Fyrsta skiptið – Ánægja eða kvöð?

Þegar ég var unglingur skipti það mestu máli af öllu fyrir mann að passa í hópinn, vera hluti af heildinni, gera eins og hinir, hvort sem um var að ræða stórt eða smátt. Þannig var það og þannig er það sjálfsagt enn, líka þegar þarf að taka mikilvægar ákvarðanir sem geta haft áhrif á allt lífið, eins og til dæmis hvenær á að sofa hjá í fyrsta sinn. Stundum velti ég því fyrir mér hvort margir unglingar upplifi það að vilja klára fyrsta skiptið sitt af til þess að falla í hópinn.

Ég pældi ekki mikið í fyrsta skiptinu fyrr en nokkrar stelpur í mínum árgangi voru búnar að sofa hjá í fyrsta skipti. Þá vaknaði auðvitað forvitnin og umræður um hvernig þetta allt væri. Þó að klámvæðingin hafi ekki verið eins mikil þá og hún er nú þá mótaði hún að einhverju leyti hugmyndir um það hvernig þetta átti allt að ganga fyrir sig og hvernig báðar manneskjur áttu að haga sér.

Umhverfið gefur manni alls konar misvísandi skilaboð um þessi mál sem flókið getur verið fyrir unglinga að ráða fram úr. Krakkarnir fá oft að heyra að maður eigi að bíða og gera þetta með réttu manneskjunni, sem maður treystir og vill vera áfram með en á móti kemur svo pressan á það að passa í hópinn og prófa eins og hinir. Þetta er ákveðin þversögn þar sem fæstir eru búnir að finna sína réttu manneskju á unglingsárunum.

Svo þegar maður ætlar bara að „drífa þetta af“ eru allskonar staðlar um hvernig það á að fara fram. Þessar hugmyndir allar um það hvernig allt „á“ að vera valda áreiðanlega stressi hjá unglingum, því þær eru meira og minna allar vitlausar. Það er talað um að þetta eigi að vera mjög rómantískt, maður á að gera þetta með hinum eina rétta eða hinni einu réttu og einnig að báðir aðilar fái fullnægingu. Þetta eru nokkrar hugmyndir sem ég man eftir en þær breytast mjög líklega eitthvað eftir árum og gætu einnig verið öðruvísi hjá strákum. Fyrir utan þetta eru líka gerðar miklar kröfur á það hvernig líkamar einstaklinganna eiga að vera.

Svo er auðvitað klámvæðingin að rugla í hugmyndum krakka og unglinga um hvernig kynlíf eigi að vera. Mér finnst mjög mikilvægt að unglingarnir átti sig á því að klámið sýnir ekki raunverulegt kynlíf heldur leikið, þar er langoftast látið líta svo út að allt eigi að fara fram á forsendum karlanna og þeir geti gert það sem þeim sýnist, en konan eigi að hlýða. Oft er það líka ofbeldisfullt og ljótt og kemur þeirri hugmynd inn hjá krökkunum að ofbeldi sé ásættanlegt. Stelpurnar fá þau skilaboð úr kláminu að þær eigi fyrst og fremst að hugsa um að vera lokkandi fyrir karlinn og aðalatriðið sé að hann fái sitt.

Það er mjög mikilvægt að fræða krakka um hættur klámsins og klámvæðinguna til að þau hugsi sjálfstætt og nálgist þetta mikilvæga svið á sínum eigin forsendum og læri að njóta þess. Þegar ég var í grunnskóla man ég eftir að hafa farið í einhverja kynfræðslu en ekkert sem festist í minninu. Ég vona að kynfræðsla sé orðin betri í grunnskólum og ég held að hún sé góður vettvangur til þess að fræða unglingana um klámvæðinguna.

Svandís Roshni Guðmundsdóttir, nemandi í tómstunda- og félagsmálafræði við HÍ.