Unglingar velja helst í frítíma sínum að sinna tómstundum eða hanga með vinum sínum í símanum. Ég held að þau hugsi ekki mikið um að komast í göngutúr í frítíma sínum. Aukin tækjanotkun hefur haft neikvæð áhrif á útivist unglinga sem er ekki nógu gott. Eitt af verkefnum tómstundafræðinga er t.d. að vekja áhuga þeirra á útivist.
Þátttaka í útivist getur verið skemmtileg og er góð leið fyrir unglinga að tengjast náttúrunni. Ef unglingar eru virkir í útivist eins og að fara oft í göngutúr getur streita og kvíði þeirra minnkað því útivist hefur góð áhrif á líðan. Hún getur kyrrt hugann, veitt ákveðna slökun og hefur góð áhrif á andlega og líkamlega heilsu. Einn stuttur göngutúr getur því haft mikil áhrif á líðan unglings og er góð leið fyrir unglinga að styðja hvort annað til hreyfingar.
Útivist og göngur er góð leið til hópeflingar með vinum eða félagahópi og stuðla að félagslegri samvinnu, færni og þekkingu um þær slóðir sem þau ganga um. Margt jákvætt fylgir útivistinni því í henni geta unglingar upplifað og lært sögu, jarðfræði og plöntufræði Íslands, gengið, myndað samband við náttúruna og öðlast dýrmæta reynslu. Með því að vera úti í náttúrunni geta einstaklingar átt meiri tengsl við náttúruna og við það eykst umhyggja og virðing fyrir henni. Við viljum að unglingum þyki vænt um náttúruna og hafi áhuga á henni.
Unglingar sem stunda mikla útivist geta upplifað valdeflingu og bætta sjálfsmynd og sjálfstraust við það að takast á við áskoranir úti í náttúrunni. Þannig eykst lífsgleðin og við viljum alltaf stuðla að vellíðan unglinga og heilbrigðu lífi þeirra. Ekki er verra að skilja símann eftir heima þegar farið er út í náttúruna, en kannski eru ekki margir unglingar til í það.
Mismunandi er hvort unglingar hafa tekið mikinn þátt í útivist sem börn. Margir byrja nefnilega útivistarlífið sitt með fjölskyldu sinni en ekki eru allir svo heppnir að eiga fjölskyldur sem stunda göngur og útivist. Það er aldrei of seint að byrja, hvort sem við kjósum að fara á fjöll, en víða er auðvelt aðgengi að þeim, eða fara í göngur á láglendi. Einnig er hægt að fara með ferðafélögum eða tómstundaklúbbum eins og skátum. Flestir unglingar geta haft gaman af því að takast á við áskoranir í útivist og aukið þannig jákvæða reynslu sína. Ýmis ævintýri geta einnig gerst í útivist, þá m.a. í gönguferðum, þar sem endalausir möguleikar eru á gönguleiðum á Íslandi. Bara í nágrenni Reykjavíkur er fjöldinn allur af gönguleiðum sem hægt er að njóta allt árið og fara í nýja gönguleið í hverri viku ef áhugi er fyrir því. Við erum heppin á Íslandi að hér er mikið af óbyggðum og fjölbreyttum svæðum sem hægt er að ganga um, bæði nálægt byggð, uppi á hálendinu og í fjarlægum friðlöndum eins og á Hornströndum.
Við leit að fjallgöngu- og gönguhópum fyrir unglinga komu fáar niðurstöður upp á netinu en hóparnir virðast frekar höfða til fullorðins fólks eða fjölskyldna. Svo virðist sem hægt sé að auka framboð á útivist og göngum fyrir unglinga og þá ekki bara fyrir þau sem vilja vera í afreksíþróttum heldur ekki síður fyrir þau sem vilja bara vera úti í náttúrunni og njóta hennar, fá hreyfingu og aukna gleði í lífið. Ég held að fjallgöngu- eða gönguhópar sem eru sérstaklega fyrir unglinga væru meira aðlaðandi fyrir þau. Jákvætt væri ef við gætum stutt unglingana að stunda útivist þar sem hún er svo gefandi.
—
Matthildur Louise Göttler, nemi í tómstunda- og félagsmálafræði