„Maður lærir líka að vera góður“

Þrátt fyrir áratugasögu hefur félagsmiðstöðvastarf á Íslandi lítið verið rannsakað en þó er nokkuð stór hópur unglinga virkir þátttakendur í starfi félagsmiðstöðva einhvern tíma á unglingsárum. Í rannsókn sem var grunnur að meistaraverkefni í uppeldis- og menntunarfræðum við Háskóla Íslands beindi Eygló Rúnarsdóttir sjónum að félagsmiðstöðvastarfinu.

Um rannsóknina

Í rannsókninni, sem ber yfirskriftina „Maður lærir líka að vera góður“ kallaði hún eftir sýn unglinga á starf félagsmiðstöðva í Reykjavík og sýn þeirra á eigin þátttöku í starfseminni. Viðtöl við átta unglinga sem tóku þátt í starfi tveggja ólíkra félagsmiðstöðva í Reykjavík veturinn 2008–2009 lágu til grundvallar en áður hafði hún til undirbúnings tekið viðtöl við þrjá unglinga í þremur ólíkum félgsmiðstöðvum, gert vettvangsathuganir og tekið viðtöl við frístundaráðgjafa. Með rannsókninni var leitast við að svara því hvaða merkingu félagsmiðstöðin hefur í hugum þessara unglinga, hvaða ástæður þeir telja vera fyrir því að þeir hófu þátttöku í starfi félagsmiðstöðva og héldu þátttöku sinni áfram, hvaða reynslu eða lærdóm, ef einhvern, unglingarnir telja sig draga af þátttöku sinni í félagsmiðstöðvastarfi og upplifun unglinganna af starfsfólki félagsmiðstöðva.

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru þær að unglingarnir sjá félagsmiðstöðina sem öruggan samastað í hverfinu þar sem aðgengi er að jafningjum, skemmtun og afþreyingu. Þessir þættir eru jafnframt hvatar
að fyrstu kynnum þeirra af félagsmiðstöðvastarfinu. Áframhaldandi þátttaka þeirra mótast af tvennu. Annars vegar mótast hún af ytri þáttum, öðrum viðfangsefnum þeirra í frítímanum, tímaskorti, opnunartíma félagsmiðstöðvarinnar, aldri unglinganna og viðfangsefnum í starfi félagsmiðstöðvanna. Hins vegar mótast áframhaldandi þátttaka af því hvort unglingarnir mynda öflug tengsl við starfið, einhvers konar skuldbindingu. Unglingarnir telja sig flestir læra, þó í mismiklum mæli, af þátttöku í starfinu. Þau þemu sem þar koma fram eru þekking, verkleg færni, félagsleg færni, persónuleg færni eða eiginleikar og lífsgildi. Starfsfólk félagsmiðstöðva virðist jafnframt skipta unglingana miklu máli. Þeir eru sammála um að þar starfi gott fólk með viðmót sem einkennist af jafningjanálgun, stuðningi og hvatningu.

Niðurstöðurnar gefa þeim sem fyrir félagsmiðstöðvastarfinu standa og starfsfólki á vettvangi innsýn í hugmyndir unglinga um starfsemi sem þeim er ætluð og eru vonandi lóð á vogarskálarnar við áframhaldandi þróun starfsins.

Hér má nálgast verkefnið í heild sinni.

Um höfundinn

Eygló Rúnarsdóttir er grunnskólakennari og uppeldis- og Eygló Rúnarsdóttirmenntunarfræðingur en hefur hátt á annan áratug starfað á vettvangi frístundarstarfs. Hún starfaði um árabil í Breiðholtinu í Reykjavík, fyrst um nokkurra ára skeið í félagsmiðstöðinni Fellahelli en síðar í Frístundamiðstöðinni Miðbergi sem deildastjóri unglingastarfs. Síðast liðin 12 ár hefur hún starfað á skrifstofu tómstundamála hjá íþrótta- og tómstundasviði Reykjavíkur (ÍTR), og nú skóla- og frístundasviði Reykjavíkur (SFS) auk þess að starfa sem sérfræðingur hjá námsbraut í tómstunda- og félagsmálafræðum við Háskóla Íslands. Í starfi sínu hjá Reykjavíkurborg hefur hún auk verkefna sem snúa að málefnum unglinga og félagsmiðstöðva unnið með Reykjavíkurráði ungmenna og leitt þróun starfsemi ungmennaráða í hverfum borgarinnar frá 2001 eða frá upphafi verkefnisins.

Auk verkefna sinna hjá Reykjavíkurborg og Háskóla Íslands hefur Eygló sinnt fjölmörgum verkefnum á sviðið æskulýðs,- forvarnar- og félagsmála. Eygló var verkefnastjóri ráðstefnunnar Ungdom, demokrati og deltagelse undir merkjum Norrænu ráðherranefndarinnar þegar Ísland fór með formennsku í nefndinni 2004. Hún kom jafnframt að stofnun Félags fagfólks í frítímaþjónustu árið 2005 og sat í stjórn félagsins í nokkur ár, hefur tekið virkan þátt í starfi SAMFÉS, samtökum félagsmiðstöðva, og sinnt fræðslu og námskeiðshaldi um félagsmiðstöðvastarf og starfsemi ungmennaráða víða um land. Eygló kom að stofnun veftímaritsins Frítímans og situr jafnframt í ritstjórn hans.