Dulin ást sem á skilið frelsi – í friði!

Ég viðurkenni að ég hef sjaldan sem aldrei velt kynhneigð eitthvað sérstaklega fyrir mér. Ég hef aldrei horft á einhvern einstakling sem gagnkynhneigðan eða samkynhneigðan, enda finnst mér kynhneigð hvers og eins ekki koma mér við. Kynhneigð fólksins í kringum mig skiptir mig jafn miklu máli og hvaða litur er í uppáhaldi hjá þeim.

Oft er talað um að einstaklingar komi út úr skápnum og afhjúpi þannig hver hann eða hún í rauninni er. Ég skil vel að þegar maður hefur þurft að fela sig í jafnvel fjölda ára og fær loks kjark til að koma til dyranna eins og hann er þá get ég vel ímyndað mér flugeldasýninguna sem verður í huga einstaklingsins. Loksins fær maður að vera eins og maður er! Á sama tíma velti ég því fyrir mér afhverju við þurfum að skilgreina okkur. Afhverju þarf einhver að koma út úr skápnum. Ég kynni mig aldrei og fylgi því eftir með því að segja frá því að ég sé gagnkynhneigð, enda er það mín tilfinning að fólk þurfi aðeins að segja frá því ef það er öðruvísi. En afhverju er samkynhneigð öðruvísi? Oft heyri ég að mannkynið gæti dáið út ef allir yrðu samkynhneigðir en mér þykir sú staðhæfing ansi hlægileg í ljósi þess að það hefur í raun lítil áhrif. Það eru ekki allir samkynhneigðir og þeir sem eru það geta ættleitt og svo geta konur fengið sæði og orðið þannig ófrískar. Það eru ótal þættir sem geta komið í veg fyrir fólksfjölgun og samkynhneigð er ekki hátt á lista þar. Til dæmis er hægt að nefna það að konur í dag kjósa heldur að mennta sig áður en þær eignast börn. Þar að auki skara Íslendingar framúr nágrannalöndum sínum hvað varðar kynsjúkdóma og margir þeirra geta gert einstakling ófrjóan. Þetta eru tvö dæmi af svo ótal mörgum sem í dag er að hafa mun meiri áhrif á fólksfjölgun, en það er eins og fólk vilji ekki viðurkenna það. Þetta er allt samkynhneigð að kenna.

Ef kona verður ástfangin af konu, er hún þá samkynhneigð? Það eru einstaklingar sem hafa alla sína tíð verið gagnkynhneigðir – þangað til þau hitta þann rétta. En hvað ef sá rétti er af sama kyni? Fólk er svo gjarnt á það að horfa á hlutina bara svart og hvítt. Oft snýst þetta um tvo einstaklinga sem verða ástfangnir, þó þeir séu að sama kyni.

Við fæðumst öll eins. Við erum lítil börn sem erum færð inn í þennan heim og lífið okkar er allt framundan. Við eigum öll skilið að fá að elska þann sem við elskum. Ef við finnum ástina okkar og sá einstaklingur elskar okkur til baka þá eigum við að njóta þess og leyfa ástinni að blómstra. Það er ekkert í huga mínum sem getur mögulega réttlætt það að einstaklingur fái ekki að njóta ástarinnar vegna þess að það eru einhverjar raddir í samfélaginu sem vilja ekki samþykkja þessa ást. Þegar einstaklingur verður 18 ára þá er hann sjálfráða og það hefur enginn rétt á því að setja sig í dómarasæti og banna tveimur einstaklingum að vera ástfangin. Að fá að leiðast, faðmast, kyssast og elskast. Þessi atriði eru partur af grunnþörfum hvers og eins og við eigum að fá að njóta. Sama hvort sem það sé með einstakling af sama kyni eða ekki.

Njótið.

Elskið.

Lifið.

Karlotta Helgadóttir