Meiri kynfræðslu – TAKK!

Er kynfræðsla næg í grunnskólum landsins? Er ekki orðin þörf á að kynfræðsla verði kennd í meira magni og þá sem fag eða hluti af lífsleikni frá 4. bekk? Er kannski þörf á að foreldrar geti sótt námskeið til að gera umræðu og samskipti sín við unglinga um kynlíf á heimilinu eðlilegri, skemmtilegri og auðveldari?

Þetta eru vangaveltur sem ég velti reglulega fyrir mér eigandi fjögur börn, þar sem ein er búin með unglingsárin, tvö eru nú á unglingsárum og ein á enn nokkur ár í unglingsárin. En eins og við öll vitum þá eru unglingsárin þau ár sem flest allir fara að hugsa um kynlíf í meira magni og þá einnig um allt sem tengist því að byrja að stunda kynlíf. Sumir upplifa kvíða við að byrja, jafnvel þrýsting frá jafnöldrum og óvissu hvernig þetta gengur fyrir sig. Það má því segja að það séu margar tilfinningar í gangi á þessum árum, allt frá fyrsta alvöru skotinu, fyrsti kossinn, allur þessi líkamlegi þroski, þráin og unaður eru meðal þeirra tilfinninga sem við upplifum. En svo eru það einnig erfiðu tilfinningarnar eins og litið sjálfstraust, feimni, skömm, hræðsla við að stunda kynlíf og/eða kynferðislegar athafnir og það að kynlíf sé eitthvað sem er rangt eða má ekki þegar þú ert á þessum aldri. Þess vegna er mjög mikilvægt að unglingar fái góða fræðslu um líkamann, kynlífið, unað, virðingu og samskiptin því það skiptir svo miklu máli þegar kemur að þessum tímamótum í lífi þeirra.

Að mínu mati ætti kynfræðsla að vera kennd í grunnskólum landsins sem fag og sé ég fyrir mér að hún geti verið hluti af lífsleikni, þar sem reglulega yrði frætt um sjálfs- og líkamsvirðingu, samskipti, fjölbreytileika, kynhneigð, kynvitund og þessa hefðbundnu kynfræðslu. Þá væri  hægt að fá  utanaðkomandi fagfólk eins og Kolbrúni Hrund og Siggu Dögg með fræðslu. Einnig væri hægt að hafa taboo tíma þar sem unglingarnir fá að skrifa nafnlausar spurningar á miða sem kennarar eða leiðbeinendur svara. Mér er mikið í mun að auka eigi fræðslu á þessu sviði og þykir mér mikilvægt að byrja snemma og finnst mér hún alveg eiga heima í kennslu frá 4. bekk í ljósi tækninnar í samfélaginu í dag. Krakkar eru flestir með snjallsíma og greiðan aðgang að neti og þá oft á tíðum auðvelt fyrir þau að nálgast klámfengið efni sem gefur ranga mynd af heilbrigðu kynlífi, samskiptum og virðingu í þeim málum. Einnig er bara gríðarlega mikilvægt að þau fái sem fyrst fræðslu sem gefur jákvæða mynd af kynlífi, kynþroska og þeim unaði sem fylgir.

Unglingum þykir flestum erfitt að ræða kynlíf á opinn hátt og þá vilja þau síst ræða kynlíf við foreldra sína. Ég tel að ein stærsta hindrun þess að ungmenni ræði ekki kynlíf við foreldra sína sé fyrst og fremst vegna feimni og skammar, þeim finnist það eitthvað óþægilegt og eru jafnvel hrædd við þau viðbrögð sem þau fá við að ræða þetta. Og þá held ég að rótin að þessum vanda sé að foreldrar eru ekki að opna á þessa umræðu nógu snemma. Tel ég að ef umræðan er tekin opinskátt frekar snemma og þá á jákvæðan, uppbyggilegan og fallegan hátt þá eykst traust og öryggi unglingsins. Einnig leiðir það af sér sterkari einstaklinga sem fylgja sínu innsæi þegar kemur að því að stunda kynlíf.

Ég er á því að góð og opin samskipti milli foreldra og ungmenna skapa traust og virðingu. Því er alls ekki ólíklegt að ungmenni leiti til foreldra sinna og foreldrar geta þar af leiðandi talað um mikilvægi þess að vera tilbúin og að ekkert liggi á og það er undir þeim komið að vita hvenær þau eru tilbúin en ekki annarra. Og ég tel það vera af hinu góða og einstaklega mikilvægt því reynsla allra af kynlífi skiptir miklu máli og að vera jákvæð en ekki það að vera bara búin að tékka við það á to do listanum!

Ég minnist þess ekki að hafa fengið kynfræðslu í grunnskóla en ég fékk það pottþétt, en það að ég muni ekki eftir því segir mér að það hafi ekki verið sérstök fræðsla. Ég var líka þessi unglingur sem datt ekki í hug að leita ráða hjá foreldrum mínum varðandi kynlíf eða annað sem tengist unglingsárunum og þau ræddu aldrei þessa hluti við mig enda af þeirri kynslóð sem ræddu ekki svona hluti.

Reynsla mín á kynfræðslu í gegnum skólagöngu barna minna er ágæt en ég myndi vilja sjá að gert verði betur og þá með því að tengja þetta markvisst inn í lífsleiknikennslu. Ég tel að við sem samfélag gætum grætt svo mikið á því að byrja snemma og gera þetta almennilega 😉

Erna Bryndís Einarsdóttir