Fræðsluáætlun FFF – Fullt af spennandi námskeiðum og fyrirlestrum

Þá er fræðsluáætlun FFF loksins tilbúin. Nú þegar hefur verið haldinn einn hádegisverðarfundur þar sem Steingerður Kristjánsdóttir fjallaði um hugmyndafræði þjónandi forystu (servant leadership) og var það áhugavert umfjöllunarefni sem skapaði góðar umræður hjá þeim sem á hlýddu. Hádegisverðarfundir og Kompás/Compasito námskeið eru fastir liðir hjá okkur og við höldum áfram í vetur að fjalla um reynslunám en nú verður boðið upp á námskeið þar sem viðfangsefnið er leiðbeinandinn í reynslunámi. Einnig verða spennandi námskeið um hvernig hægt er að nýta leiklist og aðferðarfræði verkefnisstjórnunar í frístundastarfi.

Hádegisverðarfundir/smiðjur

Viðfangsefni: Allt eftir stemmingunni hverju sinni.
Hvenær: Nóvember, febrúar, apríl og ágúst.
Staðsetning: Mismunandi – auglýst sérstaklega.
Skráning: Með tölvupósti á [email protected].
Verð: Félagsmönnum og öðrum gestum að kostnaðarlausu.

Kompás og Compasito – stutt kynningarnámskeið

Samstarf FFF, Æskulýðsvettvangsins og Mennta- og menningarmálaráðuneytis.

Viðfangsefni: Bækurnar Kompás og Compasito (Litli Kompás) eru handbækur um mannréttindafræðslu fyrir börn og ungt fólk. Námskeiðið er ætlað þeim sem sinna slíkri mannréttindafræðslu á vettvangi frítímans en gagnast einnig öllum þeim sem starfa með börnum og ungu fólki.
Hvenær: Fjögurra klukkustunda námskeið í janúar, febrúar, mars og apríl.
Staðsetning: Nánar auglýst síðar.
Skráning: Með tölvupósti á [email protected].
Verð: 5000 kr. og félagsmenn í FFF fá Kompás-bókina sér að kostnaðarlausu á námskeiðinu.

Leiðbeinandinn í reynslunámi – hvar er hann?auglysing

Samstarf FFF og Áskorunar ehf.

Viðfangsefni: Þátttakendur verða þjálfaðir í því að verða betri leiðbeinendur eða „vegvísar“ (e. facilitator) í frístunda- og æskulýðsstarfi þannig að þeir geti betur stutt við nám, vöxt og þroska skjólstæðinga sinna.

Markmiðið er að þátttakendur verði meðvitaðri um:

• Þau mismunandi hlutverk (og skyldur) sem fylgja starfinu.

• Þær víddir sem felast í hlutverki leiðbeinandans.

• Aðferðir og leiðir til að ná betri tökum á starfinu.

• Samhengið milli eigin þroska og getunnar til að vinna með þroska annarra.

• Leiðtogann – í eigin lífi og í lífi annarra.

Hvenær: Þrjú skipti á vorönn, hálfur dagur í senn (21. janúar kl. 16-20, 10. mars kl. 9-13 og 29. apríl kl. 18-22) og verkefnavinna þess á milli.
Staðsetning: Hlaðan við frístundamiðstöðina Gufunesbæ í Grafarvogi, Reykjavík.
Skráning: Með tölvupósti á [email protected] fyrir 15. janúar, takmarkaður fjöldi plássa.
Verð: 25.000 kr. fyrir félaga í FFF en 30.000 kr. fyrir aðra.

Leiklist í frístundastarfi

Samstarf FFF og Háskóla Íslands

Viðfangsefni: Fjallað verður um hvernig hægt er að nota leiklist í frístundastarfi, bæði með börnum og unglingum. Námskeiðið byggir á virkri þátttöku og æfingum.

Markmið:

• Að þátttakendur öðlist grunnþekkingu í að beita leiklist sem listformi.

• Að þátttakendur fái innsýn í hvernig hægt er að nota kennsluaðferðir leiklistar á skemmtilegan hátt í tengslum við forvarnir og lífsleikni.

• Að þátttakendur kynnist fjölbreyttum kennsluaðferðum leiklistar og geti notað þær með börnum og unglingum.

