Það var glatt á hjalla í Ungmennahúsinu Molanum í Kópavogi fimmtudaginn 2. nóvember þegar þrír nýútskrifaðir tómstunda- og félagsmálafræðingar tóku við viðurkenningu frá formönnum Félagi fagfólks í frítímaþjónustu (FFF) og Félagi íþrótta-, æskulýðs- og tómstundafulltrúa (FÍÆT) fyrir lokaverkefni sín til BA-prófs í tómstunda- og félagsmálafræði árið 2017. Félögin buðu að því tilefni til hádegisverðar þar sem gestir fengu súpu og brauð og þau sem hlutu viðurkenningar að þessu sinni kynntu verkefni sín við ánægju viðstaddra.
Gísli Felix Ragnarsson fékk viðurkenningu fyrir verkefnið Við eigum öll að vera að gera vel – Reynsla og upplifun forstöðumanna af gæðamati félagsmiðstöðva. Umsögn dómnefndar var eftirfarandi:
Mjög vandað verkefni og vinnubrögð öll, hvort sem um er að ræða heimildarvinnu, umfjöllun eða úrvinnslu. Málfar og flæði í texta er gott og verkefnið skrifað á mjög góðri íslensku. Mat á starfi félagsmiðstöðva er nýtt af nálinni og mikilvægt að rýna í viðhorf og áhrif þess og sjá hvaða áhrif slíkt mat hefur á framþróun og fagmennsku. Verkefnið gefur góða innsýn í upplifun og viðhorf forstöðumanna til matsvinnunnar sem hefur hagnýtt gildi fyrir þá sem eru að vinna með slíkt mat eða eru að huga að slíku mati. Verkefnið getur nýst sem vogarafl í viðræðum við yfirvöld um aukið fjármagn til starfsins til að tryggja gæði í félagsmiðstöðvastarfi.
Þau Anna Lilja Björnsdóttir og Ívar Orri Kristjánsson fengu viðurkenningu fyrir verkefnið Þú átt í raun að hugsa um að rækta leiðtoga í sem flestum manneskjum – Áhrifavaldar leiðtoga í hópum. Umsögn dómnefndar var eftirfarandi:
Mjög vandað verkefni og vinnubrögð öll, hvort sem um er að ræða heimildarvinnu eða úrvinnslu. Vönduð fræðileg umfjöllun og gott málfar og flæði í texta. Verkefnið er einstaklega aðgengilegt aflestrar fyrir fagfólk á vettvangi sem og aðra áhugasama. Áhugavert viðfangsefni sem gefur hagnýtar vísbendingar fyrir þá sem mennta og/eða undirbúa fólk fyrir æskulýðsstarf á breiðum vettvangi. Að mati höfunda þarf betri undirbúning til þess að þeir sem vinna með börnum í frítímanum hafi hæfni til að rækta leiðtogahlutverkið í sem flestum einstaklingum. Ekki er hægt að ætlast til þess að allir nýti brjóstvitið og eigin reynslu eins og virðist vera miðað við viðtölin. Verkefnið er góður grunnur að forvarnarvinnu og nýtist öllum sem starfa á vettvangi íþrótta- og æskulýðsstarfs.
Dómnefnd að þessu sinni var skipuð fulltrúum beggja félaga en naut liðsinnis námsbrautar í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands sem tilnefndi þau sex verkefni sem hæstu einkunnir fengu þetta árið. Slík viðurkenning var síðast veitt árið 2010 þegar Hrafnhildur Stella Sigurðardóttir hlaut viðurkenningu fyrir verkefnið Tómstundir og stóriðja. Félögin tvö hyggjast gera slíkar viðurkenningar að árvissum viðburði. Markmiðið er að hampa því sem vel er gert en vekja um leið athygli á viðfangsefnum BA-verkefna sem mörg hver fjalla ítarlega um starf á vettvangi og eru því dýrmæt fyrir ungan fagvettvang í sífelldri mótun. Slík viðurkenning er vonandi hvatning til verðandi tómstunda- og félagsmálafræðinga ár hvert.
Frítíminn óskar þeim Gísla, Önnu Lilju og Ívari til hamingju með viðurkenningarnar og velfarnaðar í störfum sínum sem tómstunda- og félagsmálafræðingar. Jafnframt óskar Frítíminn félögunum tveimur til hamingju með þarft og skemmtilegt verkefni sem vonandi festist í sessi á næstu árum.