Vissir þú þetta um félagsmiðstöðvastarfsmenn?

ÞVE myndFélagsmiðstöðvar hafa verið til í einhverri mynd síðan 1956 sem afdrep fyrir unglinga. Undanfarin ár hefur orðið gífurleg þróun í starfi félagsmiðstöðva, allavega í Reykjavík, og fagstarfið sem þar er unnið skákar oft á tíðum því sem best gerist annars staðar í heiminum. Undirritaður hefur rekið sig á stórskemmtilega fordóma gagnvart starfi félagsmiðstöðva og bakgrunn félagsmiðstöðvarstarfsmanna; talið að þeir séu bara að leika sér og jafnvel í einhverri pattstöðu í lifinu. Því fer ansi fjarri raunveruleikanum.

Vissir þú að…

… forstöðumaður félagsmiðstöðvar þarf að hafa lokið háskólaprófi á uppeldissviði?

… félagsmiðstöðvarstarfsmenn ná stundum að mynda tengsl og vera betur meðvitaðir um félagslegan bakgrunn unglinganna en foreldrar þeirra?

… foreldrar unglinga í vímuefnavanda leita stundum til félagsmiðstöðvastarfsmanna í úrræðaleysi sínu til að reyna tjónka við unglingi?

… félagsmiðstöðvarstarfsmenn eru stundum einu aðilarnir sem unglingurinn treystir fyrir vandamálum og vangaveltum sínum?

… barnavernd fær einna flestar tilkynningar frá félagsmiðstöðvum  (enda ber þeim skylda að tilkynna skv. tilkynningarskyldu) á eftir lögreglu?

… í sumum hverfum Reykjavíkur leggja nánast allir unglingar leið sína í félagsmiðstöðina einhverntíman yfir skólaárið en að ca helmingur reykvískra unglinga mætir vikulega eða oftar?

… félagsmiðstöðvar í Reykjavík fara eftir þremur höfuðgildum; forvarnargildum, menntunargildum og afþreyingargildum. Og að allt starf er skipulagt með þessi gildi að leiðarljósi?

… allir nýir starfsmenn félagsmiðstöðva í Reykjavík fara á grunnnámskeið um starfsemi félagsmiðstöðva, skyndihjálparnámskeið og fræðsludag um verklag í félagsmiðstöðvum. Auk þess að forstöðumaður handleiðir nýjan starfsmann markvisst inn í starfið eftir móttökuáætlun félagsmiðstöðvarinnar?

… félagsmiðstöðvarstarfsmenn eru oft meðvitaðri um félagslega stöðu unglinga en margir aðrir í umhverfinu þeirra?

… félagsmiðstöðvar eru með facebook-síður og einn tilgangur þess er að fylgjast með netvenjum unglinganna og grípa inn óviðeigandi  í aðstæður?

… hver einasta félagsmiðstöð í Reykjavík rýnir í rannsóknir um hagi og líðan unglinga í sínu hverfi og skipuleggur starfsemina út frá þeim?

… hugsanlega er hvergi að finna jafn margar verklagsáætlanir og í starfi félagsmiðstöðva?

… flestir starfsmenn félagsmiðstöðva í Reykjavík eru í eða hafa lokið háskólanámi?

… þessi listi gæti verið miklu lengri?

Með þessum orðum hnykki ég á því að félagsmiðstöðvarstarfsmenn eru ekki að gera bara eitthvað í sínu starfi. Þeir eru fagmenn fram í fingurgóma að vinna markvisst fagsstarf í viðleitni sinni til að skila sjálfsstæðum, sjálfsöruggum, umburðarlyndum og lífsglöðum einstaklingum út í lífið. Og það sem meira er; flestir félagsmiðstöðvarstarfsmenn elska vinnuna sína.

Þorsteinn V. Einarsson
Deildarstjóri unglingastarfs
Frístundamiðstöðin Kampur

Verkfæraþristur – Guðmundur Ari

Við erum að fara af stað með nýjan lið hér á Frítímanum sem við kjósum að kalla „Verkfæraþristur”. Í Verkfæraþristi fer fram stutt kynning á einstaklingi með reynslu af vettvangi frítímans. Einstaklingurinn kynnir svo til leiks þrjár æfingar sem eru í uppáhaldi hjá honum þegar hann vinnur með hópum. Ein æfingin á að vera ísbrjótur, nafnaleikur eða orkuskot. Önnur æfingin skal vera Hópeflis, samvinnu og/eða traustæfing. Þriðja æfingin skal svo vera ígrundunar- eða enduvarpsæfing. Markmiðið með Verkfæraþristinum er að deila þekkingu hvort með öðru og skapa gagnabanka sem hægt er að nýta við skipulagningu á hópastarfi.


