Fjárhagserfiðleikar skerða möguleika í tómstundum

Það er alltaf talað um það hversu mikilvægt það sé fyrir börn að stunda tómstundir. Það er þroskandi, eflir sjálfsmynd barna og stuðlar að almennri heilsu og vellíðan. Það gefur því augaleið að það sé mjög gott fyrir börn að stunda þær, en eru þær aðgengilegar öllum?

Við nánari skoðun þá er það þannig að um 19% foreldra á örorku hafa ekki tök á því að greiða fyrir tómstundir hjá börnum sínum. Það getur verið mjög dýrt að stunda tómstundir og oftar en ekki er frístundastyrkurinn sem veittur er börnum ekki nema brot af heildarkostnaði. Síðan þarf líka að greiða aukalega fyrir mót, æfingaföt, búninga, hljóðfæri eða leigu á hljóðfæri, bækur eða hvað eina sem vantar til þess að geta stundað tómstundina sem um er að ræða að hverju sinni. Þetta er ávísun á að börn þeirra sem eiga minna á milli handanna verði útundan, einangrist félagslega og geti ekki tekið þátt eins og önnur börn. Lesa meira “Fjárhagserfiðleikar skerða möguleika í tómstundum”

Hvaða áhrif hefur útivera á heilbrigði unglinga?

Hversu mikilvægt er fyrir unglinga að eyða tíma utandyra? Er einhver munur fyrir þau að eyða tíma sínum inni eða úti? Athafnir og lífstíll unglinga hefur mikil áhrif á andlega og líkamlega heilsu þeirra og skiptir því máli hvað þau velja sér að gera í frítíma sínum. Það er einföld tilbreyting á hversdagsleika unglinga að stunda útiveru og getur hún skipt sköpum fyrir heilsu þeirra. En eru þau að eyða nógu miklum tíma í útiveruna til þess að njóta góðs af eiginleikum hennar? Lesa meira “Hvaða áhrif hefur útivera á heilbrigði unglinga?”

Útivist mikilvæg fyrir alla unglinga

Unglingar velja helst í frítíma sínum að sinna tómstundum eða hanga með vinum sínum í símanum. Ég held að þau hugsi ekki mikið um að komast í göngutúr í frítíma sínum. Aukin tækjanotkun hefur haft neikvæð áhrif á útivist unglinga sem er ekki nógu gott. Eitt af verkefnum tómstundafræðinga er t.d. að vekja áhuga þeirra á útivist.

Þátttaka í útivist getur verið skemmtileg og er góð leið fyrir unglinga að tengjast náttúrunni. Ef unglingar eru virkir í útivist eins og að fara oft í göngutúr getur streita og kvíði þeirra minnkað því útivist hefur góð áhrif á líðan. Hún getur kyrrt hugann, veitt ákveðna slökun og hefur góð áhrif á andlega og líkamlega heilsu. Einn stuttur göngutúr getur því haft mikil áhrif á líðan unglings og er góð leið fyrir unglinga að styðja hvort annað til hreyfingar. Lesa meira “Útivist mikilvæg fyrir alla unglinga”

Samfélagsmiðlar og snjalltæki að taka yfir?

Að mínu mati eru unglingar í dag minna úti heldur en hér áður fyrr eða eins og ég upplifi það þá eru krakkar og unglingar meira inni að „hanga“ í tölvunni og símanum. Samfélagsmiðlar eru hægt og rólega að taka yfir líf ungra einstaklinga. Sumir segja meira að segja að það sé nú þegar orðið þannig að samfélagsmiðlar hafa tekið yfir lífið hjá mörgum ef ekki flestum unglingum.

En hvað væri þá hægt að gera fyrir þessa unglinga eða hvað geta þau gert er spurning sem margir hafa ef til vill spurt sig. Sú spurning brennur helst á vörum á sumrin þegar unglingavinnan klárast. Vinna sem þau fá í nokkra tíma á dag í aðeins nokkrar vikur af sumrinu. Hvað eiga unglingarnir að gera við allan þann frítíma sem þau þá hafa yfir sumarið?

Hér koma nokkrar lausnir sem gætu hent þér eða ef þú ert foreldi þá gæti eitthvað af eftirfarandi hentað unglingnum þínu.

