Frístundastyrkir

Margrét Kristinsdóttir

Fyrir ekki svo löngu sá ég birtan lista yfir þau sveitarfélög sem greiða út svokallaðan frístundastyrk til barna á aldrinum 3-18 ára. Listinn sýndi mismunandi upphæðir styrkja og mismunandi aldur þiggjenda eftir sveitarfélögunum. Þetta fyrirbæri, frístundarstyrkur er ætlaður til þess að koma til móts við foreldra varðandi kostnað fyrir frístundir barna þeirra. Sveitarfélögin bjóða upp á frístundarstyrk til foreldra að ákveðinni upphæð sem foreldrar geta svo notað til þess að greiða fyrir frístund barna sinna. Markmiðið með frístundastyrknum er að öll börn hafi tækifæri til þess að stunda að minnsta kosti eina frístund.

Talað er um að frístund sé besta forvörnin fyrir börnin okkar. Það að vera hluti af hópi og eiga sér áhugamál komi í veg fyrir að börn lendi í slæmum félagsskap eða tileinki sér slæmt líferni. Samvera og iðkun á áhugamáli sé leiðin að heilbrigðu líferni félagslega. Frístund á Íslandi er mjög kostnaðarsöm, hvort sem það er íþrótt, tónlistarnám eða annars konar listnám. Með tilkomu frístundarstyrksins hefur börnum verið gert kleift að stunda frístund en ég spyr mig, „Er það nóg?“ Ef frístund er forvörn og við viljum það sem er best fyrir börnin okkar, af hverju þá ekki að hafa alla frístund aðgengilega fyrir öll börn?

Ég er þeirrar skoðunar að leggja eigi niður frístundastyrki og að þeir sem starfi við frístundir fari á launaskrá hjá sveitarfélögunum. Launakostnaður er aðal ástæða hárra gjalda frístundar og með því að setja þennan launakostnað á sveitarfélagið væri hægt að fella niður gjöld og æfingargjöld. Þjálfarar hjá íþróttafélögum, tónlistarkennarar, listakennarar svo dæmi séu nefnd. Laun þeirra við að kenna og byggja upp börnin okkar myndi koma frá sveitarfélaginu en ekki foreldrunum í formi gjalda og æfingargjalda. Á þann hátt gætu börnin prófað sig áfram og fundið það áhugasvið sem hentaði þeim best. Allt of oft hef ég heyrt að börn megi aðeins vera í einni íþrótt eða einni frístund og miðað við kostnaðinn að þá er það skiljanlegt að meðalfjölskylda hafi ekki ráð á meiru. Ef sveitarfélögin myndu taka sig til og styðja við börnin á þennan hátt þá teldi ég að það myndi skila sér aftur út í samfélagið. Börnin yrðu ánægðari. Þau myndu geta stundað sín áhugamál og ræktað sjálfsmyndina á jákvæðan og uppbyggilegan hátt áhyggjulaus.

Ef pólitíkin í landinu setur fyrir sig orðið frítt og telur of mikinn kostnað í því að fjárfesta í æskunni á þennan hátt, þá er möguleiki á að koma til móts við þann kostnað sveitarfélaga með því að setja lágmarks gjald sem hluta af útsvari barna fjölskyldna. Þannig myndu barnafjölskyldur greiða eitt lágt gjald fyrir börnin sem gæfi þeim tækifæri til að stunda þá frístund sem þau vildu. Ég hins vegar myndi líta á þetta sem bestu fjárfestingu sveitarfélagsins því það er engin betri fjárfesting en börnin okkar. Þau eru framtíðin og hvað er betra en að fjárfesta í framtíðinni.

Á listanum sem ég sá voru tvö sveitarfélög sem greiddu engan frístundastyrk. Ekki er tekið fram í greininni af hverju það er ekki greiddur styrkur heldur er það látið líta út eins og þessi tvö sveitarfélög hugsi ekki um æskuna. Þvert á móti þá er ástæðan sú að þessi tvö sveitarfélög bæði niðurgreiða og greiða frístundir barnanna og þeim frjálst að stunda þá frístund sem þau kjósa. Þessi sveitarfélög eru Grindavíkurbær, þar sem eitt gjald er innheimt óháð fjölda íþróttagreina og Ísafjarðarbær sem styrkir íþróttaskóla HSV og gerir því börnum 4-9 ára kleift að æfa íþróttir að kostnaðarlausu. Þessi tvö sveitarfélög eru til fyrirmyndar í uppbyggingu æskunnar. 

Margrét Kristinsdóttir