Unglingar eiga það besta skilið

ornarnarsonTómstundir fyrir unglinga eru fjölbreyttar og öruggt að þeir finna eitthvað við sitt hæfi í þeim aragrúa viðfangsefna sem félagsmiðstöðvar bjóða þeim uppá. Margir kjósa íþróttir og tónlistarnám meðfram skyldunámi en aðrir velja sér þá leið að stunda félagsmiðstöð. Enn aðrir fara svo í skátana, björgunarsveitir eða jafnvel æskulýðsstarf kirkjunnar. Lesa meira “Unglingar eiga það besta skilið”

Skilgreining á hugtökum á vettvangi frítímans

Þegar sessunautur minn á ráðstefnunni Íslenskar æskulýðsrannsóknir rakst á setningu sem stuðaði hann úr nýsamþykktri stefnu í æskulýðsmálum fyrir árin 2014-2018 spruttu fram líflegar umræður um hugtök og hugtakarugling á vettvangi frítímans. Setningin er svohljóðandi:

„Stuðla að jafnvægi milli þátttöku í æskulýðsstarfi, öðru frístundastarfi, fjölskyldulífi og námi.”

(Menntamálaráðuneytið, 2014)

Umræðan sem fór af stað snéri s.s. að því hver væri munurinn á æskulýðsstarfi og öðru frístundastarfi. Allir sem tóku þátt í umræðunni voru sammála um að frístundastarf og tómstundastarf væri sama hugtakið og að æskulýðsstarf myndi svo flokkast þar undir. Ég viðurkenni að ég var sjálfur ansi hvumpinn yfir þessum hugtakaruglingi en þegar ég les þetta nú aftur er ég hjartanlega sammála þessari setningu.

Ungmenni getur tekið þátt í æskulýðsstarfi, námi, fjölskyldulífi og öðru frístundastarfi sem gæti t.d. verið málfundarfélag með fullorðnum einstaklingum. Það myndi flokkast undir frístundastarf en ekki æskulýðsstarf. En þessar endalausu umræður kalla alltaf eftir því að tekið verði á skarið og hugtök skilgreind.

Nú stendur yfir mikil vinna og er það gott og vel en ég vil leggja mitt á vogaskálarnar og koma með skilgreiningar á þessum helstu hugtökum. Ég vona að sem flestir verði ósammála mér og blandi sér í umræðuna með sínar uppástungur. Svona stilli ég upp hugtökum og uppröðun á þeim. Ég leitast svo við að skilgreina hugtökin fyrir neðan myndina.

Skilgreining á vettvangi frítímans

Skilgreiningar á helstu hugtökum

Frítími (e. free time)

Frítími er allur sá tími sem við höfum til aflögu og ráðum hvernig við ráðstöfum. Með öðrum orðum tími sem við erum ekki bundin verkefnum, starfi, skyldum eða þörfum. Við getum bæði nýtt þennan tíma til góðra hluta og slæmra.

Tómstundir / frístundir (e. leisure)

Engin eðlismunur er á hugtakinu tómstundir og frístundir. Það er hægt að rökræða þetta lengi en þetta er svipað og fólk sem eyðir tíma sínum í að rökræða hvort maður segir „gat” eða „eyða” þegar frí er milli kennslustunda í stundatöflu. Tóm stund eða frí stund er sami hluturinn og smekksatriði hvað fólki finnst fallegra. Það er bara gott og blessað.

„Í grundvallaratriðum má segja að tómstundir eigi sér stað í frítíma. Tómstundir eru því athöfn, hegðun eða starfsemi sem á sér stað í frítímanum og flokkast sem tómstundir að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Þau skilyrði eru að einstaklingurinn líti sjálfur á að um tómstundir sé að ræða. Að athöfnin, hegðunin eða starfsemin sé frjálst val og hafi í för með sér ánægju og jákvæð áhrif. Kjarni tómstunda má segja að felist í vellíðan og aukningu á lífsgæðum.

Í þessari skilgreiningu er gerður skýr greinarmunur á frítíma og tómstundum. Tómstundir eiga sér yfirleitt stað í frítíma en ekki allur frítími er tómstundir. Afstaða er því tekin gegn þeim sem líta á glæpi og ýmsa niðurbrjótandi hegðun sem tómstundir en með þeim sem líta svo á að tómstundir séu jákvæðar og uppbyggjandi. “

(Vanda Sigurgeirsdóttir, 2010)

Undir tómstundastarf koma svo ýmsir undirflokkar sem skilgreinast einna helst af markhópnum sem starfið snýr að. Dæmi um tómstundastarf er því félög og klúbbar fyrir fullorðna eða blandaða aldurshópa og félagsstarf aldraðra. Æskulýðsstarf flokkast einnig undir tómstundastarf.

