Er faglegt frístundastarf á leikskólum í Hafnarfirði?

Í Morgunblaðinu 9. febrúar sl. birtist frétt þess efnis að Hafnarfjarðarbær hafi fyrst sveitafélaga ráðist í verkefni sem miðar að því að samræma starfstíma í leik- og grunnskólum bæjarins með það að markmiði m.a. að fjölga fagfólki í leikskólum og auka sveigjanleika. Þar er viðtal við Rósu Guðbjartsdóttur, bæjarstjóra Hafnafjarðar, og einnig Harald F. Gíslason formann félags leikskólakennara (FL). Í téðri grein segir m.a: ,,Stærsta breytingin er að frá 15. desember sl. er starfsár starfsfólks í Félagi leikskólakennara og annars háskólamenntaðs starfsfólks innan leikskóla Hafnarfjarðarbæjar orðið sambærilegt starfsári grunnskólakennara“.

Lesa meira “Er faglegt frístundastarf á leikskólum í Hafnarfirði?”

Spennandi ár framundan hjá Félagi fagfólks í frítímaþjónustu

DSC_0095-2

Nú þegar sumarið fer að líða undir lok og fólk mætir aftur til vinnu eftir sumarfrí þá fer starfsemi Félags fagfólks í frítímaþjónustu á fullt. Við í stjórn FFF ásamt nefndum höfum verið útbúa starfsáætlun fyrir veturinn og hefur hann sjaldan litið jafn vel út. Nú þegar er skráning hafin á námskeið fyrir leiðbeinendur í Reynslunámi en það er haldið í samstarfi við Áskorun ehf og má nálgast frekari upplýsingar hér en örfá sæti eru laus á þetta spennandi námskeið.

Í vetur stefnir fagfélagið á að halda 2 hádegisfyrirlestra á önn en þeir hafa verið vel sóttir síðastliðin ár. Fagfélagið mun í samstarfi við Æskulýðsvettvanginn halda fimm námskeið í Litla Kompás víðsvegar um landið á haustönn. Einnig stefnum við á að halda fleiri námskeið í samstarfi við Háskóla Íslands en það samstarf hófst á síðasta ári og lukkaðist afar vel.

Ein spennandi nýjung sem við í stjórninni erum þegar byrjuð að undirbúa er námsferð sem fagfélagið stefnir á að fara í á næsta ári. Stefnan væri þá að ferðast til Evrópu, kynnast systrasamtökum FFF ásamt því að fá innsýn inn í það nýjasta í frístundastarfinu úti.

Ef þú hefur áhuga á að taka þátt í spennandi starfi fagfélagsins í vetur þá hvetjum við þig til að skrá þig í félagið en það er gert með einföldum hætti hér.

Hér má svo lesa starfsáætlun stjórnarinnar í heild sinni.
Likeaðu við FFF á Facebook

Guðmundur Ari Sigurjónsson
Formaður Félags fagfólks í frítímaþjónustu

 

Hvað er fagmennska?

Við fengum leyfi Huldu Valdísar formanns Félags Fagfólks í Frítímaþjónustu að birta grein hennar um fagmennsku sem hún birti upprunalega á heimasíðu FFF.

Hvernig sinnum við sem vinnum á vettvangi frítímans starfi okkar af fagmennsku? Hvað þýðir það að sinna starfi sínu af fagmennsku? Í hverju felast fagleg vinnubrögð? Hvernig er hægt að meta og segja til um það hvað telst vera fagmennska og hvað ekki? Í Íslenskri orðabók (2002) er orðið fagmaður skilgreint á þann veg að fagmaður sé sérfræðingur, maður sem sérlærður er til ákveðins verks. En dugar það að læra ákveðið verk eitt og sér til að hægt sé að kallast fagmaður? Já eflaust má svara því játandi upp að vissu marki en það þarf þó meira til. Það þarf að tileinka sér ákveðin gildi í starfinu, gildi sem eru viðurkennd og hægt er að koma sér saman um að skipti máli fyrir fagið og talin eru nauðsynleg til að hægt sé að segja að starfi sé sinnt af fagmennsku.

