Mikilvægi fjölbreyttra tómstunda

Sem barn upplifði ég einelti af hálfu nokkurra bekkjarfélaga minna og hafði það slæm áhrif á mig andlega og braut niður sjálfsmynd mína. Mér fannst ég lítils virði og ómerkileg og vildi helst vera ósýnileg. Ég átti mjög erfitt með að tjá mig og var mjög feimin. Á unglingsaldri fór ég að læra leiklist. Þar lærði ég að opna mig, fór út fyrir þægindarammann, eignaðist vini og fór aftur að trúa á sjálfa mig. Leiklistin hafði mikil áhrif á líf mitt og tel ég að ef að ég hefði ekki kynnst þessari jákvæðu tómstund á þessum erfiða tíma í lífi mínu hefði ég átt erfiðari unglingsár og sjálfsmynd mín hefði eflaust verið mun verri í dag. Á unglingsárum er maður að þroska sjálfsmynd sína. Margir þættir geta haft slæm áhrif á sjálfsmynd einstaklinga og má þar t.d. nefna einelti, fátækt, heimilisofbeldi og kynferðisofbeldi. Lesa meira “Mikilvægi fjölbreyttra tómstunda”

Getur leiklist haft áhrif á þig sem einstakling?

 

Skóli án aðgreiningar, skóli þar sem fólk fær að blómstra. Grundaskóli á Akranesi er einn af þeim skólum. Í Grundaskóla er bryddað upp á ýmsu til að brjóta upp hversdagsleikann og eitt af því er að þriðja hvert ár er frumsamið leikrit sett á fjalirnar af kennurum skólans.

Grundaskóli er grunnskólinn minn. Þegar ég byrjaði í 1. bekk var unglingadeildin að setja upp söngleik og ég heillaðist algjörlega af því sem var að gerast. Leikritið sjálft, leikurinn hjá krökkunum sem tóku þátt og söngurinn áttu hug minn og hjarta. Söngleikurinn var frumsaminn af kennurum skólans og tónlistin var unnin frá grunni. Leikritið hét Frelsi og ég var algjörlega sannfærð um það, aðeins 7 ára gömul, að þetta var það sem ég vildi gera þegar ég væri komin í unglingadeildina. Eftir Frelsi hefur Grundaskóli sett upp sex söngleiki með þriggja ára millibili. Í ár verður frumsýndur sá sjöundi. Ég fékk að upplifa að taka þátt í þeim fimmta, en hann hét Nornaveiðar.

Söngleikir skólans hafa í gegnum tíðina verið mjög vinsælir en allt að 11 sýningar hafa verið sýndar í Bíóhöllinni á Akranesi fyrir fullu húsi. Undanfarin skipti hefur verið gefin út geisladiskur með lögum úr söngleiknum sem eru öll frumsamin.

Ferlið er þannig að áheyrnarprufur eru settar upp fyrir 8.-10. bekk, en þar fá áhugasamir nemendur að spreyta sig í dansi, leiklist og söng. Önnur hlutverk sem tengjast leikritinu, t.d. tæknimál, söfnun styrkja, aðstoðar leikstjórn eru störf sem nemendur í skólanum sinna. Við uppsetningu hvers leikrits stíga margir sín fyrstu skref í leiklist. Áhuginn á verkefninu er mikill en sumir eru búnir að undibúa sig andlega síðan í fyrsta bekk eins og ég sjálf. Margir krakkar koma út úr skelinni, öðlast sjálfstraust og standa sig frábærlega. Sumir einstaklingar sem öðlast þetta sjálfstraust eru nemendur sem hafa aldrei þorað að standa fyrir framan bekkinn sinn til þess að lesa upp ljóð. Þessir nemendur læra rosalega mikið af svona verkefni þar sem stóra skrefið er að standa fyrir framan fullan sal af fólki.