Æskulýðsstarf (e. youth work)

Í æskulýðslögum nr. 70/2007 er æskulýðsstarf skilgreint sem:

„Með æskulýðsstarfi er átt við skipulagða félags- og tómstundastarfsemi þar sem börn og ungmenni starfa saman í frístundum sínum að hugsjónum, markmiðum og áhugamálum sem þau sjálf meta að verðleikum. Í skipulögðu æskulýðsstarfi skal hafa í huga félags-, forvarna-, uppeldis- og menntunarlegt gildi þess sem miðar að því að auka mannkosti og lýðræðisvitund þátttakenda. Í öllu starfi með börnum og ungmennum skal velferð þeirra höfð að leiðarljósi og þau hvött til frumkvæðis og virkrar þátttöku. Lögin miðast við æskulýðsstarf fyrir börn og ungmenni, einkum á aldrinum 6–25 ára.”

Undir æskulýðsstarf flokkast þá:

  • Frístundaheimili
  • Félagsmiðstöðvar
  • Ungmennahús
  • Starf frjálsra félagasamtaka sem snýr að ungu fólki og uppfyllir skilgreininguna hér að ofan
  • Sjálfstætt starf og félög ungs fólks sem uppfylla skilgreininguna hér að ofan

Allir sem starfa sem sjálfboðaliðar eða launaðir starfsmenn við æskulýðsstarf eru kallaðir æskulýðsstarfsmenn (e. Youth worker). Þetta á jafnt við um sjálfboðaliða og starfsmenn sem frá greitt fyrir vinnu sína enda eru hlutverk og markmið þau sömu. Stundum hef ég heyrt að það vefjist fyrir fólki þetta orð „starfsmaður” ef ekki eru greidd laun fyrir. Fyrir þá sem hugsa svoleiðis vil ég vekja athygli á yfirheitinu „æskulýðsstarf” sem gefur til kynna að visst starf sé unnið burt séð frá því hvort greitt sé fyrir vinnuna eða ekki. Einnig er gott að skoða orðræðuna okkar um „að starfa”, t.d. Sigurður hefur gengt ýmsum störfum fyrir samtökin, Sigurður hefur verið virkur í starfinu í mörg ár, Sigurður hefur unnið gott starf fyrir félagið. Við hikum ekki við að tala um störf og starf sem einstaklingar vinna í sjálfboðavinnu og því ekkert að því að kalla þá starfsmenn.

Lokaorð

Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að þetta er ekki sú hugtakanotkun sem allir hafa notað alltaf. EN ég tel að þetta séu skýr hugtök og að ef við sem þjóð, starfsvettvangur eða hvað það er sem sameinar okkur, ákveðum að notast við skýr hugtök næstu árin munu allir geta sammælst um merkingu þeirra.

Ég meina gaffall heitir ekki gaffall nema út af því að við ákváðum að kalla hann gaffal!

Heimildir

Menntamálaráðuneytið. (2014). Stefnumótun í æskulýðsmálum 2014-2018. Reykjavík: Menntamálaráðuneytið.

Vanda Sigurgeirsdóttir. (2010, 31. desember). Skilgreining á hugtakinu tómstundir. Ráðstefnurit Netlu – Menntakvika 2010. Sótt 16. janúar 2013 af http://netla.khi.is/menntakvika2010/025.pdf.

Æskulýðslög nr. 70/2007.

