Hvenær eru tómstundir orðnar kvöl og pína?

Flestir ef ekki allir unglingar nú til dags stunda tómstundir. Þær geta verið af ýmsu tagi; æfa íþróttir, læra á hljóðfæri eða slaka á í góðra vina hópi svo eitthvað sé nefnt. Tómstundir eru jákvæðar, uppbyggjandi og skemmtilegar en hvenær fara þær að verða kvöð og pína? Eru unglingarnir að stunda þær fyrir sig sjálf eða til þess eins að þóknast öðrum? Lesa meira “Hvenær eru tómstundir orðnar kvöl og pína?”

Samvera skiptir máli

Foreldrar eða forráðamenn spila mikilvægt hlutverk í lífi barnanna sinna og það breytist ekkert þegar barnið fer á unglingsárin. Þegar barnið verður unglingur er það visst um að það viti allt og skilji allt. Unglingum finnst hann vera orðinn fullorðinn og geti stjórnað lífi sínu sjálfur. Þá er rosa hallærislegt að eyða tíma með foreldrum sínum. Ég held samt að þetta sé einmitt tíminn sem maður þarf mest á þeim að halda. Á unglingsárunum er margt að gerast sem unglingurinn hefur ekki stjórn á og þá er gott að hafa gott tengslanet í kringum sig. Lesa meira “Samvera skiptir máli”

Frístundastyrkir

Margrét Kristinsdóttir

Fyrir ekki svo löngu sá ég birtan lista yfir þau sveitarfélög sem greiða út svokallaðan frístundastyrk til barna á aldrinum 3-18 ára. Listinn sýndi mismunandi upphæðir styrkja og mismunandi aldur þiggjenda eftir sveitarfélögunum. Þetta fyrirbæri, frístundarstyrkur er ætlaður til þess að koma til móts við foreldra varðandi kostnað fyrir frístundir barna þeirra. Sveitarfélögin bjóða upp á frístundarstyrk til foreldra að ákveðinni upphæð sem foreldrar geta svo notað til þess að greiða fyrir frístund barna sinna. Markmiðið með frístundastyrknum er að öll börn hafi tækifæri til þess að stunda að minnsta kosti eina frístund.

Talað er um að frístund sé besta forvörnin fyrir börnin okkar. Það að vera hluti af hópi og eiga sér áhugamál komi í veg fyrir að börn lendi í slæmum félagsskap eða tileinki sér slæmt líferni. Samvera og iðkun á áhugamáli sé leiðin að heilbrigðu líferni félagslega. Frístund á Íslandi er mjög kostnaðarsöm, hvort sem það er íþrótt, tónlistarnám eða annars konar listnám. Með tilkomu frístundarstyrksins hefur börnum verið gert kleift að stunda frístund en ég spyr mig, „Er það nóg?“ Ef frístund er forvörn og við viljum það sem er best fyrir börnin okkar, af hverju þá ekki að hafa alla frístund aðgengilega fyrir öll börn?

Ég er þeirrar skoðunar að leggja eigi niður frístundastyrki og að þeir sem starfi við frístundir fari á launaskrá hjá sveitarfélögunum. Launakostnaður er aðal ástæða hárra gjalda frístundar og með því að setja þennan launakostnað á sveitarfélagið væri hægt að fella niður gjöld og æfingargjöld. Þjálfarar hjá íþróttafélögum, tónlistarkennarar, listakennarar svo dæmi séu nefnd. Laun þeirra við að kenna og byggja upp börnin okkar myndi koma frá sveitarfélaginu en ekki foreldrunum í formi gjalda og æfingargjalda. Á þann hátt gætu börnin prófað sig áfram og fundið það áhugasvið sem hentaði þeim best. Allt of oft hef ég heyrt að börn megi aðeins vera í einni íþrótt eða einni frístund og miðað við kostnaðinn að þá er það skiljanlegt að meðalfjölskylda hafi ekki ráð á meiru. Ef sveitarfélögin myndu taka sig til og styðja við börnin á þennan hátt þá teldi ég að það myndi skila sér aftur út í samfélagið. Börnin yrðu ánægðari. Þau myndu geta stundað sín áhugamál og ræktað sjálfsmyndina á jákvæðan og uppbyggilegan hátt áhyggjulaus.

Ef pólitíkin í landinu setur fyrir sig orðið frítt og telur of mikinn kostnað í því að fjárfesta í æskunni á þennan hátt, þá er möguleiki á að koma til móts við þann kostnað sveitarfélaga með því að setja lágmarks gjald sem hluta af útsvari barna fjölskyldna. Þannig myndu barnafjölskyldur greiða eitt lágt gjald fyrir börnin sem gæfi þeim tækifæri til að stunda þá frístund sem þau vildu. Ég hins vegar myndi líta á þetta sem bestu fjárfestingu sveitarfélagsins því það er engin betri fjárfesting en börnin okkar. Þau eru framtíðin og hvað er betra en að fjárfesta í framtíðinni.

