Fjölbreytileiki mikilvægur í tómstundastarfi fyrir aldraða

Aldraðir og tómstundirfélagsstarf á Hrafnistu
Í dag eru rúmlega 37.000 einstaklingar á Íslandi sem eru 67 ára og eldri og samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofu Íslands er talið að þeir verði um 52.000 eftir aðeins 10 ár. Þetta merkir hraða fjölgun hjá þeim sem standa frammi fyrir starfslokum og þar með ákveðnum tímamótum í lífinu. Margir hverjir finna sér ný hlutverk, tómstundir eða fara að eyða meiri tíma í þau verk sem þau voru vön að stunda samhliða vinnu, s.s. að sinna viðhaldi á eigin húsnæði, garðyrkju, eyða meiri tíma með barnabörnunum svo eitthvað sé nefnt. Með tómstund er átt við allt það sem hinn aldraði tekur sér fyrir hendur sér til dægrastyttingar og veitir honum ánægju. Margir aldraðir eru einnig farnir að hugsa meira um eigin heilsu og eru virkir þátttakendur í ýmsum íþróttum og hreyfingu þrátt fyrir hækkandi aldur. Má þar t.d. nefna gönguhópa, golf og aðrar boltaíþróttir, fimleika, sund, dans og ýmsa þjálfunarhópa á vegum líkamsræktarstöðva ætlaða öldruðum. Svo eru það þeir sem leggja mikinn metnað í að sækja sér nýja þekkingu, njóta þess að vera skapandi og hafa þörf fyrir að gefa af sér eins og t.d. í sjálfboðavinnu á fyrrum vinnustað, hjá Rauða krossinum eða innan félagsmiðstöðva eldri borgara. Þeir sækja námskeið innan menntakerfisins, tölvunámskeið og fjölbreytt handverksnámskeið s.s. myndlist, leir-, gler-, trévinnslu eða annað sem vekur áhuga þeirra. Þróunin síðustu ár og áratugi hefur sýnt að aldraðir eru virkari þátttakendur í samfélaginu eftir starfslok. Ástæða þessa er hækkandi lífaldur beggja kynja ásamt bættri heilsu vegna þróunar innan læknavísindanna og aukinni áherslu á heilsusamlegan lífstíl og vellíðan.

Heilsa, búsetuform og hjúskaparstaða

Rannsóknir sýna að heilsufar, búsetuform og hjúskaparstaða hafa mikil áhrif á hversu virkur þátttakandi hinn aldraði er innan og utan heimilisins. Góð heilsa og vellíðan er grunnurinn að lífsgæðum einstaklinga. Veikindi, sjúkdómar og skert hreyfigeta hafa áhrif á þau tækifæri sem einstaklingnum býðst til að vera virkur ásamt búsetuformi. Aðgengi innan og utan heimilis og fjarlægð í mikilvæga þjónustu, s.s. verslanir, apótek, heilsugæslu og félagsmiðstöðvar skipta einnig miklu. Hjúskaparstaðan getur líka haft áhrif á hversu mikinn þátt einstaklingurinn tekur í félagslegum afþreyingum utan heimilis. Sýnt hefur verið fram á að giftir eldri borgarar, sér í lagi karlmenn, taka síður þátt í félagsstarfi utan heimilis en það getur einnig átt við um eldri karlmenn sem eru ógiftir eða ekklar. Eldri konur virðast vera öflugri í að sækja í félagsskap utan heimilisins og tómstundir þótt engar staðfestar tölur liggi fyrir um það. Flest okkar eigum við það sameiginlegt að hafa þörf fyrir tilgang í lífinu. Það að hafa ástæðu til að fara fram úr rúminu á morgnana, líka þegar við erum komin á efri ár.

Félagsstarf, bæði skipulagt og óskipulagt

Mikil vitundavakning hefur átt sér stað um málefni aldraðra síðustu áratugi og hafa sveitarfélög víðs vegar um landið komið til móts við þarfir eldri borgara um félagsstarf og tómstundir. Mörg þeirra bjóða uppá fjölbreytt starf í þjónustumiðstöðvum fyrir aldraða, í félagsheimilum eða innan stofnana fyrir eldri borgara. Þjónustan er mismikil yfir árið eftir landshlutum og ekki ólíklegt að fjöldi þeirra sem nýti sér hana hafi áhrif á það. Þeir sem ekki geta sótt félagsstarf af sjálfsdáðum, búa enn heima og eru ófærir um að nota almenningssamgöngur hafa rétt á að sækja um sérstakt þjónustuúrræði sem ýmist kallast dagvistun eða dagþjálfun en sú þjónusta hefur það markmið að bjóða hinum aldraða uppá fjölbreytta þjónustu í formi hreyfingar, félagsstarfs og tómstunda með meira utan um haldi og sumum tilfellum aðgengi að þjálfun. Þá mætir hinn aldraði að morgni til og fer svo aftur heim samdægurs um miðjan daginn, oftast með aðstoð akstursþjónustu en hægt er að sækja um þá þjónustu hjá því sveitarfélagi sem viðkomandi býr í. Þess má einnig geta að margar kirkjur bjóða uppá sérstakt kirkjustarf ætlað eldri borgurum þar sem í boði eru samverustundir, söngur, helgihald, sjálfboðastarf og margt fleira.

