Fjárhagserfiðleikar skerða möguleika í tómstundum

Það er alltaf talað um það hversu mikilvægt það sé fyrir börn að stunda tómstundir. Það er þroskandi, eflir sjálfsmynd barna og stuðlar að almennri heilsu og vellíðan. Það gefur því augaleið að það sé mjög gott fyrir börn að stunda þær, en eru þær aðgengilegar öllum?

Við nánari skoðun þá er það þannig að um 19% foreldra á örorku hafa ekki tök á því að greiða fyrir tómstundir hjá börnum sínum. Það getur verið mjög dýrt að stunda tómstundir og oftar en ekki er frístundastyrkurinn sem veittur er börnum ekki nema brot af heildarkostnaði. Síðan þarf líka að greiða aukalega fyrir mót, æfingaföt, búninga, hljóðfæri eða leigu á hljóðfæri, bækur eða hvað eina sem vantar til þess að geta stundað tómstundina sem um er að ræða að hverju sinni. Þetta er ávísun á að börn þeirra sem eiga minna á milli handanna verði útundan, einangrist félagslega og geti ekki tekið þátt eins og önnur börn.

Í rannsóknarriti Háskóla Íslands frá árinu 2015, um jaðarstöðu foreldra, kom fram að félagsmótun barna fari að mestu leyti fram utan heimilis og eiga fjármunir stóran part í því hversu fjölbreytt og auðgandi hún er fyrir hvert barn. Þar er til dæmis átt við  þátttöku þeirra í skipulögðu íþrótta-, tómstunda- og menningarlegu starfi og líka félagslega stöðu foreldra. Í þessu rannsóknarriti var byrjað á því að leggja fram tvær rannsóknarspurningar. Önnur var  „eru börn fólks sem nýtur fjárhagsaðstoðar eða atvinnuleysisbóta félagslega útilokuð frá þátttöku í félagsstarfi (íþróttum og tómstundum) vegna fjárhagsstöðu foreldranna?” og hin var  „hvort atvinnustaða og þar með fjárhagur foreldra hafi áhrif á félagslegt tengslanet og félagsauð barna þeirra.” Svarið við báðum þessum spurningum var já, að svo væri.

Þessar rannsóknir sýna það svart á hvítu að börnin fá að gjalda fyrir það hverjir foreldrar þeirra eru, hver staða þeirra í samfélaginu er og hver fjárhagur þeirra er, á félagslegu sviði. Foreldrar sem fá veitta fjárhagsaðstoð frá borginni/bænum og foreldrar sem þiggja atvinnuleysisbætur eru mun líklegri en aðrir foreldrar til þess að biðja ættingja sína eða vini um hjálp til þess að greiða fyrir tómstundir barna sinna. Það getur verið niðurlægjandi fyrir foreldra að þurfa að leita til fjölskyldu og vina til þess að fá hjá þeim peninga og það ætti að sjálfsögðu ekki að þurfa að biðja um aur til þess að fjármagna tómstundastarf barns eða að fá lánað fyrir því og skuldsetja sig.

Þetta ástand er ekki boðlegt. Það eiga öll börn að njóta sömu fríðinda þegar kemur að tómstundum, eins og með almenna grunnskólamenntun, þar sem tómstundirnar eru einnig mjög mikilvægar fyrir þroska barnanna. Rannsóknir sýna fram á það að tómstundir barna hafi mikil áhrif á áhættuþætti hjá börnum og virka sem ákveðin forvörn sem gerir samfélaginu til lengdar mjög gott.

Það ætti því að fjárfesta í þessari framtíð og betra samfélagi með því að hafa frístundir og tómstundir sem aðgengilegastar öllum og gera það svoleiðis að öll börn geti stundað þær tómstundir sem þau hafi áhuga á. Það skilar samfélaginu hraustum og hamingjusömum börnum og unglingum sem líður vel, sem er öllum fyrir bestu.

Malín Örlygsdóttir Smári, nemandi í tómstunda- og félagsmálafræði