Erum við nógu dugleg að fræða ungmenni um mikilvægi tómstunda?

Tómstundir eru skilgreindar á margvíslegan hátt en ekki eru allir fræðimenn sammála um hvernig best sé að skilgreina þær, þó ættu flestir að vera kunnugir orðinu tómstundir og geta gert grein fyrir því í stuttu máli hvað það gengur út á.  Aftur á móti eru flestir sammála um mikilvægi tómstunda bæði fyrir börn og unglinga. Tómstundir eru mikilvægar fyrir bæði börn og ungmenni því þær draga til að mynda úr kvíða, vanlíðan og þunglyndi. Það kemur oft upp í huga minn hvort ungmenni viti hvað tómstundir ganga út á og af hverju þau kjósi að stunda tómstundir. Hvað er það sem helst skiptir máli þegar kemur að tómstundum? Lesa meira “Erum við nógu dugleg að fræða ungmenni um mikilvægi tómstunda?”

Samfélagsleg styrkleikakort

Það er alltaf mikil orka sem fylgir því að hefja nýtt ár og nýja önn í tómstunda- og félagsmálastarfi. Eftir undarlega haustönn erum við reynslunni ríkari með allskyns nýjar leiðir til þess að halda úti starfinu en einnig bindum við vonir við að hægt verði að halda úti hefðbundnu starfi í auknum mæli næstu mánuði. Við upphaf nýrrar annar er alltaf gott að staldra við, ígrunda og rýna starfið, hvað er að ganga vel og hvar viljum við sækja fram. Eitt tól sem er afar gagnlegt til að nýta á slíkum tímamótum er samfélagsleg styrkleikakort (e. community asset mapping) á samfélagi einstaklingana sem samtökin eða stofnunin vinnur með. Út frá slíkri kortlagningu færist umræðan um starfið á hærra stig og fæðast oft allskyns hugmyndir um ný samstarfsverkefni og bætt samskipti við aðra hagaðila samfélagsins. 

Í bók sinni Building communties from the inside out fjalla þeir Kretzman og McKnight (1993) um að það séu tvær hugmyndafræðilegar leiðir til að styðja við samfélög. Í hefðbundinni leið er áherslan á að styðja við samfélög með því að skoða þarfir samfélagsins, áhyggjur og vandamál. Markmiðið er að breyta stofnunum samfélagsins og hreyfiaflið eru völd og valdhafar en litið er á einstaklinginn sem neytanda eða skjólstæðing (Allen o.fl., 2002). Hin leiðin er að gera samfélagsleg styrkleikakort sem efla samfélög með því að skoða þá styrkleika og resourca sem samfélagið býr yfir. Markmiðið er að efla samfélagið og hreyfiaflið eru sambönd, samstarf og samskipti. Litið er á einstaklinginn sem hreyfiafl sem á eignarhald í samfélaginu (Allen o.fl, 2002). Samfélagsleg styrkleikakort rýma því vel við áherslur tómstundastarfs um virðingu fyrir einstaklingnum og að hlutverk starfsins sé að byggja upp einstaklinginn út frá áhugasviði hans, draumum og styrkleikum. Samfélagsleg styrkleikakort geta verið margskonar en eiga það öll sameiginlegt að teikna upp þá styrkleika og þá resourca sem samfélagið býr yfir (Allen o.fl, 2002) Hér er dæmi um uppsetningu á samfélagslegu styrkleikakorti:

(Allen, 2002)

Þegar samfélagsleg styrkleikakort er unnið er mikilvægt að bera það undir ólíka þátttakendur samfélagsins til að þau endurspegli fjölbreyttni samfélagsins og er besta leiðin að fá fjölbreyttan hóp þátttakenda samfélagsins til að vinna kortið saman. Samfélagsleg styrkleikakort veita aukna innsýn inn í samfélag og samhengi starfseminar sem við höldum úti. Með aukinni innsýn opnast augu okkar fyrir því að til að bæta okkur þurfum við oft að líta út fyrir eigin samtök eða stofnun og auka samstarf og samskipti við aðra aðila samfélagsins. Ég mæli hiklaust með að útbúa samfélagslegt styrkleikakort með nýjum starfsmannahópi, einnig er hægt að gera það með þátttakendum í starfinu eða jafnvel blönduðum hópi starfsmanna, þátttakanda og annara hagaðila samfélagsins.