Þetta er allt þjónusta sem flokkast undir skipulagða þjónustu en svo má ekki gleyma að nefna allt það óskipulagða félagsstarf sem á sér stað víðs vegar um landið í gegnum félagslegt samneyti af ýmsum toga. Þar sem eldri borgarar hittast í heimahúsum, á kaffi- og veitingahúsum, fara á tónleika, listasöfn, í leikhús, ferðalög innan- og utanlands eða annað slíkt án aðkomu þjónustu fyrir aldraða.

Þökk sé þróun á sviði tækninnar og samskiptabúnaðar, þá hefur hinn aldraði fleiri tækifæri á að vera í góðum samskiptum við ástvini þrátt fyrir búsetu á ólíkum landshlutum eða öðrum löndum og þar með þátttakandi í lífi stórfjölskyldunnar og vina. Rannsóknir hafa leitt í ljós að aldraðir sem nýta sér tæknina til samskipta á veraldarvefnum, t.d. í gegnum Facebook og Skype eru ólíklegri til að upplifa einmanaleika, depurð eða þunglyndi.

Þörf fyrir aðstoð til þátttöku

Hvað svo um þá sem eru einangraðir heima við meirihluta ársins og eru mögulega að kljást við einmanaleika, þunglyndi og hafa lítið fyrir stafni? Þar skiptir þátttaka aðstandenda, vina, nágranna og heimaþjónustunnar megin máli. Það er mjög mikilvægt að þeir hjálpi hinum aldraða með því að kynna fyrir honum þau úrræði sem standa honum til boða í því sveitarfélagi sem hann býr í en mögulega er hinn aldraði sáttur við sínar núverandi aðstæður og hefur ekki áhuga á að breyta þeim. Hafa verður í huga að hinn aldraði gæti upplifað óöryggi gagnvart breytingum sem verða á hans daglegu venjum við það að prófa ný úrræði eins og t.d. að sækja nýja þjónustu í félagsmiðstöð eða dagvistun þar sem hann þekkir engan. Mikilvægt er að veita þessu óöryggi skilning og gefa hinum aldraða tíma til að venjast þeirri tilhugsun að nú muni hann sækja t.d. dagvistun þrjá daga í viku. Fyrir suma er þessi breyting leikur einn um leið og hún á sér stað en fyrir aðra getur aðlögunin tekið lengri tíma og í sumum tilfellum alls ekki tekist.

Skipulagt félags- og tómstundastarf inná dvalar- og hjúkrunarheimilum þarf að vera fjölbreytt

Á dvalar- og hjúkrunarheimilum býr sá hópur aldraðra sem er að kljást við alvarleg veikindi, mikla skerðingu í hreyfigetu eða minnisskerðingar eins og t.d. alzheimer. Það er því mikilvægt að þar sé í boði skipulagt félags- og tómstundastarf fyrir hinn aldraða sem er fjölbreytt og tekur mið af hans núverandi getu. Með fjölbreytileikanum eru meiri líkur á því að hinn aldraði taki frekar þátt í félags- og tómstundastarfinu þar sem honum býðst eitthvað innan síns áhugasviðs. Það er þó ekki nóg að hafa fjölbreytileikann því það er einnig mikilvægt að geta aðlagað afþreyinguna að núverandi getu hins aldraða svo hann geti tekið þátt. Til þess að geta boðið uppá slík gæði í þjónustunni þarf sá sem hana skipuleggur að hafa þekkingu á því hvaða þættir það séu sem hafa hvetjandi og hamlandi áhrif á þátttöku hins aldraða. Það er því mikilvægt að félags- og tómstundastarf sé skipulagt og stjórnað af þeim sem hafa þekkingu til þess til að hámarka tækifæri hins aldraða til þátttöku. Ýmsar fagstéttir innan heilbrigðis- og félagsvísinda hafa einbeitt sér að þjónustu í félags- og tómstundastarfi fyrir aldraða. Iðjuþjálfar hafa þá sérstöðu að hafa þekkingu til að aðlaga iðju að einstaklingnum og nálgast þjónustuna við einstaklinginn með heildrænni sýn en einnig má nefna tómstunda- og félagsmálafræðinga, félagsráðgjafa, þroskaþjálfa, félagsliða og sjúkraliða.

