Hvernig nýtist námið fyrir tómstunda- og félagsmálafræðing?

Frítíminn er tíminn sem við eigum hvað mest af, tíminn sem við notum þegar við hittum vini, horfum á sjónvarpið eða jafnvel þegar við burstum tennurnar. Í raun og veru allur sá tími sem við verjum í lífi okkar utan svefns og vinnu. Þá er bara spurningin hvað þú ert að gera í frítímanum þínum? Hver hefur ekki heyrt einhvern segja „þessi, hann gerir ekki neitt annað en að spila tölvuleiki“ eða „hún er bara alltaf í símanum“. Það þarf ekki að líta lengra en í sinn eigin barm, til að sjá hvort maður sé að nýta þennan tíma í eitthvað uppbyggilegt eða ekki.

Þar kemur tómstunda- og félagsmálafræðin inn. Fáir vita hvað við í náminu erum að læra. Enda byrjaði háskólinn að kenna fagið. Enda er þetta bara mjög ungt fag. Við sem stundum þetta nám og aðrir sem eru búnir að útskrifast glíma oftar en ekki við að útskýra fyrir fólki í hverju námið felst. Hvað maður getur unnið við þegar BA gráða okkar er kominn í hús. Svarið er ekki svo einfalt, ekki eins og að segja „jú ég er í kennaranámi og ætla að verða íslenskukennari“. Ef fólk fer að skoða nánar hvað hvert og eitt nám bíður upp á eru möguleikarnir margir. Ég man eftir vettvangsheimsókn í MS á Selfossi, þar var maður að vinna á tilraunastofu við greiningu á mjólkurbakteríum. Þegar hann var spurður hvað hann væri menntaður kom í ljós að hann var menntaður sem dýralæknir. Hann kom aldrei nálægt neinum dýrum. Hver vissi að það væri möguleiki. Nám er því ekki bara nám, það eru líka dyr sem opnast að ýmsum möguleikum.

Svo hvað gera tómstunda- og félagsmálafræðingar? Við getum unnið við viðburða- og verkefnastjórnun, hjálpað við skipulagningu tónleika eða brúðkaup. Einnig skilst mér að við lok námsins fáum við næga menntun til þess að verða forstöðufólk í  félagsmiðstöðvum eða frístundamiðstöðvum, þó persónulega finnst mér vanta smá reynslu hjá fólki áður en það getur farið að hoppa í djúpu laugina þar. Svo síðast en ekki síst fáum við líka góða menntun til þess að vinna með fólki almennt. Þetta er ekki bara félagsmiðstöðvarstarfsemi eða vinna með börnum og unglingum heldur fólki á öllum aldri. Hjálpa því að spreyta sig áfram og vinna með frítímann sinn á jákvæðan hátt. Þetta er bara toppurinn af ísjakanum af því sem mér finnst vera mest spennandi atvinnumöguleikar eftir námslok.

Eins og sagan segir okkur þá breytast líka starfsgreinar. Ég sé fyrir mér að tómstunda- og félagsmálafræðingar vinni innan stórra fyrirtækja til þess að ná fram heildar liðsanda fyrirtækja. Við höfum bara rætt um grunninn á náminu, þá á eftir að tala um alla fyrirlestrana og áfangana sem eru í boði fyrir okkur í tómstunda- og félagsmálafræðinni. Skapandi og lifandi nám og bíður upp á enn skemmtilegri atvinnu eftir námslok.

Vilhjálmur Snær Ólason