Vissir þú þetta um félagsmiðstöðvastarfsmenn?

ÞVE myndFélagsmiðstöðvar hafa verið til í einhverri mynd síðan 1956 sem afdrep fyrir unglinga. Undanfarin ár hefur orðið gífurleg þróun í starfi félagsmiðstöðva, allavega í Reykjavík, og fagstarfið sem þar er unnið skákar oft á tíðum því sem best gerist annars staðar í heiminum. Undirritaður hefur rekið sig á stórskemmtilega fordóma gagnvart starfi félagsmiðstöðva og bakgrunn félagsmiðstöðvarstarfsmanna; talið að þeir séu bara að leika sér og jafnvel í einhverri pattstöðu í lifinu. Því fer ansi fjarri raunveruleikanum.

Vissir þú að…

… forstöðumaður félagsmiðstöðvar þarf að hafa lokið háskólaprófi á uppeldissviði?

… félagsmiðstöðvarstarfsmenn ná stundum að mynda tengsl og vera betur meðvitaðir um félagslegan bakgrunn unglinganna en foreldrar þeirra?

… foreldrar unglinga í vímuefnavanda leita stundum til félagsmiðstöðvastarfsmanna í úrræðaleysi sínu til að reyna tjónka við unglingi?

… félagsmiðstöðvarstarfsmenn eru stundum einu aðilarnir sem unglingurinn treystir fyrir vandamálum og vangaveltum sínum?

… barnavernd fær einna flestar tilkynningar frá félagsmiðstöðvum  (enda ber þeim skylda að tilkynna skv. tilkynningarskyldu) á eftir lögreglu?

… í sumum hverfum Reykjavíkur leggja nánast allir unglingar leið sína í félagsmiðstöðina einhverntíman yfir skólaárið en að ca helmingur reykvískra unglinga mætir vikulega eða oftar?

… félagsmiðstöðvar í Reykjavík fara eftir þremur höfuðgildum; forvarnargildum, menntunargildum og afþreyingargildum. Og að allt starf er skipulagt með þessi gildi að leiðarljósi?

… allir nýir starfsmenn félagsmiðstöðva í Reykjavík fara á grunnnámskeið um starfsemi félagsmiðstöðva, skyndihjálparnámskeið og fræðsludag um verklag í félagsmiðstöðvum. Auk þess að forstöðumaður handleiðir nýjan starfsmann markvisst inn í starfið eftir móttökuáætlun félagsmiðstöðvarinnar?

… félagsmiðstöðvarstarfsmenn eru oft meðvitaðri um félagslega stöðu unglinga en margir aðrir í umhverfinu þeirra?

… félagsmiðstöðvar eru með facebook-síður og einn tilgangur þess er að fylgjast með netvenjum unglinganna og grípa inn óviðeigandi  í aðstæður?

… hver einasta félagsmiðstöð í Reykjavík rýnir í rannsóknir um hagi og líðan unglinga í sínu hverfi og skipuleggur starfsemina út frá þeim?

… hugsanlega er hvergi að finna jafn margar verklagsáætlanir og í starfi félagsmiðstöðva?

… flestir starfsmenn félagsmiðstöðva í Reykjavík eru í eða hafa lokið háskólanámi?

… þessi listi gæti verið miklu lengri?

Með þessum orðum hnykki ég á því að félagsmiðstöðvarstarfsmenn eru ekki að gera bara eitthvað í sínu starfi. Þeir eru fagmenn fram í fingurgóma að vinna markvisst fagsstarf í viðleitni sinni til að skila sjálfsstæðum, sjálfsöruggum, umburðarlyndum og lífsglöðum einstaklingum út í lífið. Og það sem meira er; flestir félagsmiðstöðvarstarfsmenn elska vinnuna sína.

Þorsteinn V. Einarsson
Deildarstjóri unglingastarfs
Frístundamiðstöðin Kampur