Grundaskóli á mörg dæmi um krakka sem hafa uppgötvað sína hæfileika í gegnum þátttöku í leikriti á vegum skólans. Þau upplifa sig sterk og sem mikilvægur hluti af hópi sem allir eru að vinna að sama markmiði. Mörg dæmi eru um krakka sem eru í afreksíþróttum en hafa tekið þátt án þess að það hafði áhrif á íþróttaiðkun þeirra. Dæmi er um strák sem þótti mjög efnilegur í fótbolta, hann hafði mikinn áhuga á söng- og leiklist. Hann tók þá ákvörðun að taka þátt í söngleiknum sem þá var settur upp. Eftir mikla vangaveltur fékk hann stórt hlutverk í söngleik þar sem hann stóð sig framúrskarandi vel. Í dag er sá strákur atvinnumaður í fótbolta og spilar með sænsku liði í deild þeirra bestu.

ÍA á einnig stórt hrós skilið fyrir frábæran skilning á þessu verkefni. Verið er að leita eftir leiðtogum, sem þora að stíga fram og hafa kjarkinn til þess. Það eru oft íþróttakrakkarnir sem hafa þann styrk og vilja.

Leiklist gefur svo margt, ég er virkilega heppin að hafa fengið að upplifa þetta tækifæri og hvet alla unglinga á Akranesi að prófa að taka þátt. Sama hversu stórt eða lítið hlutverk hver og einn fær í leikritinu, þá eru allir partur af verkefni sem mun aldrei gleymast. Ég er rosalega stolt af því að hafa fengið að alast upp í þessum skóla og hann er svo sannarlega til fyrirmyndar.
Áfram Grundaskóli!

Aldís Ylfa Heimisdóttir, nemandi í tómstunda og félagsmálafræði við HÍ

Fræðsluáætlun FFF – Fullt af spennandi námskeiðum og fyrirlestrum

Þá er fræðsluáætlun FFF loksins tilbúin. Nú þegar hefur verið haldinn einn hádegisverðarfundur þar sem Steingerður Kristjánsdóttir fjallaði um hugmyndafræði þjónandi forystu (servant leadership) og var það áhugavert umfjöllunarefni sem skapaði góðar umræður hjá þeim sem á hlýddu. Hádegisverðarfundir og Kompás/Compasito námskeið eru fastir liðir hjá okkur og við höldum áfram í vetur að fjalla um reynslunám en nú verður boðið upp á námskeið þar sem viðfangsefnið er leiðbeinandinn í reynslunámi. Einnig verða spennandi námskeið um hvernig hægt er að nýta leiklist og aðferðarfræði verkefnisstjórnunar í frístundastarfi.

Hádegisverðarfundir/smiðjur

Viðfangsefni: Allt eftir stemmingunni hverju sinni.
Hvenær: Nóvember, febrúar, apríl og ágúst.
Staðsetning: Mismunandi – auglýst sérstaklega.
Skráning: Með tölvupósti á [email protected].
Verð: Félagsmönnum og öðrum gestum að kostnaðarlausu.

Kompás og Compasito – stutt kynningarnámskeið

Samstarf FFF, Æskulýðsvettvangsins og Mennta- og menningarmálaráðuneytis.

Viðfangsefni: Bækurnar Kompás og Compasito (Litli Kompás) eru handbækur um mannréttindafræðslu fyrir börn og ungt fólk. Námskeiðið er ætlað þeim sem sinna slíkri mannréttindafræðslu á vettvangi frítímans en gagnast einnig öllum þeim sem starfa með börnum og ungu fólki.
Hvenær: Fjögurra klukkustunda námskeið í janúar, febrúar, mars og apríl.
Staðsetning: Nánar auglýst síðar.
Skráning: Með tölvupósti á [email protected].
Verð: 5000 kr. og félagsmenn í FFF fá Kompás-bókina sér að kostnaðarlausu á námskeiðinu.

Leiðbeinandinn í reynslunámi – hvar er hann?auglysing

Samstarf FFF og Áskorunar ehf.

Viðfangsefni: Þátttakendur verða þjálfaðir í því að verða betri leiðbeinendur eða „vegvísar“ (e. facilitator) í frístunda- og æskulýðsstarfi þannig að þeir geti betur stutt við nám, vöxt og þroska skjólstæðinga sinna.

