Jöfn tækifæri til tómstundaiðkunar ?

Verandi fædd og uppalin í uppsveitum Árnessýslu (Skeiða – og Gnúpverjahreppi) get ég með sanni sagt að úrval tómstunda sé töluvert minna þar en t.d. á höfuðborgarsvæðinu. Af hverju ætli það sé? Jú, í þessum litlu og fámennu sveitarfélögum er í mörgum tilfellum ekki nógu góð aðstaða til að stunda tilteknar tómstundir og í langflestum tilvikum er ekki til fjármagn til að bæta þá aðstöðu sem nú þegar er til því það kemur ekki til með að borga sig. Oftar en ekki skortir líka fagfólk til að halda uppi tómstundastarfi á hinum ýmsu sviðum.

Lesa meira “Jöfn tækifæri til tómstundaiðkunar ?”

Fá börn að njóta æskunnar í fámennum sveitarfélögum?

Íþrótta- og æskulýðsstarf gegnir þýðingarmiklu hlutverki í samfélagi okkar og í lífi einstaklinga. Þátttaka barna og ungmenna í starfinu hefur fjölþætt gildi á ýmsum sviðum og í gegnum þetta mikilvæga starf skapast vettvangur til að vinna að aukinni lýðheilsu, efla félagsþroska barna og ungmenna ásamt því að vinna að forvörnum, félags- og lýðræðiþátttöku, borgaravitund og ýmsu fleira.

Við höfum öll heyrt af ávinningi forvarnarátaka á Íslandi síðustu áratugi þegar kemur að neyslu áfengis, tóbaks og fíkniefna meðal ungmenna á Íslandi. Það hefur unnist með markvissu átaki og forvörnum í gegnum árin ásamt áherslu á virka þátttöku í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi. Með þessum árangri hefur skilningur samfélagsins á gildum tómstunda og íþrótta skilað auknum fjárframlögum og áherslum í þeim málaflokki. En er sigurinn unninn og getum við farið að slaka á? Langt því frá, því það er ekki algilt að á Íslandi séu starfrækt öflugt íþrótta- og æskulýðsstarf í hverju hverfi, bæ eða þorpi.

Snemma á þessu ári komst í fréttirnar úrskurður frá Norðurþingi þar sem að sveitastjórn ákvað að það skyldi loka sundlaug Raufarhafnar yfir veturinn og takmarka aðgengi að íþróttahúsinu. Lokunin nær til allrar þjónustu sem að var í boði í húsinu, þar á meðal sundlaugarinnar, innrauðs klefa, heits potts, gufuklefa og aðgengi almennings að íþróttahúsinu. Lokunin er gerð í sparnaðarskyni því að aðsóknin í íþróttamiðstöðina réttlætti ekki starfsemina. Samt sem áður er sundlaugin mjög vel sótt, yfirleitt er einhver í sundi og jafnvel nokkrir í einu sem að er jákvætt í ekki stærra þorpi.

Sundlaugin hefur gríðarlegt gildi fyrir íbúa þorpsins enda miklu meira en bara sundlaug. Hún þjónar ekki einungis heilsueflandi tilgangi fyrir alla aldurshópa og að vera samkomustaður heldur er hún líka í raun eina tómstund barnanna í þorpinu á veturna. Það er því ekki undarlegt að þessi ákvörðun hafi vakið miklar tilfinningar meðal íbúa Raufarhafnar. Þessi skerðing myndi hafa neikvæðar afleiðingar fyrir íbúana. Maður spyr sig hvernig er hægt að réttlæta að skera niður grunnþjónustu við heilt þorp þegar aðrir léttvægari hlutir innan sama sveitafélags eru fjármagnaðir, t.d. upphitaðir göngustígar á Húsavík.

Eftir mikil mótmæli íbúa og áskorun frá Hverfisráði Raufarhafnar var ákveðið að endurskoða lokun sundlaugarinnar en hún verður lokuð fram í apríl vegna viðhaldsvinnu og gert er ráð fyrir að hún opni í byrjun maí. Sem þýðir að með samstöðu og baráttu íbúa var ekki einungis hætt við að skera niður þjónustuna heldur er nú verið að fjárfesta í henni og bæta. En þegar þessi ákvörðun var tekin af fjölskylduráði Norðurþings ímynda ég mér að þau hafi ekki fyllilega velt fyrir sér áhrifum hennar og til þeirra mörgu hlutverka sem að sundlaugin þjónar.