Í áhugaverðri grein á Vísindavefnum (Henry Alexander Henrysson, 2012) er hugtakið fagmennska talið siðferðilegt hugtak „sem krefst þess að verk séu unnin heiðarlega og fyrir opnun tjöldum“. Fagleg vinnubrögð eru þannig talin kalla á ákveðið gagnsæi og einnig eru traust og ábyrgð talin einkennandi fyrir fagmennsku. Einn liður í því að styrkja fagleg vinnubrögð getur þannig verið að starfsstéttir setji sér siðareglur. Það má kannski segja að einn liður í því að vera fagmaður sé að starfa eftir og tileinka sér gildandi siðareglur i því fagi sem viðkomandi starfar í og þannig sé hægt að tryggja fagmennsku upp að einhverju ákveðnu marki.

Félag fagfólks í frítímaþjónustu (FFF) samþykkti sínar siðareglur á aðalfundi félagsins í maí 2008. Þar kemur m.a. fram að grundvöllur starfs fagfólks í frítímaþjónustu sé virðing fyrir manngildi og sérstöðu hvers einstaklings og trú á getu hans til að nýta hæfileika sína til fulls. Lögð er á áhersla á heiðarleika og virðingu fyrir skoðunum, lífi og réttindum einstaklinga auk þess sem vinna skal að því að skapa traust almennings á faglegri frítímaþjónustu og ekki megi gera neitt sem rýri orðstír fagsins eða hópsins. Siðareglurnar má lesa í heild sinni hér. Samhliða siðareglum verður að vera skýrt hvað gerist ef þær eru brotnar og hvað ferli fer þá af stað. Einnig er mikilvægt að umræða um gildandi siðareglur sé tekin upp reglulega og reglurnar uppfærðar og þeim breytt eftir aðstæðum, lögum og reglum hverju sinni. Stjórn
FFF hefur nýlega ákveðið að nú sé tímabært að fara í umræður og endurskoðun á siðareglum félagsins og mun kalla eftir virkri þátttöku félagsmanna í þeirri vinnu.

Það er mikilvægt að átta sig á því að þegar fjallað er um fagmennsku og hvað felst í henni að  ekkert einfalt svar er til. Fagmennska er margslungið fyrirbæri sem erfitt er að festa hendi á en að sama skapi eigum við oft auðvelt með að svara því hvað telst ekki vera fagmennska. Það að mennta sig í frítímafræðum, vinna eftir þeim siðareglum sem gilda um vettvanginn og taka virkan þátt í umræðum um þróun hans er að minnsta kosti góð byrjun á þeirri vegferð að geta kallað sig fagmann á vettvangi frítímans.

Heimildir:

Henry Alexander Henrysson. (2012, nóvember). Hvað eru fagleg vinnubrögð? Vísindavefurinn. Sótt 23. september 2013 af  http://visindavefur.is/?id=62547

Mörður Árnason (Ritstj.). (2002). Íslensk orðabók, 3. útgáfa.  Reykjavík: Edda útgáfa hf.

Fræðsluáætlun FFF – Fullt af spennandi námskeiðum og fyrirlestrum

Þá er fræðsluáætlun FFF loksins tilbúin. Nú þegar hefur verið haldinn einn hádegisverðarfundur þar sem Steingerður Kristjánsdóttir fjallaði um hugmyndafræði þjónandi forystu (servant leadership) og var það áhugavert umfjöllunarefni sem skapaði góðar umræður hjá þeim sem á hlýddu. Hádegisverðarfundir og Kompás/Compasito námskeið eru fastir liðir hjá okkur og við höldum áfram í vetur að fjalla um reynslunám en nú verður boðið upp á námskeið þar sem viðfangsefnið er leiðbeinandinn í reynslunámi. Einnig verða spennandi námskeið um hvernig hægt er að nýta leiklist og aðferðarfræði verkefnisstjórnunar í frístundastarfi.

Hádegisverðarfundir/smiðjur

Viðfangsefni: Allt eftir stemmingunni hverju sinni.
Hvenær: Nóvember, febrúar, apríl og ágúst.
Staðsetning: Mismunandi – auglýst sérstaklega.
Skráning: Með tölvupósti á [email protected].
Verð: Félagsmönnum og öðrum gestum að kostnaðarlausu.