Guðrún starfsmaður á Hrafnistu

Guðrún Jóhanna Hallgrímsdóttir
Iðjuþjálfi með diplómu í öldrunarþjónustu
Deildarstjóri iðjuþjálfunar og félagsstarfs Hrafnistu í Hafnarfirði

Hvað er fagmennska?

Við fengum leyfi Huldu Valdísar formanns Félags Fagfólks í Frítímaþjónustu að birta grein hennar um fagmennsku sem hún birti upprunalega á heimasíðu FFF.

Hvernig sinnum við sem vinnum á vettvangi frítímans starfi okkar af fagmennsku? Hvað þýðir það að sinna starfi sínu af fagmennsku? Í hverju felast fagleg vinnubrögð? Hvernig er hægt að meta og segja til um það hvað telst vera fagmennska og hvað ekki? Í Íslenskri orðabók (2002) er orðið fagmaður skilgreint á þann veg að fagmaður sé sérfræðingur, maður sem sérlærður er til ákveðins verks. En dugar það að læra ákveðið verk eitt og sér til að hægt sé að kallast fagmaður? Já eflaust má svara því játandi upp að vissu marki en það þarf þó meira til. Það þarf að tileinka sér ákveðin gildi í starfinu, gildi sem eru viðurkennd og hægt er að koma sér saman um að skipti máli fyrir fagið og talin eru nauðsynleg til að hægt sé að segja að starfi sé sinnt af fagmennsku.

Í áhugaverðri grein á Vísindavefnum (Henry Alexander Henrysson, 2012) er hugtakið fagmennska talið siðferðilegt hugtak „sem krefst þess að verk séu unnin heiðarlega og fyrir opnun tjöldum“. Fagleg vinnubrögð eru þannig talin kalla á ákveðið gagnsæi og einnig eru traust og ábyrgð talin einkennandi fyrir fagmennsku. Einn liður í því að styrkja fagleg vinnubrögð getur þannig verið að starfsstéttir setji sér siðareglur. Það má kannski segja að einn liður í því að vera fagmaður sé að starfa eftir og tileinka sér gildandi siðareglur i því fagi sem viðkomandi starfar í og þannig sé hægt að tryggja fagmennsku upp að einhverju ákveðnu marki.

Félag fagfólks í frítímaþjónustu (FFF) samþykkti sínar siðareglur á aðalfundi félagsins í maí 2008. Þar kemur m.a. fram að grundvöllur starfs fagfólks í frítímaþjónustu sé virðing fyrir manngildi og sérstöðu hvers einstaklings og trú á getu hans til að nýta hæfileika sína til fulls. Lögð er á áhersla á heiðarleika og virðingu fyrir skoðunum, lífi og réttindum einstaklinga auk þess sem vinna skal að því að skapa traust almennings á faglegri frítímaþjónustu og ekki megi gera neitt sem rýri orðstír fagsins eða hópsins. Siðareglurnar má lesa í heild sinni hér. Samhliða siðareglum verður að vera skýrt hvað gerist ef þær eru brotnar og hvað ferli fer þá af stað. Einnig er mikilvægt að umræða um gildandi siðareglur sé tekin upp reglulega og reglurnar uppfærðar og þeim breytt eftir aðstæðum, lögum og reglum hverju sinni. Stjórn
FFF hefur nýlega ákveðið að nú sé tímabært að fara í umræður og endurskoðun á siðareglum félagsins og mun kalla eftir virkri þátttöku félagsmanna í þeirri vinnu.

Það er mikilvægt að átta sig á því að þegar fjallað er um fagmennsku og hvað felst í henni að  ekkert einfalt svar er til. Fagmennska er margslungið fyrirbæri sem erfitt er að festa hendi á en að sama skapi eigum við oft auðvelt með að svara því hvað telst ekki vera fagmennska. Það að mennta sig í frítímafræðum, vinna eftir þeim siðareglum sem gilda um vettvanginn og taka virkan þátt í umræðum um þróun hans er að minnsta kosti góð byrjun á þeirri vegferð að geta kallað sig fagmann á vettvangi frítímans.

Heimildir:

Henry Alexander Henrysson. (2012, nóvember). Hvað eru fagleg vinnubrögð? Vísindavefurinn. Sótt 23. september 2013 af  http://visindavefur.is/?id=62547

Mörður Árnason (Ritstj.). (2002). Íslensk orðabók, 3. útgáfa.  Reykjavík: Edda útgáfa hf.

