Fá raddir allra að heyrast?

12. grein Barnasáttmálans hljóðar svona: „Börn eiga rétt á því að tjá sig frjálslega um öll málefni sem hafa áhrif á líf þeirra. Fullorðnir eiga að hlusta og taka mark á þeim.“ Það er skylda okkar að hlusta á börnin og taka mark á þeim. Við eigum að gefa þeim rödd. Ef þau geta ekki talað er það okkar að vera röddin fyrir þau. Hvernig leyfum við öllum röddum innan skólans eða félagsmiðstöðvarinnar að heyrast? Góð lausn er hugmyndabox. Ekki allir unglingar vilja sitja í einhverjum ráðum. Sumir hafa engan áhuga á því, sumir hafa kannski ekki tímann til þess og sumir eru bara feimnari og hlédrægari en aðrir unglingar. Þar kemur hugmyndaboxið inn. Því það er fyrir alla! En það þarf að útskýra boxið vel áður en það er tekið í notkun. Lesa meira “Fá raddir allra að heyrast?”

Ný stjórn og ályktun frá aðalfundi Samfés – Málefni barna og ungmenna á oddinn

62630_370662429719337_236015964_n
Nýkjörin stjórn Samfés

Á aðalfundi Samfés, samtaka félagsmiðstöðva á Íslandi, sem fram fór á Bifröst í Borgarfirði dagana 18.-19. apríl, var kjörin ný stjórn ásamt því að aðalfundurinn sendi frá sér ályktun um að hvetja frambjóðendur stjórnmálaflokkanna og fjölmiðla að setja málefni barna og unglinga á oddinn í kosningabaráttunni. Ályktunin í heild sinni má lesa hér að neðan.

Ásamt hefðbundnum aðalfundarstörfum sóttu fundarmenn svokallaðar WorldCafé umræðustofur þar sem farið var yfir starf Samfés og viðburði. Það var mikill kraftur á fundinum og greinilegt að fagmennskan er í fyrirrúmi hjá félagsmiðstöðvum á Íslandi.

Nýkjörna stjórn Samfés skipa:
Gunnar E. Sigurbjörnsson – Formaður
Andri Lefever – Gjaldkeri
Linda Björk Pálsdóttir
Svava Gunnarsdóttir
Þorvaldur Guðjónsson

Varamenn
Andrea Marel
Gunnlaugur Víðir Guðmundsson
Óli Örn Atlason

Ályktun aðalfundar: Málefni barna og unglinga verði sett á oddinn

Aðalfundur Samfés, samtaka félagsmiðstöðva á Íslandi haldinn á Bifröst í Borgarfirði dagana 18.-19. apríl, hvetur frambjóðendur stjórnmálaflokkanna og fjölmiðla að setja málefni barna og unglinga á oddinn í kosningabaráttunni.

Þá minnir fundurinn frambjóðendur á að rödd barna og unglinga á að fá að hljóma þegar ákvarðanir eru teknar um málefni þeirra. Samkvæmt 12. grein Barnasáttmálans sem var lögfestur á nýafstöðnu þingi eiga börn og unglingar rétt á að láta í ljós skoðanir sínar og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þeirra í þeim málum sem varða málefni þeirra.

Samfés eru frjáls félagasamtök félags- og tómstundamiðstöðva sem bjóða uppá skipulagt og opið æskulýðsstarf þar sem starfsemin byggist upp á lýðræðislegum vinnubrögðum og starfað er samkvæmt skilgreindum uppeldismarkmiðum. 111 félagsmiðstöðvar og ungmennahús eru aðilar að Samfés.