Unnið verður með bókina Leiklist í kennslu eftir Önnu Jeppesen og Ásu Helgu Ragnarsdóttur.
Hvenær: Fjögur skipti á vorönn, hálfur dagur í senn (14. janúar kl. 12.30-14.50, 15. janúar kl. 8.20-11.30, 21. janúar 12.30-14.50 og 22 janúar 8.20-11.30 ) og verkefnavinna á milli.
Staðsetning: Háskóli Íslands Stakkahlíð, Reykjavík.
Skráning: Með tölvupósti á [email protected] fyrir 6. janúar.
Verð: 10.000 kr. fyrir félaga í FFF en 15.000 kr. fyrir aðra.

Verkefnastjórnun í frístundastarfi

Samstarf FFF og Háskóla Íslands

Viðfangsefni: Á námskeiðinu veður farið yfir aðferðarfræði verkefnisstjórnunar og skipulagningu verkefna. Markmið námskeiðsins eru að þátttakendur tileinki sér aðferðir verkefnisstjórnunar til að geta aukið skilvirkni í daglegum störfum, stýrt verkefnum og byggt þau upp á faglegan hátt.

Helstu efnisatriði:

• Skilgreining á umhverfi, forsendum, markmiðum og umfangi verkefna.

• Skilgreining verkþáttum og vörður verkefna.

• Forgangsröðun og niðurbrot verkefna niður í verkþætti.

• Hagsmunaaðila- og áhættugreiningar.

• Grunnatriði verkefnaferilsins, uppbygging verkefnaáætlunar, stöðugreiningar, vörður og verkefnislok.

• Verkefnisskipulag og ábyrgð.

• Hlutverk verkefnastjóra, eigenda, stýrihóps, verkefnisteymis og verkefnishóps.

• Eftirlit með framgangi verkefna og hvernig tryggja má tilætlaða niðurstöðu.

Hvenær: Fimmtudaginn 16. janúar kl. 8.20-14.50 og föstudaginn 17. janúar á sama tíma.
Staðsetning: Háskóli Íslands Stakkahlíð, Reykjavík.
Skráning: Með tölvupósti á [email protected] fyrir 11. janúar.
Verð: 10.000 kr. fyrir FFF-félaga en 15.000 kr. fyrir aðra.

 

FFF – Félag fagfólks í frítímaþjónustu

fagfélag

FFF eða Félag fagfólks í frítímaþjónustu starfar á vettvangi frítímans á vegum sveitarfélaga, s.s. í félagsmiðstöðvum, frístundaheimilum, frístundamiðstöðvum, ungmennahúsum og skrifstofum æskulýðsmála og hefur það markmið að stuðla að aukinni fagmennsku á vettvangnum. Félagið var stofnað árið 2005 af hópi fólks sem allt starfaði við frítímaþjónustu. Markmið félagsins er meðal annars að leggja áherslu á mikilvægi frítímaþjónustu sveitarfélaganna fyrir ungt fólk og efla fagvitund og samheldni fagfólks í frítímaþjónustu með því að skapa félögum vettvang til umræðna og skoðanaskipta. Til að geta gengið í félagið þurfa einstaklingar að hafa lokið háskólanámi í tómstunda- og félagsmálafræðum eða hafa starfað í fimm ár á vettvangi frítímans. Einnig er hægt að sækja um aðild ef einstaklingur sem starfar á vettvangi frítímans hefur lokið háskólanámi á sviði uppeldis- og félagsvísinda. Aukaaðild geta þeir sótt um sem stunda nám á sviði félagsvísinda, uppeldis- og tómstundafræða ef þeir starfa á vettvangi frítímans. Þeir hafa þó einungis áheyrnar-og tillögurétt á aðalfundi og greiða helming félagsgjalds.

Fagfélagið, eins og félagið er jafnan kallað manna á milli, stendur fyrir ýmis konar fundum og fræðslu fyrir fagfólk í frítímaþjónustu. Sem dæmi má nefna Kompás námskeið í lýðræðis- og mannréttindafræðslu sem Fagfélagið hefur staðið fyrir á síðastliðnum mánuðum. Ásamt því að stuðla að aukinni þekkingu á vettvangi frítímans stuðlar Fagfélagið að miklu samstarfi milli stjórnvalda, starfsfólks á vettvangnum og háskólasamfélagsins. Fagfélagið er því mikilvægur liður í því að dýpka þekkingu og auka fagmennsku starfsfólks ásamt því að standa vörð um hagsmuni vettvangsins.

Á nýafstöðnum aðalfundi félagsins var kosin ný stjórn Fagfélagsins en hana skipa:

Hulda Valdís Valdimarsdóttir – Formaður
Guðrún Björk Freysteinsdóttir
Helgi Jónsson
Elísabet Pétursdóttir
Bjarki Sigurjónsson

Guðmundur Ari Sigurjónsson – Varamaður
Nilsína Larsen Einarsdóttir – Varamaður

Við hér á Frítímanum hvetjum alla sem starfa á vettvangi frítímans til að sækja um aðild í Fagfélagið og gerast þannig virkir þátttakendur í að móta og þróa starfsvettvanginn.

