Fjármálalæsi

Umræðan um læsi hefur verið áberandi seinustu ár á Íslandi. Börn hafa verið að koma illa út úr rannsóknum og hvað lestrar færni varðar. Menntastofnanir leggja sig nú allar fram við að koma með úrbætur í kennslu og eflingu á aukinni lestragetu.

En það er einn mikilvægur þáttur sem hefur svolítið gleymst og ekki síður mikilvægur en það er fjármálalæsi. Fjármálaskilning eða fjármálalæsi  er  nauðsynlegt að hafa fyrir þekkingu og skilning í númtímasamfélagi. Samfélagslegur þrýstingur til dæmis á samfélagsmiðlum og frá auglýsingum gerir unglingum í dag oft erfiðara fyrir, sem ýtir undir ofneyslu og kaupæði. Þetta getur sett unglinga í erfiða stöðu þegar kemur að neyslu, eyðslu og réttri rökhugsun varðandi fjármál.

Í dag er heimurinn kröfuharður við unglingana og setur oft upp mjög óraunhæfar staðalímyndir. Það á ekki að þykja eðlilegt að ganga með eða í varning upp á hundrað þúsund krónur. Á sama tíma er orðið  offramboð af smálána fyrirtækjum sem bjóða lán með óraunhæfum okur vöxtum sem gera í því að auglýsa hversu auðvelt og öruggt það er að fá „smálán“.

Ég ákvað að kynna mér úttekt Breka Karlssonar um kennslu fjármálalæsis í grunn- og  framhaldsskólum  en kennsla í fjármálalæsi fer fram í sirka 90 prósent af skólum landsins og þá oftast sem hluti af öðru námsefni. Fjármálalæsi er yfirleitt blandað inn í lífsleikni og stærðfræði og skortur er  á kennsluefni tengt þessum lið í skólum og hafa kennarar, margir hverjir, útbúið sjálfir efni til kennslu. Nemendur fá að meðaltali ellefu kennslustundir yfir árið sem er alltof lítill tími til að undirbúa krakkana undir þá ábyrgð sem fylgir því að sjá um sín eigin fjármál. Það gladdi mig þó að sjá, að í úttektinni er talað um að efna til þjóðarátaks í fjármálalæsi í samvinnu við ákveðnar stofnanir. Slæmar fjármála ákvarðanir geta leitt til langtíma neikvæðra áhrifa á einstaklinga, fjölskyldur og samfélagið. Bankar hafa hinga til tekið sig saman og haldið fyrirlestra fyrir unglinga, sem er ekkert nema jákvætt og skilar vonandi árangri en þó vil ég ekki eingöngu treysta á þá fyrir fjármálalæsi þeirra.

Ég tel það mjög mikilvægt að efla til kennslu í fjármálalæsi innan skólans og gera það að sjálfstæðum áfanga innan kennslu og að unglingar fái kennslu og fræðslu á fjármálaþekkingu og skilning. Mikilvægt er að fræða börn og unglinga strax frá byrjun að það tekur tíma að vinna fyrir hverju og einu og að reka heimili og sjálfan sig er alls ekki ókeypis. Það þarf að hugsa um rekstrakostnað, sparnað, lánsmat og vexti. Kenna þarf unglingum raunhæfa fjármálkennslu sem er kennd af óháðum aðilum.

Soffía Arngrímsdóttir