Unglingar eiga það besta skilið

ornarnarsonTómstundir fyrir unglinga eru fjölbreyttar og öruggt að þeir finna eitthvað við sitt hæfi í þeim aragrúa viðfangsefna sem félagsmiðstöðvar bjóða þeim uppá. Margir kjósa íþróttir og tónlistarnám meðfram skyldunámi en aðrir velja sér þá leið að stunda félagsmiðstöð. Enn aðrir fara svo í skátana, björgunarsveitir eða jafnvel æskulýðsstarf kirkjunnar.

Félagsmiðstöðvar á Íslandi gegna mikilvægu hlutverki fyrir stóran hóp ungmenna. Þar læra unglingar ýmislegt um lífið sjálft frá sjónarhóli jafnaldra sinna. Að auki er þar starfsfólk á aldrinum 20 ára og uppúr sem flest hafa upplifað venjuleg unglingavandamál. Starfsfólk sem getur svarað spurningum sem unglingar kjósa kannski síður að spyrja forelda sína að. Mikið traust skapast þannig á milli unglinga og starfsfólks og treysta þeir starfsfólki fyrir ótrúlegustu hlutum. Vegna þessa er mikilvægt að starfsfólk félagsmiðstöðva sé meðvitað og í góðum tengslum við unga nemendur, ef þeir skyldu segja þeim eitthvað sem gæti skipt máli í skólastarfinu.

Það er mín skoðun að með námi í tómstunda- og félagsmálafræði hafi komið inn miklu meiri fagmennska í allt starfið og breytt því til hins betra. En af þessu sögðu er það svolítið furðulegt að engin lög eru til um starfsemi félagsmiðstöðva á Íslandi. Sveitarafélögum er því í sjálfsvald sett að skera niður að vild eða bjóða ekki upp á þjónustuna ef þau kjósa svo. Staða mála er því óviðunandi og þessu verður að breyta sem fyrst.

Löggjöf um félagsmiðstöðvar

Margrét Gauja Magnúsdóttir alþingsmaður lagði fram þingsályktun á 143. löggjafarþingi um löggjöf og starfsskrá félagsmiðstöðva: „Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að undirbúa löggjöf um félagsmiðstöðvar og um starfsskrá þeirra. Vinnan verði unnin í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga, Samfés og aðra hagsmunaaðila eftir því sem við á hverju sinni. Ráðherra leggi fram frumvarp eigi síðar en á haustþingi 2016.“ Ályktunin dagaði uppi en ekki er öll von úti því Margrét Gauja lagði þingsályktunina aftur fram á 145 löggjafaþingi sem er enn að störfum og vonandi að hún verði samþykkt.

Einu lögin sem eru til um félagsmiðstöðvar eru æskulýðslög. Lögin eru nr. 70/2007 og eiga við félagsmiðstöðvar eftir því sem við á. 2. gr. laganna fjallar um gildissvið laganna. 2. tl. greinarinnar orðast svo: „Æskulýðsstarf á vegum ríkis og sveitarfélaga og í skólum, að svo miklu leyti sem við á og önnur lög og aðrar reglur gilda ekki um.“ Í 3. gr. laganna er einnig vikið að því starfi sem félagsmiðstöðvar sinna. 1. ml. greinarinnar orðast svo: „Ríki og sveitarfélög í samstarfi við félög og félagasamtök á sviði æskulýðsmála stuðla að því að ungt fólk eigi þess kost að starfa að æskulýðsmálum við sem fjölbreyttust skilyrði.“

Starfsheiti verði lögverndað

Í dag eru starfræktar 115 félagsmiðstöðvar í landinu og því er um mikið hagsmunamál að ræða að fá lög sem vernda starfssemi þeirra. Í lok greinargerðar sem fylgir þingsályktun Margrétar Gauju og meðflutningsmanna er lögð áhersla á mikilvægi tómstunda- og félagsmálafræðinga. Lokamálsliður hennar orðast svo: „Nám í tómstunda- og félagsmálafræði hefur verið í boði við Háskóla íslands frá 2003 og því tímabært að ráðherra taki til skoðunar hvort ekki sé rétt að um lögverndað starfsheiti verði að ræða og að þá verði vikið að réttindum og skyldum tómstunda- og félagsmálafærðinga sem starfa á félagsmiðstöðvum í árðurnefndum sérstökum kafla um félagmiðstöðvar í æskulýðslögum, nr. 70/2007.“

Það hefur lítið farið fyrir þessar þingsályktun, enda rata jákvæðar fréttir um unglinga eða lög tengd þeim sjaldnast í fjölmiðla. Það er því skylda okkar sem eru í þessu námi að gefa þessari þingsályktun gaum. Ég skora hér með á alla samnemendur mína að vekja athygli á þingsályktun um löggjöf og starfsskrá félagsmiðstöðva samtímis og skorað er á alþingismenn að samþykkja hana.

Örn Arnarson, háskólanemi í tómstunda- og félagsmálafræði