„Ekkó bjargaði unglingsárum mínum“ : viðhorf einstaklinga sem voru virkir í félagsmiðstöðinni Ekkó

Um verkefnið

Verkefni þetta er lokaritgerð til BA prófs í tómstunda- og félagsmálafræði. Leiðbeinandi verkefnsins er Árni Guðmundsson félagsmiðstöðvamógúll. Höfundar verkefnisins höfðu unnið saman í félagsmiðstöðvastarfi og voru einnig samferða í náminu. þeir luku námið í febrúar 2012. Þegar kom að því að ákveða viðfangsefni ritgerðarinnar vildum þeir báðir leggja lóð á vogaskálarnar og upplýsa fólk um mikilvægi félagsmiðstöðvastarfs og áhrif þess á einstaklinga í framhaldinu framkvæmadu þeir minniháttar rannsókn og athuga viðhorf einstaklinga sem voru virkir í félagsmiðstöðvastarfinu hér á árum áður.til félagsmiðstöðvarinnar.  

Útdráttur

Í þessari rannsóknarritgerð byrjum við á að fjalla stuttlega um unglingsárin og þau vandamál sem þeim fylgja. Því næst fjöllum við um tómstundir almennt og þrengjum rammann að félagsmiðstöðvastarfi. Félagsmiðstöðvastarf í Kópavogi er kynnt auk þess sem farið er í sögu og þróun félagsmiðstöðvarinnar Ekkó í Kópavogi. Hrafnhildur Ásbjörnsdóttir fyrrum forstöðumaður Ekkó til 19 ára gefur okkur sína sýn og skoðun á félagsmiðstöðvastarfi. Eigindleg rannsókn var framkvæmd þar sem viðmælendur voru 8 einstaklingar sem höfðu öll tekið virkan þátt í starfi Ekkó. Markmið rannsóknarinnar var að fá fram viðhorf þeirra til starfsins og hvaða þættir í starfinu mótuðu viðhorf þeirra. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru þær að félagsmiðstöðin er mikilvægur staður til að eflast og þroskast félagslega. Starfsfólk félagsmiðstöðvarinnar getur skipað stóran sess í lífi unglingsins og getur haft gífurleg áhrif á hann. Niðurstöður rannsóknarinnar ættu að gefa starfsfólki í frítímaþjónustu hugmynd um hvað það er sem virkilega skiptir máli í frítímaþjónustu unglinga og hversu mikilvægt hlutverk þeirra er.

Hér má nálgast verkefnið í heild sinni

Um höfundana

1082717_10151772202789860_1648688873_nBjarki Sigurjónsson er fæddur árið 1988 og er uppalinn í Kópavogi. Hefur hann starfað á vettvangi frítíans frá árinu 2007. Hann hefur komið víða við hefur meðal annars unnið í Félagsmiðvunum Þebu, Fókus og Bústöðum og frístundaheimilinu Krakkakoti. Starfar hann núna sem frístundaleiðbeinandi í félagsmiðstöðinni Laugó. Síðasta vor lauk hann framhaldsprófi í raftónlist við tónlistarskólann í Kópavogi.

 

 

 

 

 

Snorri PállSnorri Páll er fæddur árið 1986 og er uppalinn Kópavogsbúi. Hann hefur stundað íþrótta- og tómstundastarf í Kópavogi frá blautu barnsbeini. hefur starfað í Kópavogsbæ um árabil og í félagsmiðstöðum Kópavogsbæjar frá árinu 2007. Starfar nú sem frístundastaleiðbeinandi í félagsmiðstöðinni Ekkó í Kópavogi.

Skilgreining á hugtakinu tómstundir

VandaSigurgeirsdottir-vefurÚtdráttur

Í greininni er leitast við að skilgreina hugtakið tómstundir (e. leisure). Hefur það ekki verið gert áður á Íslandi með þessum hætti, eftir því sem næst verður komist. Ekki er um einfalt verk að ræða því erlendir fræðimenn eru almennt sammála um að mjög erfitt sé að skilgreina hugtakið. Til umfjöllunar er nálgun frá fimm mismunandi hliðum; tómstundir sem tími, athöfn, gæði, viðhorf og hlutverk og mynda þær grunn að skilgreiningu sem sett er fram í lokin. Skilgreiningin gengur út á að tómstundir séu athöfn, hegðun eða starfsemi sem á sér stað í frítímanum en flokkast ekki sem tómstundir nema að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Þau skilyrði eru að einstaklingurinn líti sjálfur svo á að um tómstundir sé að ræða, að athöfnin, hegðunin eða starfsemin sé frjálst val og hafi í för með sér ánægju og jákvæð áhrif.

Hægt er að nálgast greinina hér.

Um höfundinn

Vanda Sigurgeirsdóttir er fædd árið 1965 og starfar hún sem lektor í tómstunda- og félagsmálafræði við menntavísindasvið Háskóla Íslands en þar hefur hún starfað frá upphafi námsins haustið 2001. Vanda er með meistaragráðu í uppeldis- og menntunarfræði með áherslu á stjórnun frá Kennaraháskóla Íslands og er sem stendur í doktorsnámi við félagsráðgjafadeild HÍ. Ásamt því að starfa við háskólann er Vanda knattspyrnuþjálfari hjá Þrótti Reykjavík.