Á listanum sem ég sá voru tvö sveitarfélög sem greiddu engan frístundastyrk. Ekki er tekið fram í greininni af hverju það er ekki greiddur styrkur heldur er það látið líta út eins og þessi tvö sveitarfélög hugsi ekki um æskuna. Þvert á móti þá er ástæðan sú að þessi tvö sveitarfélög bæði niðurgreiða og greiða frístundir barnanna og þeim frjálst að stunda þá frístund sem þau kjósa. Þessi sveitarfélög eru Grindavíkurbær, þar sem eitt gjald er innheimt óháð fjölda íþróttagreina og Ísafjarðarbær sem styrkir íþróttaskóla HSV og gerir því börnum 4-9 ára kleift að æfa íþróttir að kostnaðarlausu. Þessi tvö sveitarfélög eru til fyrirmyndar í uppbyggingu æskunnar. 

Margrét Kristinsdóttir

Yndislestur unglinga og stuðningur foreldra

Rósa Kristín Bjarnadóttir

Áður fyrr fór drjúgur tómstundatími unglinga í lestur bóka. Með tilkomu aukinnar tækni og internetsins hefur bóklestur farið mikið niður á við. Einnig hefur aðstaða til íþróttaiðkunar batnað og fleiri valmöguleikar standa unglingum til boða og allt þetta dregur úr því að unglingar finni sér afþreyingu í lestri bóka eða blaða. En allt bóklegt nám byggir á lestri og í aðalnámskrá grunnskóla (2013, bls. 97), er það sagt vera meginmarkmið læsis að gera nemendur færa um að  afla  sér  þekkingar  og geta tjáð sig í töluðu og rituðu máli. Lestur  er  því  afar mikilvægur og nauðsynleg forsenda þess að geta aflað sér þekkingar og verið almennur þátttakandi í þjóðfélaginu. Lestur er mjög flókið  ferli  og  liggur  misvel fyrir hverjum einstaklingi að ná valdi eða færni á honum. Til að ná almennilegum tökum á lestri þarf að æfa hann vel og reglulega. Ég er því þeirrar skoðunar að ýta ætti verulega undir áhuga og efla unglinga til að eyða meiri tíma í lestur.

Skiptir stuðningur foreldra við lestur unglinga máli? Það má leiða getum að því að foreldrar og heimilin spili lykilhlutverk í lestrarþjálfun til að auka færni og efla áhuga.

Máltækið segir ,,Það læra börnin sem fyrir þeim er haft“. Þau börn sem venjast því frá unga aldri að foreldrar skapi notalega stund við lestur, taki lestur fram yfir skjánotkun og sjónvarpsáhorf eru líklegri til að gera það einnig sjálf. Gefi foreldrar sér góðan tíma til að lesa með barninu og ræði um lesefnið, eykur það líkur á að orðaforði og málvitund barnsins aukist. Til að viðhalda þessum þætti áfram á unglingsárin gætu foreldrar jafnvel lesið þær bækur sem unglingurinn les eða kynnt sér um hvað bókin fjallar þannig að samræðugrundvöllur verði áfram til staðar. Lestur fjölbreyttra bóka ýtir undir aukinn orðaforða sérstaklega ef jafnframt lestrinum verða samtöl eða umræður. Einnig er mikilvægt að velja lesefni sem er spennandi og vekur áhuga. Foreldrar gætu líka sagt unglingum sínum hvaða bækur þeir eru að lesa eða mælt með spennandi bókum (Guðrún Björg Ragnarsdóttir og Sif Stefánsdóttir, 2009, bls. 17).

Gefnar hafa verið út fjölmargar leiðbeiningar sem allar lúta að því að það sé gott og hvetjandi að foreldrar og heimilin komi að lestri og jákvæðri upplifun af honum. Á netsíðunni Lesvefurinn er talað um hugtakið fjölskyldulæsi sem notað er í víðu samhengi um þær athafnir daglegs lífs, sem fram fara á vegum fjölskyldunnar innan og utan heimilisins og tengjast læsi á margvíslegan hátt. Það getur verið auk lesturs bóka lestur leiðbeininga, uppskrifta, minnismiða og ýmiss konar skilaboða. Ritun getur einnig tengst þessu í formi skilaboða t.d. á snjalltækjum. Þær sögur sem heimilisfólk segir hvert öðru í samræðum um það sem það hefur lesið, séð eða upplifað tengist einnig fjölskyldulæsi.

