Valdefling eða ekki?

Myndin Hækkum Rána hefur mikið verið í umræðunni síðustu vikur og réttilega svo. Myndin fjallar um ungar stúlkur á aldrinum 8-13 ára og þjálfara þeirra Brynjar Karl Sigurðsson. Þjálfarinn notar ýmsar umdeildar aðferðir sem ekki aðeins teljast óæskilegar en einnig taldar hættulegar vegna langvarandi áhrifa á ungmenni og börn. Brynjar Karl er körfuboltaþjálfari með margra ára reynslu og hefur náð miklum árangri sem bæði leikmaður og þjálfari.

Þegar kemur að því hvort stelpur eigi að hafa rétt á að keppa við stráka á Íslandsmótum í körfubolta er ég því sammála og almennt tel ég að það sé hollt fyrir bæði kynin að keppa á móti hvort öðru vegna virðingar sem gæti myndast á milli. Í myndinni kemur fram að ef strákar upplifa það að tapa fyrir stelpum er eins og að tapa fyrir veru sem hefur minni hæfileika eða minni getu, strákar upplifa því ákveðna niðurlægingu í að tapa fyrir stelpum en ef vitundarvakning á sér stað og stelpum verður heimilt að keppa við stráka þá skapast meiri virðing milli kynjanna sem er heilbrigt fyrir samfélagið. Mér finnst þessi kvenréttindabarátta mögnuð og styð stelpurnar í þessu verkefni.

Sá hluti myndarinnar sem snýr að kvenréttindabaráttu stelpnanna er ég sammála en þegar kemur að aðferðum Brynjars verð ég að vera ósammála. Þessar aðferðir sem Brynjar notar eru ekki aðeins óæskilegar en einnig hættulegar og það að fullorðinn einstaklingur komist upp með að beita andlegu ofbeldi á æfingum innan íþróttafélags er út í hött. Brynjar réttlættir þessa hegðun með því að segja hluti eins og hann sé að valdefla stelpurnar og hvernig best sé að bregðast við mótlæti að hans mati, reynir að yfirfæra aðferðir sem fullþroskaðir einstaklingar gætu þolað yfir á börn er ekki boðlegt og það er ekki gefið að fullþroskaðir einstaklingar bregðist jákvætt við þessum aðferðum sem ætti að segja nóg.

Viðar Halldórsson (2021) skrifaði grein þar sem hann gagnrýnir Brynjar og aðferðir hans, til að mynda nefndi hann að afreksvæðing barna væri slæm fyrir börn og þessar aðferðir hafa fleiri galla en kosti. Brynjar og foreldrar barna sem áttu börn í liði Brynjars gagnrýndu Viðar harðlega og ítrekuðu að ekki væri um afreksvæðingu að ræða og hann ætti að kynna sér efnið betur. Margir fræðimenn tóku sig saman og gáfu út sameiginlega yfirlýsingu þar sem ítrekað var hve slæm afreksvæðing barna er og þær neikvæðu afleiðingar sem fylgja henni, t.d. ofþjálfun, hættu á álagsmeiðslum og óraunhæfar kröfur til barna og unglinga (Viðar Halldórsson, 2021).

Ég æfði sjálfur körfubolta í 10-12 ár og tel mig vita nokkuð mikið um íþróttina sem heild. Aðferðir sem Brynjar notar á 8-13 ára gömul börn eru hlutir sem ég upplifði aldrei sjálfur og ég tel mig hafa fengið mjög öfluga þjálfun. Öskur hér og þar er ekki það versta og er eitthvað sem fylgir oft íþróttum en það að hvetja til rusltals tel ég vera bæði sáldrepandi og mjög neikvætt fyrir íþróttina. Í myndinni er foreldri sem setur út á orðalag Brynjars og spyr hvort það sé nauðsynlegt fyrir hann að nota þetta tiltekna orðalag til að koma skilaboðum til skila. Brynjar svarar játandi og ítrekar að það er undir börnunum komið hvort þetta orðalag særi þau eða ekki. Ég túlka þetta sem valdeflingu gerenda í einelti og hann sé að gera lítið úr þolendum með þessu orðbragði. Eftir að myndin kom út fann Brynjar þörfina fyrir því að verja þessar aðferðir og segir að stelpurnar hafa lært að standa upp fyrir sjálfum sér en einnig fyrir aðra. Það er frábært að heyra en þetta er ein hliðin af þessu máli og stelpurnar sem hættu vegna þess að þær þoldu ekki öskrin eða þær stelpur sem vildu byrja að æfa en bókstaflega þorðu ekki að koma á æfingu vegna Brynjars er hin hliðin af þessu máli og áhugavert væri að heyra þeirra skoðun.

Ég tel Brynjar Karl vera mjög öflugan körfuboltaþjálfara og veit hvernig á að ná sem mestu úr þeim sem geta þolað að vera hjá honum. Engu að síður tel ég að hugmyndafræðin hans að körfubolta sé röng og að valdefla ungmenni með umdeildum aðferðum er ekki leiðin til að efla körfuboltahreyfinguna.

Arnar Bragi Magnússon

 

Heimildir

Viðar Halldórsson. (2021). Helgar tilgangurinn meðalið?. Kjarninn. Sótt af https://kjarninn.is/skodun/2021-02-16-helgar-tilgangurinn-medalid/