Í samfélaginu hefur mikið verið rætt um orðbragð barna og unglinga, en áður en við skoðum það verðum við að spyrja okkur sjálf, hvernig eru samskipti okkar sem fullorðnir? Hvernig fyrirmyndir erum við fyrir börnin okkar? Við sem eldri erum berum ábyrgð á því hvernig við tjáum okkur, bæði í daglegu lífi og á samfélagsmiðlum. Börn læra það sem fyrir þeim er haft. Ef við viljum að þau sýni virðingu í orðum sínum, þurfum við sjálf að vera þeim fyrirmynd í verki og orðum.
Látum okkur málin varða. Þegar við heyrum óviðeigandi orðfæri eða sjáum framkomu sem þarfnast leiðréttingar, skulum við ekki hunsa það, heldur taka samtalið. Það skiptir máli að ræða þessi mál við börnin og unglingana okkar, í opnu samtali þar sem traust ríkir. Við þurfum að skapa öruggt rými þar sem börn og ungmenni geta spurt, hlustað og lært án ótta við fordæmingu. Með því byggjum við upp gagnkvæmt traust og gefum þeim tækifæri til að skilja betur heiminn í kringum sig. Börn og unglingar eru í sífelldri mótun, þau eru að læra á lífið, samfélagið og samskipti. Mistök eru hluti af því námsferli, og það er okkar hlutverk að leiðbeina þeim í rétta átt. Þau þurfa rými til að vaxa, spyrja spurninga og læra af mistökum sínum.
Samfélagsmiðlar hafa umbreytt því hvernig börn og unglingar eiga samskipti. Þar er orðbragð oft opnara, stundum grófara og gjarnan án þeirra félagslegu marka sem við þekkjum úr hefðbundnum samskiptum. Ungmenni fá fyrirmyndir sínar frá fjölbreyttu efni á netinu en ekki eru allar þessar fyrirmyndir jákvæðar. Við sem fullorðnir verðum því að taka virkan þátt í að leiðbeina þeim um hvernig orð geta haft áhrif, bæði í raunheimum og á netinu. Það er mikilvægt að börn og unglingar skilji að orð sem eru skrifuð á samfélagsmiðlum hverfa ekki, þau geta haft langtímaafleiðingar.
Að setja skýr mörk um orðbragð er nauðsynlegt en það þarf að gera á þann hátt sem byggir á virðingu og skilningi. Börn fæðast ekki með meðfæddan skilning á því hvaða orð særa eða hvernig þau hafa áhrif á aðra. Við þurfum að skapa umhverfi þar sem þau geta rætt orðbragð, áhrif þess og afleiðingar þess án þess að óttast að vera dæmd. Þegar börn upplifa að þau geti rætt þessi mál opinskátt, eru þau líklegri til að vilja læra og bæta sig. Skólinn, fjölskyldan og samfélagið allt þarf að vinna saman að því að móta þessi gildi. Fjölskyldustuðningur er lykillinn að heilbrigðu þroskaferli barna og unglinga. Ást, stuðningur og hvatning frá fjölskyldu veita þeim öryggi og traust sem eru grunnstoðir sjálfsmyndar og sjálfstrausts. Þegar foreldrar sýna virðingu í samskiptum sínum og styðja börnin sín í gegnum áskoranir, eykst trú þeirra á eigin getu og styrkur þeirra til að takast á við lífið.
Það er á ábyrgð okkar sem samfélags að móta umhverfi þar sem börn og unglingar geta lært, spurt, gert mistök og vaxið. Við verðum að veita þeim stuðning, traust og rými til þroska. Hjálpum þeim við að verða meðvitaðir og ábyrgir þátttakendur í samfélaginu. Það er ekki nóg að segja börnum hvernig þau eigi að haga sér. Við verðum að sýna þeim það í verki.
—
Hildur S. Jóhannsdóttir, nemandi í tómstunda- og félagsmálafræði