvar. Vinnan við að búa til viðmið og vísbendingar fyrir innra og ytra mat á gæðum frístundastarfs út frá þessum gögnum tók um tvö ár, með miklum og góðum rökræðum um gæði í frístundastarfi. Sumarið 2014 voru svo drög að viðmiðunum send hagsmunaaðilum til umsagnar.

Staðan er þannig núna að starfshópurinn er að taka á móti umsögnum og vinna úr þeim. Jafnframt höfum við nú á haustönn framkvæmt ytra mat á einu frístundaheimili og einni félagsmiðstöð. Það að prófa matstækið teljum við vera mikilvægan lið í því að sjá hvað betur mætti fara í viðmiðunum.  Við gerum svo ráð fyrir að gefa viðmiðin út með vorinu þegar við höfum fengið og unnið úr athugasemdum hagsmunaaðila sem eru ekki síst stjórnendur og starfsfólk frístundaheimila og félagsmiðstöðva. Við teljum afar mikilvægt að við verðum sammála um að þetta séu þau viðmið sem við viljum hafa um gæðastarf á frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum Reykjavíkurborgar. En svo er þetta auðvitað ekkert endanlegt og viðmiðin munu að sjálfsögðu þróast með tímanum rétt eins og starfið.

Þegar viðmiðin verða tilbúin viljum við svo styðja starfsstaðina í að nýta þau í innra mat á sínu starfi. Við stefnum á að gera það með námskeiðum og með því að gera matsgögnin aðgengileg á heimasíðu. Í framhaldinu verður svo farið í ytra mat á frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum. Það mun hins vegar taka nokkur ár að meta alla starfsstaðina í Reykjavík sem eru 39 frístundaheimili fyrir 6-9 ára börn og 21 félagsmiðstöð fyrir 10-16 ára, auk fimm frístundaklúbba fyrir 10-16 ára börn og unglinga með fötlun.

Hvaða merkingu hefur þetta verkefni fyrir þróun frístundastarfs?

Markmiðið með öllu gæðamati á skóla- og frístundasviði er að börnum og unglingum í borginni líði vel, fari stöðugt fram og öðlist uppeldi og menntun fyrir líf og starf, en þetta eru leiðarljós sviðsins.  Matinu er fyrst og fremst ætlað að vera umbótamiðað þannig að það auki gæði frístundastarfs og styrki innviði frístundaheimila og félagsmiðstöðva með því að draga fram styrkleika og tækifæri til umbóta. Í ytra mati felst líka ákveðið eftirlit sem miðar að því að jafna gæði þjónustunnar við börn og unglinga þvert á borgina. Við höfum samt lagt mikið upp úr því að viðmiðin verði ekki  það stýrandi að það geri starfið einsleitt og ósveigjanlegt. Þvert á móti er lögð mikil áhersla á það að starfsstaðir sýni fram á þróunarstarf og nýbreytni. Starfsstaðir geta fengið frá A-D fyrir hverja vísbendingu, þar sem A er gefið fyrir verklag sem samræmist fyllilega lýsingu um gæðastarf. Síðan hafa matsaðilar kost á að gefa sérstaka stjörnu fyrir verklag sem þykir öðrum til eftirbreytni og framúrskarandi á sínu sviði. Eins er í matinu svigrúm til að draga fram styrkleika (eða veikleika) sem ekki er gert ráð fyrir í viðmiðunum.

Ég held að viðmiðin fari strax að hafa áhrif á þróun starfsins þó svo að það muni taka tíma að gera ytra mat á öllum starfsstöðunum. Nú þegar starfsfólk hefur fengið tækifæri til að lesa viðmiðin og koma með umsagnir og ábendingar um þau hefur það eflaust strax farið að máta þau við sitt starf. Vonandi hefur það eitt og sér góð áhrif. Síðan fá starfsstaðir stuðning við að nýta viðmiðin í innra mat á starfi sínu auk þess sem frístundamiðstöðvarnar geta nýtt tækið í hálfgert ytra mat á sínum starfsstöðum. Einnig er gert ráð fyrir  að stjórnendur á frístundamiðstöðvum fái tækifæri til að meta starfsstaði í öðrum hverfum og þannig geta þeir fengið hugmyndir að þróun á starfinu í sínu hverfi. Þannig má segja að með verkefninu séum við líka að deila þekkingu og hugmyndum okkar á milli.

Þegar starfsstaðir hafa fengið niðurstöður ytra matsins setur forstöðumaður fram umbótaáætlun í samstarfi við sitt starfsfólk og viðkomandi frístundamiðstöð eftir því sem þörf krefur. Frístundamiðstöðvarnar fylgja eftir umbótum, hvetja, þrýsta og styðja til umbóta eftir þörf. Frístundahluti fagskrifstofu ber svo ábyrgð á miðlægri aðstoð sem gengur yfir alla, þ.e. ef ,,kerfislægur“  vandi kemur í ljós eða vandi sem margar starfsstöðvar glíma við. Frístundahluti fagskrifstofu og tölfræði- og rannsóknaþjónusta SFS heldur svo utan um niðurstöðurnar í heild og hefur eftirfylgd með að viðkomandi frístundamiðstöð sinni ráðgjafahlutverki sínu.

Hvernig gætu aðrir notið góðs af þessari vinnu hjá Reykjavíkurborg?

Vonandi munu önnur sveitarfélög geta nýtt þessa vinnu í framtíðinni. Viðmiðin eru samin fyrir frístundastarf í Reykjavík  þar sem frístundamiðstöðvar gegna veigamiklu hlutverki. En ég held að frístundaheimili og félagsmiðstöðvar í öðrum sveitarfélögum geti vel nýtt sér þau og þurfi ekki að breyta svo miklu til að gera þau að sínum. Frístundafagið er ungt og það er mikilvægt að við deilum hvert með öðru hugmyndum um hvernig megi þróa starfið og bæta. Við stefnum á að viðmiðin og ýmis matsgögn verði komin á heimasíðu skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar í vor.

Við leyfum Frítímanum að fylgjast með því.