 

Nafn: Guðmundur Ari Sigurjónsson10671261_10205150952643908_7182377107898842184_n

Aldur: 26 ára

Starf: Verkefnastjóri í félagsmiðstöðinni Selinu og ungmennahúsinu Skelinni. Formaður Félags fagfólks í frítímaþjónustu. Umsjónarmaður Ungmennaráðs Seltjarnarness.

Menntun: B.A. í Tómstunda- og félagsmálafræði

Uppáhalds verkfæri í hópastarfi: More Than One Story! 🙂

 

Ísbrjótur, nafnaleikur eða Orkuskot (energizer)

Patí, patí, patí, quack quack! 

Markmið:

 • Að koma blóðinu á hreyfingu
 • Nota röddina
 • Snerting
 • Hækka orkustig hópsins
 • Fíflast og hlæja

Fjöldi: 7+
Tími: 20 mínútur
Hvað þarf til?:
Ekkert
Undirbúningur: Enginn
Framkvæmd: 

 • Fá alla til að fara í allir dansa kónga röð.
 • Valfrjálst hvort maður hvetur þátttakendur til að gefa næsta manni smá axlanudd áður en lengra er haldið.
 • Næst er leikurinn útskýrður en hann er s.s. þrjár umferðir af labbi í halarófu og að gefa frá sér andahljóð á sama tíma.
 • Fyrst á hópurinn að túlka „pabba önd” sem gengur stór og klunnaleg skref og gefur frá sér djúpt „quack quack, quack quack!” hljóð í hverju skrefi.
 • Því næst á hópurinn að ganga um sem „mamma önd”. Hún er með stórar mjaðmahreyfingar og gefur frá sér kvenlegt „quack quack, quack quack!”
 • Að lokum gengur hópurinn um sem andarunginn sem tipplar á tánum og syngur „patí, patí, patí, quack quack!” Patí er sungið á hverju skrefi og svo þegar kemur að „quack quack” hópar hópurinn.
 • Mikilvægt er að hópurinn sé samtaka og syngi með.
 • Næst er hægt að endurtaka allan leikinn með hendur á mjöðum. Á eftir því er svo hægt að endurtaka með hendur á ökklum en þá þarf hópurinn að krjúpa. Hvert skref eykur erfiðleikastigið og þarf að meta hópinn hverju sinni.

Enduvarp: Oftast tek ég þessa æfingu sem létta upphitunaræfingu og fer svo beint í áframhaldandi hópavinnu. Það er þó hægt að sjálfsögðu hægt og hugsanlega best fatta ég þegar ég er að skrifa þetta að loka æfingunni með því að spyrja hann útí sína upplifun og gefa einstaklingum færi á að tjá sig um æfinguna og framkvæmdina, hvað stóð uppúr og hvað var krefjandi.

Hópeflis-, samvinnu og/eða traustæfing (team building)

Stólað yfir hafið

Markmið: 

 • Stuðla að samvinnu innan hópsins
 • Auka traust innan hópsins
 • Fá hópinn til að setja sér markmið
 • Snerting
 • Fíflast og hlæja

Fjöldi: 10+
Tími: 60 mínútur
Hvað þarf til?: Jafn marga stóla og þátttakendur
Undirbúningur: Ákveða upphafs- og endapunkt sem hópurinn þarf að ferðast á milli án þess að snerta jörðu. Lengdin á leiðinni ákveður að mestu lengdina á æfingunni svo gott er að taka mið af tímanum sem ætlaður er í æfinguna þegar leiðin er ákveðin. Gott er að hafa hindranir eins og dyragættir og beygjur með.
Framkvæmd: 

