Fá raddir allra að heyrast?

12. grein Barnasáttmálans hljóðar svona: „Börn eiga rétt á því að tjá sig frjálslega um öll málefni sem hafa áhrif á líf þeirra. Fullorðnir eiga að hlusta og taka mark á þeim.“ Það er skylda okkar að hlusta á börnin og taka mark á þeim. Við eigum að gefa þeim rödd. Ef þau geta ekki talað er það okkar að vera röddin fyrir þau. Hvernig leyfum við öllum röddum innan skólans eða félagsmiðstöðvarinnar að heyrast? Góð lausn er hugmyndabox. Ekki allir unglingar vilja sitja í einhverjum ráðum. Sumir hafa engan áhuga á því, sumir hafa kannski ekki tímann til þess og sumir eru bara feimnari og hlédrægari en aðrir unglingar. Þar kemur hugmyndaboxið inn. Því það er fyrir alla! En það þarf að útskýra boxið vel áður en það er tekið í notkun.

Unglingarnir setja hugmyndir í boxið og það getur verið nafnlaust, þau ráða. Auðvitað er ekki nóg að skoða bara eina hugmynd heldur er mikilvægt að skoða þær allar, þannig styðjum við lýðræðið og þá fá raddir allra að heyrast. Það geta alltaf komið upp óraunhæfar hugmyndir, þá útskýrum við. Af hverju er hún óraunhæf? Er mögulega hægt að framkvæma hana öðruvísi? Spyrjum okkur þessara spurninga og verum opin og lausnamiðuð. Svo er hægt að hjálpast að við að koma henni í framkvæmd. Vinna með unglingunum, að þau verði partur af ferlinu. Enginn hugmynd er vond hugmynd.

Svo er ekki nóg að einungis lesa hugmyndirnar heldur þurfum við að hafa áhrif. Framkvæma, framkvæma, framkvæma! Hver var tilgangur boxins ef við notum enga hugmynd sem kemur í það? Þarna kemur starfið okkar sterkt inn, mikilvægt að hafa áhrif. Væru félagsmiðstöðvar til í dag ef enginn hefði verið að pæla í unglingunum? Stutta svarið er nei.

Boxið er síðan hægt að nota á allskonar vegu. Ekki bara fyrir hugmyndir heldur einnig er hægt að spyrja krakkana hvort eitthvað mætti betur fara eða hvað þeim finnst almennt.  Svo er hægt að spyrja þau hvað þeim finnist um hugmyndaboxið? Mér finnst þetta algjör súper leið til þess að gefa öllum rödd. Það þora ekki allir að koma fram eða rétta upp hönd fyrir framan alla. Svona tryggjum við öruggt rými fyrir öll til að koma sínum skoðunum á framfæri.

Unglingarnir okkar og ungmennin eru framtíðin. Þau eru komandi kynslóðir. Það eru þau sem munu sitja á þingi, verða forsetar, labba á tunglinu, verða læknar, lögfræðingar, kennarar, stjórnendur. Það eru þau sem munu taka við af okkur. Ef þeim finnst þau ekki hafa rödd núna, hvernig mun þeim líða þegar þau koma á fullorðinsaldur? Við vinnum með mikilvægasta fólkinu, við vinnum með framtíðinni. Það þarf að hlusta og hafa áhrif, það þarf að byggja upp öruggt rými svo þau segi frá. Við þurfum að efla þetta flotta unga fólk okkar á jákvæðan og uppbyggilegan hátt. Sýna þeim að það má taka pláss og það má alltaf láta í sér heyra. Ef við erum ekki fyrirmyndirnar, hverjir eru það þá?

Kristín Anna Jónsdóttir, nemi í tómstunda- og félagsmálafræði