Markmiðið er að þátttakendur verði meðvitaðri um:

• Þau mismunandi hlutverk (og skyldur) sem fylgja starfinu.

• Þær víddir sem felast í hlutverki leiðbeinandans.

• Aðferðir og leiðir til að ná betri tökum á starfinu.

• Samhengið milli eigin þroska og getunnar til að vinna með þroska annarra.

• Leiðtogann – í eigin lífi og í lífi annarra.

Hvenær: Þrjú skipti á vorönn, hálfur dagur í senn (21. janúar kl. 16-20, 10. mars kl. 9-13 og 29. apríl kl. 18-22) og verkefnavinna þess á milli.
Staðsetning: Hlaðan við frístundamiðstöðina Gufunesbæ í Grafarvogi, Reykjavík.
Skráning: Með tölvupósti á [email protected] fyrir 15. janúar, takmarkaður fjöldi plássa.
Verð: 25.000 kr. fyrir félaga í FFF en 30.000 kr. fyrir aðra.

Leiklist í frístundastarfi

Samstarf FFF og Háskóla Íslands

Viðfangsefni: Fjallað verður um hvernig hægt er að nota leiklist í frístundastarfi, bæði með börnum og unglingum. Námskeiðið byggir á virkri þátttöku og æfingum.

Markmið:

• Að þátttakendur öðlist grunnþekkingu í að beita leiklist sem listformi.

• Að þátttakendur fái innsýn í hvernig hægt er að nota kennsluaðferðir leiklistar á skemmtilegan hátt í tengslum við forvarnir og lífsleikni.

• Að þátttakendur kynnist fjölbreyttum kennsluaðferðum leiklistar og geti notað þær með börnum og unglingum.

Unnið verður með bókina Leiklist í kennslu eftir Önnu Jeppesen og Ásu Helgu Ragnarsdóttur.
Hvenær: Fjögur skipti á vorönn, hálfur dagur í senn (14. janúar kl. 12.30-14.50, 15. janúar kl. 8.20-11.30, 21. janúar 12.30-14.50 og 22 janúar 8.20-11.30 ) og verkefnavinna á milli.
Staðsetning: Háskóli Íslands Stakkahlíð, Reykjavík.
Skráning: Með tölvupósti á [email protected] fyrir 6. janúar.
Verð: 10.000 kr. fyrir félaga í FFF en 15.000 kr. fyrir aðra.

Verkefnastjórnun í frístundastarfi

Samstarf FFF og Háskóla Íslands

Viðfangsefni: Á námskeiðinu veður farið yfir aðferðarfræði verkefnisstjórnunar og skipulagningu verkefna. Markmið námskeiðsins eru að þátttakendur tileinki sér aðferðir verkefnisstjórnunar til að geta aukið skilvirkni í daglegum störfum, stýrt verkefnum og byggt þau upp á faglegan hátt.

Helstu efnisatriði:

• Skilgreining á umhverfi, forsendum, markmiðum og umfangi verkefna.

• Skilgreining verkþáttum og vörður verkefna.

• Forgangsröðun og niðurbrot verkefna niður í verkþætti.

• Hagsmunaaðila- og áhættugreiningar.

• Grunnatriði verkefnaferilsins, uppbygging verkefnaáætlunar, stöðugreiningar, vörður og verkefnislok.

• Verkefnisskipulag og ábyrgð.

• Hlutverk verkefnastjóra, eigenda, stýrihóps, verkefnisteymis og verkefnishóps.

• Eftirlit með framgangi verkefna og hvernig tryggja má tilætlaða niðurstöðu.

Hvenær: Fimmtudaginn 16. janúar kl. 8.20-14.50 og föstudaginn 17. janúar á sama tíma.
Staðsetning: Háskóli Íslands Stakkahlíð, Reykjavík.
Skráning: Með tölvupósti á [email protected] fyrir 11. janúar.
Verð: 10.000 kr. fyrir FFF-félaga en 15.000 kr. fyrir aðra.