 

Félagsmálafræðikennsla í grunnskólum

félagsmálafræðiÍ þessari grein ætla ég að fjalla um valáfanga í félagsmálafræði sem ég kenni í Grunnskóla Seltjarnarness fyrir 8., 9. og 10. bekk. Það ber að nefna að við vorum ekki þau fyrstu sem byrjuðu með félagsmálafræðikennslu en hún er kennd víða með mismunandi sniði. Markmiðið með greininni er aðeins að fjalla um hvernig við byggjum upp áfangann hérna úti á Seltjarnarnesi.  

Umgjörð:

Í Grunnskóla Seltjarnarness eru 167 nemendur í 8., 9. og 10. bekk og er félagsmálafræðin valáfangi sem allir þessir nemendur geta valið. Síðastliðin ár hafa 45-60 nemendur valið félagsmálafræðina og er hún því kennd í tveimur hópum. Einn hópur er fyrir 10. bekk og annar hópur fyrir 8. og 9. bekk. Kennslufyrirkomulagið eru tvær samliggjandi kennslustundir á viku á hvorn hóp. Áfanginn er kenndur af starfsmanni félagsmiðstöðvarinnar Selið á Seltjarnarnesi en hún sér um allt félagslíf skólans í góðu samstarfi við skólastjórnendur.

Markmið og hlutverk:

Markmið með félagsmálafræðikennslu er m.a. að efla félagslegan þroska nemenda, styrkja þá á félagslegum vettvangi og þar með að styrkja sjálfsmynd og viðhorf þeirra til sín og annarra. Félagsmál eru mikilvægur þáttur í mótun unglinga og heilbrigð félagsleg virkni hefur einungis jákvæð áhrif á líf unglinga. Í félagsmálafræðitímum er farið yfir þætti er tengjast ýmiss konar félagsmálum. Kennd er m.a. framsögn, framkoma og tjáning, fundarsköp og skipulagning á viðburðum og uppákomum. Lögð er áhersla á að nemendur geti þroskað og styrkt sjálfsmynd sína en einnig að þeir læri samvinnu, hópavinnu og að bera virðingu fyrir öðrum. Einnig er farið í þætti eins og ábyrgð, siðferði og gagnrýna hugsun.

Félagsmálafræðin, í samstarfi við nemendaráð skólans, sér um framkvæmd og skipulag á öllu félagslífi skólans og félagsmiðstöðvarinnar. Kennslan fer því mikið fram í formi verklegra æfinga við að skipuleggja félagslífið. Markmiðið er því að virkja sem flesta til að taka þátt og hafa áhrif á félagslífið. Félagsmálafræðin skipuleggur og heldur utan um kosningar í nemendaráð skólans og er mælt með því að meðlimir nemendaráðs séu nemendur félagsmálafræðinnar.

Hlutverk nemendaráðs:

Nemendaráðið er skipað af átta fulltrúm úr 8., 9. og 10. bekk og eru þau kosin í lýðræðislegri kosningu á haustin. Hver árgangur á að lágmarki tvo fulltrúa í nemendaráði. Nemendaráðið starfar í nánu samstarfi við starfsmenn Selsins. Hlutverk þess er að vera fyrirmyndir samnemenda sinna og í forsvari fyrir nemendur á skólaráðsfundum og öðrum fundum sem óskað er eftir að nemendur sæki. Nemendaráðið ber einnig ábyrgð á fjármunum nemendafélagsins og á ákveðnum viðburðum en þó alltaf í samstarfi við félagsmálafræðina.

Kennslufyrirkomulag:

Kennslufyrirkomulag félagsmálafræðinnar skiptist í tvo hluta. Annars vegar er tvöföld kennslustund einu sinni í viku sem fer fram í skólanum. Þar er ég með innlegg, æfingar og verkefni ásamt því að nemendur skipuleggja og skipta með sér verkum við framkvæmd á viðburðum. Hinn hlutinn fer svo fram í félagsmiðstöðinni þar sem nemendurnir framkvæma þá viðburði og þau verkefni sem skipulögð voru í skólanum.

Námsefni:

Námsefnið sem notast er við í kennslunni kemur héðan og þaðan og er mikið af því unnið úr kennslubókum sem kenndar eru í tómstunda- og félagsmálafræði í HÍ. Það námsefni hef ég svo einfaldað og sett upp svo það eigi við 13-15 ára unglinga.

Kompás – Handbók um mannréttindafræðslu fyrir ungt fólk er mjög góð bók til að styðjast við í kennslunni. Í Kompás eru góð verkefni í mannréttindafræðslu sem ég hef notast við ásamt því að ég hef tekið aðferðirnar sem kenndar eru í Kompás og breytt umræðuefninu. Aðferðirnar sem kenndar eru við kennslu á Kompás eru mjög líflegar og skemmtilegar og hægt að heimfæra þær á hin ýmsu umræðuefni. Dæmi um umræðuefni sem ég hef notast við til að fjalla um er kynfræðsla, sjálfsmynd, reglur um klæðaburð á Samfestingnum og svo mætti lengi telja.

