Er bókmenntakreppa á Íslandi?

Booktok er öflugt „trend“ á samfélagsmiðlinum TikTok þar sem notendur deila bókaráðleggingum. Þetta fyrirbæri náði fótfestu á sama tíma og samgöngubann hófst á heimsvísu og hefur síðan vaxið í einn stærsta áhrifavald bókamarkaðarins í dag. Að sögn starfsmanns bókabúðar á Íslandi mótast bókamarkaðurinn að mestu af þeim titlum sem njóta vinsælda á TikTok. Booktok bjargaði að hluta til breska bókamarkaðnum og hefur einnig haft svipuð áhrif á erlendar bækur á Íslandi.

Með vinsælustu bókategundum í dag eru svokallaðar „Dark Fantasy“ bækur, þar á meðal A Court of Thorns and Roses, Fourth Wing og Quicksilver. BookTok hefur spilað stórt hlutverk í vinsældum þessara bóka. Einnig má rekja vinsældir annara titla í fantasíu- og vísindaskáldssagna-heiminum, eins og til dæmis Red Rising, Project: Hail Mary og Mistborn, sem hefur selt um það bil 10 milljónir eintaka út um allan heim og nýtur einnig mikilla vinsælda hér á landi fyrir Booktok, sem hefur ekki aðeins mótað bóksölu heldur einnig aukið lestur meðal ungs fólks á heimsvísu. Með fleiri þýðingum á íslensku gætu útgefendur hvatt íslensk ungmenni til að lesa meira og gert þeim kleift að njóta bókmennta á sínu móðurmáli.

En hvað er í boði á íslenska markaðnum í dag? Ef skoðaðar eru bækur eftir íslenska höfunda er erfitt að finna annað en glæpasögur, ævisögur eða af og til rómantík. Íslenskir höfundar fylgja oft ríkjandi straumum, sem veldur því að bókamarkaðurinn verður einhæfur. Einnig er álagning á bókum í dag á rækilegri leið yfir strik margra sem njóta lesturs. Í einni stærstu bókabúð landsins kostar meðalbók í kiljuútgáfu á bilinu 3.000–5.000 kr. Í annarri bókabúð eru sömu titlar hins vegar á helmingi lægra verði. Hver er ástæðan fyrir þessari verðlagningu?

Þegar stærsta bókabúðin er skoðuð er mjög erfitt að finna fantasíutitla á íslensku, þar eru aðeins Krúnuleikar (e. Game of Thrones) og Hungurleikar (e. The Hunger Games) í boði. Að mínu mati er einn stærsti glæpur í sögu Íslendinga að nú til dags sé ekki sé hægt að finna þýtt eintak af Hringadróttinssögu í stærstu bókabúð landsins. Af sjálfsögðu er hægt að finna eintak á ensku á veggnum hinum megin í búðinni. Í annarri bókabúð mátti finna aðeins Harry Potter, Dúna (e. Dune), Krúnuleika og Lockwood & Co. Ef horft er til þess að síðastnefndi titillinn var gefinn út í fyrra þá eru ekki nægilega mikið af valmöguleikum þegar það kemur að vinsælustu tegundum bóka í dag.

Það væri tilvalið ef útgefendur myndu nýta sér tækifærið þar sem íslenskir áhrifavaldar eru byrjaðir að nýta sér BookTok á sama hátt og erlendis og að þeir myndu bjóða upp á þann möguleika að þýða eina eða tvær bækur sem hafa notið mikilla vinsælda í þessum bókaflokkum og bjóða þær fram til að getað séð hvernig markaðurinn á Íslandi tekur við þeim. Bækur eins og A Court of Thorns and Roses og Mistborn: The Final Empire gætu notið mikilla vinsælda ef þær væru þýddar. Með þýðingu á þessum verkum er ekki aðeins verið að draga inn nýjan markhóp á íslenskum bókmenntum heldur er einnig verið að vinna að varðveitingu tungumálsins þar sem Íslendingar hafa valmöguleika á sínu eigin tungumáli og einnig erlendum tungumálum til að lesa á.

Gunnar Rafnarsson, nemandi í tómstunda- og félagsmálafræði