Kompás og Compasito – stutt kynningarnámskeið

Samstarf FFF, Æskulýðsvettvangsins og Mennta- og menningarmálaráðuneytis.

Viðfangsefni: Bækurnar Kompás og Compasito (Litli Kompás) eru handbækur um mannréttindafræðslu fyrir börn og ungt fólk. Námskeiðið er ætlað þeim sem sinna slíkri mannréttindafræðslu á vettvangi frítímans en gagnast einnig öllum þeim sem starfa með börnum og ungu fólki.
Hvenær: Fjögurra klukkustunda námskeið í janúar, febrúar, mars og apríl.
Staðsetning: Nánar auglýst síðar.
Skráning: Með tölvupósti á [email protected].
Verð: 5000 kr. og félagsmenn í FFF fá Kompás-bókina sér að kostnaðarlausu á námskeiðinu.

Leiðbeinandinn í reynslunámi – hvar er hann?auglysing

Samstarf FFF og Áskorunar ehf.

Viðfangsefni: Þátttakendur verða þjálfaðir í því að verða betri leiðbeinendur eða „vegvísar“ (e. facilitator) í frístunda- og æskulýðsstarfi þannig að þeir geti betur stutt við nám, vöxt og þroska skjólstæðinga sinna.

Markmiðið er að þátttakendur verði meðvitaðri um:

• Þau mismunandi hlutverk (og skyldur) sem fylgja starfinu.

• Þær víddir sem felast í hlutverki leiðbeinandans.

• Aðferðir og leiðir til að ná betri tökum á starfinu.

• Samhengið milli eigin þroska og getunnar til að vinna með þroska annarra.

• Leiðtogann – í eigin lífi og í lífi annarra.

Hvenær: Þrjú skipti á vorönn, hálfur dagur í senn (21. janúar kl. 16-20, 10. mars kl. 9-13 og 29. apríl kl. 18-22) og verkefnavinna þess á milli.
Staðsetning: Hlaðan við frístundamiðstöðina Gufunesbæ í Grafarvogi, Reykjavík.
Skráning: Með tölvupósti á [email protected] fyrir 15. janúar, takmarkaður fjöldi plássa.
Verð: 25.000 kr. fyrir félaga í FFF en 30.000 kr. fyrir aðra.

Leiklist í frístundastarfi

Samstarf FFF og Háskóla Íslands

Viðfangsefni: Fjallað verður um hvernig hægt er að nota leiklist í frístundastarfi, bæði með börnum og unglingum. Námskeiðið byggir á virkri þátttöku og æfingum.

Markmið:

• Að þátttakendur öðlist grunnþekkingu í að beita leiklist sem listformi.

• Að þátttakendur fái innsýn í hvernig hægt er að nota kennsluaðferðir leiklistar á skemmtilegan hátt í tengslum við forvarnir og lífsleikni.

• Að þátttakendur kynnist fjölbreyttum kennsluaðferðum leiklistar og geti notað þær með börnum og unglingum.

Unnið verður með bókina Leiklist í kennslu eftir Önnu Jeppesen og Ásu Helgu Ragnarsdóttur.
Hvenær: Fjögur skipti á vorönn, hálfur dagur í senn (14. janúar kl. 12.30-14.50, 15. janúar kl. 8.20-11.30, 21. janúar 12.30-14.50 og 22 janúar 8.20-11.30 ) og verkefnavinna á milli.
Staðsetning: Háskóli Íslands Stakkahlíð, Reykjavík.
Skráning: Með tölvupósti á [email protected] fyrir 6. janúar.
Verð: 10.000 kr. fyrir félaga í FFF en 15.000 kr. fyrir aðra.

Verkefnastjórnun í frístundastarfi

Samstarf FFF og Háskóla Íslands

Viðfangsefni: Á námskeiðinu veður farið yfir aðferðarfræði verkefnisstjórnunar og skipulagningu verkefna. Markmið námskeiðsins eru að þátttakendur tileinki sér aðferðir verkefnisstjórnunar til að geta aukið skilvirkni í daglegum störfum, stýrt verkefnum og byggt þau upp á faglegan hátt.