  1. Útivera. Ég sjálf hef nýtt mér útiveru og náttúruna til þess að minnka samfélagsmiðlanotkun og svokallaðan skjátíma. Útivera hefur virkilega góð áhrif á alla til að ná aðeins að komast í núið og að vera í núinu. Komast út úr þeim ham sem hversdagsleikinn er.
  2. Yndislestur. Lesa bók eða hlusta á bók getur gefið manni svo mikið. Það að setjast bara einn með sjálfum sér með eitt stykki bók og lesa, leyfa sér að gleymda sér í bókinni. Yndislestur er vanmetin tómstund sem ég tel að þurfi að auka meira í nútímanum. Það hefur verið ákveðin aukning á lestri á bókum eða réttara sagt hlustun á bókum með nýjum forritum í snjalltækjum eins og Storytel. Storytel er forrit sem er með allar helstu bækur teknar upp og þú getur hlustað á þær hvar sem er og hvenær sem er.
  3. Ný áhugamál. Sama á hvaða aldri þú ert er alltaf hægt að finna sér ný áhugamál eða taka upp gömul áhugamál og þar má nefna ýmislegt sem ég gæti stungið upp á.
    • Bakstur, eldamennska, þrifaður, líkamsrækt eða hreyfing.
    • Fyrir foreldra væri hægt að skoða hvað væri í boði í nágrenninu og í því bæjarfélagi sem þið búið í.
  1. Sjálfboðastarf. Það er alltaf hægt að skrá sig í sjálfboðastarf og taka þátt í því, hvort sem það sé á vegum Rauða krossins eða skátastarfsins eða jafnvel bara bjóða þig fram til þess að hjálpa til heima svo eitthvað sé nefnt.
  2. Kynnast nýju fólki. Kíktu út og reyndu að kynnast eitthverjum nýjum.
    – Fyrir foreldra. Fáðu þau til að kíkja út og mögulega kíkja í félagsmiðstöðina.
  3. Líttu inn á við. Reyndu á þína innri föndur hæfileika svo sem teikna, mála eða þess háttar og prófaðu þig áfram.
    Fyrir foreldra. Leyfðu þeim að prófa sig áfram og hjálpaðu þeim með því að sýna þeim hvað hægt sé að gera.
  4. Skáldskapur. Prófaðu að taka blað og penna og skrifa sögu, ljóð eða lag. Hver veit nema þú búir yfir þeim hæfileika að geta skrifað gott lag sem gæti mögulega verið það flott að það kæmist í útvarpið einn daginn.
    Fyrir foreldra. Ýttu undir að þau prófi sig áfram og jafnvel sýna þeim hvað hægt er að gera með nýrri tækni.
  5. Fáðu þér gæludýr. Til dæmis hund og farðu í göngutúr með hann, kenndu honum ný trix, sem dæmi að setjast og sækja. Ef þú átt ekki hund farðu þá í göngutúr með nágrannahundinn eða hundinn hjá frænda eða frænku.
    – Fyrir foreldra. Ef keyptur er hundur þarf að kenna unglingum að sjá um hundinn. Virkja unglinginn með í að taka þátt í uppeldi á hundinum.
  6. Vertu meira með fjölskyldunni þinni. Farðu með ömmu þinni í búð eða kíktu í heimsókn til frænku og frænda.
    – Fyrir foreldra. Eyddu meiri tíma með unglingnum þínum, geriði eitthvað saman sem fjölskylda.

Þetta er aðeins brot af því sem hægt væri að gera fyrir unglingana. Með smá hjálp væri hægt að minnka samfélagsmiðlanotkun og fá unglingana til að eyða minni tíma inni í tölvunni.

María Lilja Fossdal

 

 

 

 

Þekkja unglingar mikilvægi tómstunda?

Ég hef oft velt því fyrir mér hvort unglingar viti afhverju þeir stunda tómstundir. Hvað er það sem er svona mikilvægt við þær? Ég nýti mér oft tækifærið og spyr þá unglinga sem ég þekki til hvers þau stundi tómstundir og hvað þær gefi þeim. Oftar en ekki vita unglingarnir ekkert hverju þeir eiga að svara. Þó svo það séu til ótal margar skilgreiningar á því hvað tómstundir eru og ekki séu allir fræðimenn sammála hvernig best sé að skilgreina það, þá ættu allir að þekkja orðið og geta útskýrt í stuttu máli um hvað það nokkurn veginn snýst.