Ég fagna baráttu Raufarhafnarbúa og sé nú hversu mikilvægt það er að við stöndum vörð um réttindi okkar og barna okkar til jákvæðrar tómstundaiðkunnar. Þessi ákvörðun sýnir að þrátt fyrir mælanlegan árangur og skilning á mikilvægi tómstundastarfs er ekkert sem að stendur í vegi fyrir niðurskurði að hálfu sveitafélagsins nema við íbúarnir. Það er greinilega þörf á því að bundið sé í lög aðgengi að frítímaþjónustu fyrir almenning á landinu öllu. Þannig er hægt að koma í veg fyrir að sveitarfélögin mismuni íbúum sínum og að við getum boðið upp á jákvætt frístundastarf um allt land allt árið.

Jóna Guðbjörg Ágústsdóttir

Höfundur er nemi í tómstunda- og félagsmálafræði og fyrrum íbúi á Kópaskeri.

 

 

Félagsmiðstöðvar og landsbyggðin

Lífið sem unglingur á Höfn gat oft á tíðum verið leiðinlegt og leið mér eins og ekkert væri í boði í litla bænum sem ég bjó í, að ég hélt. Á þeim tíma upplifði ég Reykjavík sem stað valmöguleikanna, þá sérstaklega fyrir unglinga. Í Reykjavík var hægt að fara í Kringluna, Smáralindina, í keilu og bíó! Í dag bý ég í Reykjavík vegna náms og þó allir þessir valmöguleikar séu til staðar eru þeir kannski ekki endilega fyrir mig.

Ég horfi til baka og hugsa hvað ég átti þægilegt líf í rauninni, ég gat hjólað og labbað hvert sem var, hvenær sem var án þess að foreldrar mínir hefðu áhyggjur. Lífið í litlum bæ er rólegt og notalegt, þegar ég er heima finnst mér ég vera meira frjáls bæði núna og sem unglingur. Í dag upplifi ég Reykjavík stað þar sem er of mikið áreiti, þegar ég er heima finnst mér ég vera með fleiri klukkutíma í sólarhringnum. Ég hef oft velt því fyrir mér hvernig það hefði verið að alast upp í bænum, hefði ég verið meira háð foreldrum mínum upp á að fá far til dæmis á æfingar, eða hefði ég æft eitthvað? Ég æfði fótbolta á unglingsárunum mínum, hefði ég gert það ef ég hefði alist upp í Reykjavík? Þegar ég lít til baka þá man ég ekki eftir að hafa leiðst mikið, við fundum okkur alltaf eitthvað til þess að gera.

Sem félagslynd manneskja var ég virk í mörgu. Ásamt því að æfa fótbolta mætti ég í félagsmiðstöðina eins mikið og ég hafði tök á. Félagsmiðstöðin var opin þrisvar í viku og eyddi ég miklum tíma þar með vinkonum mínum. Eitt árið var ég í ráði innan félagsmiðstöðvarinnar, þar sem krakkar eru fengnir til þess að mæta á fundi, hjálpa við að skipuleggja viðburði hvers mánaðar og hjálpa við undirbúning. Þessi litla reynsla sem ég fékk þarna er líklega ástæðan fyrir því að ég hef verið í nemendaráði bæði í framhaldsskóla og háskóla. Þessi reynsla opnaði fleiri valmöguleika og þar fann ég styrkleika mína.

Félagsmiðstöðvar bjóða upp á svo margt, þær eru vettvangur fyrir börn og unglinga að læra það sem virkilega skiptir þau máli. Krakkarnir geta mætt þangað með frjálsum vilja og fá tækifæri til þess að efla samskipta- og félagsfærni þeirra auk þess að styrkja sjálfsmyndina þeirra og sjálfstæði. Einnig brýtur starfsemi félagsmiðstöðva upp hversdagsleikann hjá börnum og unglingum þar sem þau geta komið og spilað borðtennis, þythokkí og biljarð til að nefna nokkur dæmi.