Veitum ungmennum raunveruleg áhrif – lækkum kosningaaldur

árnigVeik rödd

Við sem höfum starfað að velferðaramálum barna og ungmenna  um langa hríð  höfum ekki farið varhluta af því hve börn og ungmenni eiga sér veika rödd í samfélaginu. Margt hefur áunnist en það er ennþá langt í land hvað varðar raunveruleg áhrif ungmenna, bæði í samfélaginu og í nærumhverfi sínu.  Á níunda áratug síðustu aldar innleiddu félagsmiðstöðvar hérlendis starfsaðferðir unglingalýðræðis sem tæki og lið í valdeflingu ungmenna. Aðferð sem byggir á lífsleikni og er menntandi í víðasta skilningi þess orðs. Starfsaðferðir unglingalýðræðis ganga út á það að efla getu einstaklings og/eða hópa til þess að vinna með öðrum á lýðræðislegum forsendum og að takast á við tilveruna í öllum hennar margbreytileika.  Ungmennin öðlast með virkni í starfinu aukna félagslega hæfni og þroska með sér jákvæða sjálfsmynd sem fæst með þátttöku í þeim fjölmörgum verkefnum og viðfangsefnum sem starfsemi félagsmiðstöðva inniheldur

Æskulýðslög

Þessi þróun hefur m.a leitt til þess að í æskulýðslögum (17.mars/2007/11.gr.) er ákvæði um heimild um stofnun ungmennaráða í sveitarfélögum en þar segir: „Sveitarstjórnir hlutast til um að stofnuð séu ungmennaráð. Hlutverk ungmennaráða er m.a. að vera sveitarstjórnum til ráðgjafar um málefni ungs fólks í viðkomandi sveitarfélagi. Sveitarstjórnir setja nánari reglur um hlutverk og val í ungmennaráð.“ Flest sveitarfélög hafa nýtt þetta heimildarákvæði en ekki öll. Í Hafnarfirði var ákveðið fyrir margt löngu að fulltrúi unglinga ætti sæti í Íþrótta- og tómstundanefnd bæjarins með áheyrnar- og tillögurétt  á sama hátt og fulltrúi íþróttahreyfingarinnar.

Ungmennaráð

Starfsemi ungmennaráða hafa víða um land gengið vel ekki síst hér í Hafnarfirði en hér var búið að koma á ungmennaráði löngu áður en ákvæði um slíkt kom í lög. Ungmennaráðið/in hér í bæ hafa ýmsu áorkað í gegnum árin.  Hinu er þó ekki að leyna að þegar að kemur að stóru málunum þá verður oft brestur á, ekki bara hér í firðinum heldur víðar þar sem ungmennaráð starfa. Það má velta fyrir sér hvers vegna ungmennaráð eru ekki höfð með í ráðum í stærri málum. Ég minnist mikils niðurskurðar til æskulýðsmála hér í bæ fyrir nokkrum árum. Á þeim tímapunkti sýndu hafnfirsk ungmenni sterka lýðræðisvitund, efndu til fjölmennrar mótmælagöngu og  sýndu hug sinn í verki.  Í þessu ljósi má velta fyrir sér hvers vegna er verið að tala um unglingalýðræði og til hvers er fyrirkomulag eins og Ungmennaráð  ef það hefur ekkert um brýn hagsmunamál ungs fólks að segja þegar virkilega á reynir? Mynd af brosandi stjórnmálamönnum og ungmennaráðum er vissulega hugguleg en hefur ekkert vægi umfram það ef starfsemi ráðanna fylgja ekki raunveruleg völd.

Lækkum kosningaaldur

Gæti verið að ungt fólk þ.e.a.s. þau sem ekki eru kjörgeng eigi sér í raun enga rödd eða málsvara í samfélaginu þegar að raunverulega blæs á móti?  Ég minnist þess fyrir allmörgum árum þegar að stjórnmálamenn fóru allt í einu að tala um framhaldsskólann sem var í velflestum tilfellum í beinu samhengi við lækkun kjörgengis í 18 ár. Getur verið að áherslur stjórnmálamanna miðist nær eingöngu við áhuga virkra atkvæða sbr. foreldramiðuð skólaumræða? Ég hef lengi verið talsmaður þess að lækka kjörgengi í 16 ára og jafnvel 15 ára aldur og með því gefa ungmennum raunhæfa möguleika á því að hafa áhrif á mótun samfélagsins, ekki síst nærsamfélagsins og á þau mál sem á þeim brennur. Unglingalýðræði í núverandi mynd virkar ekki þegar á móti blæs. Ég tel því einu raunhæfu leiðina að lækka kjörgengi og því fyrr því betra. Ég veit sem er að við slíkt myndu málefni unglinga ekki verða sú afgangsstærð í  þjóðfélaginu sem því miður oft vill verða. Það hefur ekkert samfélag efni á slíku fálæti og allra síst á tímum eins og þeim sem við lifum á.

Árni Guðmundsson M.Ed  félagsuppeldisfræðingur