Bætum okkur í framkomu við ungmenni

Ég var eitt sinn stödd á borgarstjórnarfundi þar sem ungmennaráð Reykjavíkur mætti og fékk að flytja tillögur sínar fyrir borgarráð. Tvö ungmennaráðanna voru með tillögur að bættri flokkun um borgina, bæði í stofnunum undir Reykjavíkurborg og einnig á götunum. Einn fulltrúanna svaraði og sagðist fagna þessari tillögu, hann bætti þó við að heima hjá sér þá gæfi unglingurinn skít í að flokka og furðaði sig á því að ef ungmenni landsins væru svona æstir í að flokka að þá þyrftu þeir að taka þátt í því. Ef við myndum skipta samfélagshópnum „unglingar“ yfir í annan hóp eins og t.d. konur, þá hefði fólki brugðið við þessi ummæli. Ef sonur hans flokkar ekki heima, þýðir það að allir unglingar flokka ekki rusl? Lesa meira “Bætum okkur í framkomu við ungmenni”

Kynjaskipting í tómstundastarfi

Lengi hefur tíðkast í tómstundastarfi með börnum og unglingum að styðjast við kynjaskiptingu þegar kemur að hópstarfi. Þessi skipting einkennist oft af gömlum hugmyndum um hlutverk kynjanna og gerir hún í flestum tilfellum aðeins ráð fyrir tveimur kynjum. Með það í huga er mikilvægt að skoða hver raunveruleg markmið eru í kynjaskiptingu í hópstarfi og hvaða áhrif tómstundastarf hefur á staðalímyndir samfélagsins. Lesa meira “Kynjaskipting í tómstundastarfi”

Sílíkon og lendarskýlur

Málefni sem ég fæ ekki nóg af eru áhrif samfélagsmiðla á unglingsstúlkur, kannski af því að þegar ég var unglingur þá var ekki mikið annað að horfa á í sjónvarpinu eftir skóla en tónlistarmyndbönd. Þar birtust okkur vinkonunum fáklæddar konur sem stígsporuðu um á himinháum hælum að þjóna sínum mönnum, klæddar í það efnalítil föt að þau minntu einna helst á lendarskýluna af Tarzan og voru þær flestar með sílikonbrjóst þar sem geirvörturnar vísuðu beinustu leið norður á Pólstjörnuna. Þetta þótti hið eðlilegasta mál að setja í sjónvarp. Og hvað gerðist? Allar mínar vinkonur byrjuðu að bera sig saman við þessar plastskvísur á meðan ég beið eftir að bringan á mér myndi byrja að blása út. Sem er það sem unglingsstelpur gera, þær bera sig saman við það sem samfélagið gefur í skyn að sé flott og gott og allt annað en það er óásættanlegt í huga þeirra, sérstaklega þeirra sem eru með lítið sjálfstraust. Lesa meira “Sílíkon og lendarskýlur”

Naglalakkaðir unglingsdrengir í Dregyn

þve_naglalakk

Eitt föstudagskvöld í febrúar skipulagði nemendaráð félags-miðstöðvarinnar Dregyn dragkeppni. Dragkeppnin varð frekar misheppnuð þar sem aðeins einn hugrakkur drengur mætti í dragi. Létt stemning var þó í félagsmiðstöðinni þetta kvöld og var skorað á karlkyns starfsmennina að láta mála sig. Slíkt var samþykkt, með trega. Málunin var svo kórónuð með naglalakki á fingrum. Það þótti ákaflega fyndið að sjá karlkyns starfsmennina með meik, maskara, varalit og svona verulega huggulega.

