Þarf alltaf að vera keppni?

Í gegnum árin fékk ég oft að heyra það hversu frábært það væri fyrir mig sem einstakling að stunda skipulagðar íþróttir. Ávinningurinn var svo mikill, bæði líkamlegur og andlegur, en síðast en ekki síst félagslegur. Að vera í góðu formi var æðislegt, ég var ánægð með sjálfa mig og leið vel. Mínir bestu vinir tóku alltaf vel á móti mér á æfingum, bæði kvölds og morgna. Við stefndum öll að því sama, að vera eins góð í sundi og við mögulega gátum. Það var alltaf svo auðvelt að mæta á æfingar vitandi það að sama hversu erfið æfingin ætti eftir að vera þá væri ég aldrei ein og oftast var nú stutt í brosið og hláturinn.      

Eftir stífar æfingar og mikinn metnað kom að því að keppa við sinn besta tíma og aðra. Sundmótin gáfu mér góða sýn á uppskeruna sem ég hafði sáð til mánuðum fyrir mót. Ég var langt frá verðlaunasætum og skipti það ekki stórmáli. Ég hafði gaman og þetta var það sem mér fannst skemmtilegast að gera, þó auðvitað hefði verið skemmtilegra að lenda á palli. Þetta var svo auðvelt og ég man vel að á yngri árunum fylgdist ég vel með unglingunum í íþróttinni. Ég skyldi ekki afhverju það voru svona margir unglingar sem bara hættu í íþróttinni, upp úr þurru, að ég hélt. Ég skyldi það auðvitað síðar.

Ég var komin í menntaskóla og margar af mínum vinkonum voru hættar að synda, ég reyndi eins og ég gat að mæta á æfingar, standa mig vel en hafa líka gaman. Það fór mikil orka og tími í heimalærdóm og félagslífið í nýja skólanum svo metnaðurinn fyrir æfingunum minnkaði hratt. Ég mætti á æfingar því mér fannst ég þurfa að gera það svo ég yrði nú ekki skömmuð. Árangurinn var ekki upp á marga fiska og æfingarnar urðu bara erfiðari. Þetta var bara keppnis en ég var ekki að þessu fyrir það. Ég vildi fá góða hreyfingu, synda raunhæfa æfingu og hafa gaman. Ég veit að flestir sem voru að hætta á þessum tíma hefðu viljað eitthvað svipað og ég. Þegar leið á menntaskólann hætti ég að æfa en verð ég ævinlega þakklát fyrir þann tíma sem ég var í íþróttinni.

Hefði verið hægt að koma í veg fyrir þetta brottfall meðal unglinganna í sundinu? Ég tel að svo sé. Fyrir mér hefði þetta verið svo einfalt en auðvitað er hægt að henda minni lausn til og frá. Um leið og æfingunum hefði verið fækkað á viku og tímasetningin orðið „menntaskólavænni“ sé ég fyrir mér að fleiri hefðu mætt á æfingu. Markmiðið væri ekki að lenda á palli heldur bara að hafa gaman í góðum hópi og fá blóðið á hreyfingu. Sundfélagið hefði getað stofnað þennan hóp og fengið þjálfara til að sjá um hópinn en ætli þetta sé ekki alltaf spurning um fjármagn og þess háttar.

Það hefði verið hægt að finna svo margar flottar lausnir og veit ég að þetta brottfall einskorðast ekki við sundið heldur mættu þær fjölbreyttu íþróttir sem eru á boðstólnum hugsa betur um þennan hóp. Þetta er hópurinn sem gleymist og flosnar hægt og rólega upp úr íþróttastarfinu. Ungir einstaklingar sem vilja stunda íþróttina en stefna ekki á ólympíuleikana, hvað er í boði fyrir þá og þarf alltaf að vera keppni?
Hugsum vel um unglingana okkar.

Agla Brá Sigurðardóttir, nemandi í tómstunda- og félagsmálafræði við HÍ