Jákvæð sálfræði og frístundastarf

Hrefna GuðmundsdóttirÉg átti einu sinni spjall við kennara á grunnskólastigi. Hann barmaði sér yfir því að fyrsta spurning foreldra í foreldraviðtölum væri hvort barn þess ætti vin í bekknum eða ekki. Kennarinn hafði væntingar um að foreldrar hefðu frekar áhuga á hvernig gengi hjá barninu að læra að lesa. Við sem þekkjum frístundastarf skiljum að það eru samskipti sem skipta mestu máli. Að fá að njóta sín, kynnast jafnöldrum, eignast vini og kunningja, að fá að reyna á hæfileika sína og hafa gaman.

Þarna er einmitt kjarninn í því af hverju jákvæð sálfræði og frístundastarf eiga vel saman. Nær allar rannsóknir í jákvæðri sálfræði gefa þá niðurstöðu að það sem er í mestri fylgni við hamingju eru góð mannleg samskipti. Væntanlega góð uppbyggileg samskipti. Því það sem einmitt einkennir gjarnan óhamingju er skortur á samskiptum og erfið samskipti. Þess vegna getur það skipt sköpum að börn og ungmenni fái tækifæri til að reyna og prófa sig áfram félagslega innan þess ramma sem er í boði í skipulögðu frístundastarfi á vegum sveitarfélaga. Þar eru það þeir/þau fullorðnu sem setja ramma og leikreglur og grípa inní óæskilega þróun en barnanna og unglinganna að reyna sig innan þess frelsis sem þau fá.

Rannsóknir á sviði jákvæðrar sálfræði fjalla um að kanna hvað einkennir okkur þegar við erum upp á okkar besta, hvaða þættir eru í fylgni við hamingju, hvernig við getum aukið vellíðan markvisst, hvað við getum lært af þeim allra hamingjusömustu, hvað gerir lífið þess virði að því sé lifað og svo framvegis. Jákvæð sálfræði er viðbót við hefðbundna sálfræði. Það er núna vitað að þrátt fyrir að geta haldið niðri einkennum af þunglyndi, kvíða og streitu að þá er ekki sjálfgefið að viðkomandi verði hamingjusamur. Það virðist vera auka „faktor“ að vera í plúsunum heldur en að vera bara laus við mínusana.

Auðvitað skiptir hamingjan máli. Okkur líður þá betur. Því fylgir gjarnan betri heilsa, við eigum þá í betri samskiptum, við látum smámál ekki standa í okkur, við verðum víðsýnni og hugsum frekar í lausnum og jafnvel lifum lengur. Þetta hafa rannsókna sýnt, t.d. rannsóknir Barböru Fredrickson (2009) og Danner, Snowdon og Friesen (2001).

Þátttaka í frístundastarfi býður upp á mjög gott nám fyrir lífið, ef vel er að því staðið. Það að vita hvað gerir lífið þess virði að því sé lifað, að hafa gaman, að láta gott af sér leiða, kynnast nýju fólki, gefa af sér og þiggja og hafa áhrif á framvinduna, t.d. með því að bjóða sig fram í ráð og nefndir, koma með hugmyndir og koma þeim í framkvæmd og vera í samskiptum skiptir sköpum. Að fá að vera með, jafnvel þótt maður passi ekki víða annarsstaðar. Er eitthvað mikilvægara?

Jákvæð sálfræði getur því bæði verið verkfæri inn í frístunda- og skólastarf, auk þess að eiga erindi inn í rannsóknarvinnu á sviðinu. Dæmi um mikilvæg hugtök úr heimi jákvæðrar sálfræði í starfi með börnum og ungmennum eru t.d. þessi: seigla, dyggðir, flæði, vellíðan, von, bjartsýni, þakklæti, góðverk, virkni/þátttaka, trú á eigin getu, blómstrun og núvitund.

Ég notaði jákvæða sálfræði markvisst í mínu starfi á Frístundamiðstöðinni Kampi fyrir nokkrum árum. Ef ég á að taka út einhver sérstök dæmi þá ætla ég að fá að nefna hér þessi: Mannauðsbanki Kamps. Stuttmyndahátíðin Hilmarinn og verkefni unnin í sértæku hópastarfi.