Dýnamík – Handbók um hópefli og hópeflisleiki fyrir starfsfólk í æskulýðsstarfi er bók sem ég notast mikið við. Í bókinni eru kenndir hinir ýmsu leikir sem þjóna margvíslegum markmiðum. Félagsmálafræðin er kennd seinnipart dags og þá getur góður leikur gjörbreytt stemningunni í hópnum.

Verum virk – Félagsstörf, fundir og framkoma er ný bók sem kom út árið 2012. Í henni er fjallað um félagsmál, lýðræði, samskipti, sjálfsmynd og sjálfsvirðingu, tjáningu og framsögn, fundarsköp, nefndarstörf, rökræður og málamiðlanir. Í þessari bók enda allir kaflar á æfingum sem eiga vel heima í félagsmálafræðikennslu.

Verkefni og æfingar:

Líkt og áður hefur komið fram er stór hluti verklegra æfinga í formi þess að skipuleggja og framkvæma raunveruleg verkefni og sjá um félagslífið fyrir allan skólann. Einnig eru þó ýmsar verklegar æfingar framkvæmdar í tímum og má þar nefna sem dæmi:

  • Æfingar í tjáningu til að styrkja nemendur í að tala fyrir framan fólk.
  • Ræðuflutningur og rökræðukeppnir um hin ýmsu málefni.
  • Kosningar þar sem nemendur eru í framboði fyrir sveitarstjórnarkosningar í bæjarfélaginu. Nemendur eiga að útbúa stefnuskrá, sjónvarpsauglýsingu (sem er leikin í tímanum) og flytja framboðsræður. Að lokum er svo kosið.
  • Æfingar í markmiðssetningu.
  • Umræðuþing um skólamál, hvað sé gott og hvað mætti betur fara í skólanum.
  • Viðburðarstjórnunarverkefni þar sem minni hópar taka að sér skipulag og framkvæmd á minni viðburðum frá A-Ö.

Námsmat:

Námsmatið í félagsmálafræðinni fer alfarið í gegnum Félagströllið (www.felagstrollid.is). Í stuttu máli er Félagströllið leikur þar sem allt það sem nemendurnir taka sér fyrir hendur er metið til stiga, hvort sem þau mæta í félagsmálafræðina, í  félagsmiðstöðina eða á viðburði. Einnig fá nemendur sérstaklega stig ef þeir sækja klúbba eða ef þeir taka þátt í framkvæmd á viðburðum. Félagströllið sér svo um að meta mismunandi verknað til stiga. Sem dæmi má nefna að það að mæta í félagsmiðstöðina gefur 5 stig en það að skipuleggja viðburð gefur 20 stig. 15 stig fá þau fyrir að mæta á viðburðinn og 10 stig fyrir hverja sjoppu eða miðasöluvakt sem nemandinn tekur sér fyrir hendur.  Þannig metur Félagströllið ekki bara mætingu einstaklinga í félagsstarfið heldur einnig virkni þeirra. Fyrir þá sem vilja kynna sér Félagströllið frekar má lesa um það hér.

Að lokum:

Félagsmálafræðin er frábær leið til að fá sem flesta til að taka virkan þátt í skipulagi og framkvæmd á viðburðum og verkefnum á vegum félagsmiðstöðvarinnar. Það að fá sem flesta að borðinu verður svo til þess að krakkarnir upplifa félagslífið alfarið sem sýna eign og sinna því þeim mun betur. Það skemmtilegasta við félagsmálafræðina er þó að sjá þann mun sem verður á félagslegum þroska einstaklinga frá því að þeir byrja í áfanganum og þegar skólaárinu lýkur.

Starfskenning æskulýðsstarfsmanns

GAS

Það var fyrir algjöra tilviljun að ég byrjaði að vinna í félagsmiðstöð haustið 2008. Mamma benti mér á að Selið úti á Seltjarnarnesi, þar sem ég ólst upp væri að leita að starfsfólki. Ég var aldrei duglegur að sækja félagsmiðstöðina þegar ég var í grunnskóla og hafði í raun lítið tekið þátt í skipulögðu félagsstarfi. Ég mætti í viðtal hjá Möggu, forstöðumanns  í Selinu sem spurði mig út í mín áhugamál og leitaðist þannig við að máta mig inn í starfsmannahópinn. Ég fékk símtal skömmu síðar frá Möggu þar sem hún tilkynnti mér að hún væri búin að ráða í allar stöður en vildi hafa mig í afleysingum.  Þegar veturinn var alveg að fara af stað fór einn kvöldstarfsmaðurinn að vinna aðra vinnu og þá fékk ég kallið.

