Leikjaorðasafn til umsagnar

Skjal með leikjaorðasafni til yfirlestrar

Í kjölfar fyrstu útgáfu Orðasafns í tómstundafræði hefur orðanefnd í tómstundafræði unnið að því að taka saman leikjaorðasafn. Orðasafnið verður hluti af orðasafni í tómstundafræði sem er hluti af Íðorðabankanum sem Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum heldur úti.

Orðanefndin óskar nú eftir ábendingum áhugasamra á leikjaorðasafnið áður en það fer í formlega útgáfu og inn í Íðorðabankann fyrir 28. maí nk. Ábendingum um leikjaorðasafnið er hægt að skila hér.

Orðanefnd í tómstundafræði var stofnuð í júní 2013 og gaf út fyrstu útgáfu Orðasafns í tómstundafræði árið 2019. Þeir aðilar sem komu að stofnun nefndarinnar hafa í mörg ár fundið mjög sterkt fyrir því að fagleg og almenn umræða um tómstundir, frístundir, frítíma, æskulýðsmál og skyld svið er ekki nægilega skýr. Fræðasviðið er ungt á Íslandi og því hafa hugtakanotkun og orðræða mótast í starfi á vettvangi á ómarkvissan hátt. Því var talið brýnt að styrkja faglega orðræðu með stofnun orðanefndar og útgáfu orðasafns.

Orðasafn í tómstundafræði er í sífelldri notkun og uppflettingum í Íðorðasafninu á netinu, þar sem Orðasafn í tómstundafræði er vistað, hefur fjölgað. Síðan þá hefur vinna nefndarinnar haldið áfram enda markmið hennar að kortleggja helstu hugtök og íðorð fræða- og fagvettvangs tómstundafræðinnar.

Sem næsta skref í vinnu nefndarinnar varð fyrir valinu að beina sjónum að leikjaorðum. Nefndin sem starfað hefur óbreytt frá upphafi með þau Ágústu Þorbergsdóttur, Eygló Rúnarsdóttur, Huldu Valdísi Valdimarsdóttur og Jakob Frímann Þorsteinsson innanborðs fékk til liðs við sig sérfræðinga á sviði leiks og leiklistar í frístunda- og skólastarfi, þau Ásu Helgu Ragnarsdóttur Proppé og Ingvar Sigurgeirsson til vinnu við leikjaorðasafnið.

 

 

Af hverju er ekki meira gert fyrir börn og unglinga í Listasöfnum í Reykjavík?

 

Ég er nemandi í Listfræði við Háskóla Íslands og er að taka Tómstunda- og félagsmálafræði sem aukagrein við BA gráðuna mína. Einnig hef ég unnið hjá Reykjavíkurborg og farið með hópa af börnum og unglingum á listasöfnin í Reykjavík. Mér finnst mikilvægt að börn og unglingar kynnist listum vegna þess að það eykur þroska þeirra og skilning á menningu þeirri sem þau eru partur af. Listir eru uppeldisatriði og börn eiga rétt á að læra að njóta lista, eins og þau eiga rétt á að læra að lesa. Góður vettvangur fyrir börn og unglinga eru félagsmiðstöðvar sem kynna listir fyrir börnunum með því t.d. að fara með þau á listasöfn. Lesa meira “Af hverju er ekki meira gert fyrir börn og unglinga í Listasöfnum í Reykjavík?”

Spennandi ár framundan hjá Félagi fagfólks í frítímaþjónustu

DSC_0095-2

Nú þegar sumarið fer að líða undir lok og fólk mætir aftur til vinnu eftir sumarfrí þá fer starfsemi Félags fagfólks í frítímaþjónustu á fullt. Við í stjórn FFF ásamt nefndum höfum verið útbúa starfsáætlun fyrir veturinn og hefur hann sjaldan litið jafn vel út. Nú þegar er skráning hafin á námskeið fyrir leiðbeinendur í Reynslunámi en það er haldið í samstarfi við Áskorun ehf og má nálgast frekari upplýsingar hér en örfá sæti eru laus á þetta spennandi námskeið.

Í vetur stefnir fagfélagið á að halda 2 hádegisfyrirlestra á önn en þeir hafa verið vel sóttir síðastliðin ár. Fagfélagið mun í samstarfi við Æskulýðsvettvanginn halda fimm námskeið í Litla Kompás víðsvegar um landið á haustönn. Einnig stefnum við á að halda fleiri námskeið í samstarfi við Háskóla Íslands en það samstarf hófst á síðasta ári og lukkaðist afar vel.