Mannauðsbanki Kamps

Mannauðsbankinn var tilraun til að safna saman og draga fram það sem sumir starfsmenn kunna, geta og hafa áhuga á að nýta betur. Áhugamálum, styrkleikum og hæfileikum var markvisst safnað saman á sérstakt blað fyrir starfsfólk frístundamiðstöðvarinnar og slíkt er örugglega hægt að nota líka í unglingaráð eða í hópastarf. Þá er hægt að nota þetta sem hugmyndabanka og grípa í tilað fá hugmyndir að verkefnum, hugmyndir að skemmtun fyrir vinnustaðinn og hvar eru tækifæri til að leyfa starfsfólki að blómstra. Þarf ekki alltaf að vera eitthvað stórt til að vera kröftugt. Mannauðsbankinn var tekinn upp í fleiri frístundamiðstöðvum sem gaman er að vita af. Fólk er misduglegt að koma sér á framfæri og að eiga frumkvæð að því að nýta það sem þeir hafa inn í starfið. Mannauðsbankinn á að vera verkfæri til að auðvelda slíkt aðgengi, bjóða upp á samtal.

Stuttmyndahátíðin Hilmarinn

Stuttmyndasamkeppni sem varð til í sófanum í félagsmiðstöðinni 105, ungmenni sem var að segja frá stuttmyndnámskeiði sem hann hafði setið og annar sem fór á flug þegar farið var að tala um Oscarinn, rauða dregla og að klæða sig upp. Úr varð samfélagsverkefni. Koma á samtali milli áhugasamra unglinga og fagþekkingar og tengjast nærsamfélaginu. Þar með var Hilmar Oddsson kvikmyndagerðarmann heiðraður en hann var í skóla í hverfinu og hefur miklar rætur í hverfinu því hátíðin var skýrð í höfuðið á honum.

Hilmar Oddsson tók vel beiðni okkar og varð strax aðaldómari keppninnar og verndari hátíðarinnar upp frá þessu. Haldin voru fræðslukvöld fyrir áhugasama kvöldin áður en að keppninni kom, s.s. horft á myndir, kennt á klippigræjur og fleira til að halda áhugasömum við efnið. Þetta er hátíð sem hefur vaxið síðan og er öllum til gleði og innspýtingar, bæði þá og enn í dag.

Vert er að íhuga hvort ekki sé einhver í þínu hverfi sem hefur skarað frammúr eða náð merkum áfanga eða ástæða til að gleðja? Sem var í grunnskólanum eða býr núna í hverfinu? Er einhver unglingur eða barn sem brennur fyrir svipað? Er hægt að gera eitthvað nýtt út úr þessu þar sem allir eignast nýtt ævintýri og öfluga minningu?

Hópastarf

Hér eru nokkur dæmi um verkefni. Skoða fyrirmyndir t.d. ræða þær, velja sína og þau sendu meira að segja flest sinni fyrirmynd kveðju á fallegu korti, skoða úrklippur af einhverju ánægjulegu sem ungmenni safna fyrir næsta dag og svo eru þær ræddar, eitthvað jákvætt og uppbyggilegt sem er allstaðar að gerast í kringum okkur út í samfélaginu. Krakkarnir höfðu svo sýningu í lok sumarsins og buðu vinum og fjölskyldu sem gátu þá séð hvað margt ánægjulegt hafði verið í brennidepli í samfélaginu og sáu starfið hjá krökkunum.

Nú svo voru auðvitað æfingar að fara út fyrir öryggishringinn, gera góðverk, þakklætisverkefni, vináttu-klípusögur (t.d. heftið Vinátta eftir Sigrúnu Aðalbjarnardóttur og Árný Elíasdóttur), leiklistaræfingar þar sem settar eru upp aðstæður – hlutverkaleikir og jákvæðni æfingar (fengum Agnar Jón með jákvæðni æfingar). Fá ungmenni til að rifja upp hvernig þau síðast kynntust nýrri manneskju og vera dálítið nákvæm í því t.d. skrifa t.d í tölvu og skila nafnlausu og svo er hægt að lesa upp og ræða. Læra af öðrum, hvernig maður kynnist nýju fólki og hvernig nýjar aðstæður verða til.

Líka er hægt að nýta styrkleikaæfingar úr jákvæðri sálfræði til að fá hugmyndir að verkefnum. Í því sambandi langar mig að benda á þessa biblíu: Nám í skóla um hamingju og velferð – Að sitja fíl eftir Ian Morrisson í þýðingu Erlu Kristjánsdóttur frá 2012. Einnig er gráupplagt að horfa saman á myndböndin Vegurinn heim og Einelti er ekkert grín sem eiga að vera til í öllum Frístundamiðstöðum. Og ég mann að svo var haldið eitt sparikvöld, allir komu í sínu fínustu fötum og skundað var í bíó.
Hrefna Guðmundsóttir, fyrrum verkefnastjóri. MA í Vinnu- og félagssálfræði og með kennsluréttindi á framhaldsskólastigi.