Orðræða í kringum störf með börnum og unglingum

Bíddu, vinnur þú ekki í félagsmiðstöð?

Eða var það frístundaheimili?

Passa börn, er það ekki bara þæginlegt og auðvelt?

Ertu ekki bara að leika þér í vinnunni?

Ertu að fá borgað fyrir þetta starf?

Er þetta ekki kvennastarf?

Verður ekki svona klár strákur eins og þú að fá sér alvöru vinnu?

Er þetta ekki hálfgert djók þetta nám sem þú ert í?

Þetta eru spurningar sem ég hef fengið aðeins of oft á mínum starfsferli og eru kannski orðnar örlítið þreyttar en ég reyni alltaf að svara þeim á faglegan og skemmtilegan hátt. Ég reyni að upplýsa og leiðrétta þennan misskilning sem fólk hefur um þessi störf á vettvangi frítímans.

Ég skil vel fólk sem finnur sig knúið að spyrja að þessu. Fólk hefur áhuga á hvað maður er að gera í vinnunni og hvað maður er að fást við og hendir þessum spurningum fram í því samhengi. Jafnvel er fólk að reyna að spegla hvað það man eftir frá þeim tíma þegar þau voru unglingar og sóttu starf í félagsmiðstöðum. Þá var örugglega spilað pool alveg eins og í dag, borðtennis vinsælt og er það ekki bara það sem við gerum? Að spila við krakkana og fá laun fyrir?

Vissulega er alltaf gaman að spila og gera eitthvað skemmtilegt en að halda að það sé það eina sem maður gerir gæti ekki verið fjarri sannleikanum. Fólk veit ekki af allri þeirri undirbúningsvinnu sem fylgir þessum störfum, allri þeirri fræðslu sem fólk sækir og eykur þekkingu sína sem skilar sér beint á pool borðið þar sem samræðurnar við unglingana á sér stað. Að geta átt samtal við ungling meðan þú ert að gera eitthvað annað finnst mér vera gott dæmi. Þú ert að spila pool, spila saman olsen olsen eða hvað sem þér dettur í hug en ert á sama tíma að spjalla um lífið og tilveruna. Þarna getur þú náð til einstaklings og myndað tengingu og byggt traust og þegar líður tími og eitthvað bjátar á hjá viðkomandi leitar hann kannski til þín. Einn pool leikur er ekki að fara byggja þetta traust en ef þú horfir á einn pool leik sem tækifæri, ekki til að vinna leikinn heldur til að kynnast og læra betur á hópinn sem þú ert að þjónusta ertu alltaf að fara að ná árangri.

Eins og ég kom inn á áðan þá fer mikil vinna í að skipuleggja starf fyrir börn og unglinga. Starfsmenn þurfa að greina hópinn og reyna að sjá hvort einhver sé félagslega einangraður og finna lausnir ef þannig mál eru til staðar. Mér finnst leiðinlegt að umræðan sé ekki kominn lengri en þetta í samfélaginu og væri ég til í framtíðinni að þessi störf og að þessi starfstétt fengi meiri virðingu fyrir sín störf og að fólk hugsi um okkur sem fagmenn og uppalendur en ekki bara leikfélaga fyrir börnin.

Með von um bætta umræðu í framtíðinni.

Haukur Örn