„Allir eru að drekka þetta“

Árið er 2020. Tækni í nútímasamfélagi hefur fleytt fram á síðustu árum en henni hafa fylgt miklar breytingar fyrir einstaklinga og samfélagið í heild. Má þá nefna sem dæmi samfélagsmiðlanotkun og orkudrykkjaneyslu sem getur haft áhrif á líðan og svefnvenjur ungmenna.

Svefn er öllum gríðarlega mikilvægur og er undirstaða margra þátta líkt og heilsu, lundarfars, athygli og vellíðan svo eitthvað sé nefnt. Ef einstaklingar sofa ekki nóg auka þeir líkurnar á hinum ýmsu kvillum, meðal annars þunglyndi, kvíða og vanlíðan ásamt því að þeir eru líklegri til að leita í skyndibita, sælgæti og annað snarl. Mín upplifun er sú að íslenskir unglingar séu að sofa of lítið, þá helst vegna óhóflegrar orkudrykkjaneyslu og snjallsímanotkunar seint á kvöldin. Orkudrykkir eru ekki nýir af nálinni en á síðustu árum hefur hinsvegar markaðsetning og aðgengi aukist stórlega. Áhrifavaldar og íþróttafólk eru þá fremstir í flokki að auglýsa slíkar vörur á samfélagsmiðlum þar sem markhópurinn er ungt fólk en drykkirnir eiga alla jafna að auka úthald, brennslu og orku. Útlit drykkjanna er ferskt og flott, umbúðirnar frumlegar og bragðtegundirnar spennandi. Oft á tíðum innihalda drykkirnir engan sykur né kaloríur og eru staðsettir þannig að fáir komist hjá því að rekast á þá á leið sinni í gegnum verslanir landsins

Hvað veldur þessu? Eru það svefnvenjur unglinganna sem hafa áhrif á orkudrykkjaneysluna, hafa orkudrykkirnir áhrif á svefnvenjurnar eða eru jafnvel snjalltækin að hafa mestu áhrifin? Ég tel að allir þessir þættir hafi áhrif á hvern annan. Það er þó erfitt að segja hvort hænan hafi komið á undan egginu eða öfugt. Á sama tíma veltir maður fyrir sér hvort það sé hægt að áfellast unglingana fyrir það eitt að falla fyrir meistaralegri markaðsetningu og ávanabindandi drykkjum og tækjum, eða er ábyrgðin á fyrirtækjunum sjálfum, foreldrunum og samfélaginu í heild? Fyrirmyndir eru að mínu mati einnig mikilvægar í þessu samhengi. Mín upplifun er sú að það sé í eðli manneskjunnar að bera sig saman við aðra og líkja eftir t.d. hegðun og atferli, hjarðhegðun. Þess vegna er mikilvægt að þeir sem kenna og leiðbeina séu góðar og jákvæðar fyrirmyndir. Einstaklingar læra það sem fyrir þeim er haft, fyrirmyndir geta þess vegna mótað og haft áhrif á viðhorf og gildi þeirra, sérstaklega hvað varðar orkudrykki og svefnvenjur og jákvæða notkun á samfélagsmiðlum. Þar koma sem dæmi æskulýðsstarfsmenn sterkir inn.

Sjálf drakk ég orkudrykki fyrir nokkrum árum síðan. Helsta ástæðan fyrir því var sú að „allir eru að drekka þetta“. Það svínvirkaði, dró úr þreytu, þeir voru bragðgóðir og komu mér í gegnum daginn. Þá hinsvegar hófst vítahringur sem erfitt var að komast út úr. Ég svaf lítið, fór að finna aftur fyrir hjartsláttatruflunum, auknu stressi og höfuðverk. Blákaldur raunveruleikinn blasti við og mér fannst ég knúin til þess að hætta til að losna við þessi einkenni. Var það erfitt? Heldur betur, vegna þess að fráhvarfseinkennin komu strax fyrsta daginn sem ég byrjaði ekki á Nocco. Krefjandi vikur en breytingin sem varð á mér var rosaleg. Mun betri líðan og minna stress, þá var í raun ekki aftur snúið. Ég tók meðvitaða ákvörðun að taka heilsuna fram yfir orkudrykkina. Það er hálfvandræðalegt að segja það upphátt en þetta er staðreyndin.

Getur verið að unglingarnir geri sér ekki grein fyrir áhrifum samfélagsmiðla, orkudrykkja og svefnleysis? Að mínu mati þarf að upplýsa og fræða þennan hóp mun betur um þá neikvæðu áhrif sem þessi atriði geta haft áhrif á. Þó er mikilvægt að predika ekki yfir þeim heldur hafa fræðsluna á jafningjagrundvelli þannig að hún höfði til þeirra og unglingarnir því líklegari til að taka mark á fræðsluerindinu. Félagsmiðstöðvar banna til að mynda slíka drykki í sínu stafi og fjölmiðlar fjalla um skaðsemi þeirra en það virðist ekki vera nóg.

Stóra spurningin er: Hvað getur æskulýðsstarfsfólk og þeir sem vinna náið með unglingum gert til þess að sporna við áframhaldandi þróun?

Alexandra Bjarkadóttir