Þeir unglingar sem venjast því frá fyrstu hendi að eðlilegt og sjálfsagt er að þeir verji tíma til lesturs heima með foreldrum sínum verða öruggari með sig þegar þeir koma í skólann og þurfa að sanna sig þar (Clark  og  Hawkins, 2010,  bls. 17–22,  27). Þeir sem eiga í erfiðleikum með lestur upplifa oft margar hindranir í skólanum og umhverfinu og færast þá erfiðleikarnir yfir á fleiri námsgreinar þar sem lesturinn kemur nánast alls staðar á einhvern hátt við sögu.

Til að draga úr þessum neikvæðu áhrifum geta foreldrar gert  börnunum skiljanlegt að það er í lagi að gera mistök, unglingarnir eru ekki gagnrýndir, þeir fá að lesa á sínum forsendum og þannig  eflist öryggistilfinning þeirra.  Foreldrar geta hjálpað unglingum sínum að setja sér raunhæf markmið og haft einhvers konar hvetjandi umbun þegar þeim er náð.

Í ljósi framangreindra þátta orkar það ekki tvímælis hjá mér, að stuðningur foreldra við lestur  auki færni til lesturs, heldur þvert á móti.  Að mínu mati gegna foreldrar lykilhlutverki í því að hvetja unglinga sína til lesturs og efla áhuga þeirra. Hvers konar stuðningur foreldra í hvaða tómstundastarfi sem er eykur líkur á því að unglingurinn stundi tómstundastarfið og á það einnig við um lestur.  

Rósa Kristín Bjarnadóttir

Samskipti starfsfólks og unglinga innan félagsmiðstöðva

Unglingsárin er sá tími þar sem margar breytingar eiga sér stað, bæði líkamlega og andlega. Líkami unglinga þroskast, útlit þeirra breytist og nýjar og stórar tilfinningar kvikna, sem þau oft á tíðum ráða ekki við. Unglingar geta því verið viðkvæmir og tilfinningaríkir. Unglingsárin eru einnig tíminn þar sem unglingar eru að finna sjálfan sig, móta sjálfsmynd sína, skoðanir og viðhorf. Mikilvægt getur því verið fyrir unglinga að hafa góðan stuðning til að leita til og hafi góðar fyrirmyndir.

Tómstundir af einhverri sort eru mikilvægar fyrir unglinga, sama hvaða tilgangi þær gegna. Starfsemi tómstunda skiptir miklu máli og ekki síður starfsmenn hennar. Félagsmiðstöð er vettvangur fyrir unglinga til að koma saman og eiga í félagslegum samskiptum. Mikilvægt er því að þeim líði vel þar. Þar kemur hlutverk starfsfólks sterkt inn enda hafa rannsóknir sýnt að starfsfólk félagsmiðstöva hefur mikið að segja um viðhorf unglinga gagnvart félagsmiðstöðvum. Starf tómstundastarfsmanna í félagsmiðstöðvum getur verið gríðarlega mikilvægt. Þar sem mikið er talað um að starfsmenn innan félagsmiðstöðva nái oft mjög góðum samböndum við unglinga og öðruvísi tengslum heldur en foreldrar. Það er því mikilvægt að þeir viti hvað þau geta gert til að efla sjálfstraust og sjálfsmynd og hjálpað þeim að finna sig sem einstakling. Starfsmenn félagsmiðstöðvanna búa til það andrúmsloft sem ríkir í félagsmiðstöðinni þeirra og eiga að skapa stemmingu þar sem allir eru velkomnir.

Inni á félagsmiðstöðvum læra unglingar að koma vel fram við aðra, jákvæð samskipti og félagsfærni. Starfsmenn gegna lykilhlutverki þegar kemur að félagsmiðstöðvum þar sem þeir skipuleggja starfsemi fyrir unglingana og geta því haft áhrif á mætingu og þátttöku þeirra. Mikilvægt er því að starfsmenn hafi réttu verkfærin og hæfnina til að hjálpa unglingum út frá þörfum og áhugamálum hvers og eins. Unglingar eiga það til að miða sig við aðra í kringum sig og halda oft uppá starfsfólk innan félagsmiðstöðva. Þeir læra mikið af þeim og líta oft á þau sem fyrirmyndir og er því mikilvægt að þar séu góðar fyrirmyndir sem þeir leita til. Unglingar bera oft mikið traust til starfsfólks og ef unglingar eiga við eitthvað vandamál að stríða eru starfsmenn oft með þeim fyrstu sem þeir segja frá eða leita til.

