Samvera skiptir máli

Foreldrar eða forráðamenn spila mikilvægt hlutverk í lífi barnanna sinna og það breytist ekkert þegar barnið fer á unglingsárin. Þegar barnið verður unglingur er það visst um að það viti allt og skilji allt. Unglingum finnst hann vera orðinn fullorðinn og geti stjórnað lífi sínu sjálfur. Þá er rosa hallærislegt að eyða tíma með foreldrum sínum. Ég held samt að þetta sé einmitt tíminn sem maður þarf mest á þeim að halda. Á unglingsárunum er margt að gerast sem unglingurinn hefur ekki stjórn á og þá er gott að hafa gott tengslanet í kringum sig.

Ég las nýlega grein um það hvernig samvera fjölskyldu getur haft mikil og góð áhrif á vellíðan unglings. Þessi grein fékk mig til að hugsa til baka og rifja upp unglingsárin mín. Ég áttaði mig fljótt á því að allar mínar bestu minningar á þessum tíma eru minningar af fjölskyldunni að gera eitthvað saman. Okkar sameiginlega áhugamál sem fjölskylda var útivist og hreyfing og fóru sunnudagarnir oft í það að ganga í Heiðmörk og svo var haldið til ömmu og afa í kaffi. Þessir sunnudagar standa mikið upp úr bæði hjá mér og systkinum mínum og sýnir það að það að eyða tíma saman sem fjölskylda þarf ekki að vera flókið og oft er nóg að fara í göngutúra, spila spil eða borða kvöldmat saman. Mestu máli skiptir að eyða tíma saman því það er svo mikilvægt. Þetta eykur á traustið á milli unglingsins og foreldris og eru foreldrarnir í raun að sýna að unglingurinn geti leitað til þeirra ef eitthvað bjátar á.

Hvatning og stuðningur skipta líka rosa miklu máli. Það að unglingurinn finnur fyrir stuðningi í því sem hann er að gera skipti svo gríðarlega miklu máli og ég held að það ýti enn frekar undir áhugann og hjálpi þeim að halda sér í því sem þau eru að gera. Ég man þegar ég var að spila handbolta þá átti ég það til að líta yfir stúkuna til að reyna að finna mömmu eða pabba. Þegar ég sá þau tilbúin að hvetja mig áfram og standa með mér alveg sama hvernig mér gengi þá leið mér betur og fann fyrir hvatningu í að gera mitt besta. Það var líka oft gaman eftir leikina að spjalla við þau í bílnum. Þar fékk ég oft hrós fyrir það sem ég gerði vel og líka nokkra punkta yfir það sem ég gat bætt mig í. Þetta skipti mig svo miklu máli á þessum tíma og er það í raun þeim að þakka að ég spilaði handbolta eins lengi og ég gerði.

Samvera er mikilvæg og við sem manneskjur þurfum nauðsynlega á henni að halda. Að unglingurinn getir treyst foreldrum sínum eða forráðamönnum er rosalega mikilvægt. Þetta traust kemur í gegnum stuðninginn og samveruna. Samveran opnar fyrir möguleikann á að spjalla saman á góðum nótum. Mér finnst líka mikilvægt að hamra á að þessi samvera þarf ekki að vera flókin. Eitthvað auðvelt eins og að fara í sund eða í ísbíltúr er alveg nóg. Það er samveran sem skiptir máli.

Margrét Stefanía Þorkelsdóttir