Getur leiklist haft áhrif á þig sem einstakling?

 

Skóli án aðgreiningar, skóli þar sem fólk fær að blómstra. Grundaskóli á Akranesi er einn af þeim skólum. Í Grundaskóla er bryddað upp á ýmsu til að brjóta upp hversdagsleikann og eitt af því er að þriðja hvert ár er frumsamið leikrit sett á fjalirnar af kennurum skólans.

Grundaskóli er grunnskólinn minn. Þegar ég byrjaði í 1. bekk var unglingadeildin að setja upp söngleik og ég heillaðist algjörlega af því sem var að gerast. Leikritið sjálft, leikurinn hjá krökkunum sem tóku þátt og söngurinn áttu hug minn og hjarta. Söngleikurinn var frumsaminn af kennurum skólans og tónlistin var unnin frá grunni. Leikritið hét Frelsi og ég var algjörlega sannfærð um það, aðeins 7 ára gömul, að þetta var það sem ég vildi gera þegar ég væri komin í unglingadeildina. Eftir Frelsi hefur Grundaskóli sett upp sex söngleiki með þriggja ára millibili. Í ár verður frumsýndur sá sjöundi. Ég fékk að upplifa að taka þátt í þeim fimmta, en hann hét Nornaveiðar.

Söngleikir skólans hafa í gegnum tíðina verið mjög vinsælir en allt að 11 sýningar hafa verið sýndar í Bíóhöllinni á Akranesi fyrir fullu húsi. Undanfarin skipti hefur verið gefin út geisladiskur með lögum úr söngleiknum sem eru öll frumsamin.

Ferlið er þannig að áheyrnarprufur eru settar upp fyrir 8.-10. bekk, en þar fá áhugasamir nemendur að spreyta sig í dansi, leiklist og söng. Önnur hlutverk sem tengjast leikritinu, t.d. tæknimál, söfnun styrkja, aðstoðar leikstjórn eru störf sem nemendur í skólanum sinna. Við uppsetningu hvers leikrits stíga margir sín fyrstu skref í leiklist. Áhuginn á verkefninu er mikill en sumir eru búnir að undibúa sig andlega síðan í fyrsta bekk eins og ég sjálf. Margir krakkar koma út úr skelinni, öðlast sjálfstraust og standa sig frábærlega. Sumir einstaklingar sem öðlast þetta sjálfstraust eru nemendur sem hafa aldrei þorað að standa fyrir framan bekkinn sinn til þess að lesa upp ljóð. Þessir nemendur læra rosalega mikið af svona verkefni þar sem stóra skrefið er að standa fyrir framan fullan sal af fólki.

Grundaskóli á mörg dæmi um krakka sem hafa uppgötvað sína hæfileika í gegnum þátttöku í leikriti á vegum skólans. Þau upplifa sig sterk og sem mikilvægur hluti af hópi sem allir eru að vinna að sama markmiði. Mörg dæmi eru um krakka sem eru í afreksíþróttum en hafa tekið þátt án þess að það hafði áhrif á íþróttaiðkun þeirra. Dæmi er um strák sem þótti mjög efnilegur í fótbolta, hann hafði mikinn áhuga á söng- og leiklist. Hann tók þá ákvörðun að taka þátt í söngleiknum sem þá var settur upp. Eftir mikla vangaveltur fékk hann stórt hlutverk í söngleik þar sem hann stóð sig framúrskarandi vel. Í dag er sá strákur atvinnumaður í fótbolta og spilar með sænsku liði í deild þeirra bestu.

ÍA á einnig stórt hrós skilið fyrir frábæran skilning á þessu verkefni. Verið er að leita eftir leiðtogum, sem þora að stíga fram og hafa kjarkinn til þess. Það eru oft íþróttakrakkarnir sem hafa þann styrk og vilja.

Leiklist gefur svo margt, ég er virkilega heppin að hafa fengið að upplifa þetta tækifæri og hvet alla unglinga á Akranesi að prófa að taka þátt. Sama hversu stórt eða lítið hlutverk hver og einn fær í leikritinu, þá eru allir partur af verkefni sem mun aldrei gleymast. Ég er rosalega stolt af því að hafa fengið að alast upp í þessum skóla og hann er svo sannarlega til fyrirmyndar.
Áfram Grundaskóli!

Aldís Ylfa Heimisdóttir, nemandi í tómstunda og félagsmálafræði við HÍ