Guðmundur Ari Sigurjónsson
Mastersnemi í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands

Heimildir
– McKnight, John L. og  John P. Kretzmann. (1993). Building Communities From the Inside Out. Chicago: ACTA Publications.
– Allen, John C. og fleiri. (2002). Building on Assets and Mobilizing for Collective Action: Community Guide. Nebraska: CARI

„Æ, ég veit það ekki”

Sumarið 2016 þegar ég var 17 að verða 18 ára fékk ég það frábæra tækifæri til þess að vinna með hópi fólks á mínum aldri sem jafningjafræðari Hins Hússins. Það starf fól í sér að fræða ungmenni í 8 – 10. bekk í vinnuskólum landsins um nánast allt milli himins og jarðar. Við eyddum heilu dögunum þetta sumarið með unglingum og ræddum ýmislegt, allt frá landadrykkju yfir í endaþarmsmök.

Það sem stóð helst upp úr það sumar var hversu ótrúlega gefandi og skemmtilegt þetta var. Ég trúði ekki að ég væri að fá borgað fyrir þetta. Þótt ég hefði einungis verið nokkrum árum eldri en unglingarnir sem við fræddum á þessum tíma þá áttum við svo margt sameiginlegt. Ég tók samt eftir því að „unglingamenning“ þeirra var að vissu leyti nokkuð ólík minni sem ég upplifði á sínum tíma. Ég sá mig sjálfa endurspeglast í mörgum af unglingunum, bæði stelpunum og strákunum og hugsaði eiginlega daglega með mér: „Vá þessi getur gert svo miklu betur en á bara eftir að fatta það…vonandi.”

Þegar ég nefni að þau geti gert betur þá á ég við að vera þau sjálf. Með sínar sjálfstæðu skoðanir á hlutunum, sín eigin áhugamál sem þau sinna og hafa áhuga á, þekkja sig vel, sína kosti og ókosti og kunna að vinna með það í lífi sínu.

En hvernig eiga þau að fatta það?

Er þeim kennt það?

Er það á ábyrgð foreldranna að efla þetta hjá þeim?

Hvað með þá foreldra sem hafa í rauninni ekki fattað þetta almennilega hjá sér sjálfum?

Sem unglingur var ég í rauninni þessi týpíska „venjulega“ unglingsstelpa, óörugg, frekar feimin, þorði ekki að vera ég sjálf og frekar óviss með margt í lífinu almennt. Síðan þegar ég vann markvisst í sjálfri mér breyttist allt. Ef ég lít til baka sé ég hversu heppin ég var að velja menntaskóla þar sem ríkti almennt góður andi, fjölbreytt fólk með nokkuð heilbrigt hugarfar og skoðanir sem mótuðu hvort annað. Nokkrir skólafélagar mínir höfðu unnið í Jafningjafræðslu Hins Hússins og ég frétti af starfinu frá þeim. Ég varð gjörsamlega heilluð. Að fá borgað fyrir það að styrkja mig, fræðast um ýmislegt mjög áhugavert sem maður hafði velt fyrir sér í gegnum kynþroskann, fá að ræða þetta við önnur ungmenni og það úti í góða veðrinu!

Jafningjafræðsluferlið opnaði algjörlega augu mín. Það breyttist í rauninni allt þegar ég vann við það að fræða unglinga. Ég hætti að svara fólki „Æ, ég ég veit það ekki” sem var eitt vinsælasta svarið hjá unglingunum þegar við spurðum þau að ýmsu sem viðkom þeirra persónulegu skoðun. Hverjir þeirra helstu kostir og ókostir væru, hvað þeim fyndist um áfengisneyslu, hvaða aldur þeim þætti ákjósanlegur til að byrja að stunda kynlíf á o.s.frv.