Ein spennandi nýjung sem við í stjórninni erum þegar byrjuð að undirbúa er námsferð sem fagfélagið stefnir á að fara í á næsta ári. Stefnan væri þá að ferðast til Evrópu, kynnast systrasamtökum FFF ásamt því að fá innsýn inn í það nýjasta í frístundastarfinu úti.

Ef þú hefur áhuga á að taka þátt í spennandi starfi fagfélagsins í vetur þá hvetjum við þig til að skrá þig í félagið en það er gert með einföldum hætti hér.

Hér má svo lesa starfsáætlun stjórnarinnar í heild sinni.
Likeaðu við FFF á Facebook

Guðmundur Ari Sigurjónsson
Formaður Félags fagfólks í frítímaþjónustu

 

Listin að lifa er að kunna að leika sér

ástrósÍ námi mínu í Tómstunda og félagsmálafræði er það með því fyrsta sem við lærum, hversu mikilvægur leikurinn er. Með því að brjóta upp kennslustundir með leikjum og aukinni hreyfingu, förum við út fyrir þægindahringinn okkar með jákvæðum hætti. Heilmikið nám fer í gegnum leikinn; unnið er með traust, samvinnu og hópefli svo eitthvað sé nefnt.

Það þykir ef til vill mörgum sérstakt að nemendur í háskóla skuli vera úti í leikjum í stað þess að sitja í kennslustund og hlusta á fyrirlestur. Í hvert skipti sem einhver spyr mig út í nám mitt fæ ég að heyra hvað það er alltaf gaman hjá mér og að við séum bara alltaf að leika okkur. Ég segi kannski ekki að við séum alltaf að leika okkur en við gerum hinsvegar mikið af því. Við lærum heilmargt um tómstundir barna, unglinga og aldraða og oftast nær snúa tómstundir að einhverju sem er skemmtilegt, vekur áhuga og eykur vellíðan.

Það er líka alveg rétt að námið mitt er ótrúlega skemmtilegt og fjölbreytt en auðvitað eru fullt af krefjandi verkefnum líka. Við gerum bara svo miklu meira en að sitja yfir námsbókum og hanga inni á bóksafni daginn út og inn.

Í íslenskri orðabók er leikur útskýrður svona: Að gera sér eða öðrum til skemmtunar. Athöfn sem veitir líkamlega og/eða andlega vellíðan. Dregur viðkomandi út úr reglubundnu munstri dagsins.

Þegar talað er um leik þá er þekkt að tengja leikinn við börn en þó er ekki síður mikilvægt fyrir unglinga og fullorðna að leika sér. Leikurinn felur í sér mikið þroskagildi fyrir einstaklinginn og litið er á leikinn sem verkfæri til náms og undirbúning fyrir fullorðinsárin.

Flest okkar ölumst upp við það að vera mikið í leikjum, hvort sem það eru úti eða innileikir. Mín æska einkenndist allaveganna mikið af því að vera úti í leikjum. Sumrin einkenndust af því að vera úti frá morgni til kvölds í leikjum og koma rétt svo inn til þess að borða og sofa. Börnin vaxa síðan úr grasi og verða að unglingum og þá kemur allt í einu tímabil þar sem það telst frekar hallærislegt að leika sér og unglingar kjósa frekar að hanga saman.

Mannfólkið er þannig gert að það þróast og lærir alla ævi. Þess vegna er mikilvægt að viðhalda leiknum svo lærdómurinn haldi áfram svo lengi sem við lifum. Það er mjög mikilvægt að varðveita barnið í sjálfum sér og taka lífinu ekki of alvarlega.

Í grunninn höfum við öll gaman af því að leika okkur og vil ég enda þessa grein á því að vitna í uppáhalds frasann minn: Við hættum ekki að leika okkur því við eldumst, við eldumst því við hættum að leika okkur.

Ástrós Pétursdóttir
nemi í Tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands.

Tómstundamenntum þjóðina!

Innsend grein frá Agnari Júlíussyni tómstunda- og félagsmálafræðingi


Eitt sinn þegar ég var að gramsa á internetinu vegna verkefnis sem ég þurfti að skila af mér í háskólanáminu rakst ég á frétt í Viðskiptablaðinu frá 1. janúar 2010 sem nefndist “Kostnaður vegna öldrunar hleðst upp” og byggði hún meðal annars á grein sem finna má á vef Samtaka atvinnulífsins.