Ég tók ekki mikinn þátt í tómstundum á mínum unglingsárum, sem ég sé mikið eftir í dag. En ég mætti nokkrum sinnum á opið hús hjá félagsmiðstöðinni minni sem voru nokkur virk kvöld á viku. Ef ég hugsa út frá minni reynslu eða mínu sjónarhorni hefði ég þurft einhvern sem hefði hjálpað mér að komast út úr skelinni þar sem ég var rosalega feimin og ýtt á mig til að mæta oftar. Ef starfsfólk í félagsmiðstöðvum nær að fylgjast með flestum unglingunum sem taka þátt í félagsstarfinu og sjá hvað þá vantar og geta hjálpað þeim er það frábært. Eftir að hafa fræðst um tómstundastarf og hvernig starfsemin fer fram sé ég hvað starfsmenn innan félagasmiðstöðva og annarra tómstunda fyrir unglinga eru gríðarlega mikilvægir. Þar sem þeir geta gegnt hlutverki ráðgjafa, vina, leiðbeinanda og fyrirmynda svo eitthvað sé nefnt, geta þeir skipt miklu máli í lífi unglinga. Þeir geta gert svo margt gott fyrir unglinga og hjálpað þeim að verða besta útgáfan af sjálfum sér.

Rakel Ingólfsdóttir

Falin blessun tölvuleikja

Frá því að tölvuleikir komu sér fyrir í frítíma og tómstundum ungmenna hafa þeir verið rakkaðir niður úr mörgum áttum.  Hver þekkir ekki „Ef þú horfir of mikið á sjónvarpið verða augun þín kassalaga“ það var að minnsta kosti það sem ég heyrði á mínum yngri árum þegar ég spilaði Nintendo fyrir framan sjónvarpið og viti menn, augun mín eru ekki kassalaga.  Auk þess heyrði ég: „Þú skemmir á þér augun við það að horfa of lengi á skjá“.  Þrjátíu árum seinna samsvarar það -0.5 á hægra og -1,5 á vinstra, ég verandi elstur af þremur systkinum þarf ekki gleraugu í daglegu lífi.

Hræðast forráðamenn og yfirvöld þann brennandi áhuga sem spilarar hafa á tölvuleikjunum sjálfum eða eru þeir hræddir við hugmyndafræði sem í þeim birtist?  Er það taumlausa ofbeldið sem á sér stað í þeim, sem verður raunverulegra með hverju ári sem líður?  Líklegast er það seinni spurninginn.  Ef hún er ástæðan:  Af hverju eru raðirnar af kvikmyndagestum að bíða eftir því að fá að komast í sæti?  Af hverju er ákveðin sena í seríu 1 af Daredevil mikið umtöluð?  Glæpatíðni á heimsvísu hefur lækkað síðan 1993 (mjög svo í Bandaríkjunum) þrátt fyrir að eftirlitstækni sé orðin betri.  Ef minnið þjónar þá var nákvæmlega sama umræða tekin með sjónvarp og spunaspil.

Ég er ekki að véfengja það að til sé fólk sem ánetjast spilum, ég þekki það vel sjálfur hversu auðvelt það er að læsa að sér og flytja í heim sem virðist skemmtilegri, áhugaverðari og umfram allt þar sem maður getur haft áhrif.  Eða hvernig hægt sé að svo gott sem ánetjast spunaspilum, verða úrillur og leiður ef eitthvað gengur ekki nægilega vel upp.  Tölvuleikir hafa hjálpað þó nokkrum einstaklingum að finna ást í lífi sínu og giftast einstaklingi sem þeir hefðu annars ekki kynnst, örfáum hefur tekist það vel upp að þeir eru orðnir nokkurs konar poppstjörnur sem hafa marga áhorfendur og vegna auglýsingatekna haft af því pening.  Eitt áhugavert dæmi sem er í heimildarmyndinni „The Smash Brothers“ á Youtube, var hópur drengja sem áttu ekki auðvelt líf, bjuggu í gettóum Bandaríkjanna, höfðu ekki góðar einkunnir, né bjarta von um glæstan starfsframa.  Margir einstaklingar í þessum sporum eiga það til að leiðast út í glæpi og hvað annað verra, en vegna þess hve mikill áhuginn hjá jafningjahópnum var á einum tölvuleik “Smash brothers: Melee” myndaðist sena sem varð til þess að ungmenni höfðu eitthvað sem batt þau saman og leyfði þeim að etja kappi við hvort annað í spili.

Það er klárt mál að ánetjast einhverju sé ekki jákvætt og vegna þess að við tökum ekki eftir þeim sem eru heima að spila tölvuleiki 15+ tíma á dag er mjög auðvelt að horfa framhjá þessari fíkn.

Ég skora á þá sem þetta lesa að í staðinn fyrir að skamma eða banna með lögum og ráða ungmennum frá því að spila tölvuleiki eða spil, að setjast niður hjá þeim þegar þau eru að spila og spyrja: Af hverju er þetta áhugavert?  Hvers vegna vill ungmennið spila þennan leik en ekki hinn?  Til hvers er það að spila?  Það er aldrei að vita nema í þér gæti leynst áhugamanneskja um stafræn áhugamál samtímans og aukinn skilningur á hugsanagangi barnanna okkar.

Óskar Freyr Hinriksson