Hér er hægt að skrá sig í Fagfélagið.

Félagsmálafræðikennsla í grunnskólum

félagsmálafræðiÍ þessari grein ætla ég að fjalla um valáfanga í félagsmálafræði sem ég kenni í Grunnskóla Seltjarnarness fyrir 8., 9. og 10. bekk. Það ber að nefna að við vorum ekki þau fyrstu sem byrjuðu með félagsmálafræðikennslu en hún er kennd víða með mismunandi sniði. Markmiðið með greininni er aðeins að fjalla um hvernig við byggjum upp áfangann hérna úti á Seltjarnarnesi.  

Umgjörð:

Í Grunnskóla Seltjarnarness eru 167 nemendur í 8., 9. og 10. bekk og er félagsmálafræðin valáfangi sem allir þessir nemendur geta valið. Síðastliðin ár hafa 45-60 nemendur valið félagsmálafræðina og er hún því kennd í tveimur hópum. Einn hópur er fyrir 10. bekk og annar hópur fyrir 8. og 9. bekk. Kennslufyrirkomulagið eru tvær samliggjandi kennslustundir á viku á hvorn hóp. Áfanginn er kenndur af starfsmanni félagsmiðstöðvarinnar Selið á Seltjarnarnesi en hún sér um allt félagslíf skólans í góðu samstarfi við skólastjórnendur.

Markmið og hlutverk:

Markmið með félagsmálafræðikennslu er m.a. að efla félagslegan þroska nemenda, styrkja þá á félagslegum vettvangi og þar með að styrkja sjálfsmynd og viðhorf þeirra til sín og annarra. Félagsmál eru mikilvægur þáttur í mótun unglinga og heilbrigð félagsleg virkni hefur einungis jákvæð áhrif á líf unglinga. Í félagsmálafræðitímum er farið yfir þætti er tengjast ýmiss konar félagsmálum. Kennd er m.a. framsögn, framkoma og tjáning, fundarsköp og skipulagning á viðburðum og uppákomum. Lögð er áhersla á að nemendur geti þroskað og styrkt sjálfsmynd sína en einnig að þeir læri samvinnu, hópavinnu og að bera virðingu fyrir öðrum. Einnig er farið í þætti eins og ábyrgð, siðferði og gagnrýna hugsun.

Félagsmálafræðin, í samstarfi við nemendaráð skólans, sér um framkvæmd og skipulag á öllu félagslífi skólans og félagsmiðstöðvarinnar. Kennslan fer því mikið fram í formi verklegra æfinga við að skipuleggja félagslífið. Markmiðið er því að virkja sem flesta til að taka þátt og hafa áhrif á félagslífið. Félagsmálafræðin skipuleggur og heldur utan um kosningar í nemendaráð skólans og er mælt með því að meðlimir nemendaráðs séu nemendur félagsmálafræðinnar.

Hlutverk nemendaráðs:

Nemendaráðið er skipað af átta fulltrúm úr 8., 9. og 10. bekk og eru þau kosin í lýðræðislegri kosningu á haustin. Hver árgangur á að lágmarki tvo fulltrúa í nemendaráði. Nemendaráðið starfar í nánu samstarfi við starfsmenn Selsins. Hlutverk þess er að vera fyrirmyndir samnemenda sinna og í forsvari fyrir nemendur á skólaráðsfundum og öðrum fundum sem óskað er eftir að nemendur sæki. Nemendaráðið ber einnig ábyrgð á fjármunum nemendafélagsins og á ákveðnum viðburðum en þó alltaf í samstarfi við félagsmálafræðina.

Kennslufyrirkomulag:

Kennslufyrirkomulag félagsmálafræðinnar skiptist í tvo hluta. Annars vegar er tvöföld kennslustund einu sinni í viku sem fer fram í skólanum. Þar er ég með innlegg, æfingar og verkefni ásamt því að nemendur skipuleggja og skipta með sér verkum við framkvæmd á viðburðum. Hinn hlutinn fer svo fram í félagsmiðstöðinni þar sem nemendurnir framkvæma þá viðburði og þau verkefni sem skipulögð voru í skólanum.

