Hvar er kynfræðslan?

Af hverju eru unglingar ekki að fá næga fræðslu um kynlíf? Er nóg að hjúkrunarfræðingur sé að koma í nokkrar kennslustundir með kynfræðslu? Af hverju er kynfræðsla ekki orðinn skylduáfangi í öllum skólum landsins?

Unglingsárin eru þau ár sem margir fara að hugsa um kynlíf, velta upp ýmsum spurningum um kynlíf og eru mögulega byrjaðir að stunda kynlíf. Þetta eru líka árin þegar ástin kviknar og margir unglingar ,,byrja saman“. Því er mikilvægt að unglingar séu að fá góða fræðslu um kynlíf og allt sem snýr að því.

Að mínu mati ætti kynfræðsla að vera skylduáfangi í öllum skólum landsins. Mikilvægt er að auka fræðslu á þessu sviði og einnig skiptir máli að byrja snemma. Kynfræðsla er áfangi sem gæti verið hluti af námsefni fyrir alla krakka í skólum landsins frá 1. bekk. Mikilvægt er að unglingar séu búnir að fá kynfræðslu áður en þeir fara á unglingsaldurinn því það er einmitt þá sem margir fara að stunda kynlíf í fyrsta skiptið. Kynfræðsla snýst nefnilega um svo miklu meira en bara það, að typpi fari inn í píkuna kæru unglingar.

Margir unglingar eiga það sameiginlegt að finnast erfitt að tala um kynlíf við fullorðna einstaklinga og vita mögulega ekki hvernig þeir eiga að bera upp spurningar sem snúa að kynlífi. Þess vegna er algengt að unglingar fari á netið og leiti sér upplýsinga þar. Nú til dags búum við í samfélagi þar sem tæknin og samfélagsmiðlar eru farnir að gegna stóru hlutverki í lífi flestra barna og unglinga. Með allri þeirri tækni sem unglingar hafa aðgang að er mjög auðvelt að nálgast allskyns upplýsingar á netinu. Þar á meðal upplýsingar um kynlíf sem eru ekki endilega réttar og geta gefið unglingum ákveðnar ranghugmyndir. Kynfræðsla getur verið góð leið til þess að koma í veg fyrir að krakkar þurfi að fara inn á netið til þess að leita sér upplýsinga um málefnið og þannig komið í veg fyrir misskilning. Ef kynfræðsla væri skylduáfangi þá gætu krakkar unnið verkefni um kynlíf og allt sem snýr að því og þar með er hægt að svara ýmsum spurningum á einlægan og opinskáan hátt og tala upphátt um efnið. Að fá krakka til þess að tala upphátt um kynlíf er mjög jákvætt þar sem mörgum finnst það vera óþægilegt og vandræðalegt. Ef krakkar þora að tala um kynlíf við jafnaldra sína getur verið góður möguleiki að þau þori einnig að tala við foreldra sína um kynlíf.

Ég vildi óska þess að ég hefði fengið betri kynfræðslu í grunnskóla. Ég lærði ekki mikið af kynfræðslunni í skólanum og þurfti ég því að leita til mömmu minnar. Ég fékk í rauninni mína kynfræðslu frá mömmu. Við sátum saman í stofunni heima og fræddi hún mig um líkamann og allt sem snýr að kynlífi en hún fræddi mig líka um mikilvægi andlegrar og tilfinningalegrar líðan í tengslum við kynlíf.  Í rauninni allt sem ég hefði átt að læra í skóla að mínu mati. Ég er viss um að ég hefði ekki þurft að spyrja mömmu mína spurninga varðandi þessi málefni ef ég hefði verið búin að læra vel um það í skólanum.

Nú til dags finnst mér umræðan um kynlíf og kynfræðslu vera á mjög góðri leið. Margir unglingar eru líklega búnir að fá fræðslu frá Siggu Dögg kynfræðingi. Sigga Dögg er að gera frábæra hluti og nær hún vel til unglinga að mínu mati. Hún talar um kynlíf á mjög opinskáan og skemmtilegan hátt. Það væri draumur ef öll kynfræðsla á Íslandi væri sett fram með sama hætti og Sigga Dögg gerir.

Margrét Nilsdóttir