Þegar ég hóf störf í félagsmiðstöð hafði ég engin markmið, engar aðferðir og enginn verkfæri í höndunum. Eina sem maður hafði var að reyna vera skemmtilegur og að tengjast krökkunum. Ég lærði þó mjög fljótt að maður getur ekki rekið félagsmiðstöð á persónutöfrunum einum saman og þökk sé frábærs samstarfsfólks lærði ég fljótt að starfið laut vissum reglum. Eftir tvö ár í kvöldstarfi sótti ég um á tómstunda- og félagsmálafræðibraut í Háskóla Íslands. Nú þegar útskrift nálgast er mikilvægt að skerpa á starfskenningu minni sem æskulýðsleiðbeinandi.

Í grunninn er gott að hugsa vinnu sína í félagsmiðstöð út frá þörfum einstaklinganna sem hana sækja. Samkvæmt þroskasálfræði kenningum Erik Eriksons (Berger, 2005) skiptist ævin upp í átakaskeið þar sem tveir pólar takast á og skapa þessi átök togstreitu í einstaklingum sem mikilvægt er að ná sátt við áður en haldið er á næsta æviskeið. Æviskeið unglingsáranna snýst um sjálfsmyndarleit einstaklingsins, „hver er ég?”, pólítískar skoðanir, kynferði og hvað vil ég gera við líf mitt? (Berger, 2005).  Félagsmiðstöð er í lykilstöðu til að aðstoða einstaklinginn á þessu átakaskeiði því í félagsmiðstöðinni er unglingurinn á eigin forsendum og getur valið sér verkefni eftir áhugasviði. Unglingurinn getur búið til stuttmynd einn daginn, verið í ræðuliði annan dagin og setið fundi með bæjaryfirvöldum þann þriðja. Æskulýðsstarfsfólk er mikilvægar fyrirmyndir unglinganna og hafa mikil áhrif á þá. Starfsmenn móta félagsmiðstöðvastarfið og skapa þá stemningu og menningu sem ríkir í félagsmiðstöðinni. Eins og kemur fram í starfsmannahandbók félagsmiðstöðva ÍTR  (e.d. bls 2) þá er „eitt mikilvægasta verkefni starfsmanna að sjá til þess að öllum unglingum finnist þeir velkomnir í félagsmiðstöðina og að enginn verði þar fyrir aðkasti eða einelti”.

En það sem ekki má gleyma er að félagsmiðstöðin er einungis hús og unglingarnir skapa starfið með virki þátttöku sinni. Virk þátttaka er þvi lykilþáttur í félagsmiðstöðvastarfi og þá er ekki verið að tala um að unglingar mæti á viðburði eða klúbbastarf skipulagt  af starfsfólki. Með virkri þátttöku er átt við að þátttakendur eru upplýstir um verkefnið sem þeir taka þátt í, þeir fá að segja sína skoðun á verkefninu og hafa ákvörðunarrétt þegar ákvarðanir eru teknar sem snúa að verkefninu (Hart, 2002). Eitt furðulegasta en þó eitt besta heilræðið sem ég hef fengið í starf mínu sem æskulýðsstarfsmaður er að ég sé að standa mig best þegar ég þarf ekki að gera neitt. Þessu ber ekki að rugla saman við hangs og leti. Þetta snýr að því að starfið gengur best ef starfsfólkið útbýr svo góðan ramma og temur sér vinnubrögð sem snúa að því að unglingarnir geta komið með hugmyndir að verkefnum, þeir geta fundað og tekið ákvarðanir sem snúa að verkefnum og að þeir hafi öðlast þá hæfni til að framkvæma verkefnin sjálf. Hér er starfsmaður að sjálfsögðu með yfirsýn og til staðar en verkefnið er ekki hans heldur unglinganna.

Þegar ég byrjaði að vinna í félagsmiðstöð var ég alltof gjarn til að ganga í verkefni, skipuleggja viðburði og framkvæma þá sjálfur enda alinn upp við það að vera duglegur og vinna vel. Maður er allt of vanur því að framleiðni starfsmanns sé reiknuð í því hversu mörg handtök hann vinnur og hversu hratt og örugglega gengur að skipuleggja verkefni. Æskulýðsstarfsmaður má ekki hugsa á þennan veg, hann á að temja sér hugsunarhátt sem er meira í líkingu við hugsunarhátt kennara. Það mundi enginn segja að góður kennari væri sá sem mundi reikna öll stærðfræði dæmin fyrir börnin. Góður kennari líkt og góður æskulýðsstarfsmaður býr til ramma handa unglingunum og afhendir þeim verkfærin sem þau þurfa til að reikna dæmið til enda.

