Stéttarskipting innan íþróttafélaga á Íslandi

Á undanförnum árum hefur þjóðin fylgst af stolt með árangri íslenskra afreksíþróttamanna á heimsmælikvarða. Sá fjöldi sem við eigum af afreksfólki er í raun ótrúlegur ef miðað er út frá höfðatölu. Hvaða áhrif hefur árangur íslenskra íþróttamann á unglinga? Hafa allir unglingar sömu tækifæri? Margir hafa bent á það hversu hvetjandi árangur Íslendinga sé fyrir ungt fólk sem fylgist með og eignast margir flottar fyrirmyndir í kjölfarið. Ég hef þó velt því fyrir mér hvort keppnisskapið og metnaðurinn geti orðið unglingum ofviða. Flest öll íþróttaiðkun krefst strangra æfinga og mikills aga, við kennum börnum að æfingin skapi meistarann sem er vissulega satt. En er eðlilegt að ætlast til þess að unglingar mæti á æfingar líkt og atvinnumenn, allt að sjö eða átta sinnum í viku? Auk þess að mæta daglega á æfingar þurfa þessir krakkar að sinna skólanum eins og aðrir. Það er æft á morgnana fyrir skóla, æft eftir skóla, á kvöldin og um helgar, ég velti því fyrir mér hvernig þetta sé yfirhöfuð gerlegt.

Fyrir börnum er íþróttaiðkun mikil dægrastytting, góður félagsskapur og gerir þeim kleift að losa um orku sem safnast hefur upp yfir daginn en þegar komið er á unglingsaldurinn finnst mér skemmtanagildið farið að víkja fyrir alvarleikanum. Þegar ég var unglingur man ég hvernig vinkonur mínar urðu að velja á milli þess að hætta að æfa fótbolta eða halda áfram og með því færast yfir í meistarflokk þar sem æfingum fjölgaði og aginn varð meiri. Hvað varð um að æfa íþrótt einungis til þess að hafa gaman og viðhalda heilbrigðum lífstíl? Þarf alltaf að vera keppni? Hugtakið “bumbubolti” þar sem fullorðnir einstaklingar hittast til þess eins og hreyfa sig og hafa gaman í hópi góðra félaga er nákvæmlega það sem mér finnst vanta fyrir unglinga. Mér þykir ósanngjarnt að unglingar geti ekki stundað þá íþrótt sem þá langar sökum þess að hafa ekki áhuga á atvinnumennsku seinna meir.

Talandi um ósanngirni,  að undanförnu hefur umræðan um kostnað tengdan íþróttaiðkun á Íslandi aukist verulega. Það var ónefnd móðir sem tók sig til og birti á Facbook síðu sinni hversu miklum peningum fjölskyldan hafði eytt í fimleikaiðkun dóttur sinnar á einu ári. Niðurstaðan var á góðri íslensku sjokkerandi. Þrátt fyrir íþróttastyrk sveitarfélagsins eru æfingargjöldin 184.700 kr., æfingar- og keppnisfatnaður 51.000 kr., mótagjöld (fyrir keppendur) 12.000 kr. og að lokum 12.000 kr. í aðgangseyri á mót. Samtals gera þetta um 261.800 kr. Þrátt fyrir himinháa upphæð finnst foreldrum stúlkunnar þetta hverrar krónu virði, en hvað með þá foreldra sem hafa ekki efni á að senda börn sín í sambærilegar íþróttir? Verðlagið eitt og sér gerir það að verkum að mörg börn geta hreinlega ekki æft þá íþrótt sem þau langar.

Barn sem kemur ekki úr fjársterkri fjölskyldu en hefur brennandi áhuga á fimleikum er e.t.v. sent í fótbolta því það er töluvert ódýrara en þó alls ekki ódýrt og svo eru önnur sem hreinlega geta ekki verið með. Til eru svokallaðir tómstundastyrkir eða frístundakort sem sveitafélögin veita til þessa að gera börnum og unglingum kleift að taka þátt í uppbyggilegu frístundastarfi óháð efnahag og aðstæðum og er þeim ætlað að auka jöfnuð í samfélaginu. Ég athugaði málið, svo virðist sem þessi styrkur sé misjafn milli sveitafélaga, en sem dæmi  er styrkurinn hjá Reykjavíkurborg og Seltjarnarnesbæ um 50.000 kr-. Annað sem kom mér á óvart, þegar ég fór að athuga málið enn frekar er töluverður munur á þátttökugjaldi milli íþróttafélaga. Í fimleikunum var munurinn allt að 134% milli félaga árið 2015 og allt að 60% milli félaga í fótboltanum sama ár.

Niðurstaða mín er sú að þrátt fyrir veitta styrki, sjálfboðaliðavinnu foreldra og fjáraflanir er gert upp á milli barnanna okkar. Ég myndi vilja sjá í hvað allur þessi peningur er að fara og vita hvort möguleiki sé á að breyta stöðunni þannig að börn og unglingar geti stundað sín áhugamál og íþróttir án allrar fyrirstöðu.  Einnig finn ég til með þeim börnum og unglingum sem búsett eru á landsbyggðinni þar sem lítið sem ekkert framboð er á íþróttum eða öðrum tómstundum en það er efni í enn stærri pistil … hér ætla ég að láta staðar numið og vona innilega að breytingar verði í þessum málum og að við höldum áfram að efla unga fólkið okkar.

— 

Selma Harðardóttir, BA nemi í uppeldis- og menntunarfræði