 • Raða upp stólum á byrjunarpunkti og fá alla þátttakendur til að standa upp á stól.
 • Útskýra æfinguna fyrir þátttakendum. Markmið hópsins er að komast á endapunktinn án þess að snerta jörðu. Hópurinn þarf að hjálpast að til að ná alla leið. Setja leikinn af stað.
 • Þegar þátttakendur leggja af stað tekur hópstjóri stól af þeim sem oftast kallar á sterk viðbrögð hópsins. Þá útskýrir hópstjórinn að hann muni reyna fjarlægja eins marga stól og hægt er. Hann hvetur hópinn til að setja sér markmið hvað hann telur að hann þurfi marga stóla til að klára æfinguna.
 • Hópstjóri fjarlægir svo eins marga stól og hægt er á leiðinni. Mikilvægt er að gera æfinguna krefjandi svo hópurinn þurfi að þjappast saman, halda hvert öðru og hafa fyrir þessu. Hafa skal þó í huga að markmiðið er þó að hópurinn klári æfinguna.
 • Þegar hópurinn kemst svo á endapunktinn eru taldir þeir stólar sem eftir eru.

Enduvarp: 

 • Afar mikilvægt er eftir þessa æfingu að setjast niður með hópnum og fara yfir æfinguna.
 • Hægt er að byrja á því að skoða framkvæmdina og hvernig gekk út frá markmiðinu sem hópurinn setti sér.
 • Því næst er hægt að spyrja hópinn útí hvernig honum fannst hann hafa unnið saman. Hvernig setti hann sér sameiginlegt markmið? Tók einhver frumkvæði? Var leitað af niðurstöðum sem allur hópurinn var sáttur við? Voru sumir meira virkir en aðrir? Hver voru mismunandi hlutverk hópmeðlima? Afhverju?
 • Að lokum er gott að skoða upplifun einstaklingana á æfingunni. Hvað fannst þeim krefjandi og hvað stóð uppúr.

Endurvarp (debriefing) eða ígrundun (reflection)

Steinamat

Markmið: 

 • Að fá einstaklinga til að líta um öxl, rifja upp og leggja mat á verkefni, upplifun eða reynslu.
 • Virkja alla til að hugsa og mynda sér skoðun án þess að setja of mikla pressu á hvern og einstakling til að tjá sig fyrir framan allan hópinn.

Fjöldi: 5+
Tími: 10-60 mínútur
Hvað þarf til?:

 • Undirlag sem hægt er að merkja stórar hring á. T.d. fjöru, sand eða möl
 • Einn stóran stein og jafnmarga minni og þátttakendur eru margir

Undirbúningur: 

 • Útbúa spurningar sem spyrja á hópinn sem hægt er að meta á skala. T.d. frá góðu til slæms
 • Draga stóran hring í sandinn eða hvaða yfirborð sem æfingin fer fram á
 • Setja stóra steininn í miðjan hringinn og útdeila minni steinunum á hvern þátttakenda

Framkvæmd: 

 • Útskýra æfinguna fyrir þátttakendum.
 • Hópstjóri spyr svo spurningar eða kemur með fullyrðingu.
 • Þátttakendur stíga inn í hringinn og staðsetja steininn sinn eftir því hvar þeir staðsetja sig á skalanum sem hópstjórinn gefur. Dæmi: Hópstjóri setur fram fullyrðinguna „ég lærði mikið af nýjum hlutum á þessu námskeiði” og biður svo þátttakendur til að stíga inn í hringinn og staðsetja steininn sinn þar sem miðjan er að vera 100% sammála og útjaðar hringsins þýðir að einstaklingur sé ósammála.
 • Hópstjóri gefur svo 2-3 einstaklingum færi á að segja frá hvar þeir staðsetju sinn stein og afhverju. Mikilvægt er að þetta sé ekki skylda heldur aðeins valfrjálst. Hópstjóri metur útfrá fjölda hópsins og tíma hversu margir fá að segja frá í hverri umferð.
 • Þátttakendur ná svo í steininn sinn og spurð er önnur spurning eða fullyrðing lögð fram

Enduvarp: Æfingin er í heild sinni endurmat á stærra verkefni eða ferðalagi sem hópur hefur gengið í gegnum saman. Hægt er þó að enda æfinguna á að spyrja hópinn hvernig honum hafi fundist framkvæmdin á æfingunni hafa gengið, hvernig honum hafi liðið á meðan á æfingunni stóð. Hvað var krefjandi fyrir þátttakendur og hvað stóð uppúr.


 

Ég skora á góðvin minn og bekkjarbróðir, Boga Hallgrímsson til að koma með næsta verkfæraþrist!