Í félagsmiðstöðvum á sér stað gífurlegt nám og mikilvægt að starfsfólk sé ávallt að leita að námstækifærum í stað þess að fjarlægja þau. Þetta nám er ekki formlegt nám eins og við þekkjum úr skólakerfinu heldur óformlegt og formlaust reynslunám. Óformlegt nám er oft í formi námskeiða þar sem ekki er veitt nein sérstök gráða fyrir námið (Jeffs, Smith, 2005). Sem dæmi má nefna kvikmyndaklúbb þar sem starfsmaður eða unglingur kennir á myndavélar og myndvinnsluforrit í formi fræðslu og með því að leyfa unglingunum að prófa sig áfram undir leiðsögn. Formlaust nám er svo aftur á móti allt sem við lærum af umhverfinu og samskiptum okkar við annað fólk (Jeffs, Smith, 2005). Við tileinkum okkur menningu sem við erum hluti af. Við öpum upp samskiptamunstur frá fyrirmyndum okkar, mótum jafnvel tónlistar og fatasmekk út frá þeim hóp sem við umgöngumst. Við lærum einnig slæm samskipti og áhættuhegðun með óformlegu og formlausu reynslunámi og því mikilvægt að æskulýðsstarfsmaðurinn sé ávallt vakandi um þau námstækifæri sem umhverfið býður upp á og geri sitt besta til að hafa jákvæð áhrif á umhverfið.

Síðast en ekki síst er mikilvægt að æskulýðsstarfsmaðurinn geri ekki upp á milli fólks og afskrifi engan. Æskulýðsstarfsmaðurinn á að tileinka sér „allir flottir” kenninguna (e. postive youth development). En samkvæmt henni býr sérhvert barn yfir hæfileikum, styrkleikum og áhugasviðum sem skapa  möguleika á farsælli framtíð fyrir barnið (Damon, 2004). Allir flottir kenningin snýr að því að einblýna á styrkleika barnsins og byggja undir þá í stað þess að setja alla orkuna í vandamál eins og lesblindu, ofvirkni, reykingar eða andfélagslega hegðun (Damon, 2004). Það er því hlutverk starfsmannsins að hjálpa unglingum að finna styrkleika sína og búa til farveg svo að unglingarnir geti nýtt sér styrkleika sína til að yfirbuga „veikleikana”.

Það er því að ýmsu að huga í starfi æskulýðsstarfsmannsins og eflaust eitthvað af hlutum sem ekki eru nefndir í þessari upptalningu minni hér. Þetta eru þó þeir hlutir sem standa upp úr að mínu mati og mynda starfkenningu mína. Starfskenning mín hefur mótast af 5 ára starfsreynslu í félagsmiðstöð, þriggja ára háskólanámi en einnig af minni eigin reynslu af skólakerfinu og starfi félagsmiðstöðva. Þegar ég var í grunnskóla passaði ég alls ekki inn í fastmótaða kassa skólakerfisins, samræmd próf og kyrrsetu á meðan fullorðið fólk talaði um hluti sem ég tengdi mig engan vegin við og áttu alls ekki við mig. Þessi skoðun mín á skólakerfinu viðhélst upp í menntaskóla þar sem ég fann mér engan farveg. Þegar ég byrjaði að vinna í Selinu hafði ég engan áhuga á því að fara í háskóla og var ég farinn að hugleiða það alvarlega að hætta í menntaskóla. Í Selinu kynntist ég styrkleikum mínum sem kynduðu undir áhuga á því að leita að frekari þekkingu. Það varð til þess að ég skráði mig í tómstundafræði og í því námi hef ég ekki átt í neinum erfileikum með að sitja og hlusta, leysa verkefni og skapa nýja hluti. Á þessum stutta tíma hafa viðhorf mín til skóla og lífsins gjörbreyst. Þessi reynsla mín af mikilvægi þess að einstaklingar finni styrkleika sína í stað þess að rembast eins og rjúpan við staurinn við að gera það sama og hinir er minn helsti hvati fyrir fjölbreyttu og uppbyggilegu tómstundastarfi þar sem einstaklingar fá að blómstra á eigin forsendum.

 

Heimildaskrá

Berger, K. S. (2005). The developing person through the life span. (6. útgáfa). New York: Worth Publishers.

Damon, W. (2004). What is positive youth development? The ANNALS of the American Academy of Political and Social Science, 591, 13-24.

Hart. R. A. (2002). Children‘s participation: The theory and practice of involving young citizens in community development and enviromental care. London: Earthscan Publications Ltd.

ÍTR (e.d.). Starfsmannahandbók félagsmiðstöðva ÍTR. Reykjavík: Höfundur.

Jeffs, T. og Smith, M. K. (2009). Informal education: conversation, democracy and learning. (3. útgáfa). Nottingham: Educational Heretics Press.