Námsefni:

Námsefnið sem notast er við í kennslunni kemur héðan og þaðan og er mikið af því unnið úr kennslubókum sem kenndar eru í tómstunda- og félagsmálafræði í HÍ. Það námsefni hef ég svo einfaldað og sett upp svo það eigi við 13-15 ára unglinga.

Kompás – Handbók um mannréttindafræðslu fyrir ungt fólk er mjög góð bók til að styðjast við í kennslunni. Í Kompás eru góð verkefni í mannréttindafræðslu sem ég hef notast við ásamt því að ég hef tekið aðferðirnar sem kenndar eru í Kompás og breytt umræðuefninu. Aðferðirnar sem kenndar eru við kennslu á Kompás eru mjög líflegar og skemmtilegar og hægt að heimfæra þær á hin ýmsu umræðuefni. Dæmi um umræðuefni sem ég hef notast við til að fjalla um er kynfræðsla, sjálfsmynd, reglur um klæðaburð á Samfestingnum og svo mætti lengi telja.

Dýnamík – Handbók um hópefli og hópeflisleiki fyrir starfsfólk í æskulýðsstarfi er bók sem ég notast mikið við. Í bókinni eru kenndir hinir ýmsu leikir sem þjóna margvíslegum markmiðum. Félagsmálafræðin er kennd seinnipart dags og þá getur góður leikur gjörbreytt stemningunni í hópnum.

Verum virk – Félagsstörf, fundir og framkoma er ný bók sem kom út árið 2012. Í henni er fjallað um félagsmál, lýðræði, samskipti, sjálfsmynd og sjálfsvirðingu, tjáningu og framsögn, fundarsköp, nefndarstörf, rökræður og málamiðlanir. Í þessari bók enda allir kaflar á æfingum sem eiga vel heima í félagsmálafræðikennslu.

Verkefni og æfingar:

Líkt og áður hefur komið fram er stór hluti verklegra æfinga í formi þess að skipuleggja og framkvæma raunveruleg verkefni og sjá um félagslífið fyrir allan skólann. Einnig eru þó ýmsar verklegar æfingar framkvæmdar í tímum og má þar nefna sem dæmi:

  • Æfingar í tjáningu til að styrkja nemendur í að tala fyrir framan fólk.
  • Ræðuflutningur og rökræðukeppnir um hin ýmsu málefni.
  • Kosningar þar sem nemendur eru í framboði fyrir sveitarstjórnarkosningar í bæjarfélaginu. Nemendur eiga að útbúa stefnuskrá, sjónvarpsauglýsingu (sem er leikin í tímanum) og flytja framboðsræður. Að lokum er svo kosið.
  • Æfingar í markmiðssetningu.
  • Umræðuþing um skólamál, hvað sé gott og hvað mætti betur fara í skólanum.
  • Viðburðarstjórnunarverkefni þar sem minni hópar taka að sér skipulag og framkvæmd á minni viðburðum frá A-Ö.

Námsmat:

Námsmatið í félagsmálafræðinni fer alfarið í gegnum Félagströllið (www.felagstrollid.is). Í stuttu máli er Félagströllið leikur þar sem allt það sem nemendurnir taka sér fyrir hendur er metið til stiga, hvort sem þau mæta í félagsmálafræðina, í  félagsmiðstöðina eða á viðburði. Einnig fá nemendur sérstaklega stig ef þeir sækja klúbba eða ef þeir taka þátt í framkvæmd á viðburðum. Félagströllið sér svo um að meta mismunandi verknað til stiga. Sem dæmi má nefna að það að mæta í félagsmiðstöðina gefur 5 stig en það að skipuleggja viðburð gefur 20 stig. 15 stig fá þau fyrir að mæta á viðburðinn og 10 stig fyrir hverja sjoppu eða miðasöluvakt sem nemandinn tekur sér fyrir hendur.  Þannig metur Félagströllið ekki bara mætingu einstaklinga í félagsstarfið heldur einnig virkni þeirra. Fyrir þá sem vilja kynna sér Félagströllið frekar má lesa um það hér.

Að lokum:

Félagsmálafræðin er frábær leið til að fá sem flesta til að taka virkan þátt í skipulagi og framkvæmd á viðburðum og verkefnum á vegum félagsmiðstöðvarinnar. Það að fá sem flesta að borðinu verður svo til þess að krakkarnir upplifa félagslífið alfarið sem sýna eign og sinna því þeim mun betur. Það skemmtilegasta við félagsmálafræðina er þó að sjá þann mun sem verður á félagslegum þroska einstaklinga frá því að þeir byrja í áfanganum og þegar skólaárinu lýkur.