Skilgreining á hugtökum á vettvangi frítímans

Þegar sessunautur minn á ráðstefnunni Íslenskar æskulýðsrannsóknir rakst á setningu sem stuðaði hann úr nýsamþykktri stefnu í æskulýðsmálum fyrir árin 2014-2018 spruttu fram líflegar umræður um hugtök og hugtakarugling á vettvangi frítímans. Setningin er svohljóðandi:

„Stuðla að jafnvægi milli þátttöku í æskulýðsstarfi, öðru frístundastarfi, fjölskyldulífi og námi.”

(Menntamálaráðuneytið, 2014)

Umræðan sem fór af stað snéri s.s. að því hver væri munurinn á æskulýðsstarfi og öðru frístundastarfi. Allir sem tóku þátt í umræðunni voru sammála um að frístundastarf og tómstundastarf væri sama hugtakið og að æskulýðsstarf myndi svo flokkast þar undir. Ég viðurkenni að ég var sjálfur ansi hvumpinn yfir þessum hugtakaruglingi en þegar ég les þetta nú aftur er ég hjartanlega sammála þessari setningu.

Ungmenni getur tekið þátt í æskulýðsstarfi, námi, fjölskyldulífi og öðru frístundastarfi sem gæti t.d. verið málfundarfélag með fullorðnum einstaklingum. Það myndi flokkast undir frístundastarf en ekki æskulýðsstarf. En þessar endalausu umræður kalla alltaf eftir því að tekið verði á skarið og hugtök skilgreind.

Nú stendur yfir mikil vinna og er það gott og vel en ég vil leggja mitt á vogaskálarnar og koma með skilgreiningar á þessum helstu hugtökum. Ég vona að sem flestir verði ósammála mér og blandi sér í umræðuna með sínar uppástungur. Svona stilli ég upp hugtökum og uppröðun á þeim. Ég leitast svo við að skilgreina hugtökin fyrir neðan myndina.

Skilgreining á vettvangi frítímans

Skilgreiningar á helstu hugtökum

Frítími (e. free time)

Frítími er allur sá tími sem við höfum til aflögu og ráðum hvernig við ráðstöfum. Með öðrum orðum tími sem við erum ekki bundin verkefnum, starfi, skyldum eða þörfum. Við getum bæði nýtt þennan tíma til góðra hluta og slæmra.

Tómstundir / frístundir (e. leisure)

Engin eðlismunur er á hugtakinu tómstundir og frístundir. Það er hægt að rökræða þetta lengi en þetta er svipað og fólk sem eyðir tíma sínum í að rökræða hvort maður segir „gat” eða „eyða” þegar frí er milli kennslustunda í stundatöflu. Tóm stund eða frí stund er sami hluturinn og smekksatriði hvað fólki finnst fallegra. Það er bara gott og blessað.

„Í grundvallaratriðum má segja að tómstundir eigi sér stað í frítíma. Tómstundir eru því athöfn, hegðun eða starfsemi sem á sér stað í frítímanum og flokkast sem tómstundir að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Þau skilyrði eru að einstaklingurinn líti sjálfur á að um tómstundir sé að ræða. Að athöfnin, hegðunin eða starfsemin sé frjálst val og hafi í för með sér ánægju og jákvæð áhrif. Kjarni tómstunda má segja að felist í vellíðan og aukningu á lífsgæðum.

Í þessari skilgreiningu er gerður skýr greinarmunur á frítíma og tómstundum. Tómstundir eiga sér yfirleitt stað í frítíma en ekki allur frítími er tómstundir. Afstaða er því tekin gegn þeim sem líta á glæpi og ýmsa niðurbrjótandi hegðun sem tómstundir en með þeim sem líta svo á að tómstundir séu jákvæðar og uppbyggjandi. “

(Vanda Sigurgeirsdóttir, 2010)

Undir tómstundastarf koma svo ýmsir undirflokkar sem skilgreinast einna helst af markhópnum sem starfið snýr að. Dæmi um tómstundastarf er því félög og klúbbar fyrir fullorðna eða blandaða aldurshópa og félagsstarf aldraðra. Æskulýðsstarf flokkast einnig undir tómstundastarf.

