Því fleiri unglingar, því meiri gæði?

inga bjorkUndanfarnar vikur hef ég mikið pælt í gæðum félagsmiðstöðva hér á klakanum  og þá sérstaklega þeim á landsbyggðinni, þar sem ég ólst upp úti á land. Ég gekk í lítinn skóla sem staðsettur var í sveitahreppnum sem ég bjó í og frá fyrsta upp í sjöunda bekk samanstóð bekkurinn minn af tveimur nemendum og var skólanum skipt í tvær deildir sem virkuðu eins og tveir bekkir. Í áttunda, níunda og tíunda bekk fór ég svo í fjölmennari skóla, hver árgangur var frekar lítill og aðeins einn bekkur í hverjum árgangi. Þetta voru miklar breytingar fyrir mig og stórar breytingar að vera allt í einu í tuttugu manna bekk og þar fyrst kynntist ég félagsmiðstöð. Hún var í boði annan hvern fimmtudag í tvo og hálfa klukkustund í senn, engin formleg dagskrá var yfir daginn og einungis það í boði sem starfsmennirnir höfðu áhuga á. Þar sem ekki var möguleiki á að unglingarnir kæmu sér sjálf heim eftir félagsmiðstöðina, sá skólabíllinn um að keyra börnin heim eftir að henni lauk á kvöldin.

Núna tíu árum seinna stunda ég ná í tómstunda- og félagsmálafræði og við lærum margt um tómstundir unglinga og það fékk mig til að hugsa um gömlu félagsmiðstöðina mína. Ég fór og athugaði hvort hún hefði ekki breyst á þessum tíu árum en allt kom fyrir ekki, hún er enn þann dag í dag opin á sömu tímum og áður fyrr. Krökkunum stendur aftur á móti til boða að sækja félagsmiðstöð í 20 kílómetra fjarlægð frá skólanum sem er opin tvisvar í viku og ég spyr sjálfa mig hvort það sé samasem merki á milli þess hve margir unglingar séu í nágrenni félagsmiðstöðvarinnar og því hversu mikið er lagt í hana og hver gæði hennar séu? Mér þykir það sorglegt að sjá að framfarir félagsmiðstöðvarinnar hafi ekki verið meiri en þetta yfir þennan tíma.

Á vef Reykjavíkurborgar segir að opnunartími félagsmiðstöðva sé mismunandi eftir hverfum en lágmarkið sé tvö til þrjú kvöld í viku (Reykjavíkurborg). Einnig athugaði ég með opnunartíma í Kópavogi og sé að flestar félagsmiðstöðvarnar þar eru með síðdegisopnun fjóra daga vikunnar ásamt þremur kvöldopnunum (Félagsmiðstöðvar barna og unglinga í Kópavogi). Ef borin er saman opnunartími úti á landi og á höfuðborgarsvæðinu er opið að lágmarki tvisvar sinnum í viku á höfuðborgarsvæðinu en tvisvar sinnum í mánuði á landsbyggðinni. Þó svo að unglingarnir geti sótt félagsmiðstöð í grennd við annan skóla þurfa þau sjálf að huga að því að komast á milli staða. En þá spyr ég, er raunhæft að ætlast til að unglingar bænda sjái sjálf um að koma sér til og frá félagsmiðstöð sem opin er oftar á svæði þar sem ekki er strætó og eini möguleikinn á að komast á milli staða er með einkabíl?  Ef þetta hefði verið í boði þegar ég ólst upp veit ég að það hefði aldrei verið möguleiki fyrir mig að sækja félagsmiðstöð annarsstaðar vegna mjalta og annara bústarfa heima og engin smuga fyrir foreldra mína að eyða samanlagt tveimur klukkustundum í það að skutla mér á milli staða.

Ég tel mikilvægt að sveitafélög úti á landi skoði vel frístundageirann í sínu sveitafélagi og skora hreinlega á þau að auka opnunartíma og bæta starf félagsmiðstöðva sem staðsettar eru í skólunum eða að lágmarki auka þá aðgengi krakkanna í þær félagsmiðstöðvar sem nú þegar eru opnar lengur. Að auka aðgegni þarf ekki að vera flókið, hægt væri að fá bílstjórana til að skutla tvö kvöld í viku, stofna einhverskonar rútuþjónustu eða hreinlega að hjálpa foreldrum að sameinast um að skiptast á að keyra krakkana í minnstu sveitafélögunum og fá greiddan akstursstyrk. Það eru margar auðveldar leiðir í boði sem ekki krefjast mikilla breytinga og því skil ég ekki hví ekkert hefur breyst á þessum árum síðan ég var í grunnskóla.

Inga Björk Matthíasdóttir, háskólanemi í tómstunda- og félagsmálafræði.

Heimildir:

Reykjavíkurborg. (e.d). Félagsmiðstöðvar. Sótt af http://eldri.reykjavik.is/desktopdefault.aspx/tabid-3697/6079_view-1514/

Félagsmiðstöðvar barna og unglinga í Kópavogi. (e.d.). Sótt af http://felagsmidstodvar.kopavogur.is