Leikjaorðasafn til umsagnar

Skjal með leikjaorðasafni til yfirlestrar

Í kjölfar fyrstu útgáfu Orðasafns í tómstundafræði hefur orðanefnd í tómstundafræði unnið að því að taka saman leikjaorðasafn. Orðasafnið verður hluti af orðasafni í tómstundafræði sem er hluti af Íðorðabankanum sem Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum heldur úti.

Orðanefndin óskar nú eftir ábendingum áhugasamra á leikjaorðasafnið áður en það fer í formlega útgáfu og inn í Íðorðabankann fyrir 28. maí nk. Ábendingum um leikjaorðasafnið er hægt að skila hér.

Orðanefnd í tómstundafræði var stofnuð í júní 2013 og gaf út fyrstu útgáfu Orðasafns í tómstundafræði árið 2019. Þeir aðilar sem komu að stofnun nefndarinnar hafa í mörg ár fundið mjög sterkt fyrir því að fagleg og almenn umræða um tómstundir, frístundir, frítíma, æskulýðsmál og skyld svið er ekki nægilega skýr. Fræðasviðið er ungt á Íslandi og því hafa hugtakanotkun og orðræða mótast í starfi á vettvangi á ómarkvissan hátt. Því var talið brýnt að styrkja faglega orðræðu með stofnun orðanefndar og útgáfu orðasafns.

Orðasafn í tómstundafræði er í sífelldri notkun og uppflettingum í Íðorðasafninu á netinu, þar sem Orðasafn í tómstundafræði er vistað, hefur fjölgað. Síðan þá hefur vinna nefndarinnar haldið áfram enda markmið hennar að kortleggja helstu hugtök og íðorð fræða- og fagvettvangs tómstundafræðinnar.

Sem næsta skref í vinnu nefndarinnar varð fyrir valinu að beina sjónum að leikjaorðum. Nefndin sem starfað hefur óbreytt frá upphafi með þau Ágústu Þorbergsdóttur, Eygló Rúnarsdóttur, Huldu Valdísi Valdimarsdóttur og Jakob Frímann Þorsteinsson innanborðs fékk til liðs við sig sérfræðinga á sviði leiks og leiklistar í frístunda- og skólastarfi, þau Ásu Helgu Ragnarsdóttur Proppé og Ingvar Sigurgeirsson til vinnu við leikjaorðasafnið.