Helstu efnisatriði:

• Skilgreining á umhverfi, forsendum, markmiðum og umfangi verkefna.

• Skilgreining verkþáttum og vörður verkefna.

• Forgangsröðun og niðurbrot verkefna niður í verkþætti.

• Hagsmunaaðila- og áhættugreiningar.

• Grunnatriði verkefnaferilsins, uppbygging verkefnaáætlunar, stöðugreiningar, vörður og verkefnislok.

• Verkefnisskipulag og ábyrgð.

• Hlutverk verkefnastjóra, eigenda, stýrihóps, verkefnisteymis og verkefnishóps.

• Eftirlit með framgangi verkefna og hvernig tryggja má tilætlaða niðurstöðu.

Hvenær: Fimmtudaginn 16. janúar kl. 8.20-14.50 og föstudaginn 17. janúar á sama tíma.
Staðsetning: Háskóli Íslands Stakkahlíð, Reykjavík.
Skráning: Með tölvupósti á [email protected] fyrir 11. janúar.
Verð: 10.000 kr. fyrir FFF-félaga en 15.000 kr. fyrir aðra.

 

FFF – Félag fagfólks í frítímaþjónustu

fagfélag

FFF eða Félag fagfólks í frítímaþjónustu starfar á vettvangi frítímans á vegum sveitarfélaga, s.s. í félagsmiðstöðvum, frístundaheimilum, frístundamiðstöðvum, ungmennahúsum og skrifstofum æskulýðsmála og hefur það markmið að stuðla að aukinni fagmennsku á vettvangnum. Félagið var stofnað árið 2005 af hópi fólks sem allt starfaði við frítímaþjónustu. Markmið félagsins er meðal annars að leggja áherslu á mikilvægi frítímaþjónustu sveitarfélaganna fyrir ungt fólk og efla fagvitund og samheldni fagfólks í frítímaþjónustu með því að skapa félögum vettvang til umræðna og skoðanaskipta. Til að geta gengið í félagið þurfa einstaklingar að hafa lokið háskólanámi í tómstunda- og félagsmálafræðum eða hafa starfað í fimm ár á vettvangi frítímans. Einnig er hægt að sækja um aðild ef einstaklingur sem starfar á vettvangi frítímans hefur lokið háskólanámi á sviði uppeldis- og félagsvísinda. Aukaaðild geta þeir sótt um sem stunda nám á sviði félagsvísinda, uppeldis- og tómstundafræða ef þeir starfa á vettvangi frítímans. Þeir hafa þó einungis áheyrnar-og tillögurétt á aðalfundi og greiða helming félagsgjalds.

Fagfélagið, eins og félagið er jafnan kallað manna á milli, stendur fyrir ýmis konar fundum og fræðslu fyrir fagfólk í frítímaþjónustu. Sem dæmi má nefna Kompás námskeið í lýðræðis- og mannréttindafræðslu sem Fagfélagið hefur staðið fyrir á síðastliðnum mánuðum. Ásamt því að stuðla að aukinni þekkingu á vettvangi frítímans stuðlar Fagfélagið að miklu samstarfi milli stjórnvalda, starfsfólks á vettvangnum og háskólasamfélagsins. Fagfélagið er því mikilvægur liður í því að dýpka þekkingu og auka fagmennsku starfsfólks ásamt því að standa vörð um hagsmuni vettvangsins.

Á nýafstöðnum aðalfundi félagsins var kosin ný stjórn Fagfélagsins en hana skipa:

Hulda Valdís Valdimarsdóttir – Formaður
Guðrún Björk Freysteinsdóttir
Helgi Jónsson
Elísabet Pétursdóttir
Bjarki Sigurjónsson

Guðmundur Ari Sigurjónsson – Varamaður
Nilsína Larsen Einarsdóttir – Varamaður

Við hér á Frítímanum hvetjum alla sem starfa á vettvangi frítímans til að sækja um aðild í Fagfélagið og gerast þannig virkir þátttakendur í að móta og þróa starfsvettvanginn.

Hér er hægt að skrá sig í Fagfélagið.