Það er löngu orðið tímabært að innleiða tómstundamenntun í skólakerfi landsins. Tómstundamenntun er vitundavakning á því hversu mikilvægar tómstundir og frítíminn eru.

Með því að koma tómstundamenntun inn í skólakerfið eykur það skilning unglinga á tómstundum og mikilvægi þeirra sem þau geta tekið mér sér út í lífið. Það er mikilvægt fyrir unglinga að vera meðvitaðir um hvaða áhrif tómstundir geta haft á líf þeirra, hvort þeirra tómstundir hafi neikvæð eða jákvæð áhrif á þeirra vellíðan, hamingju og lífsgæði. Neikvæðar tómstundir eru þær sem geta verið skaðlegar fyrir velferð einstaklinga eins og misnotkun áfengis eða eiturlyfja. Jákvæðar tómstundir eru síðan þær sem auka vellíðan, eru uppbyggjandi og eru nýttar til að bæta lífsgæði, þær tómstundir sem fela í sér líkamlega, félagslega, vitsmunalega eða tilfinningalega þætti.

Unglingsárin eru tími sem einstaklingar eiga það til að leiðast út í áhættuhegðun og finnst mér því unglingsárin kjörinn tími til þess að kynna þeim fyrir tómstundamenntun og geta þá t.d. leitt unglinga að réttri braut áður en þau komast útaf sporinu eða að koma í veg fyrir önnur frítímatengd vandamál og leiða.

Tómstundamenntun hefur þann tilgang að þjálfa og mennta einstaklinga í að iðka tómstundir í frítíma sínum og fá sem flesta til þess að stunda jákvæðar tómstundir sem hafa jákvæð áhrif á frítíma þeirra. Tómstundamenntun fyrir unglinga aðstoðar þau við það að auka eigin lífsgæði með þátttöku í tómstundum. Með tómstundamenntun kynnast unglingar þeirri færni og fá þá þekkingu og tæki til þess að geta nýtt sinn frítíma á uppbyggilegan hátt.

Nú er ég utan af landi, frá litlum bæ á Vestfjörðum og heyri oft talað um það hvað það sé ekkert að gera þar. Í öllum tilfellum kemur það frá unglingum eða ungmennum. Það kemur mér alls ekki á óvart að það sé byrjað að kvarta um þetta á unglingsárunum þar sem unglingar eru ef til vill að vaxa upp úr áhugamálum sem þau voru vön að eiga og enda þau því síðan oft á því að hanga og gera ekki neitt.

Ef til vill getur það verið erfitt að finna sér ný áhugamál eða einfaldlega eitthvað til þess að gera í frítíma sínum. Væri það jafn erfitt ef unglingar myndu læra um tómstundir og frítímann í skólanum? Gæti það komið í veg fyrir áhættuhegðun, frítímatengd vandamál eða leiða? Jafnvel minnkað síma og tölvunotkun?

Elín Ólöf Sveinsdóttir

 

Heimildir

Vanda Sigurgeirsdóttir. (2014). Tómstundamenntun. Uppeldi og menntun, 23(1). 91-97. Sótt

af https://timarit.is/page/6009537#page/n89/mode/2up

 

 

Eru einhverjar tómstundir í boði fyrir 16-18 ára ungmenni?

Ég var hætt í öllum skipulögðum íþróttum þegar ég byrjaði á unglingastigi í grunnskóla. Ég var þó í ungmennaráði í einhvern tíma og mætti oft í félagsmiðstöðina. Ég tók virkan þátt í félagslífinu, bæði í grunnskólanum og í félagsmiðstöðinni og fannst það mjög skemmtilegt. Það er kannski mikilvægt að ég taki það fram að ég ólst upp út á landi og tala út frá minni reynslu. Lesa meira “Eru einhverjar tómstundir í boði fyrir 16-18 ára ungmenni?”