Þegar þrífa átti „kvenleikann“ af máluðu drengjunum fékk verkefnisstjórinn þá hugmynd að hrista aðeins upp í „norminu“ og halda naglalakkinu, andlitið mátti þó þrífa. Héldu karlkynsstarfsmennirnir því naglalakkinu og fóru út í samfélagið. Annar þeirra „þurfti“ að þrífa naglalakkið af sér daginn eftir en verkefnisstjórinn hélt út helgina, sem var ekki auðvelt. Aragrúi athugasemda, augngota, hláturs, aðfinnsla og fordóma gerðu vart við sig. Reyndar í bland við orð á borð við: „En skemmtilegt“ og „Fallegt naglalakk“ og „Af hverju ertu með naglalakk?“. Einmitt; af hverju er ég með naglalakk?
Ég vissi það ekki þá, en uppgötvaði það á þessum tveimur dögum að samfélagið mitt passar virkilega vel upp á að ég fylgi hefðbundinni tísku í fatavali, klippi hár mitt samkvæmt því sem telst inn og haga mér samkvæmt því sem karlmanni er ætlast. Með öðrum orðum; að ég fylgi norminu. Við það að stíga, óvart meðvitað, út fyrir normið með því að vera með naglalakk fer allt í baklás. Aðgerðaráætlun samfélagsins um að koma mér aftur í normið hefst. Þessar litlu augngotur, viðhorfshlöðnu athugasemdirnar og skýru skilaboðin um að ég væri öðruvísi létu mér líða þannig að mig langaði til að flýja. Inn í normið. Þangað sem mér ber að vera sem karlmaður.

Ég velti því fyrir mér hvort að svona líði þeim sem hafa ekki kost á að „fitta“ inn í normið. Eru of strákalegar stelpur, stelpulegir strákar, of feitir, of mjóir, of eða van eitthvað að mati fjöldans – samfélagsins. Ég rifjaði upp ráðstefnu um einelti sem ég fór á fyrir nokkru síðan þar sem talað var um að rannsóknir bendi til þess að þeir sem verða fyrir einelti eru einmitt þeir sem ekki passa inn í fjöldann. Reynsla mín af naglalakkinu þessa helgi gaf mér hugmynd um hvernig það er að vera ekki inn í norminu. Hún sýndi mér hvernig samfélagið sameinast um að troða mér í normið, hversu ríkar staðalmyndir fólks eru um hvernig strákar eigi að vera og hvernig strákar eiga ekki að vera. Hversu fúst fólk er til að aðstoða mig við að vera „eðlilegur“.

Ég hugsaði að ef unglingarnir í félagsmiðstöðinni fengju nasaþef af því sem ég gekk í gegnum gætu þeir jafnvel skilið betur hvernig er að vera utan við normið. Þeir gætu jafnvel þróað með sér aukið umburðarlyndi og víðsýni fyrir lífinu, samfélaginu. Hlutir og fólk þarf ekki að fylgja óskrifuðu reglum samfélagsins um klæðaburð eða útlit. Það er hvergi ritað í lög að strákar eigi ekki að bera naglalakk. Hvergi segir að strákur með naglalakk sé samkynhneigður. En hvernig ætti ég að fá unglingsdrengi til að bera naglalakk, af fúsum og frjálsum vilja?

Félagsmiðstöðvastarfsmenn eru fyrirmyndir. Það sem þeir segja og gera verður oft það sem unglingarnir vilja segja og gera. Þannig varð þetta með naglalakkið í félagsmiðstöðinni Dregyn. Karlkynsstarfsmennirnir tóku fram naglalakkskrukkurnar á einu opnu húsi og samstundis komu nokkrir sem vildu fá naglalakk. Af hverju? Bara af því að við starfsmennirnir vorum að því.

Núna eru um 40 unglingsdrengir með naglalakk. Og bera það af fúsum og frjálsum vilja af því að þeir eru að mótmæla þessum rótgrónu hugmyndum sem fólk hefur um hvernig þú eigir að vera. Drengirnir voru ekki manaðir, þvingaðir eða sannfærðir. Þeir voru til í að kanna á eigin skinni hvernig er að „fitta“ ekki í normið, ögra sjálfum sér, samfélaginu, fordómunum, staðalmyndunum og taka eftir hvað gerist.

Tilraunin stendur enn yfir og eru strákarnir að safna í reynslubankann upplýsingum um dóma samfélagsins. Hvað er erfitt við það að vera með naglalakk, af hverju og hvenær? Ég meina, af hverju mega strákar ekki vera með naglalakk?
Þorsteinn V. Einarsson
Verkefnisstjóri félagsmiðstöðvarinnar Dregyn
Frístundamiðstöðin Gufunesbær