Æskulýðsstarf (e. youth work)

Í æskulýðslögum nr. 70/2007 er æskulýðsstarf skilgreint sem:

„Með æskulýðsstarfi er átt við skipulagða félags- og tómstundastarfsemi þar sem börn og ungmenni starfa saman í frístundum sínum að hugsjónum, markmiðum og áhugamálum sem þau sjálf meta að verðleikum. Í skipulögðu æskulýðsstarfi skal hafa í huga félags-, forvarna-, uppeldis- og menntunarlegt gildi þess sem miðar að því að auka mannkosti og lýðræðisvitund þátttakenda. Í öllu starfi með börnum og ungmennum skal velferð þeirra höfð að leiðarljósi og þau hvött til frumkvæðis og virkrar þátttöku. Lögin miðast við æskulýðsstarf fyrir börn og ungmenni, einkum á aldrinum 6–25 ára.”

Undir æskulýðsstarf flokkast þá:

 • Frístundaheimili
 • Félagsmiðstöðvar
 • Ungmennahús
 • Starf frjálsra félagasamtaka sem snýr að ungu fólki og uppfyllir skilgreininguna hér að ofan
 • Sjálfstætt starf og félög ungs fólks sem uppfylla skilgreininguna hér að ofan

Allir sem starfa sem sjálfboðaliðar eða launaðir starfsmenn við æskulýðsstarf eru kallaðir æskulýðsstarfsmenn (e. Youth worker). Þetta á jafnt við um sjálfboðaliða og starfsmenn sem frá greitt fyrir vinnu sína enda eru hlutverk og markmið þau sömu. Stundum hef ég heyrt að það vefjist fyrir fólki þetta orð „starfsmaður” ef ekki eru greidd laun fyrir. Fyrir þá sem hugsa svoleiðis vil ég vekja athygli á yfirheitinu „æskulýðsstarf” sem gefur til kynna að visst starf sé unnið burt séð frá því hvort greitt sé fyrir vinnuna eða ekki. Einnig er gott að skoða orðræðuna okkar um „að starfa”, t.d. Sigurður hefur gengt ýmsum störfum fyrir samtökin, Sigurður hefur verið virkur í starfinu í mörg ár, Sigurður hefur unnið gott starf fyrir félagið. Við hikum ekki við að tala um störf og starf sem einstaklingar vinna í sjálfboðavinnu og því ekkert að því að kalla þá starfsmenn.

Lokaorð

Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að þetta er ekki sú hugtakanotkun sem allir hafa notað alltaf. EN ég tel að þetta séu skýr hugtök og að ef við sem þjóð, starfsvettvangur eða hvað það er sem sameinar okkur, ákveðum að notast við skýr hugtök næstu árin munu allir geta sammælst um merkingu þeirra.

Ég meina gaffall heitir ekki gaffall nema út af því að við ákváðum að kalla hann gaffal!

Heimildir

Menntamálaráðuneytið. (2014). Stefnumótun í æskulýðsmálum 2014-2018. Reykjavík: Menntamálaráðuneytið.

Vanda Sigurgeirsdóttir. (2010, 31. desember). Skilgreining á hugtakinu tómstundir. Ráðstefnurit Netlu – Menntakvika 2010. Sótt 16. janúar 2013 af http://netla.khi.is/menntakvika2010/025.pdf.

Æskulýðslög nr. 70/2007.

Ungmennaþing í stað lokaðs ungmennaráðs

ungness logoFyrir fimm árum fórum við á Seltjarnarnesi af stað með eitt skemmtilegasta verkefni sem ég hef tekið þátt í þegar við lögðum í það að stofna Ungmennaráð Seltjarnarness eða Ungness. Við nálguðumst verkefnið þannig að Ungness yrði skipað ungmennum sem væru 16 ára og eldri og var markmiðið sem við lögðum af stað með að ráðið yrði bænum til ráðgjafar á stjórnsýslustiginu ásamt því að halda viðburði og fræðslu fyrir ungmenni á menntaskólaaldri á Nesinu.

Við boðuðum nýútskrifuð ungmenni í félagsmiðstöðina og auglýstum kosningar í ráðið. Góð mæting var á þennan stofnfund en 19 ungmenni lögðu leið sína á fundinn og 12 gáfu kost á sér til setu í ráðinu. Haldnar voru framboðsræður og svo kosnir 7 fulltrúar ungmennana í Ungmennaráð Seltjarnarness. Veturinn fór vel af stað og héldum við úti opnun fyrir 16+ einu sinni í viku í félagsmiðstöðinni og var mætingin góð. Þegar líða fór á veturinn fór hópurinn þó að þynnast og hægt og rólega fóru ungmenni sem ekki voru í ráðinu að hætta að mæta.