Ég fékk svipuð svör þegar ég kynnti háskólanámið mitt um daginn fyrir unglingum.

„Eru þið búin að hugsa hvert þið viljið stefna?”

„Kom eitthvað í kynningunni ykkur á óvart?”

„Veit það ekki“ var algengasta svarið, eða hreinlega jafnvel ekkert svar.

Unglingar eru jafn mismunandi og þeir eru margir en útfrá þessari reynslu minni tel ég mikla þörf vera á styrkingu ungmenna. Styrkja sjálfstraustið, gagnrýna hugsun og hjálpa þeim að kveikja eldmóðinn sem býr innra með þeim. Það er svo stórkostlegt að sjá fólk blómstra í því sem það kýs að sinna. Reynum að forðast þessa setningu „æ ég veit það ekki“ og hvetjum fólk í að hafa sína skoðun og standa með henni. Ef enginn hefur neinar sérstakar skoðanir á neinu hvernig veit viðkomandi þá hvað býr innra með sér?

Veist þú hvað býr innra með þér?

Ingveldur Gröndal

Hvernig nýtist námið fyrir tómstunda- og félagsmálafræðing?

Frítíminn er tíminn sem við eigum hvað mest af, tíminn sem við notum þegar við hittum vini, horfum á sjónvarpið eða jafnvel þegar við burstum tennurnar. Í raun og veru allur sá tími sem við verjum í lífi okkar utan svefns og vinnu. Þá er bara spurningin hvað þú ert að gera í frítímanum þínum? Hver hefur ekki heyrt einhvern segja „þessi, hann gerir ekki neitt annað en að spila tölvuleiki“ eða „hún er bara alltaf í símanum“. Það þarf ekki að líta lengra en í sinn eigin barm, til að sjá hvort maður sé að nýta þennan tíma í eitthvað uppbyggilegt eða ekki. Lesa meira “Hvernig nýtist námið fyrir tómstunda- og félagsmálafræðing?”

Kynfræðsla – Hlutverk skóla eða félagsmiðstöðva?

Ég held að flestir á mínum aldri muni eftir óþægilegum kennslustundum í kynfræðslu á unglingsstigi í grunnskóla. Ég man eftir að hafa setið í líffræðifræði tíma og horft óörugg í kringum mig þegar kennarinn setti spólu í tækið og við horfðum á fæðingu. Allir flissuðu og stelpurnar svitnuðu við tilhugsunina um að þær myndu kannski þurfa að ganga í gegnum þessa kvöð einn daginn. Við fengum síðan tvisvar sinnum kynfræðslu þar sem okkur var skipt í tvo hópa: stelpur og stráka. Hjá okkur stelpum var rætt um tíðahringinn, getnaðarvarnir og kynsjúkdóma. Í algjörri hreinskilni þá hljómaði kynlíf mjög óspennandi og hættulegt eftir þessa tvo tíma. Lesa meira “Kynfræðsla – Hlutverk skóla eða félagsmiðstöðva?”

Viðurkenning fyrirmyndarverkefna

Það var glatt á hjalla í Ungmennahúsinu Molanum í Kópavogi fimmtudaginn 2. nóvember þegar þrír nýútskrifaðir tómstunda- og félagsmálafræðingar tóku við viðurkenningu frá formönnum Félagi fagfólks í frítímaþjónustu (FFF) og Félagi íþrótta-, æskulýðs- og tómstundafulltrúa (FÍÆT) fyrir lokaverkefni sín til BA-prófs í tómstunda- og félagsmálafræði árið 2017. Félögin buðu að því tilefni til hádegisverðar þar sem gestir fengu súpu og brauð og þau sem hlutu viðurkenningar að þessu sinni kynntu verkefni sín við ánægju viðstaddra.

Lesa meira “Viðurkenning fyrirmyndarverkefna”