Kynfræðsla, ekki kynhræðsla!

ivar orri aronssonKynfræðsla, ekki kynhræðsla! Þetta voru upphafsorð Eyrúnar Magnúsdóttur, fulltrúa í Ungmennaráði Laugardals og Háaleitis, á borgarstjórnarfundi á dögunum. Þar kom hún fyrir borgarstjórn og lagði fram tillögu að aukinni kynfræðslu í grunnskólum borgarinnar. Fyrir nokkrum vikum birtist grein í Fréttatímanum þar sem tekið var viðtal við nokkra nemendur í efstu bekkjum grunnskóla um kynfræðslu. Viðmælendur töldu kynfræðsluna vera til skammar, kennslubókin sem notast er við er 18 ára gömul og úrelt. Viðmælendur rifjuðu upp hversu oft þau hafa fengið kynfræðslu og töldu upp 2 skipti, í 6. bekk og síðan í 9. bekk. Einn viðmælandi sagðist hafa lært meira á svokölluðu Tabú kvöldi í félagsmiðstöðinni sinni en í kynfræðslu í skólanum. Þar gátu krakkarnir skrifað nafnlausar spurningar og vangaveltur á miða og síðan var tekin umræða um það með öðrum unglingum og starfsmönnum félagsmiðstöðvarinnar.

En það er ekki nóg að skrifa bara nýja kennslubók, það þarf að breyta áherslum kynfræðslunnar mjög mikið. Kynfræðsla hefur ekki mikið breyst í gegnum árin, stelpur fá aðallega fræðslu um tíðahringinn og þær breytingar sem eru að eiga sér stað á líkama þeirra á meðan strákum er kennt um mútur og hárvöxt. Saman fá kynin síðan fræðslu um getnaðarvarnir og helstu kynsjúkdóma, smitleiðir þeirra og einkenni. Kynfræðslan þarf að snúast um svo miklu meira en bara þetta. Á undanförnum árum og áratugum hefur orðið algjör bylting í aðgengi internets, og samhliða aðgengi að klámi. Í dag eru börn og unglingar nettengd nánast allan sólarhringinn í gegnum tölvur, síma eða spjaldtölvur. Framboðið af alls kyns klámi er gríðarlegt og sýna rannsóknir að meðalaldur þeirra sem horfa á klám í fyrsta skipti er undir 10 ára aldri. Á þessum aldri er heilinn að mótast hratt og einstaklingar að læra á lífið. Þarna fer að miklu leyti fram fyrsta kynfræðsla ungmenna, ef fræðslu má kalla. Þetta er þeirra leið til að nálgast upplýsingar og svala forvitni sinni um kynlíf. Þær upplýsingar og sú fræðsla sem börn og unglingar fá um kynlíf í gegnum klám eru oftast ekki góðar og endurspeglar eðlilegt kynlíf ekki á nokkurn hátt. Pressan sem klámið getur sett á unglinga getur verið óhugnarleg. Stelpur halda að kynlíf snúist um að vera undirgefin og alltaf til í tuskið. Strákar eiga að sama skapi alltaf að vera til í tuskið og eiga að geta haldið áfram endalaust. Þetta eru langt frá því að vera eðlilegar kröfur og þess vegna er algjört lykilatriði að fræða unglinga um eðlilegt kynlíf í kynfræðslunni.

Nú vitna ég í viðtalið við unglinginn í Fréttatímanum sem sagðist hafa lært meira á einu kvöldi í félagsmiðstöðinni en allri sinni kynfræðslu og hvet ég því skólana til að nýta sér mannauðinn sem félagsmiðstöðin hefur upp á að bjóða. Ég sem starfsmaður í félagsmiðstöð sé ekkert því til fyrirstöðu að skólarnir fái félagsmiðstöðina í lið með sér. Félagsmiðstöðvarstarfsmenn hafa flestir sótt ótalmörg námskeið um kynlífsfræðslu, klámvæðingu og þeir hafa dýrmæta reynslu þegar kemur að því að tala um þessi mál við unglinga í félagsmiðstöðinni. Samstarf skóla og félagsmiðstöðva er alltaf að aukast meira og meira með hverju árinu enda vinnum við að sameiginlegu markmiði, að búa unglingana sem best undir lífið. Þetta skref að þróa og aðlaga kynfræðsluna að nútímasamfélagi er kjörið samstarfsverkefni fyrir skóla og félagsmiðstöð og þess vegna biðla ég aftur til skólana að horfa til félagsmiðstöðvanna og nýta allt það frábæra fólk sem starfar á þeim vettvangi.

Ívar Orri Aronsson, aðstoðarforstöðumaður í félagsmiðstöð og háskólanemi