Fjögur hundruð orð í tómstundaorðabankann

ordanefnd_mynd_sumar2015
Á myndinni eru Jakob, Hulda, Ágústa, Unnsteinn, Karítas og Eygló.

Orðanefnd í tómstundafræðum hefur að undanförnu safnað saman um 400 orðum sem tilheyra tómstunda- og æskulýðsstarfi á Íslandi. Í október stefnir nefndin á að senda þennan orðabanka til umsagnar til þeirra sem starfa innan tómstunda- og æskulýðsstarfs á Íslandi og almennings. Það er von orðanefndarinnar að sem flestir leggi orð í belg.

Orðanefndin hefur verið starfræk frá sumrinu 2013 en fyrst nú, þökk sé styrk frá Æskulýðsráði og styrk úr Málræktarsjóði, hafði nefndin í sumar ráð á að fá til sín launaðan starfsmann. „Við erum mjög spennt fyrir þessu verkefni og sumarið hefur verið mjög gjöfult“ segir Jakob Frímann Þorsteinsson um verkefnið.

Verkefni starfsmanns nefndarinnar var að safna, skilgreina og skrá íðorð (fagorð fræðigreinarinnar) í Orðabanka íslenskrar málstöðvar. Áhersla var lögð á að safna saman íðorðum úr námsefni til BA-gráðu í tómstunda- og félagsfræði. Einnig voru tekin fyrir orð af vettvangi til dæmis úr félagsmiðstöðvastarfi, skátastarfi og kristilegu æskulýðsstarfi. Sumarstarfsmaðurinn, Karítas Hrundar Pálsdóttir, er í BA-námi í íslensku við Háskóla Íslands og hefur reynslu af tómstunda- og æskulýðsstarfi en hvort tveggja kom að góðum notum í starfinu. Í sumar lagði Karítas inn 400 orð í bankann og því hefur orðareikningurinn vaxið hratt.

Auk Jakobs skipa nefndina þær Hulda Valdís Valdimarsdóttir, Eygló Rúnarsdóttir, Unnsteinn Jóhannsson og Ágústa Þorbergsdóttir, starfsmaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og sérfræðingur í íðorðafræði. Markmið orðanefndarinnar er að orðasafnið verði opnað almenningi í upphafi árs 2016. Nefndin vonast til að það komi kennurum og nemendum í tómstunda- og félagsmálafræði, fagfólki og öllum sem starfa við tómstundastarf með börnum og unglingum að gagni og stuðli að skýrari orðræðu.