Ég tel félagsmiðstöðina vera eina af mikilvægustu stöðum sveitarfélagsins, þar geta hópar hist undir jákvæðum formerkjum. Þegar ég var unglingur höfðum við aðgang að félagsmiðstöðinni og hitti ég vini mína þar frekar en að rápa um göturnar eða hanga á Olís eftirlitslaus. Það gleður mig mikið að sjá að starfsemin í gömlu félagsmiðstöðinni minni er stöðugt að aukast og verður aðeins betri með tímanum. Að mínu mati skipta félagsmiðstöðvar gríðarlega miklu máli, þá sérstaklega í minni sveitarfélögum. Það er ávinningur af þeim, bæði fyrir ungmennin og samfélagið.

Adisa Mesetovic

,,Það er ekkert að gera á þessum stað“

Í gegnum tíðina hef ég oft heyrt þessa setningu ,,það er ekkert að gera á þessum stað“ og eflaust eru margir aðrir sem koma frá litlum þorpum og bæjum utan af landsbyggðinni sem hafa heyrt þetta líka. Oftar en ekki þá má heyra unglingana segja þessi orð og ástæðan sú að þeim finnst lítið sem ekkert tómstundastarf vera í boði fyrir þá í sínum bæ. Vissulega er þetta rétt að mörgu leyti, það er kannski bara ein íþrótt sem hægt er að æfa, lítið úrval í hljóðfærakennslu, og félagsmiðstöðin  bara opin eitt kvöld í vikunni. Það er mikill munur á framboði og eftirspurn á tómstundum fyrir unglinga eftir búsetu. Lesa meira “,,Það er ekkert að gera á þessum stað“”

Stéttarskipting innan íþróttafélaga á Íslandi

Á undanförnum árum hefur þjóðin fylgst af stolt með árangri íslenskra afreksíþróttamanna á heimsmælikvarða. Sá fjöldi sem við eigum af afreksfólki er í raun ótrúlegur ef miðað er út frá höfðatölu. Hvaða áhrif hefur árangur íslenskra íþróttamann á unglinga? Hafa allir unglingar sömu tækifæri? Margir hafa bent á það hversu hvetjandi árangur Íslendinga sé fyrir ungt fólk sem fylgist með og eignast margir flottar fyrirmyndir í kjölfarið. Ég hef þó velt því fyrir mér hvort keppnisskapið og metnaðurinn geti orðið unglingum ofviða. Flest öll íþróttaiðkun krefst strangra æfinga og mikills aga, við kennum börnum að æfingin skapi meistarann sem er vissulega satt. En er eðlilegt að ætlast til þess að unglingar mæti á æfingar líkt og atvinnumenn, allt að sjö eða átta sinnum í viku? Auk þess að mæta daglega á æfingar þurfa þessir krakkar að sinna skólanum eins og aðrir. Það er æft á morgnana fyrir skóla, æft eftir skóla, á kvöldin og um helgar, ég velti því fyrir mér hvernig þetta sé yfirhöfuð gerlegt. Lesa meira “Stéttarskipting innan íþróttafélaga á Íslandi”

Unglingur utan að landi

Ég er alin upp úti á landi þar sem ekki er bíó og skyndibitastaðir líkt og Subway og Dominos sem gerði það að verkum að það að fara til Reykjavíkur var mjög spennandi og stórt fyrir mér. Þegar ég fór til Reykjavíkur sem unglingur labbaði ég Kringluna og Smáralind fram og tilbaka og eyddi öllum peningunum mínum. Ef ég hefði átt heima í Reykjavík þá kannski hefði þetta ekkert verið svo spennandi. Mér fannst andrúmsloftið allt öðruvísi í Reykjavík, hröð umferð og mikið áreiti. Heima gat ég hjólað og labbað allt, sem er vissulega hægt í einhverjum hverfum innan Reykjavíkurborgar en ég lít ekki á það sem það sama. Mér finnst það vera mikið frelsi og sjálfstæði að geta komið sér sjálfur milli staða á stuttum tíma en ekki vera háður foreldrum sínum til að skutla hingað og þangað. Lesa meira “Unglingur utan að landi”