Meiri kynfræðslu – TAKK!

Er kynfræðsla næg í grunnskólum landsins? Er ekki orðin þörf á að kynfræðsla verði kennd í meira magni og þá sem fag eða hluti af lífsleikni frá 4. bekk? Er kannski þörf á að foreldrar geti sótt námskeið til að gera umræðu og samskipti sín við unglinga um kynlíf á heimilinu eðlilegri, skemmtilegri og auðveldari?

Þetta eru vangaveltur sem ég velti reglulega fyrir mér eigandi fjögur börn, þar sem ein er búin með unglingsárin, tvö eru nú á unglingsárum og ein á enn nokkur ár í unglingsárin. Lesa meira “Meiri kynfræðslu – TAKK!”

Áhrif kláms á unglinga

Tíminn líður og er margt sem breytist með honum. Það sem áður hefur verið talið ,,eðlilegt” er ekki samþykkt í dag og öfugt. Eitt af því sem breytist með tímanum er mannfólkið. Það er í okkar eðli að aðlagast nýjum hlutum. Tæknin er þróaðri og betri, fólk og mörg málefni opnari. Áður hefur kynlíf og klám verið taboo og enginn talað opinskátt um það. Það er mikilvægt að unglingar fái næga og góða kynfræðslu því kynlíf getur verið stór partur í lífi okkar. En hvað er góð kynfræðsla og hvar afla unglingar sér upplýsinga?  Í þessari grein ætla ég að fjalla um klám og unglinga. Horfa unglingar á klám? Nota þau klám sem kynfræðslu? Hvernig áhrif hefur klám á unglinga? Lesa meira “Áhrif kláms á unglinga”

Hvar er kynfræðslan?

Af hverju eru unglingar ekki að fá næga fræðslu um kynlíf? Er nóg að hjúkrunarfræðingur sé að koma í nokkrar kennslustundir með kynfræðslu? Af hverju er kynfræðsla ekki orðinn skylduáfangi í öllum skólum landsins?

Unglingsárin eru þau ár sem margir fara að hugsa um kynlíf, velta upp ýmsum spurningum um kynlíf og eru mögulega byrjaðir að stunda kynlíf. Þetta eru líka árin þegar ástin kviknar og margir unglingar ,,byrja saman“. Því er mikilvægt að unglingar séu að fá góða fræðslu um kynlíf og allt sem snýr að því.

Að mínu mati ætti kynfræðsla að vera skylduáfangi í öllum skólum landsins. Mikilvægt er að auka fræðslu á þessu sviði og einnig skiptir máli að byrja snemma. Kynfræðsla er áfangi sem gæti verið hluti af námsefni fyrir alla krakka í skólum landsins frá 1. bekk. Mikilvægt er að unglingar séu búnir að fá kynfræðslu áður en þeir fara á unglingsaldurinn því það er einmitt þá sem margir fara að stunda kynlíf í fyrsta skiptið. Kynfræðsla snýst nefnilega um svo miklu meira en bara það, að typpi fari inn í píkuna kæru unglingar.

Margir unglingar eiga það sameiginlegt að finnast erfitt að tala um kynlíf við fullorðna einstaklinga og vita mögulega ekki hvernig þeir eiga að bera upp spurningar sem snúa að kynlífi. Þess vegna er algengt að unglingar fari á netið og leiti sér upplýsinga þar. Nú til dags búum við í samfélagi þar sem tæknin og samfélagsmiðlar eru farnir að gegna stóru hlutverki í lífi flestra barna og unglinga. Með allri þeirri tækni sem unglingar hafa aðgang að er mjög auðvelt að nálgast allskyns upplýsingar á netinu. Þar á meðal upplýsingar um kynlíf sem eru ekki endilega réttar og geta gefið unglingum ákveðnar ranghugmyndir. Kynfræðsla getur verið góð leið til þess að koma í veg fyrir að krakkar þurfi að fara inn á netið til þess að leita sér upplýsinga um málefnið og þannig komið í veg fyrir misskilning. Ef kynfræðsla væri skylduáfangi þá gætu krakkar unnið verkefni um kynlíf og allt sem snýr að því og þar með er hægt að svara ýmsum spurningum á einlægan og opinskáan hátt og tala upphátt um efnið. Að fá krakka til þess að tala upphátt um kynlíf er mjög jákvætt þar sem mörgum finnst það vera óþægilegt og vandræðalegt. Ef krakkar þora að tala um kynlíf við jafnaldra sína getur verið góður möguleiki að þau þori einnig að tala við foreldra sína um kynlíf.

Ég vildi óska þess að ég hefði fengið betri kynfræðslu í grunnskóla. Ég lærði ekki mikið af kynfræðslunni í skólanum og þurfti ég því að leita til mömmu minnar. Ég fékk í rauninni mína kynfræðslu frá mömmu. Við sátum saman í stofunni heima og fræddi hún mig um líkamann og allt sem snýr að kynlífi en hún fræddi mig líka um mikilvægi andlegrar og tilfinningalegrar líðan í tengslum við kynlíf.  Í rauninni allt sem ég hefði átt að læra í skóla að mínu mati. Ég er viss um að ég hefði ekki þurft að spyrja mömmu mína spurninga varðandi þessi málefni ef ég hefði verið búin að læra vel um það í skólanum.

Nú til dags finnst mér umræðan um kynlíf og kynfræðslu vera á mjög góðri leið. Margir unglingar eru líklega búnir að fá fræðslu frá Siggu Dögg kynfræðingi. Sigga Dögg er að gera frábæra hluti og nær hún vel til unglinga að mínu mati. Hún talar um kynlíf á mjög opinskáan og skemmtilegan hátt. Það væri draumur ef öll kynfræðsla á Íslandi væri sett fram með sama hætti og Sigga Dögg gerir.

