Hvaða áhrif hefur útivera á heilbrigði unglinga?

Hversu mikilvægt er fyrir unglinga að eyða tíma utandyra? Er einhver munur fyrir þau að eyða tíma sínum inni eða úti? Athafnir og lífstíll unglinga hefur mikil áhrif á andlega og líkamlega heilsu þeirra og skiptir því máli hvað þau velja sér að gera í frítíma sínum. Það er einföld tilbreyting á hversdagsleika unglinga að stunda útiveru og getur hún skipt sköpum fyrir heilsu þeirra. En eru þau að eyða nógu miklum tíma í útiveruna til þess að njóta góðs af eiginleikum hennar?

Útivera unglinga hefur jákvæð áhrif á bæði andlegan og líkamlegan þroska þeirra, hún getur aukið einbeitingu og meiri tengingu við náttúru og umhverfi. Útivera snýst fyrst og fremst um það að vera utandyra í náttúrunni en nokkur dæmi um útiveru eru göngutúrar, sundferðir, hjólreiðar, fjallgöngur, leikir eða einfaldlega bara að sitja úti á palli í góðu veðri. Ekki þarf að hafa mikið fyrir því að stunda útiveru, það þarf einfaldlega að klæða sig í viðeigandi fatnað eftir veðri og láta hugmyndaflugið ráða för um hvert skal halda.

 

Ekki næg útivera unglinga

Unglingar í dag eru alls ekki að fá næga útiveru, ein af ástæðum þess er að mikið af félagslífi þeirra fer fram á samfélagsmiðlum. Aðrar líklegar ástæður minnkandi útiveru unglinga gætu til dæmis verið meiri umferð, fækkun á grænum svæðum og meira skipulagt tómstunda- og íþróttastarf innandyra. Unglingar æfa margir hverjir íþróttir sem fara eingöngu fram innandyra og eru oft að æfa marga daga vikunnar sem gerir það að verkum að þeir hafi minni tíma til að verja úti. Það eru íþróttir eins og körfubolti, handbolti, badminton, fimleikar, blak og svo mætti lengi telja. Með tilkomu stórra íþróttahúsa hafa enn fleiri íþróttagreinar fært æfingar sínar innandyra eins og fótbólti sem var nær eingöngu æfður utandyra. Þegar unglingar færast upp á elsta stig í skólum er oft ekki gerð krafa til þeirra að fara út í frímínútum. Það leiðir til þess að þau hanga inni í stað þess að fara út. Þeim finnst líklegast æðislegt að vera ekki tilneydd til þess að fara út í öllum veðrum en missa aftur á móti nokkrar mikilvægar mínútur í útiveru á hverjum degi.

Hvernig er hægt að auka útiveru unglinga?

Skólar gætu tekið meira þátt í því að stuðla að aukinni útiveru unglinga með því að fækka innandyra frímínútum, hafa útikennslu þegar veður leyfir og með því að fræða unglinga um hversu góð áhrif útivera hefur á heilsu þeirra.

Hollráð fyrir foreldra og forráðamenn til að auka útiveru unglinga er að þau fái tækifæri og hvatningu frá fullorðnum til að vera úti. Því yngri sem börn eru þegar þau læra að leika sér úti, kanna náttúruna og umhverfi sitt því líklegra er að þau haldi áfram að stunda útivist þegar þau eldast. Það er því mikilvægt fyrir börn og unglinga að hafa góðar fyrirmyndir. Þau eru líklegri til þess að eyða tíma úti ef foreldrar og forráðamenn fara á undan með góðu fordæmi.

Með hvatningu og stuðningi frá skólum og foreldrum getum við tryggt að unglingar fái nægilegt rými og tækifæri til alls kyns útiveru. Það er svo margt sem regluleg útivera færir okkur og  unglingar verða að vera duglegri að nýta hana.

Eru unglingarnir í þínu nærumhverfi að stunda næga útiveru?

Júlía Birna Ingvarsdóttir, nemi í tómstunda- og félagsmálafræði