Listin að lifa er að kunna að leika sér

ástrósÍ námi mínu í Tómstunda og félagsmálafræði er það með því fyrsta sem við lærum, hversu mikilvægur leikurinn er. Með því að brjóta upp kennslustundir með leikjum og aukinni hreyfingu, förum við út fyrir þægindahringinn okkar með jákvæðum hætti. Heilmikið nám fer í gegnum leikinn; unnið er með traust, samvinnu og hópefli svo eitthvað sé nefnt.

Það þykir ef til vill mörgum sérstakt að nemendur í háskóla skuli vera úti í leikjum í stað þess að sitja í kennslustund og hlusta á fyrirlestur. Í hvert skipti sem einhver spyr mig út í nám mitt fæ ég að heyra hvað það er alltaf gaman hjá mér og að við séum bara alltaf að leika okkur. Ég segi kannski ekki að við séum alltaf að leika okkur en við gerum hinsvegar mikið af því. Við lærum heilmargt um tómstundir barna, unglinga og aldraða og oftast nær snúa tómstundir að einhverju sem er skemmtilegt, vekur áhuga og eykur vellíðan.

Það er líka alveg rétt að námið mitt er ótrúlega skemmtilegt og fjölbreytt en auðvitað eru fullt af krefjandi verkefnum líka. Við gerum bara svo miklu meira en að sitja yfir námsbókum og hanga inni á bóksafni daginn út og inn.

Í íslenskri orðabók er leikur útskýrður svona: Að gera sér eða öðrum til skemmtunar. Athöfn sem veitir líkamlega og/eða andlega vellíðan. Dregur viðkomandi út úr reglubundnu munstri dagsins.

Þegar talað er um leik þá er þekkt að tengja leikinn við börn en þó er ekki síður mikilvægt fyrir unglinga og fullorðna að leika sér. Leikurinn felur í sér mikið þroskagildi fyrir einstaklinginn og litið er á leikinn sem verkfæri til náms og undirbúning fyrir fullorðinsárin.

Flest okkar ölumst upp við það að vera mikið í leikjum, hvort sem það eru úti eða innileikir. Mín æska einkenndist allaveganna mikið af því að vera úti í leikjum. Sumrin einkenndust af því að vera úti frá morgni til kvölds í leikjum og koma rétt svo inn til þess að borða og sofa. Börnin vaxa síðan úr grasi og verða að unglingum og þá kemur allt í einu tímabil þar sem það telst frekar hallærislegt að leika sér og unglingar kjósa frekar að hanga saman.

Mannfólkið er þannig gert að það þróast og lærir alla ævi. Þess vegna er mikilvægt að viðhalda leiknum svo lærdómurinn haldi áfram svo lengi sem við lifum. Það er mjög mikilvægt að varðveita barnið í sjálfum sér og taka lífinu ekki of alvarlega.

Í grunninn höfum við öll gaman af því að leika okkur og vil ég enda þessa grein á því að vitna í uppáhalds frasann minn: Við hættum ekki að leika okkur því við eldumst, við eldumst því við hættum að leika okkur.

Ástrós Pétursdóttir
nemi í Tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands.

Naglalakkaðir unglingsdrengir í Dregyn

þve_naglalakk

Eitt föstudagskvöld í febrúar skipulagði nemendaráð félags-miðstöðvarinnar Dregyn dragkeppni. Dragkeppnin varð frekar misheppnuð þar sem aðeins einn hugrakkur drengur mætti í dragi. Létt stemning var þó í félagsmiðstöðinni þetta kvöld og var skorað á karlkyns starfsmennina að láta mála sig. Slíkt var samþykkt, með trega. Málunin var svo kórónuð með naglalakki á fingrum. Það þótti ákaflega fyndið að sjá karlkyns starfsmennina með meik, maskara, varalit og svona verulega huggulega.

Þegar þrífa átti „kvenleikann“ af máluðu drengjunum fékk verkefnisstjórinn þá hugmynd að hrista aðeins upp í „norminu“ og halda naglalakkinu, andlitið mátti þó þrífa. Héldu karlkynsstarfsmennirnir því naglalakkinu og fóru út í samfélagið. Annar þeirra „þurfti“ að þrífa naglalakkið af sér daginn eftir en verkefnisstjórinn hélt út helgina, sem var ekki auðvelt. Aragrúi athugasemda, augngota, hláturs, aðfinnsla og fordóma gerðu vart við sig. Reyndar í bland við orð á borð við: „En skemmtilegt“ og „Fallegt naglalakk“ og „Af hverju ertu með naglalakk?“. Einmitt; af hverju er ég með naglalakk?
Ég vissi það ekki þá, en uppgötvaði það á þessum tveimur dögum að samfélagið mitt passar virkilega vel upp á að ég fylgi hefðbundinni tísku í fatavali, klippi hár mitt samkvæmt því sem telst inn og haga mér samkvæmt því sem karlmanni er ætlast. Með öðrum orðum; að ég fylgi norminu. Við það að stíga, óvart meðvitað, út fyrir normið með því að vera með naglalakk fer allt í baklás. Aðgerðaráætlun samfélagsins um að koma mér aftur í normið hefst. Þessar litlu augngotur, viðhorfshlöðnu athugasemdirnar og skýru skilaboðin um að ég væri öðruvísi létu mér líða þannig að mig langaði til að flýja. Inn í normið. Þangað sem mér ber að vera sem karlmaður.

Ég velti því fyrir mér hvort að svona líði þeim sem hafa ekki kost á að „fitta“ inn í normið. Eru of strákalegar stelpur, stelpulegir strákar, of feitir, of mjóir, of eða van eitthvað að mati fjöldans – samfélagsins. Ég rifjaði upp ráðstefnu um einelti sem ég fór á fyrir nokkru síðan þar sem talað var um að rannsóknir bendi til þess að þeir sem verða fyrir einelti eru einmitt þeir sem ekki passa inn í fjöldann. Reynsla mín af naglalakkinu þessa helgi gaf mér hugmynd um hvernig það er að vera ekki inn í norminu. Hún sýndi mér hvernig samfélagið sameinast um að troða mér í normið, hversu ríkar staðalmyndir fólks eru um hvernig strákar eigi að vera og hvernig strákar eiga ekki að vera. Hversu fúst fólk er til að aðstoða mig við að vera „eðlilegur“.

Ég hugsaði að ef unglingarnir í félagsmiðstöðinni fengju nasaþef af því sem ég gekk í gegnum gætu þeir jafnvel skilið betur hvernig er að vera utan við normið. Þeir gætu jafnvel þróað með sér aukið umburðarlyndi og víðsýni fyrir lífinu, samfélaginu. Hlutir og fólk þarf ekki að fylgja óskrifuðu reglum samfélagsins um klæðaburð eða útlit. Það er hvergi ritað í lög að strákar eigi ekki að bera naglalakk. Hvergi segir að strákur með naglalakk sé samkynhneigður. En hvernig ætti ég að fá unglingsdrengi til að bera naglalakk, af fúsum og frjálsum vilja?

Félagsmiðstöðvastarfsmenn eru fyrirmyndir. Það sem þeir segja og gera verður oft það sem unglingarnir vilja segja og gera. Þannig varð þetta með naglalakkið í félagsmiðstöðinni Dregyn. Karlkynsstarfsmennirnir tóku fram naglalakkskrukkurnar á einu opnu húsi og samstundis komu nokkrir sem vildu fá naglalakk. Af hverju? Bara af því að við starfsmennirnir vorum að því.

Núna eru um 40 unglingsdrengir með naglalakk. Og bera það af fúsum og frjálsum vilja af því að þeir eru að mótmæla þessum rótgrónu hugmyndum sem fólk hefur um hvernig þú eigir að vera. Drengirnir voru ekki manaðir, þvingaðir eða sannfærðir. Þeir voru til í að kanna á eigin skinni hvernig er að „fitta“ ekki í normið, ögra sjálfum sér, samfélaginu, fordómunum, staðalmyndunum og taka eftir hvað gerist.

Tilraunin stendur enn yfir og eru strákarnir að safna í reynslubankann upplýsingum um dóma samfélagsins. Hvað er erfitt við það að vera með naglalakk, af hverju og hvenær? Ég meina, af hverju mega strákar ekki vera með naglalakk?
Þorsteinn V. Einarsson
Verkefnisstjóri félagsmiðstöðvarinnar Dregyn
Frístundamiðstöðin Gufunesbær

Tómstundamenntum þjóðina!

Innsend grein frá Agnari Júlíussyni tómstunda- og félagsmálafræðingi


Eitt sinn þegar ég var að gramsa á internetinu vegna verkefnis sem ég þurfti að skila af mér í háskólanáminu rakst ég á frétt í Viðskiptablaðinu frá 1. janúar 2010 sem nefndist “Kostnaður vegna öldrunar hleðst upp” og byggði hún meðal annars á grein sem finna má á vef Samtaka atvinnulífsins.

Þar kemur meðal annars fram að fjöldi íbúa á eftirlaunaaldri kemur til með að tvöfaldast á næstu fjórum áratugum í hlutfalli við fólk á vinnumarkaðsaldri ef við getum kallað það svo, það er að segja í Evrópu. Vegna þessa munu útgjöld vegna heilbrigðis- og lífeyrismála stóraukast og Framkvæmdastjórn ESB áætlar að þau muni aukast að jafnaði um 3.4% af landsframleiðslu á ári, 2.3% vegna lífeyris og 1.1% vegna heilbrigðis og umönnunar aldraðra.

Verg landsframleiðsla á Íslandi í krónum talið var 1.537.106.000.000 (rúmlega 1.537 milljarðar ISK). Ef við tökum lífeyrinn út og reiknum bara með heilbrigðismálum og umönnun aldraðra þá gæti kostnaðurinn verið um það bil 1.7 milljarður ISK sem hann hækkar ár frá ári. Heildarútgjöld til þjónustu vegna aldraðra í árslok 2010 var 7.209.000.000 kr (rúmlega 7 milljarðar ISK).

Í framhaldinu af þessu fór ég á vef Hagstofu Íslands og kannaði fjölda aldraðra á Íslandi. Í ársbyrjun 2010 voru íslendingar 65 ára og eldri 38.069 manns, þar af voru 3.079 manns sem þurftu að leita til hjúkrunar- og dvalarheimila eða á öldrunar- og hjúkrunarlækningarými sjúkrahúsanna. Hlutfall þeirra af heildarfjölda einstaklinga yfir 65 ára aldri er því 8%.

Ef við gefum okkur að þetta hlutfall muni haldast óbreytt (8%) og heimfærum það upp á mannfjöldaspá Hagstofu Íslands, þá má áætla að fjöldi þeirra sem þurfa að leita til öldrunar- og hjúkrunarlækningarýma og dvalarheimila verði hátt í 8.000 manns árið 2060, miðað við að fjöldi íslendinga 65 ára og eldri verða 110.964.

Hafi menn haft ærna ástæðu til þess að kvarta undan ICESAVE-reikningnum á sínum tíma, þá er komin hér nægjanleg góð ástæða til þess að hafa verulegar áhyggjur af framtíð hagkerfis Íslands.

En hvað er ég að tuða, tómstunda- og félagsmálafræðingurinn um hagtölur og hagkerfi Íslands?

Ástæðan er einfaldlega sú að með þátttöku í heilbrigðum skipulögðum tómstundum viðheldur maður félagslegri færni, viðheldur andlegu og líkamlegu heilbrigði og þar með er kannski hægt að minnka líkurnar á því að maður þurfi á dýrri þjónustu að halda þegar á efri árin er komið.

Grískir heimspekingar forðum bentu á að ef það væri vinnan sem göfgaði manninn, þá væru það tómstundirnar sem mótuðu hann. Það er, hvernig einstaklingurinn nýtir frítíma sinn, getur haft gríðarleg áhrif á hvernig hann mótast sem samfélagsþegn. Lausnin er því að tómstundamennta þjóðina með því markmiði að auka ánægju hvers og eins einstaklings í frítíma sínum.

Með hugtakinu tómstundamenntun er átt við ferli sem á að leiða til þess að einstaklingurinn nái að hámarka ánægju sína í tómstundum sínum. Það er að segja renna styrkari stoðum undir einstaklinginn þannig að hann geti valið sér tómstund við hæfi og þroskast á þann veg að útkoman verði öllu samfélaginu til góða á endanum. Tómstundamenntun ætti að koma í námsskrá grunnskólanna. Í gegnum tómstundamenntun má t.d. auka trúna á sjálfan sig og eigin getu, sem gerir manni jafnvel kleift að standast ýmsar freistingar sem eru í boði í samfélaginu í dag og ógna jafnvel velferð þess.

Tómstundamenntun getur líka nýst við starfslok síðar á ævinni þegar maður stendur frammi fyrir þeim tímamótum að hafa allt í einu nægan tíma til þess að gera allt sem mann langar til að gera en hefur ekki hugmynd um hvað mann langar til eða hvað er í boði. Tómstunda- og félagsmálafræðingar á Íslandi telja nú vel fyrir hundraðið. Er ekki kominn tími á að nýta sér þeirra sérþekkingu?

Fjölbreytileiki mikilvægur í tómstundastarfi fyrir aldraða

Aldraðir og tómstundirfélagsstarf á Hrafnistu
Í dag eru rúmlega 37.000 einstaklingar á Íslandi sem eru 67 ára og eldri og samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofu Íslands er talið að þeir verði um 52.000 eftir aðeins 10 ár. Þetta merkir hraða fjölgun hjá þeim sem standa frammi fyrir starfslokum og þar með ákveðnum tímamótum í lífinu. Margir hverjir finna sér ný hlutverk, tómstundir eða fara að eyða meiri tíma í þau verk sem þau voru vön að stunda samhliða vinnu, s.s. að sinna viðhaldi á eigin húsnæði, garðyrkju, eyða meiri tíma með barnabörnunum svo eitthvað sé nefnt. Með tómstund er átt við allt það sem hinn aldraði tekur sér fyrir hendur sér til dægrastyttingar og veitir honum ánægju. Margir aldraðir eru einnig farnir að hugsa meira um eigin heilsu og eru virkir þátttakendur í ýmsum íþróttum og hreyfingu þrátt fyrir hækkandi aldur. Má þar t.d. nefna gönguhópa, golf og aðrar boltaíþróttir, fimleika, sund, dans og ýmsa þjálfunarhópa á vegum líkamsræktarstöðva ætlaða öldruðum. Svo eru það þeir sem leggja mikinn metnað í að sækja sér nýja þekkingu, njóta þess að vera skapandi og hafa þörf fyrir að gefa af sér eins og t.d. í sjálfboðavinnu á fyrrum vinnustað, hjá Rauða krossinum eða innan félagsmiðstöðva eldri borgara. Þeir sækja námskeið innan menntakerfisins, tölvunámskeið og fjölbreytt handverksnámskeið s.s. myndlist, leir-, gler-, trévinnslu eða annað sem vekur áhuga þeirra. Þróunin síðustu ár og áratugi hefur sýnt að aldraðir eru virkari þátttakendur í samfélaginu eftir starfslok. Ástæða þessa er hækkandi lífaldur beggja kynja ásamt bættri heilsu vegna þróunar innan læknavísindanna og aukinni áherslu á heilsusamlegan lífstíl og vellíðan.

Heilsa, búsetuform og hjúskaparstaða

Rannsóknir sýna að heilsufar, búsetuform og hjúskaparstaða hafa mikil áhrif á hversu virkur þátttakandi hinn aldraði er innan og utan heimilisins. Góð heilsa og vellíðan er grunnurinn að lífsgæðum einstaklinga. Veikindi, sjúkdómar og skert hreyfigeta hafa áhrif á þau tækifæri sem einstaklingnum býðst til að vera virkur ásamt búsetuformi. Aðgengi innan og utan heimilis og fjarlægð í mikilvæga þjónustu, s.s. verslanir, apótek, heilsugæslu og félagsmiðstöðvar skipta einnig miklu. Hjúskaparstaðan getur líka haft áhrif á hversu mikinn þátt einstaklingurinn tekur í félagslegum afþreyingum utan heimilis. Sýnt hefur verið fram á að giftir eldri borgarar, sér í lagi karlmenn, taka síður þátt í félagsstarfi utan heimilis en það getur einnig átt við um eldri karlmenn sem eru ógiftir eða ekklar. Eldri konur virðast vera öflugri í að sækja í félagsskap utan heimilisins og tómstundir þótt engar staðfestar tölur liggi fyrir um það. Flest okkar eigum við það sameiginlegt að hafa þörf fyrir tilgang í lífinu. Það að hafa ástæðu til að fara fram úr rúminu á morgnana, líka þegar við erum komin á efri ár.

Félagsstarf, bæði skipulagt og óskipulagt

Mikil vitundavakning hefur átt sér stað um málefni aldraðra síðustu áratugi og hafa sveitarfélög víðs vegar um landið komið til móts við þarfir eldri borgara um félagsstarf og tómstundir. Mörg þeirra bjóða uppá fjölbreytt starf í þjónustumiðstöðvum fyrir aldraða, í félagsheimilum eða innan stofnana fyrir eldri borgara. Þjónustan er mismikil yfir árið eftir landshlutum og ekki ólíklegt að fjöldi þeirra sem nýti sér hana hafi áhrif á það. Þeir sem ekki geta sótt félagsstarf af sjálfsdáðum, búa enn heima og eru ófærir um að nota almenningssamgöngur hafa rétt á að sækja um sérstakt þjónustuúrræði sem ýmist kallast dagvistun eða dagþjálfun en sú þjónusta hefur það markmið að bjóða hinum aldraða uppá fjölbreytta þjónustu í formi hreyfingar, félagsstarfs og tómstunda með meira utan um haldi og sumum tilfellum aðgengi að þjálfun. Þá mætir hinn aldraði að morgni til og fer svo aftur heim samdægurs um miðjan daginn, oftast með aðstoð akstursþjónustu en hægt er að sækja um þá þjónustu hjá því sveitarfélagi sem viðkomandi býr í. Þess má einnig geta að margar kirkjur bjóða uppá sérstakt kirkjustarf ætlað eldri borgurum þar sem í boði eru samverustundir, söngur, helgihald, sjálfboðastarf og margt fleira.

Þetta er allt þjónusta sem flokkast undir skipulagða þjónustu en svo má ekki gleyma að nefna allt það óskipulagða félagsstarf sem á sér stað víðs vegar um landið í gegnum félagslegt samneyti af ýmsum toga. Þar sem eldri borgarar hittast í heimahúsum, á kaffi- og veitingahúsum, fara á tónleika, listasöfn, í leikhús, ferðalög innan- og utanlands eða annað slíkt án aðkomu þjónustu fyrir aldraða.

Þökk sé þróun á sviði tækninnar og samskiptabúnaðar, þá hefur hinn aldraði fleiri tækifæri á að vera í góðum samskiptum við ástvini þrátt fyrir búsetu á ólíkum landshlutum eða öðrum löndum og þar með þátttakandi í lífi stórfjölskyldunnar og vina. Rannsóknir hafa leitt í ljós að aldraðir sem nýta sér tæknina til samskipta á veraldarvefnum, t.d. í gegnum Facebook og Skype eru ólíklegri til að upplifa einmanaleika, depurð eða þunglyndi.

Þörf fyrir aðstoð til þátttöku

Hvað svo um þá sem eru einangraðir heima við meirihluta ársins og eru mögulega að kljást við einmanaleika, þunglyndi og hafa lítið fyrir stafni? Þar skiptir þátttaka aðstandenda, vina, nágranna og heimaþjónustunnar megin máli. Það er mjög mikilvægt að þeir hjálpi hinum aldraða með því að kynna fyrir honum þau úrræði sem standa honum til boða í því sveitarfélagi sem hann býr í en mögulega er hinn aldraði sáttur við sínar núverandi aðstæður og hefur ekki áhuga á að breyta þeim. Hafa verður í huga að hinn aldraði gæti upplifað óöryggi gagnvart breytingum sem verða á hans daglegu venjum við það að prófa ný úrræði eins og t.d. að sækja nýja þjónustu í félagsmiðstöð eða dagvistun þar sem hann þekkir engan. Mikilvægt er að veita þessu óöryggi skilning og gefa hinum aldraða tíma til að venjast þeirri tilhugsun að nú muni hann sækja t.d. dagvistun þrjá daga í viku. Fyrir suma er þessi breyting leikur einn um leið og hún á sér stað en fyrir aðra getur aðlögunin tekið lengri tíma og í sumum tilfellum alls ekki tekist.

Skipulagt félags- og tómstundastarf inná dvalar- og hjúkrunarheimilum þarf að vera fjölbreytt

Á dvalar- og hjúkrunarheimilum býr sá hópur aldraðra sem er að kljást við alvarleg veikindi, mikla skerðingu í hreyfigetu eða minnisskerðingar eins og t.d. alzheimer. Það er því mikilvægt að þar sé í boði skipulagt félags- og tómstundastarf fyrir hinn aldraða sem er fjölbreytt og tekur mið af hans núverandi getu. Með fjölbreytileikanum eru meiri líkur á því að hinn aldraði taki frekar þátt í félags- og tómstundastarfinu þar sem honum býðst eitthvað innan síns áhugasviðs. Það er þó ekki nóg að hafa fjölbreytileikann því það er einnig mikilvægt að geta aðlagað afþreyinguna að núverandi getu hins aldraða svo hann geti tekið þátt. Til þess að geta boðið uppá slík gæði í þjónustunni þarf sá sem hana skipuleggur að hafa þekkingu á því hvaða þættir það séu sem hafa hvetjandi og hamlandi áhrif á þátttöku hins aldraða. Það er því mikilvægt að félags- og tómstundastarf sé skipulagt og stjórnað af þeim sem hafa þekkingu til þess til að hámarka tækifæri hins aldraða til þátttöku. Ýmsar fagstéttir innan heilbrigðis- og félagsvísinda hafa einbeitt sér að þjónustu í félags- og tómstundastarfi fyrir aldraða. Iðjuþjálfar hafa þá sérstöðu að hafa þekkingu til að aðlaga iðju að einstaklingnum og nálgast þjónustuna við einstaklinginn með heildrænni sýn en einnig má nefna tómstunda- og félagsmálafræðinga, félagsráðgjafa, þroskaþjálfa, félagsliða og sjúkraliða.

Guðrún starfsmaður á Hrafnistu

Guðrún Jóhanna Hallgrímsdóttir
Iðjuþjálfi með diplómu í öldrunarþjónustu
Deildarstjóri iðjuþjálfunar og félagsstarfs Hrafnistu í Hafnarfirði

Hvað er fagmennska?

Við fengum leyfi Huldu Valdísar formanns Félags Fagfólks í Frítímaþjónustu að birta grein hennar um fagmennsku sem hún birti upprunalega á heimasíðu FFF.

Hvernig sinnum við sem vinnum á vettvangi frítímans starfi okkar af fagmennsku? Hvað þýðir það að sinna starfi sínu af fagmennsku? Í hverju felast fagleg vinnubrögð? Hvernig er hægt að meta og segja til um það hvað telst vera fagmennska og hvað ekki? Í Íslenskri orðabók (2002) er orðið fagmaður skilgreint á þann veg að fagmaður sé sérfræðingur, maður sem sérlærður er til ákveðins verks. En dugar það að læra ákveðið verk eitt og sér til að hægt sé að kallast fagmaður? Já eflaust má svara því játandi upp að vissu marki en það þarf þó meira til. Það þarf að tileinka sér ákveðin gildi í starfinu, gildi sem eru viðurkennd og hægt er að koma sér saman um að skipti máli fyrir fagið og talin eru nauðsynleg til að hægt sé að segja að starfi sé sinnt af fagmennsku.

Í áhugaverðri grein á Vísindavefnum (Henry Alexander Henrysson, 2012) er hugtakið fagmennska talið siðferðilegt hugtak „sem krefst þess að verk séu unnin heiðarlega og fyrir opnun tjöldum“. Fagleg vinnubrögð eru þannig talin kalla á ákveðið gagnsæi og einnig eru traust og ábyrgð talin einkennandi fyrir fagmennsku. Einn liður í því að styrkja fagleg vinnubrögð getur þannig verið að starfsstéttir setji sér siðareglur. Það má kannski segja að einn liður í því að vera fagmaður sé að starfa eftir og tileinka sér gildandi siðareglur i því fagi sem viðkomandi starfar í og þannig sé hægt að tryggja fagmennsku upp að einhverju ákveðnu marki.

Félag fagfólks í frítímaþjónustu (FFF) samþykkti sínar siðareglur á aðalfundi félagsins í maí 2008. Þar kemur m.a. fram að grundvöllur starfs fagfólks í frítímaþjónustu sé virðing fyrir manngildi og sérstöðu hvers einstaklings og trú á getu hans til að nýta hæfileika sína til fulls. Lögð er á áhersla á heiðarleika og virðingu fyrir skoðunum, lífi og réttindum einstaklinga auk þess sem vinna skal að því að skapa traust almennings á faglegri frítímaþjónustu og ekki megi gera neitt sem rýri orðstír fagsins eða hópsins. Siðareglurnar má lesa í heild sinni hér. Samhliða siðareglum verður að vera skýrt hvað gerist ef þær eru brotnar og hvað ferli fer þá af stað. Einnig er mikilvægt að umræða um gildandi siðareglur sé tekin upp reglulega og reglurnar uppfærðar og þeim breytt eftir aðstæðum, lögum og reglum hverju sinni. Stjórn
FFF hefur nýlega ákveðið að nú sé tímabært að fara í umræður og endurskoðun á siðareglum félagsins og mun kalla eftir virkri þátttöku félagsmanna í þeirri vinnu.

Það er mikilvægt að átta sig á því að þegar fjallað er um fagmennsku og hvað felst í henni að  ekkert einfalt svar er til. Fagmennska er margslungið fyrirbæri sem erfitt er að festa hendi á en að sama skapi eigum við oft auðvelt með að svara því hvað telst ekki vera fagmennska. Það að mennta sig í frítímafræðum, vinna eftir þeim siðareglum sem gilda um vettvanginn og taka virkan þátt í umræðum um þróun hans er að minnsta kosti góð byrjun á þeirri vegferð að geta kallað sig fagmann á vettvangi frítímans.

Heimildir:

Henry Alexander Henrysson. (2012, nóvember). Hvað eru fagleg vinnubrögð? Vísindavefurinn. Sótt 23. september 2013 af  http://visindavefur.is/?id=62547

Mörður Árnason (Ritstj.). (2002). Íslensk orðabók, 3. útgáfa.  Reykjavík: Edda útgáfa hf.

Frístundir fyrir alla?

Kampur_hringur_fjolbreytileikiMikilvægi skipulags frístundastarfs fyrir börn og unglinga með annað móðurmál en íslensku

Skipulagt íþrótta- og tómstundarstarf meðal barna og unglinga hefur fest rótum í íslensku samfélagi á undanförnum áratugum. Rannsóknir hérlendis sem og erlendis benda til forvarnargildi skipulags frístundastarfs og hefur orðið viðhorfsbreyting til fagvitundar þeirra sem vinna á þessum vettvangi með aukinni menntun og sérhæfingu. Hins vegar er frístundastarf fyrir börn og unglinga ekki alþjóðlegt fyrirbæri og hugmyndir um gildi þess ólíkt milli samfélaga.  Í Reykjavík búa um það bil 2000 börn á grunnskólaaldri sem hafa íslensku sem annað mál en þessi hópur kemur víðsvegar úr heiminum. Rannsóknir sem gerðar hafa verið hérlendis á þátttöku barna og unglinga í skipulögðu frístundastarfi af hendi Rannsókn og greiningu kemur í ljós að þátttaka barna með annað móðurmál en íslensku er mun minni en meðal íslenskra jafnaldra þeirra. Ástæður fyrir því hafa hins vegar ekki verið næganlega rannsakaðar en hugsanlega eru þær margvíslegar, samanber skortur á upplýsingum um hvað er í boði, kostnaður, félagsleg tengsl og aðgengi að þátttöku.

Frístundamiðstöðin Kampur er ein af sex frístundamiðstöðvum Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur sem þjónustar börn á aldrinum 6 – 16 ára í frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum. Kampur er þekkingarmiðstöð í málefnum innflytjenda og var hún stofnuð árið 2007. Málefni innflytjenda eru hins vegar ekki ný af nálinni á starfsvettvangi frítímans og hafa verið unnin margvísleg verkefni á síðustu áratugum. Í gegnum félagsmiðstöðvar hafa verið unnið ýmis tilrauna verkefni, Ísjakarnir eru eitt af þeim verkefnum. Ísjakarnir var samstarfsverkefni félagsmiðstöðvarinnar Tónabæ og félagsmiðstöðvarinnar 100og1 sem hófst árið 2003. Megin markmið Ísjakana var að kynna fyrir unglingum í Austurbæjarskóla, Háteigsskóla og Breiðholtsskóla sem höfðu það allir sameiginlegt að vera með móttökudeild fyrir börn með annað móðurmál en íslensku, það fjölbreytta íþrótta- og tómstundarstarf sem stóð til boða í Reykjavík, þeim að kostnaðarlausu. Verkefnið hefur síðan tekið breytingum á undanförnum árum og var þar á meðal boðið uppá fyrir yngri nemendur á miðstigi. Frá árinu 2009 hefur frístundamiðstöðin Kampur unnið markvisst að verkefnum er snúa að auka þátttöku barna og unglinga með annað móðurmál en íslensku inn í skipulagt frístundastarf.

Sem dæmi má nefna:

  • Þýðingar á efni um mikilvægi þátttöku í frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum
  • Handbók móttökubarna í skipulagt frístundastarf
  • Tilraunaverkefni um aukna þátttöku unglinga með annað móðurmál en íslensku inn í félagsmiðstöðvar
  • Samstarfsverkefni milli leiksskóla og frístundaheimila
  • Kynning á fjölgreinaíþróttagreinum fyrir nemendur í 5.bekk
  • Upplýsingaöflun um hagi og líðan barna með annað móðurmál en íslensku
  • og margt fleira.

Frístundir fyrir alla?  Við sem vinnum á vettvangi frítímanns trúum því að skipulagt frístundastarf er mikilvægur þáttur æsku landans, þar sem börn og unglingar eigi rétt á uppbyggilegu starfi í sínum frítíma. Það ber hins vegar að hafa í huga að við búum í samfélagi sem einkennist orðið af ,,fjölmenningu“ og okkur ber skylda að gæta þess að starfið okkar taki mið af ólíkum þörfum einstaklingana. Ef við ætlum okkur að geta sagt að allir hafi sama aðgengi að skipulögðum frítíma óháð kyni, uppruna og trú þurfa þeir aðilar sem á þessum vettvangi að hugsa líka út fyrir ramman og huga að ólíkum þörfum barna og unglinga með annað móðurmál en íslensku. Losum okkur undan viðjum vanans og reynum að stíga skrefið í átt að því að mæta börnum og unglingum, óháð uppruna, á þeirra eigin vettvangi en ekki reyna að láta alla passa inn í ,,ramman okkar“.

Til frekari upplýsinga um verkefni á vegum Kamps er að finna á www.kampur.is og/eða að hafa samband við Dagbjört Ásbjörnsdóttir, [email protected]