Margrét Nilsdóttir

 

 

 

 

 

Kynlíf og unglingar

Unglingsárin eru viðkvæmir tímar í lífi flestra. Spurningar og vangaveltur um allskyns atriði vakna. Eitt þeirra atriða er kynlíf. Sú umræða getur verið vandræðaleg og óþægileg fyrir flesta unglinga og þeir vilja helst ekki tala um það um við aðra en forvitnir eru þó flestir. Hvar fá krakkarnir svör við sínum vangaveltum? Á vafasömum netsíðum, samskiptum við félaga, í myndum og fleira í þeim dúr. Skilaboðin sem þaðan eru fengin eru oft að kynlíf sé eftirsóknarvert, karlar eru alltaf til í tuskið og konurnar elta, stuttur forleikur, báðir fá fullnægingu í endann og allir voða sáttir og sælir. Er það raunveruleikinn? Lesa meira “Kynlíf og unglingar”

Kyn- og klámfræðsla vikulegur þáttur í grunnskólum landsins

 

Þurfum við ekki að halda áfram að opna umræðuna um kynlíf við unglingana okkar? Kynlíf er eitthvað sem flestum unglingum langar sennilega að vita mikið um en hafa jafnvel ekki kjarkinn í að tala um. Mikið af unglingum þora ekki, finnst vandræðalegt eða vita einfaldlega ekki hvernig þeir eiga að byrja umræðuna um kynlíf. Þessi umræða á ekki að vera feimnismál heldur eiga krakkar að geta fræðst um kynlíf eins og allt annað.

Margar ranghugmyndir eru um kynlíf í nútímasamfélagi. Það er mjög auðvelt að fá þessar ranghugmyndir þar sem auðvelt er að nálgast klám, sem jú sýnir ekki réttu myndina á kynlífi. Klám getur verið mjög ofbeldisfullt, konurnar eiga aðeins að gera það sem karlarnir vilja og getur klámið orðið mjög gróft. Í klámi kemur líka mikið fram að konan fær fullnægingu fyrst og oft eftir mjög stuttan tíma, en í raun tekur þetta ekki alltaf svona stuttan tíma í raun og veru. Klámmyndband er svo oftast búið þegar karlinn er búinn að fá fullnægingu. Allskonar svona rangmyndir af kynlífi taka börn og unglingar til sín því þau fá ekki fræðslur eða umræður við aðila sem gætu frætt þau betur. Það þarf nefnilega ekki bara að fræða um kynlíf heldur þarf líka fræða krakkana um hvað klám er og hvað það er rangt á allan hátt. Þau verða að gera sér grein fyrir hvað felst í kynlífi og hvað felst í klámi.

Er það foreldranna að byrja þessar samræður við börnin sín? Vita foreldrar allt um kynlíf eða klám? Ég held ekki, rétt eins og þau eru ekki með öll svörin við náttúrufræði, stærðfræði og fleira. Að fá menntaða kynfræðinga inn í skólakerfið sem væru með fasta tíma í hverri viku myndi hjálpa unglingunum að dýpka skilning sinn á kynlífi og gera sér grein fyrir muninum á klámi og kynlífi. Það er mikilvægt að fá menntaða fagaðila sem eru búnir að öðlast reynslu að tala um kynlíf. Ég man sjálf þegar ég var í skóla og við fórum að tala um kynlíf, kennarinn gat ekki einu sinni sagt orðið píka heldur notaði alltaf formleg orð eins og kynfæri kvenna og karla. Kynfræðslan sem ég fékk var lítil sem engin og heyri ég mikið frá fólk á mínum aldri að þau hafi sömu upplifun á kynfræðslu í grunnskóla og ég. Þetta var meiri kynhræðsla en ekki kynfræðsla.

Persónulega finnst mér að það ætti að tala um kynlíf á nokkuð góðum jafningagrundvelli eins og t.d. Sigga Dögg kynfræðingur gerir. Hún er ekkert feimin að nota hin ýmsu orð þegar hún talar um kynlíf og ég held að það sé það sem lætur unglinga hlusta á hana því hún talar á jafningjagrundvelli.
Mikið er um fræðslu í félagsmiðstöðvunum og ungmennahúsunum sem er gott og blessað, en hverjir mæta? Það er alls ekki allir unglingar sem mæta og fræðast um þessi mál. Hvað með þá sem eru útundan og mæta aldrei í félagsmiðstöðvarnar? En langa samt jafnvel að fræðast um kynlíf. Eitt er víst að unglingar mæta í skólann þar sem það er skylda og er því nauðsýnlegt að koma kynfræðslu reglulega inn, helst vikulega.

—-

Klara Benjamínsdóttir – Nemandi í tómstunda- og félagsmálafræði við HÍ

 

 

 

Hvar er kynfræðslan?

 

Þegar kemur að kynlífi eru allar umræður mjög viðkvæmar á unglingsárunum. Þetta er aldurinn þar sem vangavelturnar byrja og spurningarnar kvikna. En hver á að svara þessum spurningum þegar unglingurinn þorir ekki að spyrja? Hver einasti fullorðni einstaklingur hefur verið í þessum sporum og ætti þess vegna að vita að það er þörf á kynfræðslu fyrir unglingana á þessum aldri. Unglingar eru forvitnir og þá vantar svör við spurningunum sem þau hafa. En þegar þau fá ekki kynfræðslu í skólanum og kannski ekki frá foreldrum heldur, hvert leita þau þá? Jú, auðvitað á netið þar sem hægt er að nálgast allar upplýsingar. Lesa meira “Hvar er kynfræðslan?”