Þar kemur meðal annars fram að fjöldi íbúa á eftirlaunaaldri kemur til með að tvöfaldast á næstu fjórum áratugum í hlutfalli við fólk á vinnumarkaðsaldri ef við getum kallað það svo, það er að segja í Evrópu. Vegna þessa munu útgjöld vegna heilbrigðis- og lífeyrismála stóraukast og Framkvæmdastjórn ESB áætlar að þau muni aukast að jafnaði um 3.4% af landsframleiðslu á ári, 2.3% vegna lífeyris og 1.1% vegna heilbrigðis og umönnunar aldraðra.

Verg landsframleiðsla á Íslandi í krónum talið var 1.537.106.000.000 (rúmlega 1.537 milljarðar ISK). Ef við tökum lífeyrinn út og reiknum bara með heilbrigðismálum og umönnun aldraðra þá gæti kostnaðurinn verið um það bil 1.7 milljarður ISK sem hann hækkar ár frá ári. Heildarútgjöld til þjónustu vegna aldraðra í árslok 2010 var 7.209.000.000 kr (rúmlega 7 milljarðar ISK).

Í framhaldinu af þessu fór ég á vef Hagstofu Íslands og kannaði fjölda aldraðra á Íslandi. Í ársbyrjun 2010 voru íslendingar 65 ára og eldri 38.069 manns, þar af voru 3.079 manns sem þurftu að leita til hjúkrunar- og dvalarheimila eða á öldrunar- og hjúkrunarlækningarými sjúkrahúsanna. Hlutfall þeirra af heildarfjölda einstaklinga yfir 65 ára aldri er því 8%.

Ef við gefum okkur að þetta hlutfall muni haldast óbreytt (8%) og heimfærum það upp á mannfjöldaspá Hagstofu Íslands, þá má áætla að fjöldi þeirra sem þurfa að leita til öldrunar- og hjúkrunarlækningarýma og dvalarheimila verði hátt í 8.000 manns árið 2060, miðað við að fjöldi íslendinga 65 ára og eldri verða 110.964.

Hafi menn haft ærna ástæðu til þess að kvarta undan ICESAVE-reikningnum á sínum tíma, þá er komin hér nægjanleg góð ástæða til þess að hafa verulegar áhyggjur af framtíð hagkerfis Íslands.

En hvað er ég að tuða, tómstunda- og félagsmálafræðingurinn um hagtölur og hagkerfi Íslands?

Ástæðan er einfaldlega sú að með þátttöku í heilbrigðum skipulögðum tómstundum viðheldur maður félagslegri færni, viðheldur andlegu og líkamlegu heilbrigði og þar með er kannski hægt að minnka líkurnar á því að maður þurfi á dýrri þjónustu að halda þegar á efri árin er komið.

Grískir heimspekingar forðum bentu á að ef það væri vinnan sem göfgaði manninn, þá væru það tómstundirnar sem mótuðu hann. Það er, hvernig einstaklingurinn nýtir frítíma sinn, getur haft gríðarleg áhrif á hvernig hann mótast sem samfélagsþegn. Lausnin er því að tómstundamennta þjóðina með því markmiði að auka ánægju hvers og eins einstaklings í frítíma sínum.

Með hugtakinu tómstundamenntun er átt við ferli sem á að leiða til þess að einstaklingurinn nái að hámarka ánægju sína í tómstundum sínum. Það er að segja renna styrkari stoðum undir einstaklinginn þannig að hann geti valið sér tómstund við hæfi og þroskast á þann veg að útkoman verði öllu samfélaginu til góða á endanum. Tómstundamenntun ætti að koma í námsskrá grunnskólanna. Í gegnum tómstundamenntun má t.d. auka trúna á sjálfan sig og eigin getu, sem gerir manni jafnvel kleift að standast ýmsar freistingar sem eru í boði í samfélaginu í dag og ógna jafnvel velferð þess.

Tómstundamenntun getur líka nýst við starfslok síðar á ævinni þegar maður stendur frammi fyrir þeim tímamótum að hafa allt í einu nægan tíma til þess að gera allt sem mann langar til að gera en hefur ekki hugmynd um hvað mann langar til eða hvað er í boði. Tómstunda- og félagsmálafræðingar á Íslandi telja nú vel fyrir hundraðið. Er ekki kominn tími á að nýta sér þeirra sérþekkingu?