Sílíkon og lendarskýlur

Málefni sem ég fæ ekki nóg af eru áhrif samfélagsmiðla á unglingsstúlkur, kannski af því að þegar ég var unglingur þá var ekki mikið annað að horfa á í sjónvarpinu eftir skóla en tónlistarmyndbönd. Þar birtust okkur vinkonunum fáklæddar konur sem stígsporuðu um á himinháum hælum að þjóna sínum mönnum, klæddar í það efnalítil föt að þau minntu einna helst á lendarskýluna af Tarzan og voru þær flestar með sílikonbrjóst þar sem geirvörturnar vísuðu beinustu leið norður á Pólstjörnuna. Þetta þótti hið eðlilegasta mál að setja í sjónvarp. Og hvað gerðist? Allar mínar vinkonur byrjuðu að bera sig saman við þessar plastskvísur á meðan ég beið eftir að bringan á mér myndi byrja að blása út. Sem er það sem unglingsstelpur gera, þær bera sig saman við það sem samfélagið gefur í skyn að sé flott og gott og allt annað en það er óásættanlegt í huga þeirra, sérstaklega þeirra sem eru með lítið sjálfstraust.

Núna 10-15 árum seinna þykir mér staðan hafa svo sannarlega breyst en ekki skánað. Hún hefur breyst á þann veg að áreitið er allsstaðar, það er í símanum okkar sem við geymum í vösunum, í dagblaðinu sem kemur inn um lúguna okkar daglega og í sjónvarpinu sem við kveikjum á eftir langan dag. Plastskvísurnar eru ekki bara með geirvörturnar vísandi norður á lendarskýlunum einum fata heldur eru þær tágrannar, búið að photoshoppa á þær sjáanlega magavöðva, með fullkomnar línur, brjóstin eru látin líta betur út, minnka mittið, stækka rassinn og ekki ögn af pepsivængjum á hvorri hlið og ekki sést ein einasta bóla á þessum skvísum.

Hvaða skilaboð erum við að senda unglingsstúlkunum okkar með þessum myndum? Að þær eru ekki nógu góðar eða nógu flottar. Við erum í rauninni að sparka í þær liggjandi á viðkvæmu stigi æviskeiðsins, gelgjunni, þegar þær eru að byrja að móta sig sem hálffullorðna einstaklinga. Gelgjunni, þar sem bólurnar spretta upp eins og sveppir á sumrin og allt er reynt til að losna við þær, tannkrem, hvítlaukur, svartigaldur, fórnun hreinnar meyjar – nefndu það, ekkert virkar. Og ekki eru konurnar í sjónvarpinu með bólur, Herregud nei nei nei. Og þá kemur vanlíðanin, afhverju þær geta ekki verið eins og þessar fullkomnu, lýtalausu konur sem birtast þeim á samfélagsmiðlunum. Hvernig við horfum á okkur sem unglingar getur mótað okkur á fullorðinsárunum, ef við erum óánægð með útlit okkar sem ungir einstaklingar getur það fylgt okkur til lengri tíma, því það verður að vana.

Það vantar fræðslu fyrir unglinga, fræðslu um að þetta séu falskar auglýsingar, þetta sé ekki raunverulegt. Unglingar gera sér ekki endilega grein fyrir því hversu mikil vinna hefur farið í þessar myndir sem þeim birtast, til að láta þær líta sem best út. Það er ómögulegt fyrir unglingsstelpur sem eru á þeim stað í lífinu að líkami þeirra er að breytast að ná þessum standard sem samfélagsmiðlar hafa sett. Það vantar alla fræðslu þar sem unglingum er gert grein fyrir því að stór munur er á þeim glansmyndum sem þeim birtast og hvernig hlutirnir eru í alvöru. Og fræðslan ætti að byrja snemma, því fyrr sem gripið er inn því betra.

Ef ég horfi tilbaka, þegar lendarskýlu skvísurnar með pólstjörnu geirvörturnar réðu ríkjum, þá hefði ég viljað fá fræðslu. Ég hefði viljað vita að þetta væri einhver brengluð markaðssetning, að það væri alveg í lagi að vera jafn flöt á bringunni og Danmörk, með bólur um allt andlit sem minna á fallegan hraunvegg í gömlu húsi, því þetta væri ekki alvöru.

Mér þykir tilvalið að enda á orðum Jennifer Aniston: ,,All bodies are beautiful; let’s face it. We are so overly critical of ourselves — with the obsession with perfection, trying to reach a goal that’s unrealistic.”

Katrín Kristín Friðjónsdóttir, nemi í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands