Þjónandi forysta – Eitthvað vælulegt og í besta falli fyrir kerlingar?

Steingerður Kristjánsdóttir
Steingerður Kristjánsdóttir Verkefnisstjóri á skrifstofu frístundamála hjá SFS

Oft er ég spurð hvort þjónandi forysta (e. servant leadership) sé ekki bara einhverjar kerlingabækur, eitthvað fyrir ístöðulausa stjórnendur og undirlægjur? Svarið er nei! Þjónandi forysta er hugmyndafræði sem mörg stórfyrirtæki hafa tileinkað sér með það að markmiði að hámarka afköst og arð með gæði og starfsánægju í fyrirrúmi. Má þar nefna bandarísk fyrirtæki á borð við South West Arlines, Starbucks, TDIindustries og Zappo svo eitthvað sé nefnt. Íslenskum fyrirtækjum og stofnunum sem tileinka sér þjónandi forystu fer einnig mjög fjölgandi.

Þjónandi forysta á rætur sínar að rekja til Roberts Greenleaf sem setti fyrst fram hugmyndir sínar í kringum 1970. Í þjónandi forystu er fyrst og fremst horft til þess að þjóna fyrst og leiða síðan. Í þjónandi forystu er horft til margra þátta sem hafa verið greindir í skrifum Greenleafs og má þar nefna rannsóknir á þjónandi forystu sem prófessor Dirk van Dierendonck við Erasmus háskólann í Hollandi hefur stýrt undanfarin ár.

Direndonck dregur fram þætti þjónandi forystu sem einkennast af því að bera hag heildarinnar og þeirra sem tilheyra henni fyrir brjósti.  Afrakstur þjónandi forystu er einkum starfsandi sem byggir á valddreifingu, mannlegum samskiptum og árangri sem felst í uppbyggilegum samskiptum, starfsánægju, árangri í starfi og samfélagslegri ábyrgð.

Og hvað með það?

Mjög fáar ef einhverjar rannsóknir hafa verið gerðar meðal þeirra sem stýra frístundastarfi meðal barna og ungmenna. Og þá gildir einu hvort horft er til okkar fámennu þjóðar eða annnarra stærri í því samhengi.

Og þá, þegar ég hafði þetta tvennt í farteskinu, lék mér forvitni á að skoða hvort mögulega væru stjórnendur í frístundastarfi sem gætu verið þjónandi leiðtogar samkvæmt skilgreiningum ýmsra fræðimanna, en þá helst Dirk van Dierendonck.

Látum okkur sjá. Dierendonck sagði að með því að:

  • Efla og styrkja starfsfólk
  • Tileinka sér auðmýkt og hógværð
  • Sýna af sér trúverðugleika og falsleysi
  • Ástunda gagnkvæma virðingu og taka fólki eins og það er
  • Vera trúr samfélagslegri ábyrgð
  • Hafa skýra stefnu

þá værum við að tileinka okkur þjónandi forystu sem  leiðtogastíl.

Þegar ég hafði fengið kynningu á þessum þáttum hugsaði ég með mér: „Hey. Þetta er eitthvað sem þú þekkir“! Svona desjavú. Allt í einu fannst mér eins og ég hefði verið í þessu umhverfi í mörg ár. Þegar færi gafst ákvað ég að rannsaka málið sem meistaraverkefni í mannauðsstjórnun hjá Háskóla Íslands.

Að vera leiðtogi er að vera mannlegur

Ég var svo lánsöm að á þeim tíma var ég að vinna hjá  ÍTR og gat með litlum tilfæringum byggt rannsókn mína með mínu nánasta samstarfsfólki sem tók mér vel. Ég tók viðtöl við 7 stjórnendur, forstöðumenn (nú framkvæmdarstjóra) frístundamiðstöðva og deildarstjóra barna – og unglingstarfs í þremur frístundamiðstöðvum. Ég lagði af stað í það ferðalag með tvær spurningar í farteskinu:

  • Eru stjórnendur hjá ÍTR (á skrifstofu tómstundamála) þjónandi leiðtogar?
  • Ef svo er, með hvaða hætti birtist það í þeirra störfum ?

Niðurstöður rannsóknarinnar komu að einhverju leiti á óvart. Þær gáfu til kynna að viðmælendur töldu mikilvægt að starfsemi frístundamiðstöðva ÍTR einkenndist af eflandi umhverfi og stjórnun og samræmdust áherslur og viðhorf þátttakenda hugmyndafræði þjónandi forystu að mörgu leyti. Stjórnendum fannst mikilvægt að starfsmenn hefðu aðgengi að þeim og að til þeirra væri hægt að leita með stórt sem smátt. Hluti af þessu er að mati viðmælenda að hlustað sé á alla starfsmenn áður en kemur að  endanlegri ákvarðanatöku um mikilvæg málefni. Þátttakendur voru meðvitaðir um gildi lýðræðislegra vinnubragða og þátttöku starfsmanna.

Stjórnendur treystu sínu samstarfsfólki til að sinna þeim verkefnum sem þeim eru falin. Valddreifing, samvinna og traust voru hugtök sem voru stjórnendum töm. Samtímis vildu þeir styðja sitt fólk með öllum tiltækum ráðum. Starfsþróun og velferð samstarfsmanna er höfð í hávegum og voru  starfsmenn hvattir til að sækja sér fræðslu og endurmenntun. Að láta gott af sér leiða fyrir starfið og þjónustuþegana var afar skýrt í hugum viðmælenda.

Áætlanagerð, stefnumótun og framtíðarsýn var þeim mikilvæg. Ekki síst þörf stjórnenda til að hafa yfirsýn yfir starfið, eftirlit til að tryggja gæði og velferð bæði þjónustuþega sem samstarfsmanna.

Stjórnendur ræddu um mikilvægi þess að vera góðar fyrirmyndir. Það kom einnig fram að þeir voru meðvitaðir um styrkleika sína og veikleika. Síðara hugtakið voru þeir reyndar mun fúsari að ræða og hvernig þeir unnu með þá. Þeir voru einnig meðvitaðir um kosti þess að hafa samstarfsfólk og meðstjórnendur með eiginleika sem á einhvern hátt vógu upp þeirra veikleika.

Vá! Þetta voru mín viðbrögð þegar niðurstöðurnar lágu fyrir. Það sem fram kom í minni rannsókn studdi svo sannarlega við það að margt var sammerkt með þessum stjórnendum og hugmyndafræði þjónandi forystu.

Eftir að hafa lesið heil ógrynni af allskyns rannsóknum um þjónandi forystu á því sem maður getur kallað þjónustustörf í þágu almannahagsmuna, s.s. meðal skólastjórnenda, kennara og hjúkrunarfræðinga, er ljóst að þjónandi forysta hefur jákvæð áhrif á starfsánægju, traust og eflingu meðal starfsmanna. Síðan hafa enn fleiri rannsóknir leitt þetta í ljós og í raun var Robert Greenleaf kallaður faðir eflingarinnar (e. empowerment).

Og hvað svo?

Það er tvímælalaust nauðsynlegt að rannsaka enn frekar stjórnendur á vettvangi frítímans, vegna þess að um afar unga fagstétt er að ræða og ekki síður vegna þess að rannsóknir á þessum vettvangi eru af afar skornum skammti. Þær eru nauðsynlegar til að styrkja fagumhverfið og fylgjast með þróun á þessum störfum.  En ég vil einnig hvetja alla þá sem vinna með börnum og unglingum, í hvaða fagstétt sem er, að kynna sér þessa hugmyndfræði.

Á Íslandi er starfandi þekkingarsetur um þjónandi forystu með vefsvæðinu thjonandiforysta.is

Og svo er bara að gúggla því servant leadership er málið!

 

Steingerður Kristjánsdóttir

verkefnisstjóri á skrifstofu frístundamála hjá SFS og meðlimur í undirbúningshóp fyrir ráðstefnu um þjónandi forystu 31. október á Bifröst