Þetta fyrsta sumar tókum við þátt í ungmennaskiptum á vegum Evrópu unga fólksins með sænsku ungmennaráði frá Lundi. Þetta sænska ráð hafði verið starfandi frá aldamótum og voru með allt annan strúktúr á sínu ráði en við. Þar var ekki kosið í neitt ráð heldur var ráðið opið öllum sem vildu taka þátt og byggðist starfið upp á ungmennaþingum sem haldin eru fjórum sinnum á ári. Á þessi ungmennaþing eru öll ungmenni Lundar velkomin en í Lundi búa rúmlega 80.000 manns. Þingin eru alltaf með ákveðin þemu og eru fræðsla og umræður út frá þemanu. Á þinginu velja ungmennin sig svo í nefndir og vinna verkefni út frá sinni nefnd.

Eftir að hafa kynnst þessum sænska strúktúr og bera hann saman við okkar ákváð Ungmennaráð Seltjarnarness að breyta sínu fyrirkomulagi og heimfæra sænska stílinn á Seltjarnarnes þar sem búa rúmlega 4000 manns.

Ákveðið var að opna ungmennaráðið og í staðinn fyrir að hafa það lokað ráð með kjörnum fulltrúum, að gera það að opnu ráði þar sem öll ungmenni Seltjarnarness mættu taka þátt í verkefnunum og segja sína skoðun sem. Við tókum upp á því að halda fjögur Ungmennaþing á ári en á þau eru allir Seltirningar á aldrinum 16-25 ára boðaðir og þeir sem mæta á þingin eru með atkvæðis- og tillögurétt. Á þingunum er farið yfir verkefni síðastliðinna þriggja mánaða og næstu þrír skipulagðir. Stundum er skipulagt lengra fram í tímann en þetta er svona grunnstefið sem miðað er við.

Við það að opna ráðið og halda þessi fjögur þing sem virka eins og púlsinn í starfseminni jókst þátttaka til muna og verkefnin samhliða því. Á hverju þingi er ákveðið hvaða verkefni skal ráðast í og skipaðir eru verkefnastjórar eða nefndir fyrir hvert verkefni. Það má í raun segja að í staðinn fyrir að hafa eitt ráð sem hefur yfirumsjón með öllum verkefnum er Ungmennaráðið orðið vettvangur þar sem ungt fólk kemur saman til að framkvæma verkefni og myndaðar eru minni nefndir fyrir hvert verkefni af þeim sem vilja koma að því verkefni. Við hugsum þetta sem hugarkort eða bubblukerfi eins og við höfum kallað það.

 

Ungness
Hluti af verkefnum Ungness. Verkefni fæðast út frá ráðinu og allir jafnir.

Eftir að við tókum upp á þessu kerfi hefur ungmennaráðið vaxið og dafnað, endurnýjun hefur verið góð á sama tíma og stofnmeðlimir taka enn þátt í starfinu. Það góða við þetta kerfi er það að þú þarft ekki að vera með í öllum verkefnum og þarft ekki að bjóða þig fram til að vera einn af sjö heldur geturðu valið þér verkefni sem þú hefur áhuga á. Þetta minnkar pressuna á krakkana sem margir hverjir hafa nóg á sinni könnu og þurfa þau ekki að vera all inn alltaf heldur kemur maður í manns stað.

Guðmundur Ari Sigurjónsson
Tómstunda- og félagsmálafræðingur
Verkefnastjóri í Selinu og Skelinni

Spennandi ár framundan hjá Félagi fagfólks í frítímaþjónustu

DSC_0095-2

Nú þegar sumarið fer að líða undir lok og fólk mætir aftur til vinnu eftir sumarfrí þá fer starfsemi Félags fagfólks í frítímaþjónustu á fullt. Við í stjórn FFF ásamt nefndum höfum verið útbúa starfsáætlun fyrir veturinn og hefur hann sjaldan litið jafn vel út. Nú þegar er skráning hafin á námskeið fyrir leiðbeinendur í Reynslunámi en það er haldið í samstarfi við Áskorun ehf og má nálgast frekari upplýsingar hér en örfá sæti eru laus á þetta spennandi námskeið.

Í vetur stefnir fagfélagið á að halda 2 hádegisfyrirlestra á önn en þeir hafa verið vel sóttir síðastliðin ár. Fagfélagið mun í samstarfi við Æskulýðsvettvanginn halda fimm námskeið í Litla Kompás víðsvegar um landið á haustönn. Einnig stefnum við á að halda fleiri námskeið í samstarfi við Háskóla Íslands en það samstarf hófst á síðasta ári og lukkaðist afar vel.

