Ný stjórn og ályktun frá aðalfundi Samfés – Málefni barna og ungmenna á oddinn

62630_370662429719337_236015964_n
Nýkjörin stjórn Samfés

Á aðalfundi Samfés, samtaka félagsmiðstöðva á Íslandi, sem fram fór á Bifröst í Borgarfirði dagana 18.-19. apríl, var kjörin ný stjórn ásamt því að aðalfundurinn sendi frá sér ályktun um að hvetja frambjóðendur stjórnmálaflokkanna og fjölmiðla að setja málefni barna og unglinga á oddinn í kosningabaráttunni. Ályktunin í heild sinni má lesa hér að neðan.

Ásamt hefðbundnum aðalfundarstörfum sóttu fundarmenn svokallaðar WorldCafé umræðustofur þar sem farið var yfir starf Samfés og viðburði. Það var mikill kraftur á fundinum og greinilegt að fagmennskan er í fyrirrúmi hjá félagsmiðstöðvum á Íslandi.

Nýkjörna stjórn Samfés skipa:
Gunnar E. Sigurbjörnsson – Formaður
Andri Lefever – Gjaldkeri
Linda Björk Pálsdóttir
Svava Gunnarsdóttir
Þorvaldur Guðjónsson

Varamenn
Andrea Marel
Gunnlaugur Víðir Guðmundsson
Óli Örn Atlason

Ályktun aðalfundar: Málefni barna og unglinga verði sett á oddinn

Aðalfundur Samfés, samtaka félagsmiðstöðva á Íslandi haldinn á Bifröst í Borgarfirði dagana 18.-19. apríl, hvetur frambjóðendur stjórnmálaflokkanna og fjölmiðla að setja málefni barna og unglinga á oddinn í kosningabaráttunni.

Þá minnir fundurinn frambjóðendur á að rödd barna og unglinga á að fá að hljóma þegar ákvarðanir eru teknar um málefni þeirra. Samkvæmt 12. grein Barnasáttmálans sem var lögfestur á nýafstöðnu þingi eiga börn og unglingar rétt á að láta í ljós skoðanir sínar og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þeirra í þeim málum sem varða málefni þeirra.

Samfés eru frjáls félagasamtök félags- og tómstundamiðstöðva sem bjóða uppá skipulagt og opið æskulýðsstarf þar sem starfsemin byggist upp á lýðræðislegum vinnubrögðum og starfað er samkvæmt skilgreindum uppeldismarkmiðum. 111 félagsmiðstöðvar og ungmennahús eru aðilar að Samfés.