Kynlíf og unglingar

Unglingsárin eru viðkvæmir tímar í lífi flestra. Spurningar og vangaveltur um allskyns atriði vakna. Eitt þeirra atriða er kynlíf. Sú umræða getur verið vandræðaleg og óþægileg fyrir flesta unglinga og þeir vilja helst ekki tala um það um við aðra en forvitnir eru þó flestir. Hvar fá krakkarnir svör við sínum vangaveltum? Á vafasömum netsíðum, samskiptum við félaga, í myndum og fleira í þeim dúr. Skilaboðin sem þaðan eru fengin eru oft að kynlíf sé eftirsóknarvert, karlar eru alltaf til í tuskið og konurnar elta, stuttur forleikur, báðir fá fullnægingu í endann og allir voða sáttir og sælir. Er það raunveruleikinn?

Svo sannarlega ekki í öllum tilfellum. Krakkar á unglingsárum eru með þá hugmynd í kollinum að kynlíf eigi að vera frábært. Það ætti að veita manni ánægju, vellíðan og öryggi. Ég tel þessar hugsanir vera algengar hjá ungmennum. Allskonar hugmyndir spretta fram eftir leit á netinu og fyrir fram mótaðar hugsanir fara að myndast. Hugsanir sem ekki eru í takt við raunveruleikann. Fyrir fram ákveðnar hugsanir um fyrsta skiptið geta verið varasamar og þegar unglingar byrja að stunda kynlíf geta komið upp vandamál sem þau voru ekki búin að undirbúa sig fyrir.

Vandamálin geta verið af ýmsum toga. Stelpur gætu upplifað sársauka, ekki fundist þetta gott, bleytuleysi eða ekki fengið fullnægingu. Strákar geta átt í erfiðleikum með að fá eða halda standpínu og brátt eða seint sáðlát. Margt annað sem getur komið upp hjá báðum kynjum. Þetta getur stafað af andlegum erfiðleikum eins og stressi, kvíða og óöryggi eða líkamlegum hliðum eins og blóðleysi, vöðvaspennu og þvagfærasýkingum. Samskipta örðugleikar geta einnig verið orsök þessara vandamála. Öryggi milli aðila þarf að ríkja og traust þarf að vera til staðar svo aðilar geta greint frá tilfinningum sínum og þannig komið í veg fyrir að áðurnefndir örðugleikar komi upp. Samskipta erfiðleikar geta auðveldlega valdið brotinni sjálfsmynd, vonbrigðum og sambandserfiðleikum.

Til að koma í veg fyrir að þau vandamál, sem talin eru upp hér að ofan, hafi mikil áhrif á ungmenni finnst mér mikilvægt að auka fræðslu á þeim mögulegu vandamálum sem geta komið upp og hvernig má tækla þau. Bæta þarf kynfræðslu, kynlífsfræðslu og gera grein fyrir kynheilbrigði. Heilbrigt kynlíf þýðir að báðir aðilar finni fyrir öryggi, trausti, ánægju og vellíðan. Til að lifa heilbrigðu kynlífi þarftu að vera tilfinningalega, andlega og líkamlega viss um hvað þú vilt þiggja og hvað þú vilt gefa. Eins og kemur fram hér að ofan þarf að gera grein fyrir mikilvægi samskipta og einnig að virða viðmið og gildi hvors annars, ræða um kynhlutverk og jafnrétti, gera grein fyrir eðlilegum erfiðleikum og hvernig má tækla þá.

Hægt er að leita sér hjálpar hjá heimilislækni, kvensjúkdómalækni eða öðrum sérfræðingum. Einnig er hægt að finna gagnlegar upplýsingar á traustum netsíðum eins og:

http://doktor.is/

https://www.visindavefur.is/

https://www.heilsuvera.is/

https://www.landlaeknir.is/

Aníta Viggósdóttir