Ein spennandi nýjung sem við í stjórninni erum þegar byrjuð að undirbúa er námsferð sem fagfélagið stefnir á að fara í á næsta ári. Stefnan væri þá að ferðast til Evrópu, kynnast systrasamtökum FFF ásamt því að fá innsýn inn í það nýjasta í frístundastarfinu úti.

Ef þú hefur áhuga á að taka þátt í spennandi starfi fagfélagsins í vetur þá hvetjum við þig til að skrá þig í félagið en það er gert með einföldum hætti hér.

Hér má svo lesa starfsáætlun stjórnarinnar í heild sinni.
Likeaðu við FFF á Facebook

Guðmundur Ari Sigurjónsson
Formaður Félags fagfólks í frítímaþjónustu

 

More Than One Story

LOGOTYPE_webb

More Than One Story er spil sem við hjá Frítímanum þýddum og gáfum út.

Spilið er frábær skemmtun og snýst það um að fá fólk til að segja hvert öðru jákvæðar sögur af sjálfum sér. Spilið er spilastokkur sem samanstendur af spilum sem innihalda öll tilmæli um sögur sem leikmenn eiga að segja hver öðrum. Stokkurinn gengur svo manna á milli og skiptast leikmenn þannig á að segja hver öðrum sögur. Spilið virkar jafn vel með börnum sem og eldri borgurum enda er spilið aldrei eins og er það í raun hópurinn sem spilar spilið sem býr það til með sögunum sínum.

Dæmi um tilmæli á spili er:
„Segðu frá hæfileika sem þú býrð yfir og hvernig þú notar hann.”
„Segðu frá stund sem þú værir til í að endurupplifa.”

More Than One Story er ekki aðeins skemmtilegt spil fyrir vinahópinn og fjölskylduna heldur er það einnig frábært verkfæri fyrir alla þá sem vinna með fólki. Spilið þéttir hópa, æfir tjáningu, framkomu og virka hlustun einstaklinga ásamt því að það gefur öllum jafnt tækifæri á að tjá sig við hópinn.

Spilið er selt í Spilavinum og bókabúðum IÐU við Lækjargötu og í Zimsen húsinu. Einnig er hægt að senda póst á [email protected] og fá eintak sent í pósti.

Umsagnir um spilið

Katrín Vignisdóttir
Katrín Vignisdóttir – Starfsmaður í félagsmiðstöð

Katrín Vignisdóttir – Nemi í tómstunda- og félagsmálafræði og starfsmaður í félagsmiðstöð
Það er erfitt að lýsa andrúmsloftinu sem myndast þegar spilað er spilið More Than One Story. Um leið og spilið byrjar gefur maður sig allan í sögu annarra og bíður spenntur að heyra hvað næsti einstaklingur hefur að segja. Hver saga sem er sögð er sérstök og lifir maður sig inn í hverja og eina þeirra. Spilið er frábært verkfæri fyrir alla sem vinna með fólki til að kynnast því betur, opna á eigin tilfinningar, hlæja saman og upplifa frábæra sögustund. Ég persónulega hef fengið að prófa spilið með ýmsum hópum og eru kostir þess mjög margir, það sem er eflaust best við það er að það gengur með hvaða hóp sem er og slær alltaf í gegn.

 

 

 

 

Guðmundur Ari - Tómstunda- og félagsmálafræðingur
Guðmundur Ari – Tómstunda- og félagsmálafræðingur

Guðmundur Ari Sigurjónsson – Tómstunda- og félagsmálafræðingur og verkefnastjóri í félagsmiðstöð og ungmennahúsi
More Than One Story er ekki bara skemmtilegt spil heldur er það einnig frábært verkfæri fyrir mig sem æskulýðsstarfsmann til að fá fólk til að tjá sig, deila sögum og hlusta hvert á annað. Hvort sem ég hef spilað spilið með eldri borgurm, börnum eða ungmennum þá eru allir á einu máli að spilið sé bráðskemmtilegt og að maður kynnist hópnum sem maður hélt að maður þekkti enn betur. Ég hef notað spilið í hópastarfi, í tjáningakennslu og sem verkfæri til að brúa kynslóðabil á milli eldri borgara og ungmenna og mæli hiklaust með More Than One Story.