Bara að einhver hlusti

Þegar ég var unglingur fannst mér yfirleitt frekar leiðinlegt að læra. Ég skildi ekki stærðfræði og fannst Snorra-Edda nánast óskiljanleg. Ég ólst upp á Laugarvatni, litlu þorpi út á landi. Æfði körfubolta og frjálsar en íþróttir voru ekki mín sterkasta deild, ég æfði bara til að vera með. Það hefði verið mjög auðvelt fyrir ungling eins og mig að finnast þessi ár erfið og leiðinleg. Ekkert markvisst félagsstarf var í boði nema við myndum sjá um það sjálf, sem við gerðum. Það sem hjálpaði mér voru foreldrar mínir og skólastjórarnir mínir. Þau hlustuðu á mig og sýndu mér skilning, virtu skoðanir mínar og hikuðu aldrei við að leyfa mér að prófa mig áfram. Það er þeim að þakka að unglingsárin mín voru frábær, að minningarnar mínar, sem eru ótal margar, eru skemmtilegar og þær ylja mér og gleðja mig.

Þegar ég var að ljúka 10. bekk, 1998, hafði ég ekki hugmynd um hvað mig langaði að verða þegar ég yrði stór. Ég man þó eftir því eins og það hafi gerst í gær þegar skólastjórinn kallaði á mig á útskriftardaginn uppá svið. Ég gat ekki ímyndað mér hvað hann ætlaði sér að segja við mig fyrir framan allt þetta fólk sem þarna var mætt til að ljúka með okkur skólaárinu, því ekki skoraði ég hátt á einkunnarspjaldinu. Skólastjórinn veitti mér viðurkenningu fyrir vel unnin félagsstörf, þakkaði mér fyrir góða samvinnu og fyrir að vera góður vinur og nemandi. Þvílík hvatning sem þetta reyndist mér. Þarna stóð ég, 15 ára gömul, og ég man svo vel þegar ég hugsaði með mér „þetta er það sem ég vil gera í framtíðinni. Mig langar að vinna hér í þessum skóla og kenna unglingum að skóli snýst ekki bara um að læra í bók“. Og hér er ég, 19 árum síðar, að vinna við það og á þeim stað sem mig dreymdi um á útskriftardaginn. Nemendurnir hér á Laugarvatni eru líka heppin eins og ég var, með skilningsríkan skólastjóra sem leyfir þeim að hafa raddir og hlustar.

Ég fæ oft spurningar varðandi námið mitt í tómstunda- og félagsmálafræðinni og þá helst hvað ég hafi eiginlega hugsað mér að gera þegar ég er búin með það, hvort ég sé ekki bara að læra að leika mér. Jú, hluti af náminu mínu snýst um leik, hluti af vinnunni minni snýst líka um leik. Við gerum okkur ekki öll grein fyrir því hversu mikilvægur og stór hluti af skólagöngunni er leikur, og hvað er leikur annað en samskipti á milli einstaklinga. Námið mitt hjálpar mér að fá dýpri skilning á svo mörgu, samskiptum og þroska einstaklinga, samvinnu, hlustun, sýna skilning og vera þolinmóð, ég læri af öðrum, fæ hugmyndir og fæ svo að deila reynslu minni og upplifum úr náminu í vinnunni.

Með þessum skrifum mínum langaði mig helst að vekja ykkur til umhugsunar um hvað stendur uppúr þegar þið hugsið um ykkar unglingsár í skólanum. Eru það skólabækurnar? Er það félagsskapurinn og/eða félagslífið? Skólasystkinin eða starfsfólkið ?

Ég man hvernig það er að vera ástfangin unglingur og ég man eftir ástarsorginni, ég man eftir því þegar ég reifst við vinkonur mínar og sættist við þær, ég man hvað mér fannst gott að geta talað um það hvernig mér leið – hvernig sem mér leið. Það þarf ekki að vera að minningar ykkar séu ykkur jafn kærar og mínar eru fyrir mér, en ég held að við getum verið sammála um að það sé mikilvægt að unglingar upplifi skólann og félagsmiðstöðina sem stað þar sem þau hafa einhvern sem vill hlusta á þau, einhvern sem þau geta treyst og einhvern sem sýnir þeim umhyggju.

Ragnheiður Hilmarsdóttir, nemi í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands.